Rigning og C vítamínið

Já ég hef ekkert yfir henni að kvarta. En blessaði steypuklumpurinn sem ég bý í sem þyrfti svo sárlega á klæðningu að halda er aðeins farinn að kvarta og ég veit hvað tekur við með hlýnandi veðri þegar rakinn fer að rjúka úr veggjunum, þ.e. ef það rignir ekki líka í sumar.

Þó ég væri jú alveg til í að sjá meira af blessaðri sólinni sem hækkar sig víst á hverjum degi þá hef ég lagt upp með það að pirra mig ekki á veðri og sé frekar kostina í stöðunni heldur en hitt. Ef öll þessi úrkoma væri snjór, værum við líklega fennt inni. Ungviðið myndi gleðjast yfir því en ég held að bóndinn sem sækir vinnu lengra til væri ekki hlynntur því fyrirkomulagi.  Þó lægðirnar hægi á skrokksa mínum þá venst það og er betra en sífelldir umhleypingar. Ég tala nú ekki um að geta keyrt á milli staða án þess að hafa áhyggjur af hálku í rússíbanabrekkunum hér á milli fjarða.  

Já það eru oft fleiri kostir í stöðunni en gallar og gott að hafa það í huga í lífinu almennt og vera ekki að eyða orkunni í tuð um einskisverða hluti.  

Ég viðurkenni vel að ég er latari á fætur virku dagana meðan myrkrið grúfir yfir og þá er það bara svo. Þetta líður hjá, það birtir og pestirnar fjúka þá vonandi út á haf. Þær grassera hressilega í svona vætutíð. Við höfum verið heppin og þau sýnishorn sem okkur hafa verið gefin stoppa stutt, kannski eins dags slappleiki, hámark tveggja.  Ég held að ónæmið mitt sé orðið svona sterkt af allri umgengninni við skólabörnin en reyndar ætla ég ekki að fá pestirnar og geri viðeigandi ráðstafanir í næringu og vítamíninntöku.  

Hjá mömmu gömlu var C-vítamín allra meina bót. Ef við fengum munnangur tókum við auka C, ef við vorum alltaf að fá blóðnasir, meira C, ef við vorum að fá kvef eða áttum erfitt með að vakna á morgnana, meira C og þar fram eftir götunum. Þetta var auka viðbót við lýsið og ABC-din sem voru fastir liðir við morgunverðarborðið.  Ég á alltaf auka C og það læra börnin sem fyrir þeim er haft, ég smelli auka skammti á liðið mitt þegar eitthvað bregður út af vananum hjá þeim.

 Yfir og út í rigninguna

 

Solla  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband