Hnútur í maga og sorg í hjarta fyrirfram

Í allan gærdag og fram á nótt hef ég setið hugsi með nokkra sorg í hjarta fyrirfram eftir að starfsfólk skóla og svo foreldrar skóla og nemendur voru boðaðir með stuttum fyrirvara á fund með bæjarstjóra og fræðslustjóra. Klukkan fimm í morgun var svefninn rofinn og enn var ótti og sorg í hjarta, fyrirfram. 

Ég óttast það sem allir óttast og við höfum óttast síðan við urðum hluti af Fjarðabyggð. Hve lengi fáum við að halda skólastarfinu hér og bjóða fáu börnunum okkar upp á það að geta sótt skólann sinn í sínu umhverfi og öryggi?  Við vitum að það er dýrt að reka svona litla einingu og það er jú verið að rembast við að greiða niður skuldir sveitarfélagsins á x mörgum árum, fylla í gatið sem fyrst því það lítur vel út.  Það er gott að búa í Fjarðabyggð tönglast þeir á sem batteríinu stjórna og hingað til hef ég alls ekki kvartað þó ég hafi ákveðnar skoðanir á ýmsu.  

Í þessu samfélagi sem nú telur innan við tvöhundruð hræður og hefur minnkað í fjölda um ca einn þriðja síðan Samherji kippti aðal atvinnumöguleikanum burt úr bæjarfélaginu er skólinn hjartað í samfélaginu.  Þetta er stærsti vinnustaðurinn, þar er hlúð að grunninum okkar og tengslin hvað mest við það sem gerist hér. Stórt og gott hjarta þó það sé ekki stórt í sniðum. Þangað eru allir velkomnir og er samkomustaður fólks við ýmis tækifæri. 

Við erum samfélag, manneskjur sem höfum valið að vera hér áfram þrátt fyrir að ýmislegt hafi breyst síðustu tíu ár. Við hjónin fórum á hausinn með búðina m.a. þegar fólk fór að keyra í Bónus, Samherji fór, svo lokaði pósthúsið, bankinn eftir það, læknisþjónusta sem var nokkuð örugg tvisvar í viku er varla hægt að kalla þjónustu lengur og við erum heppinn ef við sjáum lækni á vappi hér.  

Mest alla þjónustu sækjum við því lengra til, mest á Reyðarfjörð eða í Egilsstaði með tilheyrandi kostnaði í tíma og peningum. Við sættum okkur við það. 

Samt erum við samfélag og ótrúlega margt skemmtilegt og jákvætt í gangi sem þeir sem vettlingi geta valdið taka þátt í. Starfsemi Rauða krossinns er öflug, Jaspis félag fólks 50 plús hefur reglulega starfsemi, lista og menningalíf er magnað og hefur verið ákveðin sérstaða hjá okkur. Við rekur Salthúsmarkaðinn yfir sumartímann og hingað er mikið flæði ferðamanna sem koma flestir til að sjá Steinasafnið. Á Brekkunni fáum við allar helstu nauðsynjar og bestu pizzurnar þó víða væri leitað, við erum virkir þátttakendur í Dögum myrkurs, haldin eru spilakvöld vikulega yfir vetrartímann....... áfram mætti telja heilmikið upp og í skólanum slær hjartað.

Við erum stolt af litla samfélaginu okkar og þakklát fyrir að vera hluti af því.  

Það er ekki gott að búa með ótta í hjartanu fyrir framtíð þessa litla samfélags, verður skólahald með óbreyttu sniði næsta ár, verður skorið niður, held ég vinnunni minni ??? Erum við bara tölur á Exelskjali? Það óttast ég mest.   Ef svo er segi ég, skammist ykkar. 

Vonandi kemur ekki til þess að ég birti hugrenningar mínar en ef grunur minn reynist réttur skelli ég honum hér inn þegar líður á daginn.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Satt og rétt. Nú þurfum við að standa þétt saman.

Þóra (IP-tala skráð) 30.10.2014 kl. 07:58

2 identicon

Allt er þetta satt og rétt.

Bryndís Þórhallsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2014 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband