Jólakveðja úr Hólalandinu árið 2018

Á öðrum sunnudegi í aðventu er við hæfi að setjast niður með tebollann í morgunsárið og pára nokkrar línur um árið 2018. 

Það má með sanni segja að árið 2018 hafi verið ferðaárið mikla, eða útlandaárið mikla og ljómandi að hefja pistilinn á því mikla fjöri.

Í lok mars fór fjölskyldan saman til Bandaríkjanna. Við hófum ferðina í New York og dvöldum á hóteli á Manhattan svo auðvelt var að komast í allt það sem áætlað var að skoða í þessari ferð. Fyrst á dagskrá var sýningin School of rock á Broadway sem stóð alveg undir væntingum. Við nutum útsýnisins úr The Empire State building, skoðuðum Ground Zero og röltum um fjármálahverfið og sigldum hring og sáum frelsistyttuna. Eitthvað var jú verslað.  Þessa þrjá daga var kuldinn svo bítandi að við ferðuðumst mest með hop on off strætisvagninum sem við vorum með miða í. Þar fræddumst við töluvert og sáum ýmislegt. Frá New York flugum við til Atlanta, tókum bílaleigubíl þar og keyrðum til Mobile Alabama. Leiðin hafði lítið breyst frá því við Jósef keyrðum þarna árið 2005.  Þar dvöldum við í nokkra daga í góðu yfirlæti hjá Stjána bróður Jósefs og fjölskyldu. Við renndum yfir til New Orleans og dvöldum þar yfir nótt. Þar upplifðum við tónlistarlífið á Bourbon street og í Franska hverfinu almennt. Að öðru leyti vorum við í rólegheitum þá daga sem við dvöldum hjá Stjána. Hitinn var dásamlegur fyrir Íslendinginn og rakastigið passlegt.  Solla og Friðrik skelltu sér á tattoo stofu í nágrenninu og fengu sér tattoo hjá honum Magnusson sem er af sænskum ættum.  Á heimleið fórum við aftur til Atlanta, dvöldum tvær nætur þar áður en haldið var til NY og svo þaðan beint til Íslands.

Í byrjun júní fóru Solla og Dýrunn í sólina til Spánar og sóluðu sig þar í níu daga. Flogið til Barcelona og keyrt þaðan til Salou. Þar var lífið ljúft og ekkert stress. Lítið gert nema slaka á. 

Í júní lögðu þeir feðgar heldur betur land undir fót og brugðu sér til Rússlands. Það var heljarinnar ferðalag og þeir dvöldu fyrst í Volgograd og svo í Rostov og sáu tvo leiki með íslenska liðinu. Tóku rútu á milli borga sem tók tímann sinn vegna vegabréfaeftirlits, einfaldra vega og rútu sem var "Rúta ársins" 1993 og mátti víst muna sinn fífil fegurri.  Þeir voru alsælir með þessa ferð. 

Í september fór Jósef með tipphópnum sínum til Englands og sá þar tvo fótboltaleiki. Fékk sér einn bjór, eða tvo...

Frikki skellti sér með vinum sínum til Amsterdam um verslunarmannahelgina hvar þeir skoðuðu hámenningu borgarinnar í nokkra daga og steikjandi hita.

Í nóvember fór Solla með sínum heittelskuðu Hvalnessystrum til Edinborgar. Það var góð ferð í alla staði og mikið hlegið og vitleysast. 

Nú punktinn yfir I-ið settum við Jósef í byrjun nóvember. Þá flugum við til Sevilla frá Akureyri. Tveir bræður Jósefs voru í þeirri ferð ásamt eiginkonum og eitt par í viðbót.  Þegar við komum á hótelið tóku Ella (systir Jósefs) og Hafliði maður hennar á móti okkur.  Meirihluti hópsins hafði ekki hugmynd um það svo það kom skemmtilega á óvart.  Í Sevilla áttum við hlýja og góða daga og fórum í dagsferð til Ronda sem var heilmikil upplifun. 

Innanlands var planið að ferðast um í eina viku í júlí og við hófum það ferðalag í Höfðavík og dvöldum tvær nætur í brakandi blíðu. Héldum svo áfram með Sóla og Hafdísi í Eyjafjörðinn og gistum eina nótt á tjaldstæðinu í Hauganesi. Prófuðum pottana í fjörunni og snæddum á fiskveitingastaðnum. Þá var veðurspáin okkur ekki hliðholl og ferðalagið varð ekki lengra. Hryssan var skilin eftir á Akureyri og fékk smá yfirhalningu þar en við héldum heim. Hún var svo selflutt til Dalvíkur og beið okkar þar þegar við mættum á Fiskidagshelgina seinnipart föstudags. Þar áttum við góða helgi með góðu fólki. 

Solla skipti um gír og kvaddi skólann eftir tæplega tuttugu ára samveru. Hóf störf í apríl að hluta til og svo í 60% í júní hjá HSA (Heilbrigðisstofnun Austurlands) sem ritari á heilsugæslunni á Stf. Fásk og eftir þörfum í afleysingum á svæðinu. Það eru töluverð viðbrigði en kennsluorkan var uppurin hjá kellunni og ekki um margt að velja á Stf atvinnusvæðinu.  

Hún hélt tíu fyrirlestra fyrir hópa á Salthússmarkaðnum um íslensku suðkindina, ullina og handverkið okkar og skellti sér í einn gæd túr hjá Tanna Travel. 

Jósef vinnur enn hjá Brammer og unir hag sínum vel þar. Finnst lítið tiltökumál að taka rútu kl 6:35 hvern virkan dag. Hann nýtir tímann til að hlusta á þætti sem hann sækir á netið. 

Solla er enn í jóganu og kennir eitt og eitt námskeið. Hún hefur haldið nokkrar svokallaðar Kakóhugleiðslustundir sem hafa mælst vel fyrir á svæðinu. Hyggst hún efla þær og styrkja á nýju ári ásamt námskeiðum og slökunarstundum. 

Af börnunum sem eru næstum ekki börn lengur er það að frétta að Friðrik er á samningi í húsasmíðinni á Akureyri og stefnir á að ljúka sveinsprófi næsta vor.  Dýrunn er á þriðja ári í MA og lýkur stúdentsprófi í vor.  Þau una hag sínum mjög mjög vel fyrir norðan. Það verður því tvöfalt útskriftarstuð hjá fjöllunni næsta vor. 

Bæjarhátíðin Stöð í Stöð var haldin hér í júlí og þá var heilmikið fjör.  Við fengum góða gesti og það var líf og fjör í Hólalandinu. 

Dýrunn og Gummi (kærastinn hennar) voru hjá okkur í sumar. Hún vann á veitingastaðnum Sumarlínu á Fáskrúðsfirði og Gummi í bæjarvinnunni.  Það var gott að hafa þau heima.

Við hýsum enn ferðalanga yfir sumartímann og það hefur ekki verið neitt lát á því.  

Framkvæmdir voru ekki ýkja miklar þetta sumarið. Þakefni var pantað og prýðir nú lóðina okkar þar til smiður fæst í verkið og tíðin verður stabílli. Bílskúrshurðin er í pöntun og þá þarf gamla "antík" hurðin að víkja fyrir nýrri.  Ýmis verk eru á planinu þegar þak og hurð verða komin og eins og góður maður sagði eitt sinn "Þær eru margar raunir húseigandans". 

Þegar 2. sunnudagur í aðventu er runninn upp er jólaundirbúningur á hæfilegu róli. Bóndinn er að setja saman kommóðu fyrir frúna sem á að leysa skenkinn í borðstofunni af. Jólakort verða á rafrænu formi og bakstur í lágmarki. Uppáhalds sortir barnanna verða bakaðar þegar þau koma heim í jólafrí rétt fyrir jólin.  Veikindi í stórfjölskyldunni Sollu megin setja mark á undirbúninginn og minnir okkur enn og aftur á hvað það er mikilvægt að hlúa að hvert öðru alltaf hreint og njóta alls þess tíma sem við höfum í þessu lífi. 

Læt það verða lokaorðin og við sendum öllum kærar jóla og nýárskveðjur og þökkum fyrir árið og allt gamalt og gott.

Ást og friður til ykkar allra 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband