Færsluflokkur: Bloggar
Níu ár !
Fimmtudagur, 27. október 2011
Eitt ár er fljótt að líða, líka 10 ár. Mér finnst eins og börnin mín hafi fæðst í gær en þó eru 12 ár síðan Frikki karlinn kom í heiminn. Þetta upplifa flestir og eftir því sem árin færast yfir virðist tíminn fljúga enn hraðar áfram. Ætli það sé vegna þess að við höfum nóg fyrir stafni og stundum meira en nóg og þurfum vissulega að velja og hafna á hverjum degi.
Um þessar mundir eru níu ár síðan ég braut stóran odd af oflæti mínu og ákvað að prófa Herbalife. Það var dót sem ég leit eingöngu á sem megrunarvöru því auðvitað vissi ég ekki betur og í kringum mig hljómuðu sögur um hinn og þennan sem hafði náð góðum árangri en hætti og tapaði árangrinum og meira til og það var auðvitað allt Herbalife að kenna.
Ég var búin að hugsa mig um í ár því ég hafði hitt konu sem hafði haft Herbalife sem hluta af sínum lífsstíl í nokkur ár með góðum árangri og það var það sem ég melti þetta ár. Ég vissi á þeim tíma af fenginni reynslu að ég fyndi enga skyndilausn og lífsstílsbreyting yrði að verða hjá mér til að ég næði einhverjum árangri.
Ég sló því til, full af fordómum og gjörsamlega inni í skápnum. Nokkrum mánuðum frá því ég byrjaði hitti ég Sóla bróður, hann hafði ekki séð mig í frá því ég byrjaði og hann hafði orð á að ég liti vel út. Þarna voru kannski fimm kíló fokin. Svarið sem hann fékk var "ég er í aðhaldi".
Mörgum mánuðum seinna hafði hann samband við mig til að segja mér frá vörum og tækifæri sem hann héldi að myndi henta mér. "Ertu að tala um Herbalife?" sagði ég og þegar hann svaraði játandi sagði ég að ég væri búin að nota vöruna í um ár :)
Á fyrsta árinu mínu fóru um 9 kíló og það var mikill léttir. Hvert kíló umfram hafði legið eins og tonn á sálinni. En það fór annað og meira að gerast, fyrirtíðareinkenni sem hrjáðu mig af miklum krafti eftir fæðingu barnanna minnkaði við notkun á Tang Kuei og þegar ég fékk króm í Yellow töflunum og gat gengið í gegnum daginn án þess að langa í súkkulaði fór mér að líka lífið. Þegar ég fór að taka Florafibre losnaði ég við sveppasýkingar og ýmis kvennaóþægindi á neðri hæðinni. Svona get ég talið upp með allar þær vörur sem ég nota frá Herbalife því þær hafa gert svo yndislega hluti fyrir skrokkinn minn að það hálfa væri hellingur.
Próteinið elskulega gerði mér það kleift að losna við bakbeltið leiðinlega og ég fór með því að finna uppbygginguna í bakinu. Vá þvílíkur munur að vera ekki með þá verki. Hlaupandi verkirnir út um allan líkamann sem eru frekar langt frá því að vera þægilegir , nokkuð gott að halda þeim í skefjum.
En að hafa haldið kílóunum fjarri öll þessi ár og í heildina séu farin 13 kíló er eitthvað sem ég hefði ekki trúað að ég gæti.
Heilsan mín stóð á mjög miklum brauðfótum þegar ég tók þessa ákvörðun og það sem ég taldi leið til að vinna á vambarpúkanum reyndist mitt mesta heillaskref í þá átt að byggja upp heilsuna mína.
Það sem ég hef talið upp hér að framan er bara brot af öllu því jákvæða sem gerst hefur hjá mér með tilkomu þessarar lífsstílsbreytingar og þó ég glími við gigtina á hverjum degi og sé aldrei verkjalaus í vöðvunum þá er þvílík blessun að vera laus við allt hitt. Þetta er eilífðar verkefni en ég trúi því og veit að með þessa næringu við hönd liggur leiðin bara upp á við.
Spáið í hvað rétt hluföll af næringu og vítamínum gera fyrir líkamann. Ég var eins og margir, of alin en vannærð og það var heldur betur búið að taka sinn toll. Spáið í það.
Ég held upp á árin níu með Aloe vera í vatni með vítamínunum mínum, heitum te og svo yndælum sjeik með fullt af frosnum ávöxtum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Datt úr gírnum
Laugardagur, 8. október 2011
Já ekki er kerlan alveg komin fast í blogg gírinn aftur og datt alveg úr sambandi þegar fjölskyldan brunaði í fríið sitt nú um daginn.
Seint að kvöldi 11. september vorum við búin að tékka okkur inn í Leifsstöð og fórum í loftið rúmlega eitt um nóttina. Lentum í Munchen eftir átakalítið flug nema hvað að ungviðið var afskaplega þreytt eftir lítinn nætursvefn. Komumst átakalítið á aðal lestarstöðina í Munchen hvar lestin okkar til STuttgart beið. Þar stigum við upp í lestinar en só sorry öll sæti voru uppbókuð, út fórum við með allar töskur og inn í næsta vagn og sama saga þar. Þá vatt ég mér að lestarstarfsmanni og spurði hvort betra væri að fara aftar eða framar og hann vísaði okkur framar og þar fundum við loksins sæti sem við gátum setið í alla leið til Stuttgart. Á þeirri tveggja og hálfs tíma ferð seig syfjan á mannskapinn og mikið var gott þegar við vorum komin alla leið til Höllu, Árna og Helenu Emmu.
Litla manneskjan var aldeilis búin að blása út síðan við sáum hana nýfædda, komin með bollukinnar og öll hin mannalegasta. Hún bræddi öll hjörtu med det samme. Hún var ekkert ósátt að fá fleiri hendur til að halda á sér og dúllast með hana.
Í Bittenfeld dvöldum við í nokkra dýrðardaga, tókum því mjög rólega á mánudeginum enda ferðaþreytt, skruppum til Stuttgart þann næsta og kíktum í búðir, svo í dýragarðinn í Stuttgart sem er líka heilmikill listigarður og svo í Benz
safnið þann næsta dag og skoðuðum ýmsar eðalkerrur.
Veðrið lék svo sannarlega við okkur og mikið var notalegt að vera í rúmlega 20 stiga hita og við svitnuðum eins og grísir fyrstu dagana. Sólin skein líka og það var ekki leiðinlegt. Umhverfið á þessum slóðum er fallegt og mikil ræktunarhéruð, eplin enn á trjánum og heilmikið sem þeir framleiða sem er ákveðið sérkenni svæðisins. Jósef var einstaklega hrifinn af hveitibjórnum t.d.
Á föstudegi skelltum við hjónin okkur alla leið til Barcelona. Erindið var Herbalife ráðstefna svokölluð Extravaganza.
Það var fjör að venju og góð hleðsla á öll batterí.
Við dvöldum þar þrjár nætur og notuðum föstudaginn til að rúnta um borgina í útsýnisstrætó. Það er góð leið þegar tíminn er knappur og margt hægt að skoða. Barcelona er yndisleg og hægt að vera það lengi lengi án þess að komast yfir allt það merkilega í borginni en þannig er það á merkum stöðum. Hitinn í Barcelona var yfir 30 gráðum og það var verulega dásamlegt. Í þannig hita gleymist gigt og annað vesen í blessuðum skrokknum.
Þarna erum við fyrir utan ráðstefnuhöllina með downlínunum okkar sem voru á svæðinu.
Á mánudagsmorgni flugum við aftur til Stuttgart. Orðin svakalega lestarvön og sem betur fer gekk lest frá flugvellinum í bæinn við hliðina á Bittenfeld og Halla náði í okkur þangað. Börnin voru í góðu yfirlæti hjá þeim meðan við vorum á Spáni. Fóru m.a. tvisvar á Mc Donalds.
Nú var ferðin farin að styttast í annan endann og heim flugum við snemma á miðvikudegi. Kvöddum litlu fjölskylduna og hlökkum til að sjá þau milli jóla og nýárs.
Dýrunn var orðin svo dugleg að annast hana og skipti á henni eins og ekkert væri, Friðrik var ekki spenntur að ganga í þau verk þó hann væri duglegur að snúast með hana og stytta henni stundir.
Þarna skiptir hún á Helenu eftir eina kúkableyju. Já hallið bara undir flatt, ég náði ekki að snúa henni.
Allt gekk vel á leíðinni heim. Við flugum frá Stuttgart til Berlínar og þar var bið í sex tíma eftir fluginu heim. Við skelltum okkur í bæinn og fengum okkur franskar, Evruflotinn var á þrotum og það varð að duga . Svo komumst við í flugið og Iceland Express var á mínútunni og við komumst heim á réttum tíma.
Brunuðum Norður og vorum ósköp sátt að komast í ból þar eftir að hafa vakað í tæpan sólarhring. Stöddinn og Sóla tóku svo á móti okkur daginn eftir og kisa gamla var ósköp ánægð að fá fólkið sitt heim aftur.
Alltaf gott þegar allt gengur vel :)
Yfir og út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
ART er smart :)
Föstudagur, 9. september 2011
Síðustu þrjá daga hef ég verið svo lánsöm að sitja svokallað ART leiðbeinendanámskeið. ART (Anger replacement training programme) er færniþjálfun sem hjálpar okkur að læra leiðir til að eiga góð samskipti við samferðafólk.
ART hentar börnum og fullorðnum og til er eitthvað sem kallast Fjölskylduart sem er mjög spennandi. Það gefur auga leið að ef barn á í miklum samskiptaerfiðleikum liggur rótin oftast í einhverju heima og margir foreldrar sem geta ekki kennt börnunum sínum uppbyggjandi samskiptahætti.
Námskeiðið var mjög skemmtilegt og strax á fyrsta degi vorum við látin skipuleggja ART tíma og kenna svo fyrir mis áhugsama og þæga nemendur (þátttakendur á námskeiðinu). Hópurinn okkar var ca 15 kennarar úr Fjarðabyggð og frá Höfn og það náðist mjög góð stemmning og mikið hlegið og sprellað. Við fórum í fullt af leikjum og lærðum helling, deildum hvert með öðru og allir græddu.
Núna er framundan 12 vikna ART námskeið sem við Gurra ætlum að keyra þegar ég kem frá Þýskalandi. Það verður spennandi prófraun og við verðum undir handleiðslu Orra sálfræðings sem kemur og situr tíma hjá okkur og svo tökum við myndbönd af kennslunni okkar sem sýnt verður á "bíódegi" í nóvember. Sem sagt krefjandi og spennandi. Ekki gaman að sjá sig á myndbandi eða heyra sína fögru rödd af bandi en það kennir manni ótrúlega mikið og getur bent á ýmislegt sem maður gerir sér ekki grein fyrir í eigin fari. En einnig gefið öðrum hugmyndir að kennslu.
Nú er mega skipulagning vegna brottfarar suður vegna Þýskalandsferðar. Eftir hádegi setjumst við niður og gerum lista yfir hvað á að taka með. Planið er að pakka létt :) og gera ráð fyrir að eitthvað bætist í töskurnar úti þó við séum ekki að fara í mega innkaupaferð. Á morgun keyrum við til Akureyrar og á sunnudag til Reykjavíkur. Förum í loftið rétt fyrir eitt aðfararnótt mánudags. Spennandi!
Ciao þar til næst !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Helgardvöl á Eiðum
Fimmtudagur, 1. september 2011
Síðustu helgi var ég svo heppin að vera þátttakandi í helgardvöl á sem Krabbameinsfélag Austfjarða og Austurlands halda árlega.
Ég hef aðeins verið viðloðandi þessar helgar, var með jógafræðslu fyrir ca fjórum árum, dvaldi með þeim einn laugardag í fyrra og fór í jóga og svo var planið að vera núna alla helgina.
Plönin breyttust aðeins og ég skrapp heim á laugardag til að kveðja góðan kappa hann Kjartan Guðjóns.
En upphaflega mætti ég upp úr tvö á föstudegi og hjálpaði til við undirbúning, það þurfti að setja utan á rúm og græja ýmislegt.
Gestir byrjuðu að koma um fimmleytið. Alls voru skráðir ellefu gestir, bæði fólk sem hefur greinst með krabbamein einhvern tíman, eru að glíma við það núna, makar eða vinir. Allir með ótrúlegan reynslubanka og hafa margt að gefa. Tvær stelpur að sunnan misstu af fluginu og komust með herkjum með næstu vél eftir alls kyns krókaleiðum. Það var mikið búið að hlæja að því yfir helgina og grínast með þessa ævintýraferð.
Rúmlega sex mætti enginn annar en KK á svæðið og spilaði nokkur góð lög og sagði sögur á milli af sinni alkunnu snilld. Hann var á leið í Loðmundarfjörð að spila og þáði boð okkar um að koma og vildi ekki fá neitt fyrir og var eiginlega meira þakklátur yfir að hafa verið beðinn um að koma.
Um kvöldið snæddum við gómsætan fisk og í elhúsinu var öflug eldabuska úr Borgarfirði Eystri.
Síðar um kvöldið var Tinna Hrönn iðjuþjálfi með fræðslu og fór með okkur í skemmtilega hópstyrkingaleiki. Í lok kvölds var kyrrðarstund sem Hólmgrímur prestur leiddi. Svo tók spjall við í drjúga stund.
Á laugardag renndi ég af stað heim eftir morgunverð og mætti aftur rétt fyrir kvöldverð. Þann dag var fyrirlestur um hamingjuna sem ég missti af og var víst mjög magnaður.
Um kvöldið stigum við dans undir leiðsögn Pálínu Margeirsdóttur og það var mjög skemmtilegt og mikið hlegið. Svo spjölluðum við langt fram eftir kvöldið og mikið var hlegið og grínast.
Klukkutíma eftir morgunverð á sunnudag var ég með jógastund, stólajóga eins og ég kalla það þar sem getan til að hreyfa sig er misjöfn og fólk á misjöfnum aldri. Síðan snæddum við enn eina ferðina.
Margt annað var brallað um helgina, farið út á Eiðavatn á báti að degi til og í stjörnubjörtu kvöldinu, gengið um nágrennið og fólk deildi reynslu sín á milli. Einnig var boðið upp á svæðanudd.
Herlegheitin alla helgina kostuðu 2500 á mann, matur var gefinn víða að, öll vinnan okkar án endurgjalds og restina styrktu krabbameinsfélögin. Eftir hvíldarstund og samantekt fórum við í kirkjuna og fengum privat messu. Það var mjög notaleg stund. Síðan héldu allir til síns heima, með gleði og þakklæti í hjarta eftir yndislega samveru.
Að umgangast fólk sem tekist hefur á við það stóra verkefni að glíma við krabbamein er mjög holl og kemur manni niður á jörðina og minnir á hvað maður getur verið þakklátur fyrir að vera ekki að glíma við þennan gest. Og hvað maður hefur það gott. Ég stefni svo sannarlega á að mæta aftur að ári og vona að við sjáum enn fleira fólk taka þátt í þessu flotta verkefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Trukkurinn og æðruleysið ...
Föstudagur, 26. ágúst 2011
Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við líkama minn eins og hann er
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
Síðustu tuttugu ár eða svo hef ég glímt og unnið í að halda blessuðum skrokkinum í standi með mis góðum árangri. Læknavísinin hafa lítið hjálpað og flestar leiðir sem ég hef farið teljast óhefðbundnar.
Ég tel að þessi yndislegi gigtarskratti hafi verið farinn að búa um sig hjá mér ansi snemma, ég man þegar ég byrjaði í frystihúsinu 15 ára, þá fór ég að safna bólgum sem tóku sér bólfestu og vilja hvergi annars staðar vera. Ég veit að ég er skemmtileg en common.
Eftir fæðingu minna yndislegu barna fokkaðist allt upp í kerfinu og ég fékk greininguna vefjagigt og festumein, segir engun neitt sem þekkja ekki til. Ráð læknisins voru að hætta að láta krakkana sofa upp í og koma mér form, sem ég hef unnið samviskusamlega í síðustu 10 ár. Ætli hann segi mér að láta kallinn ekki koma upp í ef ég fer til hans núna því erfiðast fyrir vefjagigtarfólk er að ná djúpum svefni og vöðvaslökun.
Suma daga gengur betur en aðra að takast á við það að hafa ekki kraftinn til að framkvæma það sem hugann langar að gera. Þá er ég ekki að tala um stórafrek heldur bara að taka t.d. til í geymslunni, prjónað og saumað eða gert eitthvað með höndunum án gargandi verkja eða halda garðinum sómasamlegum. Hvað þá að láta sig dreyma um að geta unnið fulla vinnu eins og venjulegt fólk, ekki veitti manni af svona á síðustu og verstu.
Aldrei hef ég látið meta mig til örorku, ekki haft stoltið í það en hvað kallast það þegar fólk hefur ekki getuna til að vinna fulla vinnu.
Dögunum mínum líki ég stundum við trukkadaga og suma daga er eins og litli trukkurinn hafi keyrt yfir skrokkinn minn (og sálartetrið með) og svo koma aðrir þar sem stóri trukkurinn hefur verið á ferð. Og alltaf er þessi bévaði trukkur á ferðinni með tilheyrandi stífleika og óþægindum. Meira að segja á nóttunni. Þegar maður vaknar eiga vöðvar að vera slakir og mjúkir en ekki spenntir og stífir eins og þeir séu að fara að búa sig undir að flýja undan ljóni.
Í sumarfrí á maður að slaka á, safna orku og hlaða batterín en trukkarnir mæta hvort sem ég er í rólegheitum heima við eða að brasa út og suður og gefa engin grið.
Síðustu ár á ég nokkra daga minningu um það þegar trukkurinn fór í frí. Það var eftir 10 daga dvöl í jóganáminu mínu. Þá gerðum við jógaæfingar að lágmarki fjóra tíma á dag, borðuðum grænmetisfæði og iðkuðum slökun og hugleiðslu og vorum án áreitis frá umhverfinu.
Eftir nokkra daga úti í lífinu byrjuðu trukkarnir að rúnta, fyrst þeir litlu og svo kom sá stóri á endanum líka.
Ekki vil ég setjast að ein í óbyggðum, gera jóga í fjóra tíma á dag og borða grænmetisfæði til að minnka verkina og óþægindin. Ég vil taka þátt í lífinu. Jógað og mataræðið er þó það sem helst hefur fleytt mér í gegnum erfiða daga og í að minnka einkenni.
Alla þessa trukkadaga ber maður ekki á torg heldur brasar og bröltir með þá á bakinu, reynir að skerpa á einhverju í mataræðinu, hreyfa sig meira eða öðruvísi, standa upp í vinnunni sem oftast því kyrrstaðan er eitur, vinna í hugarfarinu til að komast í gegnum trukkadagana án þess að garga á samferðafólk.
Ekki sést á útlitinu að trukkur hafi verið á ferð, þeir skilja ekki eftir dekkjaför á bakinu en þeir hjakka nú oft mest þar en sturta hlassinu líka víðar og sjúa orkuna út. Svo maður er sætur og hress, alltaf að brasa svo mikið og bara gaman. Það er viðhorfið sem ég valdi að velja því án þess að velja að halda áfram að vinna í að minnka trukkana gæti ég bara lagst út á götu og látið einn alvöru keyra yfir mig. Auðvitað sest ég stundum niður og grenja svolítið en rétti svo úr kútnum, skerpi á æðruleysinu, sníð mér stakk eftir vexti, vinn í að róa hugann, fæ mér rólega göngu og slaka á.
Ég hef bara átt þessa trukka út af fyrir mig og hitti svosem ekki margt vefjagigtarfólk til að ræða um hvað það er að glíma við. Þó leið mér voða vel þegar ég las inni á vefjagigt.is að ég er ekki ein og þetta er ekki aumingjaskapur. Svo hitti ég konu í fyrra sem er að glíma við það sama. Vinnur í vinnunni sinni og vinnur í mataræðinu og hinu og þessu en eins og hún sagði "Það er sama hvort ég er að brasa mikið eða lítið yfirleitt líður mér eins og það hafi keyrt yfir mig valtari".
Í dag er stóri trukkurinn á ferð og vinur hans með. Sá stóri kemur alltaf þegar ég byrja í vinnunni, byrja í rútínunni allri saman. Samt hef ég verið að passa mataræðið vel, byrjuð í jóga sem á að slaka og losa um en stóð í eldhúsinu í nokkra tíma í gær og eldaði afmælismat fyrir fjölskylduna. Við þannig athafnir kemur helvítið með tvo trukka.
Ég ætla að taka þeim með æðruleysinu, láta renna í bað og mýkja mig upp, setja á mig rakamaska til að fríska þreytta andlitið og takast á við næstu daga með bros á vör og í hjarta. Vona trukkarnir fari bara í vegagerð eða eitthvað.
Góða trukkalausa helgi
Bloggar | Breytt 20.1.2012 kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nóg um að vera !
Mánudagur, 22. ágúst 2011
Hér á bæ er sjaldan mikil lognmolla þó við séum dugleg í að slaka á þegar við erum heimavið. Friðrik fór norður í land með 4. flokks strákum um helgina til að spila á Akureyri. Það var heilmikið ferðalag. Þeir fóru með A liðinu til Ólafsfjarðar, þaðan á Krókinn og gistu þar, eftir leiki A liðsins héldu þeir til Akureyrar og kepptu þar. Þeir töpuðu reyndar leiknum en reynslan var góð. Mömmunni þótti skrýtið að senda hann einan norður í land en hann er orðinn svo stór og þetta er það sem koma skal hjá þessum gaurum og eflir þá og styrkir.
Dýrunn keppti í úrslitum á Hnátumóti KSÍ á Norðfirði og við hokruðum þar í rigningu framan af. Sem betur fer var ekki mikill vindur með svo okkur varð ekki kalt. Enginn er verri þótt hann vökni. Dýrunn hefur tekið miklum framförum eftir Pæjumót, núna var hún á hægri kanti og átti nokkur góð færi,sólaði upp kantinn og munaði minnstu að hún kæmi boltanum í netið nokkrum sinnum. Leikirnir þrír töpuðust að vísu en það gleymist fljótt og eftir að hafa mýkt stirða vöðva í lauginni á Neskaupstað vorum við eins og ný, eða næstum því.
Um næstu helgi verður nóg á döfinni. Frikki keppir til úrslita á Íslandsmótinu á Eskifirði. Í fyrra þurfti hann til Reykjavíkur en núna er það B1 liðið sem þarf að leggja land undir fót.
Ég ætla hins vegar að dvelja á Eiðum. Ég er í stjórn Krabbameinsfélags Austfjarða og nú er komið að árlegri dvöl fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur eða þá sem lokið hafa meðferð. Ég hef aðeins komið að þessu, verið með jógafræðslu og í fyrra dvaldi ég lungan úr laugardeginum og var með smá jóga og slökun. Þetta er mjög gefandi samvera. Núna ætla ég að hjálpa við undirbúning á föstudag og yfir helgina,verð með einhverja slökun og kannski æfingar, fer heim á laugardag til að kveðja góðan samferðamann, Kjartan Guðjónsson. Fer aftur í Hérað á laugardag til að vera með í dansinum um kvöldið og næ svo vonandi leik hjá Frikka á Eskifirði á heimleiðinni á sunnudag (með smá krók).
Sem sagt, nóg um að vera eins og endranær...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vindfell
Sunnudagur, 14. ágúst 2011
Ekki hefur farið mikið fyrir fjallgöngunum hjá okkur Frikka í sumar. Þegar vel hefur viðrað til þess að ganga höfum við yfirleitt verið að fara í einhverja íþróttaferðina eða upptekin á annan hátt. Við drifum okkur þó á Vindfell sl. föstudag og það var mjög gaman. Vorum ekki alveg ákveðin hvort við ætluðum alla leið en þegar Frikki er lagður af stað í mission er fátt sem fær hann stöðvað.
Gangan upp með Innri Vallá er ótrúlega falleg, allir þessir fossar og djúpu gil í ekki stærri á. Ótrúlegt að hafa ekki gengið þetta fyrr. Sauðdalurinn er drjúgur og í stað þess að feta okkur inn með ánni þá fórum við upp í hlíðar Kumlafells og þaðan að rótum Vindfells. Kumlafell lítur út eins og píramíti en þegar innar er komið í dalinn tekur við heilmikið klettabelti og fyrir neðan urð og grjót. Við rætur Vindfells er flott útsýni og sjást bæði fjöllin í Jafnadal og Stöðvardal. Jökultindurinn var hulinn þoku en tilkomumikið að sjá fjöllin sem eru fyrir ofan Einbúann frá þessari hlið, þessi gráu fjöll sem eru eins og úr annarri veröld. Sandfellið er tilkomumikið, samt fannst mér flottara að sjá það frá Lambaskarðinu sem við gengum að fyrir stuttu.
Á toppnum er mjög tilkomumikið að horfa út eftir Miðfelli og Hákarlshaus og sjá bakhliðina á Sauðabólstindi. Það er ekki eins létt að ganga tind af tindi yfir þessi þrjú fjöll eins og sýnist neðan af götu og það er jú alltaf þannig að fjöllin breytast og ýmislegt kemur í ljós þegar maður kemst í návígi við þau.
Vindfell er 700m hátt en ótrúlega flott og gott úsýni til allra átta. Myndir sýna víst aldrei alla þá upplifun sem fylgir því að leggja eitt fjall að velli eða standa á toppnum (ég sit nú oftast því hnén verða eitthvað svo lin) og verða svo lítill í allri þessari fegurð sem landið okkar býður upp á.
Niðurgangan var ótrúlega drjúg líka og mjúk enda fórum við aðra leið niður og gengum miðjan dalinn. Á niðurleið kemur kannski best í ljós í hve góðu formi maður er, það var rosa mikill léttir þegar við komum loks að bílnum og gátum sest. Ljóst að spýta þarf í lófana. Ef maður þolir ekki fjóra tíma hmmm.
Maður þarf heldur ekki að leita langt yfir skammt. Nú er Sauðabólstindur næst á dagksrá og við ætlum pabbaleið upp á hann, þ.e. upp með Vallám, upp á Hellufjall og þaðan upp á topp. Lambafell var víst líka á skránni ásamt Mosfelli og að hringganga Álftafell (ef það er hægt :)) og nú óskum við eftir mildu haustveðri langt fram undir jól.
Hér eru smá sýnishorn úr göngunni:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Unglingalandsmót UMFÍ
Þriðjudagur, 2. ágúst 2011
Já nú erum við líklega og vonandi orðnir áskrifendur að Unglingalandsmótunum sem fram fara hverja verslunarmannahelgi víðs vegar um landið. Í ár var mótið á Egilsstöðum og því hæg heimatökin. Sumarhátíðin var upphitun og þessar fáu farandæfingar sumarsins lögðu tóninn líka. Dýrunn er enn of ung en kemur sterk inn á næsta ári. Friðrik fór gallvaskur í 80m hlaup, 200m, 600m, 100m boðhlaup og spjótkast. Einnig kom hann inn sem varamaður með liðsfélögum sínum úr boltanum og spilaði undir merkjum Vals á Reyðarfirði.
Kappinn komst í úrslit í 80m og var um miðbik í hinum greinunum. Liðið hans í boltanum var í þriðja sæti svo það kom einn peningur með heim og það er nú frekar skemmtilegt. Hann var mjög sáttur en langar helst að flytja til Egilsstaða til að fara að æfa frjálsar. Ég get kennt sálfræði við Menntaskólann þar sem ég er jú komin með framhaldsskólaréttindi og pabbi hans getur áfram verið hjá Eimskip. Ekki hafa foreldrarnir samþykkt þennan ráðahag.
Á setningarathöfninni hljóp hann ásamt krökkum úr aðildarfélögum ÚÍA með kyndlaberanum sem kom keyrandi inn á svæðið á motorcross hjóli. Það var mjög spennandi, en verst að vera ekki í Súlugalla. Hann er víst enginn almennilegur til svo hann var bara í Fjarðarbyggðarpeysunni.
Við gistum á tjaldsvæðinu og vorum tvær nætur. Planið var að vera alveg fram á mánudag en á sunnudag tók að hvessa og okkur þótti veðurútlit ekki spennandi. Eftir kvöldverð fóru feðgarnir strax af stað heim en við skvísurnar biðum eftir skemmtidagskránni. Við biðum í rúman klukkutíma og hlustuðum síðan á þrjú lög með Bjartmari og gáfumst svo upp. Dýrunn nennti engan veginn að standa lengur og hlusta á raddlausan kall. Þetta var hálf lamað, ekki eins mikið stuð og á Jónsa og Í svörtum fötum kvöldið áður. Við slepptum því flugeldasýningunni sem var víst rosa flott en það er ekki hægt að gera allt. Við hlustuðum á beina útsendingu frá Þjóðhátíð í Eyjum og það voru ekki slor tónlistarmenn á ferð.
Þetta var rosa flott mót og gekk vel í alla staði. Keppt var í ótrúlega mörgum greinum út um allan bæ. Við vorum eins og gefur að skilja á Vilhjálmsvelli og svo skutlaðist ég á milli atriða yfir í Fellabæ í boltann. Jósef vann alla helgina við að skrá úrslit. Hann er svo góður í því. Svo gerðist ég sjálfboðaliði á sunnudag og stóð ásamt fleirum á svæðinu til að gæta þess að fólk færi ekki yfir hlaupabrautirnar meðan hlaupin fóru fram. Ótrúlegt hvað menn eru duglegir að stytta sér leið og bera ekki virðingu fyrir keppendum í keppni.
Við náðum ekki að fara í alla afþreyinguna sem í boði var, t.d. langaði mig í göngu um Selskóg en þá var Frikki að keppa, einnig var boðið upp á danskennslu á sunnudag en einhverra hluta vegna voru börnin ekki í stuði. Við fórum hins vegar á spurningakeppni sem kölluð var Innsvar. Þar voru tveir í liði og þetta virkar eins og pub quis. Við Frikki vorum saman og Dýrunn og Jósef. Liðin hafa verið eitthvað um 20 og Jósef og Dýrunn fóru með sigur að hólmi. Þau fengu nokkur búnt af Kit kat í verðlaun og við höfum maulað það hér síðustu daga.
Þvottavélin snýst sem aldrei fyrr og á morgun leggjum við í hann norður á bóginn. Fyrst til Akureyrar og svo á Siglufjörð þar sem Dýrunn ætlar að keppa á Pæjumóti. Frikki tekur sér frí frá Króknum og ætlar að njóta þess að vera í fríi eina útilegu.
Hér eru tvær myndir af kappanum um helgina:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Herdeildarkokkurinn
Þriðjudagur, 26. júlí 2011
Það er oft haft á orði hér á bæ sérstaklega þegar ég elda súpur að ég sé hálfgerður herdeildarkokkur því yfirleitt endast þær vel og lengi jafnvel þó slatti sé frystur líka.
Ég fékk því flott tækifæri í síðustu viku að láta reyna á herdeildareldamennskuna þegar listahópur frá listaháskóla í London kom til Stöðvarfjarðar í tengslum við verkefnið þeirra Rósu og Zdenek í Frystihúsinu. Þau voru 17 og svo voru nokkrir vinir líka sem eru að aðstoða við verkefnið. Ég fór á stúfana og leitaði eftir styrkjum og fékk úr því hádegisverð 2x á Kaffi Steini og svo kaffitíma á Brekkunni seinni daginn þeirra. Ég eldaði sem sagt þrjá kvöldverði og þjóðlegt skyldi það vera.
Fyrsta kvöldið var það fiskisúpa Jónu Hall sem sló svo rækilega í gegn þegar við vorum með þeim í hjónaballsnefnd. Með súpunni var fjallagrasabrauð úr grösum sem ég týndi á leið minni á Lambaskarð á sunnudag, Sólrúnarbrauð og rabarbarapaj ala Rósa í eftirrétt. Næsta kvöld voru það villi og bláberja krydduð lambalæri ala Maja og guðdómleg súkkulaðikaka ala Þóra og síðasta kvöldið var karrýfiskur á hrísgjónabeði með íslenskum villi og búðasveppum. Fiskinn og kjötið fengum við gefins og aðeins meðlæti og sollis sem þurfti að kaupa eða sækja í næstu eldhús eða garða .
Svona eldamennska kallar á skipulag því við þurfum líka að vera á tíma. Það var pínu sprettur á miðvikudag því dagskráin var svo þétt hjá hópnum, fyrst ráðstefna á Kaffi Steini, svo klukkutími í mat áður en dagskráin hófst í Frystihúsinu. Svo var ein sem borðaði fisk en ekki kjöt og ein sem borðar hvorugt og þá var skellt í smá grænmetisgums handa þeim. Margar hendur hjálpuðu og það var yndislegt að fá Maju í eldhúsið á miðvikudeginum og svo kom Þóra á fimmtudag og hjálpaði mér með fiskinn og vaskaði upp. Þá var skrokksi minn orðinn pínu þreyttur og hún var kærkominn stormsveipur í eldhúsið.
Á föstudag sat ég svo og sólaði mig fyrir utan gallerýið eftir frágang og þrif því ég hafði jú lofað Sólrúnu að sjá um það líka þessa viku. Eitthvað hafa ferðamennirnir fundið á sér að það væri mikið um að vera í Skuld því þeir voru lítið á ferðinni og ég sat því í sólinni og heklaði eins og ömmur gera. Ég seldi því lítið þar.
Ég veit að ég gæti ekki unnið sem kokkur nema hafa her manns til að gera hlutina fyrir mig en þetta var rosalega skemmtilegt og ég hlakka til að sjá myndir af þessu öllu.
Solveig merkir "sú sem er máttug innanhúss" og ég fékk svo sannarlega að vera það þessa daga. Það var ekki leiðinlegt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýtt hlutverk !
Mánudagur, 25. júlí 2011
Þann 19. júlí fæddist í fjölskylduna lítil myndarleg prinsessa. Þar með varð Jósef afi og ég sjálf amma á ská :). Ætla nú að vera alveg bein samt. Síðustu daga fyrir fæðingu höfðum við beðið full eftirvæntingar. Sl. laugardag brunuðum við til Akureyrar til að vera viðstödd skírnina. Veðrið var með allra besta móti, sól og blíða og fallegur dagur til að fá fallegt nafn. Helena Emma heitir hún, í höfuðið á Helenu ömmu sinni og Emma út í loftið. Falleg nöfn og hún var mjög sátt við sitt, rétt kvartaði þegar vatninu var ausið á hana en svo var hún vær og góð það sem eftir var.
Þarna eru Halla og Árni með hana nýskírða. Þegar presturinn var að óska þeim til hamingju hallaði Halla sér yfir kertið og kveikti í hárinu á sér . Það varð uppi fótur og fit en til allrar lukku varð enginn skaði af því, bara smá sviðalykt og eitthvað sem alltaf verður minnst.
Allir hafa verið spenntir að fá að máta og halda á dúllunni. Ég hef þó haldið mig til hlés því ég fékk kvef í öllu listastússinu í síðustu viku (nánar að því síðar) og vildi ekki vera of nánin henni. Ég prófaði samt smá og passaði að anda ekki mikið á hana.
Afinn er nú ekki lítið montinn og þarna spreytir hann sig og rifjar upp taktana. Var svolítið óöruggur fyrst en svo kom þetta eins og hann hefði aldrei gert annað. Dýrunn prófaði líka að sitja með hana í skírninni en Friðrik ákvað að bíða þar til í gær þegar færra fólk var umhverfis og sat með hana góða stund þegar við heimsóttum þau á spítalann. Núna erum við virkilega farin að hlakka til
að heimsækja þau í Þýskalandi í september þegar hún verður akkúrat tveggja mánaða. Fleiri fengu að máta manneskjuna og Halla og Árni fóru smá heimsóknarrúnt þegar þau komu af spítalanum. Amma Dýrunn var að springa úr monti og Álfrún Hulda var rígmontin stóra frænka sem langar samt ekki í svona lítið systkin. Finnst sennilega fínt að vera yngst á heimilinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)