Enn bætist við titlana

Jebbs, kerlan hafði það af.  Kláraði Foam flex kennaranámskeiðið með bravúr í gær.

Foamflex skírteini

Það var reyndar ekki mikill bravúr á kerlunni í lok fyrri dags þegar hún skrönglaðist máttlaus úr úr 40°heitum salnum eftir að hafa unnið í honum more or less í sex klukkutíma.

Draumurinn kviknaði fyrir nokkrum árum þegar ég heyrði af þessu fyrirbæri Foamflex.  Fyrst í stað hugsaði ég mér að það væri gaman að komast í svona tíma til að læra að rúlla úr mér bólgurnar svo fór hitt að kikka inn, kannski væri bara gaman að læra að kenna þetta og bæta við flóruna mína í jóganu.  Tækifærið kom, Sollan stökk á það og teygði fjárhagsrammann örlítið í leiðinni og það var svo sannarlega þess virði.  

Ég mætti á laugardagsmorgni í Sporthúsið, tímanlega að sjálfsögðu og næsti nemandi sem mætti var líka utan af landi ef svo má sega, reyndar úr Keflavík.  Alltaf mæta þeir fyrst sem koma lengst að.

Við byrjuðum strax í heita salnum og var strax skellt út í djúpa vinnslu og útskýringar á ýmsum álagspunktum í líkamanum sem koma vegna ýmissa þátta. Við rúlluðum, nudduðum, hoppuðum og toguðum okkur og teygðum, losuðum sjálf um heilmikið í okkar skrokki og ég get sko sagt ykkur að það er af nógu að taka.  Þegar við tókum svo pásu og fórum í annað verkefni í öðrum sal leið mér eins og ég væri bara glæný. Þar lærðum við að smassa sem er djúpt nudd aftan á lærum og kálfum, eitthvað sem við gerum ekki í opnum tímum og ég hyggst t.d. mest nýta á mínum stífu og stirðu fótboltabörnum. Það er mjög áhrifaríkt og ekki alveg það þægilegasta því á þessu svæði eru margir triggerpunktar sem eiga það til að verða aumir.  Einnig lærðum við nokkrar átaksteygjur. 

Eftir hádegi hélt vinnslan áfram í heita salnum og seinnipartinn bættust í hópinn sænskir afreksmenn í íþróttum. Við fengum að spreyta okkur á þeim með nokkrar rúllur og teygjur og það var skemmtilegt. Ég fékk að glíma við mikinn köggul, hressan strák alveg skelfilega stífan og stirðan. Það þurfti sko aðstoð við hann.  Á þessum tímapunkti var vökvaskortur og þreyta farinn að segja til sín hjá kerlunni og ég skrönglaðist fram til að jafna mig enda alveg að líða út af.  Ég drakk samt auðvitað helling en þetta gufar jafn óðum út.  

Hildur mín elskuleg sótti mig ásamt Agnesi og við brunuðum sem leið lá til Keflavíkur. Þar fór ég í þá dásamlegustu og þráðustu sturtu sem ég hef farið í lengi og fékk svo ekki síður dásamlegan mat hjá Sóla bró.  Hafdís var í bústað með vinkonum sínum.  Við skoðuðum OM setrið þar sem Hafdís ásamt fleiru góðu fólki er komin með sína aðstöðu í snyrtingu, nuddi, jóga o.fl. á sama stað.  Jógasalurinn er æði og einhvern tíman ætla ég að hafa aðstöðu í svona flottum sal.

Júróvisíon tækluðum við hjá Sóla og þó ég hafi dottað hressilega var ég sátt við Pollapönk, hressir og skemmtilegir og flottur boðskapur hjá þeim.

Eins ónýt og ég var um kvöldið þá kom mér á óvart hvað ég var lítið ónýt daginn eftir. Við byrjuðum daginn á bóklegu í tvo tíma og fórum svo í opinn Foam flex tíma milli ellefu og tólf. Það var mjög gaman að upplifa það.  Eftir hádegi tók svo aftur við bóklegt og svo aftur vinnsla í hitanum.  Útskrift í lokin, beint út á flugvöll og svo heim.  Dásamlegt flug í næstum skýlausu veðri og á vellinum tók fjölskyldan á móti mér.  Við snæddum í Söluskálanum og þegar heim var komið beið glæsileg útskriftarkaka á eldhúsborðinu ala Dýrunn Elín. Ekki oft sem drukkið er kvöldkaffi í Hólalandinu. Sófakúr í framhaldinu og dottað yfir Erfingjanum.  

Nú er fyrirliggjandi að panta bolta og rúllur til að geta hafið kennslu í Foam flex en ég byrja á henni í mars ef allt propsið verður komið til mín.  Gaman gaman.  

Það er þokkaleg vinna framundan með eigin skrokk líka og ég er viss um að ég get t.d. linað verkinn í öxlinni minni og komið mjöðminni í betra horf með því að auka blóðflæðið á þessa staði með nuddi og rúlli.  Rúll og nudd, rúll og nudd framundan og 100 hamingjudagar í þokkbót.

 

Yfir og út Heart 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband