Aðventupistill 2014

IMG_2892 Þá er blessuð aðventan gengið í garð og desember byrjaður. Aðventan byrjaði með látum og hamagangi og skók landið með roki og fjúkandi trampólínum. Við sluppum að mestu hér þó við fengjum nokkrar sýnishorna hviður. 

Jólabréfið árlega er eingöngu rafrænt þetta árið nema til nokkrurra útvalinna sem ekki eru tengdir netinu góða. 

 Þá er komið að því að líta yfir árið 2014. 

Hjá Fjölskyldunni í Hólalandi 18 hófst nýja árið á Akureyri hvar við dvöldum hjá fjölskyldu okkar þar.  Það er orðin nokkurs konar hefð að verja áramótunum á þeim slóðum. 

Við tókumst á við nýtt ár með fögrum fyrirheitum, þau voru ekki skrifuð niður svo við vitum ekki alveg hvort það náðist að efna heitin. 

Allir hafa verið við nokkuð góða heilsu, Jósef hefur hagað sér vel í hjartastandinu og gigtin mín skárri en oft áður. Nokkrir vaxtaverkir hafa hrjáð unglingana en það líður hjá.

Friðrik er vaxinn báðum foreldrum sínum yfir höfuð og Dýrunn nálgast móður sína í hæð. Þau stunda námið sitt af mis miklu kappi eins og gengur og gerist og íþróttir og tónlistariðkun er að mestu á sínum stað.

Frikki tók pásu í fótboltanum í sumar því skrokkurinn þoldi ekki þennan vaxtarhraða og hann hvíldi. Hann byrjaði aftur í haust og það hefur gengið nokkuð skammlaust með hjálp sjúkraþjálfara sem kenndi honum að vinna með líkamsbeitinguna.

Hann vann í bæjarvinnunni í sumar og er duglegur og ábyrgur til verka. Sló garð nágrannans og fékk fyrir það aur og fékk nokkrar vaktir hjá pabba sínum við landanir. Hann er í 10. bekk og ljóst að næsta vetur yfirgefur hann foreldrahús og þá er að sjá hversu gott veganesið er sem við höfum gefið honum. Tónlistin er honum í blóð borin og hann spilar á gítar og bassa jöfnum höndum (sterkastur á gítarinn), bætti trommum við í vetur en verkfall tónlistarkennara setti óhjákvæmilega strik í reikninginn. 

Dýrunn stundaði fótboltann af kappi í sumar og þvældist um með liðinu sínu. Hún er komin í 4. flokk og spilar sem bakvörður. Það hefur eflt hana og styrkt og aukið ákveðnina hjá henni. Reynir stundum á en hún veit að mótlætið styrkir hana. Því miður var ekki píanókennari á svæðinu sem gat kennt henni á haustönninni en það stendur vonandi til bóta um áramótin. Hún er að vinna í tónfræðinni og stefnir á að klára grunnprófið fyrir vorið. Þar er hún búin með spiliríið. Hún var hundfúl yfir því að hafa ekki vinnu en tók að sér verkefni á heimilinu gegn gjaldi sem móðirin var dauðfegin að fá pásu frá. Hún sér um að brjóta saman og ganga frá þvottinum.

Hún er alltaf að sauma og brasa eitthvað og í nóvember tók hún þátt ásamt tveimur vinkonum sínum í Stíl sem er hönnunarkeppni á Samaust. Þær komust ekki á verðlaunapall en lærðu mikið af þessari vinnu sem var ansi mikil og tók á taugarnar á köflum. Hún er í fermingarfræðslu og fermist 3. maí 2015. Við tökum reyndar forskot á sæluna og höldum veisluna hennar 2. því ekki mátti víst ferma hér á öðrum en rauðum dögum. Sú saga kemst ekki fyrir í þessum pistli. 

Jósef vinnur baki brotnu hjá Tandrabergi og unir sér sjaldan hvíldar. Tekur sér fá og stutt frí og einu skiptin sem næst að koma honum í frí er þegar við yfirgefum landið. Það gerðum við einmitt um páskana.  Flugum til Berlin og keyrðum þaðan til Hamburg, dvöldum hjá vinafólki í þrjá daga og skoðuðum okkur um. Vorum um páskana hjá Höllu, Árna og Helenu og bumbubúa í Schneeberg. Tveimur dögum eftir heimkomuna kom svo Sara Marín í heiminn. Við hittum hana í fyrsta sinn í júní og það var yndælis stund. Ferðasagan er hér neðar í blogginu. 

Jósef gerði aðra atlögu við að kára að mála húsið. Það tókst ekki í fyrra og ekki heldur í ár því annir í vinnu voru svo miklar þegar málningarfærið gafst. Núna er húsið eins og flekkóttur gíraffi en við létum laga tröppurnar og smíða forláta handrið þar á, létum líka jarðvegsskipta í bílastæðinu. Næsta ár eru svalirnar á dagskrá og hugsanlega endurnýjun á stóra stofuglugganum. Já spurning um bílskúrshurðina, pabbi heitinn hefði sagt að það væri hægt að ríða fylfullri meri í gegnum rifurnar á henni. Ástandið á henni er frekar dapurt.  Kisa heldur þó músunum frá og við finnum þær í mis heilu lagi á svölunum okkar. 

Ég hef haldið mínu striki í kennslu og jóga og bætti einni aukabúgrein við og lærði að verða Foam flex kennari í lok síðasta vetrar. Síðan þá hef ég kennt mannskapnum líka að rúlla og nudda líkamann frá toppi til táar. 

Nokkuð fleiri jurtir voru tíndar í sumar heldur en síðasta sumar og ég komst upp á eitt fjall, það var ekkert slor, Sandfell í Fáskrúðsfirði. Gekk samt um hlíðarnar í mínum fallega Stöðvarfirði og naut náttúrunnar. Sauðabólstindurinn er á dagskrá á hverju ári og hann verður vonandi enn á sínum stað næsta ár. 

Ég reyndi örlítið fyrir mér sem leiðsögumaður og starfaði hjá fyrirtæki á Eskifirði sem heitir Tanni travel í verkefninu Meet the locals. Boðið var upp á þorpsgöngur með leiðsögn og í listaumhverfinu okkar hér á Stöðvarfirði var yfirskriftin "The heart of art and craft". Þrír hópar bókuðu sig og ég fór með tvo þeirra og það var skemmtilegt og gefandi verkefni. Þetta er vettvangur sem ég hef áhuga á að kynna mér nánar.  

Við fórum aðeins í tvær útilegur með hryssuna (fellihýsið), aðra í Egilsstaði á Sumarhátíð þar sem Dýrunn keppti i frjálsum og svo í Ásbyrgi með hluta af Akureyrarfjölskyldunni. Að sjálfsögðu stefnum við á að nota hana meira næsta ár eins og alltaf. 

Margt fleira gerðist markvert sem of langt væri að tína til. Við skiptum um bíl á vormánuðum og Súbbi gamli fékk nýja eigendur með haustinu. Við yngdum upp alveg um þrjú ár og það munar ótrúlega miklu. Það er reyndar ekki vetrarkaggi svo við krossum fingur að veður verði áfram milt og snjólétt.

Núna er tilhlökkun í algeymingi því við ætlum að fljúga af landi brott þann 18. desember og verja jólunum líkt og páskunum í Schneeberg hjá litlu fjölskyldunni okkar þar. Það er tilhlökkun á báða bóga og það verður gaman að fá að kynnast litlu manneskjunni og leika við Helenu Emmu.

Við sendum vinum og ættingjum um víða veröld innilegar jólakveðjur með ósk um gæfuríkt komandi ár 

Solla og co. í Hólalandi 18 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband