Hvenær deyjum við út ?

 

Um helgina áttum við hjónin skemmtilega helgi með kirkjukórnum okkar og kirkjukórnum á Djúpavogi.  

Síðasta vetur æfðum við sitt í hvoru lagi og saman messu sem ákveðið var að flytja á haustdögum ásamt nokkrum lögum frá hvorum kór þar sem messan er svolítið stutt. 

Í vikunni voru æfingar tvö kvöld og svo sameiginlega á laugardag með Djúpavogskórnum og þrumuðum svo yfir sveitungum okkar, fyrst  á Djúpavogi og brunuðum svo yfir á Stöðvarfjörð þar sem við héldum seinni tónleikana.  Með okkur voru nokkrir frábærir tónlistarmenn sem spiluðu á ýmis hljóðfæri.  Þetta var ótrúlega skemmtilegt og barasta þokkaleg mæting. 

Þegar ég sat á bekknum og hlustaði á Djúpavogskórinn og svo eftir að við höfðum sungið kom enn og aftur upp hugsunin "hvenær deyjum við út"?

Þegar ég flutti austur fyrir átján árum byrjaði ég í kirkju- og Samkórnum. Meðan börnin voru lítil var ég minna með en kom aftur af krafti inn í kirkjukórinn fyrir nokkrum árum þegar við fengum nýjan stjórnanda sem svo sannarlega er búinn að gera góða hluti með okkur. 

Þegar ég kom austur var ég tuttugu og sjö ára og var yngst í kórnum.... núna átján árum síðar er ég enn yngst, stjórnandinn er reyndar ööörlítið yngri.  Það var heldur enginn á mínum aldri í kórnum á Djúpavogi í gær.  

Ég trúi því ekki að þeir sem fæddir eru eftir 1970 hafi ekki gaman af að syngja og þegar ég googla hvort það sé hollt að syngja fær ég rúmar 48 þúsund síður sem styðja það. Við erum alltaf að spá í hvað er hollt og hvað ekki. 

Snýst þetta kannski um bindinguna? Þetta er jú binding, einu sinni í viku og svo nokkra sunnudaga á ári.  Sumir vilja ekki syngja eitthvað trúarlegt og ég skil og virði það. Minn maður trúir ekki en syngur samt með því hann hefur gaman af því að syngja, þó hann sé oft eini haninn í kvennahópnum. Hér úti á landi er kórstarfið sjálfboðastarf þar sem kirkjurnar hafa ekki bolmagn til að greiða söngfólkinu. Ég set það ekki fyrir mig því það er meira gefandi en svo að einhverjar krónur skipti máli í því samhengi. 

Ég veit svosem ekki hver ástæðan er en það þarf ekki mikinn vísindamann til að sjá að eftir nokkur ár deyja kórarnir út ef það verður aldrei nýliðun.  Það er kannski spurning um að fara að velja lög á disk til að láta spila yfir sér þegar kalið kemur. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband