Færsluflokkur: Bloggar
Veðravæl...
Þriðjudagur, 24. apríl 2012
Já það er ýmist í ökkla eða eyra hjá kerlunni. Annað hvort heyrist ekki í mér hér í margar vikur en svo get ég ekki þagað tvo daga í röð.
Ég hef örugglega áður tjáð mig um veðra eða veðurvæl samferðafólks míns.
Nú er vor í lofti, farfuglarnir byrjaðir að tínast inn og syngja sinn vorsöng, komið sumar samkvæmt dagatalinu, eins fyndið og það er. Snjólínan enn frekar neðarlega í fjöllunum og menn stynja og barma sér yfir því hvort það komi nú gott veður þetta sumar eða hvort við fáum enn og aftur vont sumar.
Ég veit að það er að minnsta kosti tvennt í þessu lífi sem er garanterað - ég get ekki stjórnað veðrinu og einhvern daginn gef ég upp öndina.
Ég get ekki stjórnað veðrinu og sama hvað ég kvarta, kveina og geðvonskast, það breytist ekkert, alls ekkert. Eina sem ég uppsker er svekkelsi og leiðinlegar tilfinningar í sálinni og kroppnum.
Þá erum við komin að seinni hlutanum - þessum með að gefa upp öndina. Þar get ég mögulega haft einhver áhrif með því að hugsa um heilsuna mína, hvað ég borða, hreyfa mig reglulega og hvílast. Þar liggur stór hluti áhugasviðs míns. Einn stærsti þátturinn þar er líka að rækta geðheilsuna og halda henni á réttri tíðni svo hún vinni með hinum þáttunum. Og það veit ég að ekki geri ég það með því að bíða í ofvæni eftir góða veðrinu og verða svo fyrir vonbrigðum eina ferðina enn.....
Mikið þakka ég þeim degi þegar ég losnaði undan þeirri ánauð að vera þræll veðursins og taka því sem mér er boðið upp á dag hvern. Það hefur ekkert með það að gera að ég njóti ekki veðurblíðu þegar hún býðst, alls ekkert.
Yfir og út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég elska jógað !
Mánudagur, 23. apríl 2012
Já það er ekki ofsögum sagt að ég elska jóga. Frá því ég kynntist því um árið þegar ég var að basla í sálfræðináminu í frekar lélegu formi þá fleytti það mér í gegnum prófin það árið með þvílíkri stóískri ró að það hálfa væri nóg.
Eftir að pabbi dó hjálpaði það mér til að halda hugarró og sættast við lífið og tilveruna.
Svo hægðist á meðan ég gekk með og fæddi börnin mín tvö enda var heilsuleysi frekar ráðandi þá þeim tíma en samt var það alltaf á bak við eyrað. Eitt notaði ég mér í gegnum það tímabil og það var slökunin og öndunin. Ég reyndi samt að gera það sem ég gat af æfingum. Viðaði að mér videospólum, geisladiskum og bókum og iðkaði eftir getu.
Svo kvisaðist það út að ég væri að gera jóga og ég var beðin um að kenna konunum sem voru í leikfiminni hér jóga. OMG, ég vissi ekki hvað ég var að fara að gera en kenndi alveg ljómandi góða jógatíma um 2-3 ára skeið áður en tækifærið kom og ég fór í jógakennaranám. Það var toppurinn á tilverunni og styrkti mig enn frekar í iðkun og kennslu.
Ég er SVO þakklát fyrir það frábæra fólk, aðallega konur sem hafa fylgt mér í gegnum allan þennan tíma og mæta í sitt jóga viku eftir viku ár eftir ár. Algjörlega frábærar stelpur.
Á vormánuðum datt mér í hug að fara af stað með heitt jóga. Við gerum ákveðna rútínu í 70 mínútur í rúmlega 30° herbergi. Það er ótrúlega dejligt og svitinn drýpur af mannskapnum. Allar eru þær með og komust færri að en vildu og þó bætti ég við einu litlu aukanámskeiði.
Alla jógadaga sem ég fer að kenna hlakka ég til allan daginn og hugsa um jóga síðustu tímana fyrir kennslu. Ef allir væru svona ánægðir með að fara í vinnuna sína. En þegar vinnan er áhugamálið þá finnst manni það ekki vinna. Bara dásamlegt !
Andið djúpt, slakið á og njótið lífsins !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mér þykir mjólkin góð.... en
Laugardagur, 14. apríl 2012
Mallinn samþykkir hana ekki. Bakfæðihlutinn vill ekkert af henni vita og magnar upp óþægindi sem yfirleitt er best að vera laus við.
Hér á bæ hefur verið farið í nokkra hringi í þessum málum því mér þykir Formúlu1 sjeikinn minn bestur í mjólk og ég innbyrði yfirleitt tvo á dag.
Sojamjólkin var lengi inni hjá mér. Svo fannst mér hún svo dýr að ég fór að búa hana til sjálf. Það svar svolítill drullumallartími OMG og mér fannst hún frekar tómleg þó ég léti í hana smá hunang til að sæta. Það vantaði alltaf botninn einhvern veginn.
Ég prófaði hrísmjólk og mér þykir hún ekki góð, væmin og vond.
En þá datt ég niður á ágætis lausn, haframjólk. Hún er bara nokkuð góð og hafrarnir að sjálfsögðu meinhollir. Hún fæst í Bónus á Egilsstöðum og ég keypti bara eina til prufu þegar ég var þar síðast og það er drjúg stund síðan svo hún er búin blessunin.
Googlarinn ég fann uppskrift af haframjólk og mér varð hugsað til sojamjólkurgerðarinnar þegar ég las aðferðina en sá nú samt að þetta yrði minna mál.
Já heilir hafrar, þeir eru ekki til í Krónunni, kannski í Nettó eða Bónus á Egs. svo sú framkvæmd verður að bíða þar til ég get viðað að mér hráefninu.
Ég datt niður á þá einföldu leið að mixa bara tröllahafra í vatni og blanda svo Formúlunni út í og þeim ávöxtum sem mig langar í. Það er bara nokkuð gott, ekki alveg eins fylling og í haframjólkinni sem ég keypti en það er í góðu lagi.
Þetta líkar mallanum vel og þegar ég bæti líka dass af byggflögum þá er fullkomnun næstum náð. Ég ætla að fikra mig áfram við þessa mjólkurgerð.
Samt sit ég hér og sötra sjeikinn minn í þessum skrifuðum orðum blandaðan í Sojamjólk og dass af undanrennu. Ég vel bara að hlusta ekki á mallakútinn í dag en þess fullviss að ég vil ekki snúa mér aftur að sojamjólkinni.
Hafið það gjörsamlega eins og þið viljið og drekkið það sem er gott fyrir ykkur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Frábært" tilboð.
Þriðjudagur, 20. mars 2012
Í dag fékk ég flottan pésa frá Iceland Express sem býðu upp á flug beint milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar. Þetta er gert til að bjóða okkur "eins hagstæð kjör og hægt er í millilandaflugi án þess kostnað sem fylgir því að ferðast fyrst til Keflavíkur".
Að gamni athugaði ég hvað það kostaði mig að fljúga frá Egs til Kph á ákveðnum dagsetningum og talan hljóðaði upp á 53.800, ok, og frá Kef til Kph á sömu dagsetningum 37.558 með sköttum og alles. Mismunurinn 16.242. Ég get fengið flug suður á 13.630 þessa sömu daga. Þá á ég reyndar bara eftir 2612 krónur til að koma mér til Keflavíkur.
Þó vissulega það sé mikil hagræðing tímalega í að komast beint frá Egs og út en er þetta ekki mikið hagkvæmara peningalega. Auðvitað er óskandi að millilandaflug færist meira til Egilsstaða í framtíðinni og geti orðið okkur hagkvæmara. Ef við nýtum þetta ekki vel verður auðvitað ekki framhald. Eigum við þá bara að borga meira og vera sátt í þeirri von að það verði hagkvæmara?
Það er spurningin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áfram í nostalgíu....
Sunnudagur, 26. febrúar 2012
Áfram held ég í nostalgíunni og er komin aðeins framar í tímann. Hér er smá sýnishorn af þeim systkinum sem eru teknar 2002- 2003.
Næst eru það Frikki og Eyþór í réttunum.
Svo eru það nærbuxnafyrirsæturnar. Það var mikið búið að bregða á leik í hákojunum á Leynimel.
Kjánaprik eða "Pjánapik" eins og Dýrunn kallaði hann var ósköp stutt hjá okkur. Þessi yndislegi kisi hljóp fyrir bíl og endaði þar líf sitt aðeins tæplega sex mánaða gamall. Það var mikil sorg á heimilinu enda var hann einstaklega vandaður, ljúfur og góður.
Dýrunn og "Pjánapik" voru líka góðir vinir.
Snemma beygist krókurinn og Dýrunn byrjaði fljótt að hafa áhuga á bakstri og matseld.
Við fórum oft í Nýgræðinginn meðan við bjuggum á Leynimelnum. Þetta voru heilmiklar ævintýraferðir og gott að setjast niður í skóginum, hvíla lúin bein og fá sér nesti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góðar minningar !
Fimmtudagur, 23. febrúar 2012
Þó ég velji það að lifa í núinu og vinni í því statt og stöðugt að láta ekki fortíðardrauga draga mig niður, hvað þá áhyggjur af því sem ekki er komið þá þykir mér ljúft á stundum að ylja mér við góðar minningar.
Ein af þeim er Noregsferðin sem ég fór með mömmu, pabba, Sóla, Áslaugu og góðu vinafólki þegar ég var sex ára.
Siglingin með gamla Smyrli var þvílíkt ævintýri. Mér þótti lítið til Færeyja koma enda var þar þokusuddi og rigning auk þess sem máfsskratta tókst næstum því að skíta á hausinn á mér. Það þótti mér mjög móðgandi.
Aksturinn um Noreg í hitanum, syngjandi Mannakorn í aftursætinu, að busla í stöðuvötnum og sjó, snæða nesti utan í vegkanti og drekka Sóló, tína jarðarber á jarðarberjaakri, klappa froski og leika við Trixí labrador hjá fólki þar sem við tjölduðum, sjá konungshöllina í Osló, fara upp í Hollmenkollen, upp á Flöjen (vantar rétta ö-ið) í Bergen, sjá tröll Norðmanna, keyra í gegnum jarðgöng, upplifa ótrúlegustu rigningu og hita og sól sem ég hafði aldrei upplifað áður.
Ég var bara sex ára og auðvitað eru minningarnar mikið tengdar þeim myndum sem voru teknar. Þetta eru skamt skýrar minningar og einar af þeim allra bestu í bankanum mínum.
Ég man líka ýmislegt sem ekki var fest á filmu eins og hvað leðursætin í Peugot-inum okkar voru brennandi heit, smá árekstra á milli okkar Sólmundar þar sem ég fékk skammir fyrir og hvað mér þótti ógeðfellt að pissa í klósettið í sumarbústaðnum á fjallinu með engu vatni en sagi í staðinn. Merkilegt þótti mér þegar íslenski fáninn var dreginn að hún í bústaðnum á fjallinu og blakti meðan við dvöldum þar o.s.frv. Ég missti næstum augun á einu tjaldstæðinu þegar rauðhærð kona kom inn á klósettið í baðslopp, smellti sér svo úr honum, stóð kviknakin fyrir framan spegilinn og þvoði sér. Þetta hafði ég aldrei séð áður og fór alveg í flækju.
Ég man líka hvað ég hlakkaði til að koma heim og fara að hjóla. Ég var nýbúin að læra að hjóla þegar við fórum út og þörfin orðin mikil eftir þriggja vikna pásu.
Sigurjón og Stína sitja nú við að skanna inn slidesmyndir frá mömmu og pabba og kann ég þeim miklar þakkir fyrir það.
Þessi hér sem ég hafði ekki séð í meira en áratug kveikti á miklu úr minningabankanum. Ég man svo vel hvað steinarnir voru heitir og við vorum gjörsamlega að bráðna úr hita.
Góður ylur af þessari minningu og mikið er ég lánsöm og þakklát að góðu minningarnar úr minni æsku eru langt um fleiri en þær erfiðu. Það eru ekki allir svo heppnir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bóndadagur taka fjögur......
Fimmtudagur, 19. janúar 2012
Vá þetta ætlar að verða erfið fæðing. Ég er búin að gera nokkrar tilraunir við að skeyta Word skjali inn í textann á færslunni sem ég var að skrifa en alltaf hverfur hún.
Ég er í nokkrum útgáfum búin að endurskrifa hvað ég er veik fyrir hákarli, að ég ætli að elda lasange á morgun fyrir bóndann minn og annað heimilisfólk og að ég hafi rekist á þessa uppskrift sem mér þykir spennandi og ég ætla að útfæra eftir innihaldi ísskápsins hjá mér þar sem ég komst ekki í búð á Rfj. í dag.
Þetta var stutta útgáfan og þetta virðist ætla að takst í þetta sinn.
Njótið
Lúxus hollustu lasagna frá Hreyfingu
Uppskriftin er fyrir 8 manns
150g nauta og lambahakk
handfylli spergilkál
6-8 kirsuberjatómatar
5 hvítlauksrif
1 rauðlaukur
2 handfylli spínat
Stór gul paprika, skorin i sneiðar
2 blaðlaukar,skornir í sneiðar og svo til hálfs
3 krukkur Toscana pastasósa (fæst í Krónunni)
nýmalaður svartur pipar
Best á allt Pottagaldrakrydd
Ítölsk hvitlauksblanda Pottagaldrakrydd
rifinn ostur
lasagna blöð
Saxa lauk og hvítlauk og steikja á pönnu með hakki.
Blanda út í spergilkáli, tómötum og blaðlauk, steikja létt í smá stund.
Hella úr 3 krukkum pastasósu saman við. Krydda með salti og pipar.
Láta malla í 5-6 mín.
Setja í ofnfast fat, fyrst lag af grænmetissósunni, lasagne blöð yfir og svo aftur lag af sósu og aftur lasagneblöð og aftur sósu. Raða ofan á papriku og spínati og krydda með Ítölsku hvítlauksblöndunni. Baka í ofni i 25 mín.
Setja rifinn ost yfir og Best á allt krydd og baka í 5 mín í viðbót.
Berið fram með grófu brauði, gjarnan með hvítlauksolíu og ristuðu í ofni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýtt ár !
Miðvikudagur, 4. janúar 2012
Nýtt ár markar alltaf ákveðin tímamót.
Við lítum yfir árið sem var að líða og gerum nokkurs konar úttekt á því hvernig árið var.Svo er litið fram á við og spá í hvernig við viljum hafa næsta ár.
Í nokkur ár hef ég sest niður í kringum áramót og sett mér markmið fyrir nýja árið. Stundum geri ég það í lok árs, stundum er hitt árið aðeins byrjað en það kemur ekki að sök, bara það að setjast niður og láta hugann flæða og setja orkuna af stað.
Svo skoða ég markmið síðasta árs, sum náðust fljótt, sum alls ekki og á öðrum missti ég áhuga á miðri leið og breytti um stefnu.
Mér hefur aldrei tekist að vera dugleg að endurskrifa markmiðin eða vera með þau í sífelldri endurskoðun en þegar upp er staðið er ég yfirleitt sátt við árið mitt.
Ég er mjög sátt við árið 2011. Það var mér og fjölskyldunni gjöfult í góðum samverustundum hér heima og út um víðan völl. Við fengum lítinn gullmola í fjölskylduna og fengum nýtt hlutverk sem afi og amma, bara dásamlegt. Allir voru nokkuð hraustir og engin meiriháttar áföll dundu á okkur.
Þessi atriði eru mér mjög dýrmæt og vega þungt. Ég er þess fullviss að árið sem er nýbyrjað verði rosalega gjöfult.
Ártalið eitt og sér ber það með sér, 2012, tólf, ég er fædd tólfta feb. og hef alltaf haft þessa tölu sem eina af minni uppáhalds.
Þetta verður fjölskylduár og við ætlum að þeysast um víðan völl á fótboltamót með gamla tjaldið í skottinu þar sem tjaldvagn eða einhvers konar hýsi er ekki enn komið á fjárlögin, dytta að húsinu áður en það hrynur, ganga á nokkur fjöll, taka til hendinni í Fögruhlíð og njóta þess að vera til sama hvað tilveran býður upp á. Ég ætla að hafa árið 2012 nákvæmlega eins og ég vil hafa það.
Gleðilegt ár !!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jólakveðjan árið 2011
Miðvikudagur, 14. desember 2011
Ritað í Jóla(Hóla)landi 18 um miðja aðventu 2011
Þegar aðventan er rúmlega hálfnuð sér húsfreyjan í Hólalandinu að ekki verði lengur beðið með að koma jólapistlinum á prent svo hann berist til flestra áður en jólin verða liðin. Árið 2011 hefur leikið okkur blíðum höndum og engar stórfenglegar breytingar orðið á okkar högum.
Börnin stækka eins og þeim sé borgað fyrir það og miðað við hraðann eru þau á góðu tímakaupi. Dýrunn er orðin svotil jafn há Friðrik þó eitt og hálft ár skilji á milli og hann réttlætir það með því að stelpur byrji oft á undan strákum að stækka.
Mjög margt hefur á daga okkar drifið og nokkuð ljóst að það er sjaldan lognmolla á okkar vígstöðvum og alltaf eitthvað framundan. Börnin stunda námið sitt vel og standa vel á þeim vígstöðvum. Þau stunda sitt hljóðfæranám, Dýrunn á píanó og Friðrik á gítar (grípur í bassa ef á þarf að halda í skólahljómsveitum). Í þessum töluðu orðum eru bara tveir tímar í jólatónleika tónlistarskólans og þar spreytir Friðrik sig í sjö tónlistaratriðum, einn og með hljómsveitum (gítar, bassi + söngur). Dýrunn spilar þrjú lög og hefur æft mikið síðustu daga. Hún komst nefnilega að því að tónlistarnámið er skemmtilegra ef maður æfir sig reglulega.
Um tíma var þetta nefnilega svolítið stríð. Í fyrra var sagt frá fótboltaiðkun Friðriks og hún er enn á sínum stað. Hann er núna kominn í fjórða flokk og gengur vel. Dýrunn ákvað í upphafi árs að prófa að fara á fótboltaæfingar og líkar vel. Þar sem sameiginlegar æfingar fara fram á Reyðarfirði var sett inn aukaferð með skvísurnar því fleiri tóku þessa ákvörðun. Nú þegar þannig gerist þá bætast fleiri mót við svo sumarið helgaðist örlítið af fótbolta. Það var bara ljómandi gaman og algjör einhugur beggja foreldra að fylgja þeim sem frekast er unnt. Friðrik er reyndar orðinn svo stór að næsta sumar fer hann einn með hópnum þvert og endilangt. Fótboltaiðkun Dýrunnar hefur verið ágætis ákveðniþjálfun fyrir hana.
Í byrjun júní fengum við okkur góðan rúnt, fyrst til Reykjavíkur (já já, við komum ekki í heimsókn), gistum tvær nætur og héldum svo vestur til Þingeyrar. Þar fór fram ferming Agnesar hans Sóla bróður og dvöldum við í litlum bústað með Sóla og fjölskyldu og mömmu. Þetta var mjög ljúft. Þaðan var brunað til Akureyrar og 17. júní fagnað í 4°C áður en heim var haldið.
Það var meira á döfinni en fótbolti. Friðrik og Dýrunn kepptu á Sumarhátíð ÚÍA og það var mjög skemmtilegt að vanda. Þar kviknaði enn meiri áhugi Friðriks á frjálsum svo hann keppti líka á Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Það var ekki síður skemmtilegt og allir sammála um að stefna á Selfoss að ári og þá verður Dýrunn orðin nógu gömul til að keppa líka.
Jobbi karlinn skellti sér á þjálfaranámskeið snemma á árinu og tók hluta nr. tvö núna um daginn. Hann sótti síðan um að fá að þjálfa flokkinn hennar Dýrunnar á Rfj. og fékk það. Hann er hvort sem er bundinn yfir honum og býður sig yfirleitt fram sem liðsstjóra. Þjálfunin gengur bara vel og dóttirin nokkuð sátt við pápa sinn. Hann er enn hjá Eimskip og situr svo í hinum ýmsum nefndum og ráðum út og suður. Kannski þykir honum svona leiðinlegt heima hjá sér 
Frúin útskrifaðist sem fullgildur kennari á grunn og framhaldsskólastigi á vordögum og nú er sko annar bragur á kennslunni hjá kerlu. Hún situr áfram í Barnavernd Fjarðabyggðar og í stjórn Krabbameinsfélags Austfjarða. Jógað er á sínum stað 2x í viku. Aðeins hefur hún verið rólegri að þeysast varðandi Herbalife árinu en heldur ákveðnum grunn og er dyggur neytandi ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum.
Kisan Sóla er komin á níunda ár og verður heimakærari með aldrinum. Hún er spræk og ótrúlegur leikur í henni þrátt fyrir háan aldur.
Við syngjum enn í kirkjukórnum og nú um jól og aðventu er meira um að vera og það er bara skemmtilegt .
EN hæst ber að nefna í fréttum að um mitt sumar fengum við hjónakornin nýtt hlutverk  þegar Halla og Árni eignuðust sitt fyrsta barn. Jobbi afi var við það að springa úr monti þegar sú stutta kom í heiminn og ekki dónalegt að vera komin með nýjan titil Jobbi afi og Solla amma. Við brunuðum Norður og voru viðstödd skírnina þar sem hún fékk sitt fallega nafn Helena Emma.
Hún ber að sjálfsögðu af öðrum börnum hvað fegurð og annað atgervi varðar og ég held að hún verði óvenju skýr enda hefur hún ekki langt að sækja það.
Litla fjölskyldan býr í Þýskalandi og í september lögðum við land undir fót og heimsóttum þau. Það var mjög ljúft og dásamlegt að komast í hlýjuna eftir kuldann hér heima. Afinn og amman skelltu sér svo í smá upplyftingu í Barcelona meðan börnin dvöldu hjá Höllu og co. og í Barcelona hlóðum við Herbalife batteríin á skemmtilegri ráðstefnu. Það var hlýtt í Þýskalandi en við byrjuðum fyrst að svitna í Barcelona.
Þá hefur verið stiklað á mjög stóru yfir afrek ársins og heilmiklu sleppt úr samt.
Megið þið öll eiga yndisleg jól og njóta gæfu og velgengni á nýju ári. Knús á línuna >>>>>>>>> Solla, Jósef, Friðrik og Dýrunn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Goth og Imo, ekki alveg viss með stafsetninguna.
Laugardagur, 5. nóvember 2011
Í gær kemur Dýrunn til mín og segir "Mamma, ég get ekki notað fötin sem ég var búin að finna fyrir öskubusku hlutverkið á árshátíðinni". "Nú" svara ég auðvitað (því það fór bara eitt kvöld í að máta hinar og þessar útfærslurnar af dressi). "Sko, hún á nefnilega að vera svona goth". "Já" svarar mamma gamla "og hvað er það??", "nú það er svona Imo", "Já" svara ég engu nær og finnst ég bara vera stödd á plánetu þar sem ég skil ekki tungumálið.
Þetta er svona í fyrsta og væntanlega ekki eina skiptið sem "unglingurinn" (sem nota bene er tíu ára) lítur á mömmu sína sem forngrip sem veit ekki neitt. "Sko, Björgvin (umsjónarkennarinn hennar), hann veit sko allt um þetta". Já frábært og nú er sú stutta búin að finna búning sem passar við goth útlit, ekki fær hún reyndar að setja í sig lokka og svoleiðis, né lita hárið svart, nema með spreyi sem næst úr. Þó ég sé forngripur er ég búin að googla goth og sjá hvernig þannig mannverur líta út.
Hér er ein útgáfan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)