Ilmandi húsráð

Þegar rökkrið færist enn meira yfir og dagarnir styttast verða kertin allsráðandi hér í Hólalandinu. Ég er einstaklega hrifin af ilmkertum og leyfi þeim að loga lon og don og fylla heimilið dásemdar ilmi. Vanillan er yfirleitt ráðandi en þegar nær dregur aðventu verður hún örlítið kryddaðri, epli, kanill og allt því tengt. 

Ég er fallin fyrir ilm-vötnunum frá Pier með bambus stráunum og eitt slíkt prýðir holið og sá dásemdarilmur berst um miðrýmið, mediterriean lavender. Ég fann svipað í Rúmfó með vanillu og það gerir alveg sama gagn, örlítið ódýrara. Það prýðir holið í kjallaranum. 

Ég hef lengi haft það fyrir sið að setja reglulega nokkra lavender dropa í ryksugupokann áður en ég ryksuga (ekki alveg í hvert skipti samt því þetta endist smá) og þá eltir ilmurinn mig meðan ég þeystist um í heimilisræktinni yfir fermetrana mína sem eru nú nokkrir. 

Dýrunn Pinterest grúskari kenndi mér enn eitt dásemdar ráð, að setja nokkra dropa af olíu innan í hólkinn á klósettrúllunni. Ég ákvað að klára upp gamla olíu í skúffunni sem enn ilmar vel og nú ilmar bossinn af jóla eplalykt við hverja skeiningu. Það er nokkuð ljúft. 

Fyrir hvern jógatíma úða ég yfir rýmið lavender ilmkjarnaolíu í vatni, stelpurnar fyllast strax slökunarvímu þegar þær koma í rýmið enda er lyktin mjög mild og ljúf. Svo er spurt "Verður þetta ekki rólegur tími".

Þetta er líka hægt að gera heima, úða í gardínurnar eða aðeins yfir koddana eða sængurnar ef maður vill aðeins fríska upp á andrúmsloftið. 

Að sjálfsögðu á ég líka fleiri en einn brennara sem ég nota reglulega líka. 

Ég skúra með Enjo og ég smelli nokkrum dropum af góðri ilmkjarnaolíu í vatnið svo það kemur smá ilmur þegar ég úða á gólfið eða þá fleti sem ég er að þrífa í hvert skipti. 

Að lokum er það þvottavélin. Fyrir margt löngu hætti ég allri notkun mýkingarefna og hef nýverið tekið upp á því að setja smá dropa af lavender eða Tea tree ilmkjarnaolíum í mýkingarefnishólfið. Það kemur ferskur ilmur af þvottinum (ég nota ilmefnalaust þvottaefni) og það er ljúft. Samt hangir lyktin ekki í honum. 

Það er mjög gott að við skulum ekki glíma við ofnæmi fyrir þessari ilmflóru minni en þó þetta hljómi eins og heimilið sé þrungið alls kyns lykt og ilmi þá er þetta ekki allt brúkað í einu. Allt er gott í hófi og svona hreinar olíur eru líka fljótar að gufa upp, gleðja andann þann tíma meðan þær eru í loftinu. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband