Í lok árs 2020

Það er við hæfi að koma árspistlinum í loftið á síðasta degi ársins á því herrans ári 2020.  Árið sem allir fóru inn í með ákveðinni eftirvæntingu en séri svo öllu á hvolf hjá heimsbyggðinni svo vægt sé til orða tekið. Það þarft ég ekki að tíunda heldur ætla að rekja mig í gegnum árið okkar. 

Janúar var nokkuð tíðindalítill nema kannski fyrir lætin í veðrinu. Ég skrapp til Reykjavíkur í læknaferð og varð veðurteppt í nokkra daga. Ég náði að kenna eitt jóganámskeið og stólajóga áður en ég fór í jógafríið mitt í febrúar.  Sem átti jú að vara í mánuð en varð öllu lengra vegna, þið vitið.  

Við hjónin skelltum okkur snemma í febrúar í tíu daga til Teneriefe og nutum sólar og yls í samvistum Sóla bró, Hafdíar og Petreu. Ég skreið yfir á nýjan tug og það var ljúft að gera það í ylnum með nýjar freknur í andlitinu. Nokkrum dögum eftir að við komum heim var allt að fara í gang vegna Covid, sandstormar hindruðu brottför landans af eyjunni og svo flaug veiran af stað eins og alkunnugt er. Við vorum með smá kvefskít í okkur við heimkomu og var gert að vera heima og halda okkur í fjarlægð frá fólki öryggisins vegna.  

Jósef vann að heiman í nokkrar vikur í vor þegar allt var stokkað upp. Ég gat áfram sinnt minni vinnu á heilsugæslunni með tilheyrandi varúðarráðstöfunum en allt annað lá niðri, jóga og OPJ meðferðirnar mínar. Ég keypti mér samt nýjan nuddbekk fyrir afmælispeninginn, gott að verða svona gamall. Svona rafmagnsbekk sem ég get hækkað og lækkað að vild og það skiptir sköpum fyrir bakið mitt. 

Friðrik flutti heim í vor frá Akureyri og hóf störf hjá Alcoa. Það var ljúft að fá viðbót í húsið og fleiri brækur að þvo. 

Við horfðum á hvernig vel bókað vorið og sumarið í heimagistingunni datt niður í svotil ekki neitt. Fyrirlestrum mínum á Salthússmarkaðnum var aflýst og að sjálfsögðu fór ég heldur enga túra með ferðamenn í rútum. Við vorum bara heima, engar framkvæmdir eða allt málað og sjænað heldur vorum bara einhvern veginn. Baðherbergið var jú tekið í gegn í febrúar og ekki vanþörf á að skipta úr orginal Gústafsbergnum og setja inn nýjan Gústaf ásamt innvolsi. Við réðum menn í það verk. 

Þegar voraði hillti undir bjartari tíma og við skelltum okkur í smá sumarfrí með hryssun aftaní. Vorum í nokkra daga í Reykjavíkinni og hittum nýjasta barnabarnið Árna Berg sem kom í heiminn í júní.  Héldum síðan í útilegu í heila níu daga. Vorum eina helgi í Borgarfirðinum með Helenu og Söru með okkur og Dýrunn kom frá Akureyri og varði helginni með okkur líka. Svo lá leiðin á Snæfellsnesið og þar vorum við næstum ein í heiminum á tjaldstæði rétt við sjóinn þar sem við gistum þrjár nætur. Jökullinn í augnsýn, fyrsta kvöldið en svo ekki söguna meir. Við keyrðum um og chilluðum, nýttum ferðaávísunina í siglingu um Breiðafjörðinn og höfðum það notalegt. Héldum næst á Hvammstanga og gistum tvær nætur á tjaldstæðinu þar. Það var hið huggulegasta og ódýrasta sundlaugin sem við heimsóttum í ferðinni. Keyrðum fyrir Vatnsnesið og skoðuðum Hvítserk og Borgarvirki. Þangað hef ég ekki komið svo ég muni til í það minnsta.

Síðustu tvær næturnar gistum við í Vaglaskógi ásamt bræðrum Jósefs og fleirum úr fjölskyldunni í dandalaveðri. Þá helgi var búið að plana heljarinnar ættarmót með öllum systkinunum hérlendis og erlendis en það riðlaðist vegna veirunnar. 

Í júlí héldum við okkur heima við, það rættist aðeins úr gistimálunum og ég gat tekið einn og einn á bekkinn hjá mér í orkupunktana. Við fengum góða gesti, sinntum líka gistigestunum í kjallaranum. Sumarið var því bara mjög gott.

Um verslunarmannahelgina brugðum við okkur í bæinn með kerruna í eftirdragi, norðurleiðina og tókum stóra dótið hennar Dýrunnar til Reykjavíkur. Hún vann hjá MS á Akureyri fram í ágúst og þá hófst nýr kapituli hjá henni.  Hún hóf nám í HÍ í haust og gerði atlögu við klásusinn í tannlækninum. Það hafðist ekki í fyrstu tilraun en var gífurleg reynsla og við erum svakalega stolt af henni að hafa klárað sig í gegnum alla önnina og prófatíðina við þessar skrýtnu og lýjandi aðstæður.

Friðrik hóf nám í fjarnámi í HR í Byggingariðnfræði. Hann var kominn suður fyrir fyrstu lotu þegar allt var að herðast á nýjan leik. Önnin var því sannkölluð fjarnámsönn. Hann sinnir náminu vel ásamt fullri vinnu í álverinu og stóð sig mjög vel alla önnina og í prófunum.  Það er ekki gefið að allir nái að pluma sig við þessar aðstæður og því erum við mjög stolt af börnunum okkar og seiglunni og aganum sem þau hafa sýnt í gegnum þetta.

Við fórum í smá sumarfrí í Reykjavíkina í byrjun sept, aðallega til að sjá litla manninn og hitta fjölluna okkar í bænum. Ég náði einu jóganámskeiði í september og færði mig líka yfir á netmiðlana og hélt Jóga Nidra slökunarnámskeið á netinu í sept. Það var gaman. 

Um mánaðrmótin sept okt náðum við Hvalnessystur að hittast í okkar árlegu helgi, nú í Skagafirðinum og það var mjög dýrmætt í öllu veirufárinu. Fórum að öllu með gát og krossuðum fingur að ekki þurfti að afbóka þá endurnærandi og sálarbætandi samveru. 

Í október var ég í leyfi frá vinnunni og fór í langþráða endurhæfingu á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Gigtin hefur ekki bætt lasakað vinnuþrekið síðustu ár og ég var komin í hálfgerðan vítahring með hreyfinguna og farið að halla ansi líka á andlegu hliðina. Ég rétt slapp inn og var svo heppin að geta klárað vikurnar fjórar. Aðstæður voru skrýtnar og þá vorum við að venjast því að ganga um með grímurnar alla daga og dvalargestir voru töluvert færri því fækka þurfti í húsinu og því færri innritanir en venjulega. Ég elskaði að vera þarna og þurfa ekki að hugsa um neitt nema sjálfa mig og aldrei að spá hvað ætti nú að vera í matinn heldur mætti samviskusamlega í allar máltíðir og naut vel.  Fékk góða þjálfun og þó gigtin hafi lítt lagast eða vinnuþrekið aukist við dvölina þá komst ég af stað með hreyfinguna eftir að heim var komið. Ég fæ oft að heyra "þú ert svo dugleg að hreyfa þig og....." en staðreyndin er sú að ég hef svo langt frá því verið dugleg að hreyfa mig síðustu ár, þrjú, fjögur eða svo vegna aukinna verkja eftir hreyfingu. Núna vinn ég í því að passa mig í að fara styttra og af minna offorsi, já æfa mig í að sníða mér stakk eftir vexti.  Ég vinn í hálfu starfi hjá HSA og rétt slefa það ásamt því að taka einn og einn á bekkinn í orkupunktna og jógast með fólkinu mínu þegar færi gefst. Sú staðreynd að starfsþrekið er ekki á uppleið hefur dregið sálartetrið niður og það er erfitt að horfast í augu við að geta ekki unnið af krafti við það sem maður hefur áhuga á eða dregið meiri björg í bú. En ég held ótrauð áfram í minni endalausu endurhæfingu á líkama og sál því ég nenni ekki að leggjast í kör.

Í nóvember prófaði ég að halda jógnámskeið á netinu - Jóga með Sollu og nái í þokkalegan hóp. Vá, það var gaman og örgandi maður lifandi að opinbera sig fyrir framan myndavélina. Ég komst fljótt að því að síminn minn var nú aðeins of minnislítill fyrir svona myndbandsupptökur svo ég skellti tímunum þá live inn á hópinn. Það var ekki síður skemmtilegt. Míkrófónninn sem ég pantaði frá Amazon í ofboði og kom á góðum tíma miðað við Covid reyndist ekki eins góð lausn og vonir stóðu til en víðlinsan koma að góðum notum. Planið er að safna fyrir síma með meira minni á nýju ári. Þetta er miðill sem er búinn að opna á meiri möguleika, ekki síst hjá okkur sem búum langtíburtistan.

Haustið og byrjun vetrar hefur verið mjög rólegt hjá okkur, engin nýlunda og við erum jú bæði svo miklir introvertar að þó við drögum úr félagslegu samneyti við fólk þá erum við sjálfum okkur nóg á svo margan hátt. Við söknum þess helst að hafa ekki getað skroppið meira suður og hitt litla pjakk, stelpurnar og fjölskyldu ásamt Dýrunni.  Við gætum vel að okkur því við flokkumst jú bæði undir áhættuhópinn og yrðum mögulega ekki beisin að fá í okkur vænan skammt af veirunni. Jósef hefur unnið á skrifstofunni frá því opnað var á það í sumar en meirihluti skrifstofufólksins sem vinnurm með honum hjá Rubix vinnur heima. Við höfum alveg getað hitt okkar nánustu fjölskyldu hér á Stf því Austurlandið hefur til allarar guðs lukku verið að mestu veirufrítt. 

Það fæddust tvo börn í Sunnuhvols fjölskylduna á árinu, Hildur dóttir Sóla bró og Emil eignaðist Brynhildi Sól í júní og Arnar sonur Sigurjóns og Constance einguðust Valeriu Sif í lok ágúst. Litlir gleðigjafar og þetta er fyrsta árið í þrjú ár sem við jörðum ekki einhvern í okkar nánasta hring í fjölskyldunni, 2017 lést mamma, 2018 Stína mágkona og 2019 Rikki mágur. Það var komið mál að linni og frekar leiðinlegt þegar maður er kominn í æfingu við að skipuleggja eða aðstoða fólk við að skipuleggja jarðarfarir ofan á allt annað.

Í lok árs er ég þakklát fyrir að hafa fengið að lifa enn eitt ár, það er ekki sjálfgefið (svo ég tali nú ekki um að vera komin á sextugsaldurinn). Ég er þakklát fyrir að fólkið mitt hefur að mestu sloppið við veiruna og að við höfum ekki misst neinn í valinn af hennar völdum. Ég finn til með öllum þeim sem eiga um sárt að binda á þessum tíma og ekki síst fólkinu á Seyðisfirði og þær hörmungar sem það fór í gegnum korter í jól og eru enn ekki búnar.

Árið var í mínum augum ekki ömurlegt þó áskoranir þess hafi verið af öðrum toga en allir áttu von á.  Ég tek á móti nýju ári með hækkandi sól með von í brjósti og bjartsýni í huga. Sendi ykkur öllum rafrænt knús og hlakka til þegar við getum knúsast almennilega <3 

GLEÐILEGT NÝTT ÁR !!!


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband