Færsluflokkur: Bloggar
Maður er manns gaman !
Laugardagur, 16. júlí 2011
"Bæjarhátíð" okkar er í fullum gangi og hefur fjölskyldan tekið þátt í nokkrum viðburðum. Fórum á pizzahlaðborð, tónleika og Frikki skellti sér á brunch á Kaffi Steini.
Tónleikarnir á Kaffi Steini í gærkvöld voru mjög fínir. Karl Hallgrímsson nokkur spilaði þar á gítar, munnhörpur og söng og þetta var hin notalegasta stund. Við ákváðum að fara til að sýna lit þó við þekktum ekkert til kappans. Sex aðrar mannverur ákváðu að gera slíkt hið sama og urðu ekki fyrir vonbrigðum frekar en við. Ég keypti diskinn og eftir fyrsta rennsli er ég mjög sátt. Við skiluðum inn afurðum á rabarbarakeppnina og vorum fyrst með okkar afurð. Ég skelli mynd af henni hér og í þessum skrifuðu orðum er dómnefndin að kjamsa á annað hvort rabarbara vöfflunni okkar eða sultunni góðu og vonandi hafa fleiri en við skilað inn svo við fáum einhverja keppni.
Við eigum eftir að fara á rabarbarasmakkið í Vinaminni sem er sívinsælt og frábært framtak og krakkarnir ætla að skella sér til sunds á Öldunni á eftir. Gigtin mín er ekki til í sjósund í dag, ég prófaði í fyrra og það var gaman en ekki eitthvað sem ég sé mig í í framtíðinni.
Mín skoðun er sú að þó að þetta eigi að vera að frumkvæði heimamanna og dittinn og dattinn og ekki eigi að leggja í fundarhöld og skipulagningu þá þurfi einhverjar nokkrar hendur til að kalla eftir hugmyndum og atriðum, hvetja heimamenn til að skreyta hús sín og taka þátt svo þetta verði skemmtilegra og jafnvel að senda út sameiginlega dagskrá. Það þarf ekki að kosta neitt og ég er til í að leggja mitt af mörkum. Ég guggnaði annað árið í röð að auglýsa jóga á Balanum í morgunsárið en mæti þó á flesta viðburðina sem hafa verið auglýstir. Býð kannski bara upp á súpu að ári að Dalvískum sið eða ákveð að vera annars staðar......
Yfir og út............. vafflan er nokkuð hugguleg og ljómandi bragðgóð Dýrunn er alveg viss um að við vinnum til verðlauna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sú var tíðin...
Mánudagur, 11. júlí 2011
... að gula röðin á Sumarhátíð ÚÍA sló öllum öðrum röðum út í skrúðgöngunni. Allir sem vettlingi gátu valdið skelltu sér í skrúðgönguna, ungir sem aldnir. Keppendur okkar voru margir og mikil stemmning. Fólk mætti snemma á föstudegi til að tjalda á rétta staðnum og það var ótrúlega spennandi að versla í stóra hvíta tjaldinu.
Í ár kepptu fjórir fulltrúar Súlunnar á Sumarhátíð, þrír komu heim með verðlaunapening og sá yngsti þátttökupening.
Allt veltur þetta á dugnaði foreldra barnanna og forsvarsmanna ungmennafélagsins. Þegar mesta gróskan var hér unnu ákveðnir foreldrar lon og don við að halda þessu starfi gangandi. Það skilaði heilmiklum árangri og ánægjulegt er að sjá að þeir einstaklingar sem voru framarlega á unga aldri hafa hvatt börnin sín áfram og það sást á áragrinum. Lillý með dömurnar sínar á Egs, Dandý með sína dömu, strákarnir hennar Hrefnu, Rósa Guðný með gaurana sína í boltanum, stelpurnar hennar Halldóru Bjarkar og Dóra kom frá Djúpavogi með sína stráka og fríðan hóp keppanda enda öflugt starf þar í gangi hjá Neista.
Ég vona að við getum náð upp stemmningu hér hjá krökkunum okkar og þó það verði aldrei aftur eins og í "gamla daga" þá er þetta svo skemmtilegt og fyllilega þess virði meðan krakkarnir hafa gaman af. Þó maður þurfi að norpa í áhorfendastúkunni í nokkurra gráðu hita er það bara gaman því allir eru glaðir og ánægðir og að hvetja krakkana áfram. Forvörnin felst ekki bara í því að stunda íþróttirnar heldur að hafa stuðning foreldranna í því líka. Flestir þessara ofantöldu foreldra stóðu vaktina alla helgina og mældu, skráðu, tóku tíma og gerðu það sem gera þurfti til að dæmið gengi upp. Jósef sá um okkar hluta og var í skráningu báða hlutana og ég sinnti börnunum.
Áfram Súlan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Júnímánuður
Mánudagur, 4. júlí 2011
Já tíminn líður trúðu mér. Allt í einu er kominn júlí og kerlan ekkert staðið við fögur fyrirheit í skrifum. Júní hefur svo sannarlega verið annasamur og familían heldur betur á faraldsfæti.
Fyrst ber að nefna rúnt fjölskyldunnar til Rvk. og þaðan til Þingeyrar og svo til Akureyrar. Í Reykjavík stöldruðum við einn dag og afrekuðum að fara á Hamborgarafabrikkuna og snæða gómsæta borgara þar. Dýrunn vildi komast í búðir og henni dugði að fara í Hagkaup í Smáralind þar sem hún keypti sé leggins og sokka. Annað fannst henni of dýrt.
Við brunuðum til Þingeyrar í samfloti með Sóla, Hafdísi, Petreu Mist, mömmu og Hildi. Fallegt er á vestfjörðum en mikið skelfing eru firðirnir langir maður lifandi. Samt er búið að þvera einn fjörð og malbika síðan ég fór Djúpið síðast. Við dvöldum öll saman í notalegum sumarbústað og á hvítasunnudag fermdist Agnes. Flott og falleg var hún skvísan og veislan á eftir mjög góð, með mat eldaðan á marukka pönnum (veit ekki alveg hvort heitið er rétt) og að sjálfsögðu stóðu allir á blístri. Við vorum í rólegheitum á mánudag og keyrðum svo í átt til Akureyrar á þriðjudag. Öll fyrirheit um göngur okkar Friðriks urðu að engu því lofthiti var mjög lár og hryssingslegt veður. Við komumst til Akureyrar og dvöldum þar í nokkra daga, eiginlega að gera ekki neitt. Krakkarnir skoðuðu herlegheitin niðri í bæ á 17. júní en ég valdi að vera innandyra enda heilar 5 gráður á mælinum um miðjan dag.
Heim komum við á sunnudegi og vikuna 20.-23. vann ég á salthúsmarkaðnum. Ákvað að sýna smá samfélagslega samheldni og legg mitt af mörkum í nokkra daga í sumar. Föstudaginn 24. skelltum við krakkarnir okkur í skemmtilega göngu um Kambanesið í leiðsögn Söru með góðum hóp. Dýrunn keppti svo á fótboltamóti í Fellabæ á lau og sun og dvöldum við í Fögruhlíð aðfararnótt laugardags. Það var mikið fjör þó það væri svolítið svalt. Sem betur fer kom rigningin ekki fyrr en í síðasta leik dömunnar.
Þrjá daga höfðum við svo heima og þá var þvotturinn þveginn sem aldrei fyrr og snemma á miðvikudagsmorgun þann 29. brunuðum við til Akureyrar á N1 mót hjá Friðrik. Öllum vetrarfatnaði var pakkað niður en öllum að óvörum kom sumar og sól og allir voru vel útiteknir eða með netta bóndabrúnku eftir mótið. Ég var búin að útvega mér forláta regnkápu sem ég þurfti svo ekkert að nota. Well, sumarhátíðin verður um næstu helgi og hún fer alveg örugglega með í þá ferð og kraftgallinn svo veðrið verði skaplegt.
Orkan fór mest í N1 mótið, Dýrunn dvaldi hjá Eddu sinni og ég skellti mér á skrall með Dóru svilkonu og tveimur vinkonum úr kennsluréttindanáminu á laugardagskvöld. Við snæddum saman góðan mat, drukkum góð vín með og höfðum það notalegt í heita pottinum.
Árangur mótsins var mjög ásættanlegur og ánægjulegra að horfa á gaurana keppa við verðuga andstæðinga í stað þess að vera jarðaðir í hverjum leik eftir annan eins og oft áður. Frikka lið lenti í 5. sæti. D liðið okkar hreppti gull og það var þvílík adrenalínbomba allan leikinn og svo vító þegar Fjarðabyggð vann í bráðabana, ó mæ god. Þriðja liðið var frekar neðarlega. Allir skemmtu sér hið besta, liðsheild liðsmanna og foreldra var mjög góð og stemmningin frábær.
Við skelltum okkur loksins í Jarðböðin við Mývatn og dvöldum í þeim í ca klukkutíma. Notalegt, já en ekki 5000 kr virði finnst mér miðað við þrengsli í búningsklefa, volgar sturtur og illa lyktandi klósett sem ég fór á. Ekki séns að versla í teríunni vegna verðlags og þó mannskapurinn væri orðinn svangur brunuðum við í Egs. og snæddum þar.
Já sumarhátíðin um næstu helgi og mér skilst að ormarnir mínir ætli að keppa, einn fótboltadagur hjá Dýrunn í vikunni, æfingar á Reyðarfirði hjá þeim báðum mán og þrið og þrír dagar hjá mér á Salthúsmarkaðnum. Ullarfötin komin í þvott því þar er kalt og rakt. Enginn leti og ómennska, bara gaman.
Skrokksi minn þolir samt ekki alveg svona miklar útivistir, stöður, kulda og vosbúð en gamanið af þessu brasi vegur upp á móti verkjum og ónotum. Göngur eru því á dagskrá til að auka blóðflæðið og koma kerfinu betur í gang.
Nú væri óskandi að þokunni og rakanum létti hér á bæ svo hægt sé að slá grasið og að málararnir hjá mömmu nái að klára að mála húsið hennar.
Yfir og út...
Heima vorum við síðan í
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Annir og appelsínur ... ásamt slow nettenginu
Mánudagur, 30. maí 2011
Já lítið hefur bloggpenninn verið á lofti eiginlega vegna anna og að netið hjá okkur hefur verið herfilega leiðinlegt upp á síðkastið. Þessi blessuðu mál eru flókin, við höfum alltaf verið hjá gamla Símanum, svo vegna þess að Jósef vinnur stundum (á kvöldin og um helgar) heima í tölvunni þá borgar Eimskip fyrir ADSL. Fínt mál nema þá datt allt í einu gagnamagnið sem við getum notað niður í næstum núll og við hverja hreyfingu á netinu eða ef maður lætur sér detta í hug að opna eins og tvö til þrjú You tube myndbönd þá erum við búin með kvótann og þúsundkallarnir birtast á næsta símreikningi. Það var gerð tilraun til að ræða við Símamenn þar sem fyrirtækið borgar fyrir slatta af gagnamagni en nei það er ekki hægt að breyta þessu. Við ákváðum því að prófa það fyrirtæki sem Eimskip er mest hjá og einhver pikkles virðist vera með hraðann. Ég gæti vaskað upp og skúrað eldhúsgólfið meðan nokkrar síður eru að koma inn ef þær koma þá inn. Eitthvað hefur ruglast í sjónvarpsmálunum og heimilið verið án sjónvarps í nokkra daga, ja Ruv og svoleiðis. Flakkarinn fyllir í eyðurnar og ungviðið er sátt meðan það getur horft á gamlar syrpur af Aðþrengdum og How I met your mother. Bóndinn tók að sér að hringja símtalið til að redda málunum og hann gerir það eflaust á þessu ári. Vonandi verð ég ekki búin að reyta restina af hárlufsunum úr af netinu af fyrir þann tíma, mér er slétt sama þó ég hafi ekki sjónvarp.
Svo eru það annirnar. Mikið var um dýrðir í skólanum í síðustu viku á vordögunum. Reyndar riðlaðist dagskráin aðeins og fjallgangan okkar var ekki farin þar sem það snjóaði í fjöll á ný. Í staðinn fórum við í blíðskaparveðri um Gvendarnesið undir tryggri leiðsögn Hrafns í Rjóðri. Myndir frá vordögum er að finna á www.stodvarfjordur.is og þær eru margar og fínar enda heppnaðist þessi vika mjög vel. Við kvöddum 10. bekkinga á föstudag og það féllu nokkur tár við það tilefni enda leiðinlegt að sjá á eftir góðum og skemmtilegum hóp.
Vortónleikar kirkjukórsins voru á laugardag og mætingin var bara flott, töluvert betri en í fyrra þó auðvitað vilji maður sjá fleiri. Um kvöldið snæddum við dýrindis kvöldverð á Kaffi Steini og sungum áfram frameftir kvöldi.
Framundan er óvissuferð með kennurum, söngveislu afmæli á Héraði hjá Torvald á föstudag og á laugardag þreyta Friðrik og Dýrunn frumraun í þríþraut á Eskifirði til styrktar góðu málefni. Meira um það síðar....
Nú verður gerð tilraun til að pósta færslunni....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrsta vika liðin
Fimmtudagur, 19. maí 2011
Jæja, þá er vika liðin frá kirtlatökunni og allt gengur svona glimrandi vel. Gróandinn er mjög góður, dagurinn í gær var sá fyrsti án verkjalyfja svo allt er á uppleið. Enn eru þrír dagar eftir í svokölluðum rólegheitum, það passar til að vordagarnir byrja á mánudag með heilmiklu fjöri. Hún má samt ekki reyna mikið á sig. Dagskráin á vordögum er inni á síðunni www.stodvarfjordur.is sem ég hvet alla til að skoða reglulega til að sjá hvað við erum að brasast í skólanum í máli og myndum.
Ég ásamt Sólrúnu hef umsjón með fjallgöngunni, hvað annað. Ekki að ég hafi verið hér úti um öll fjöll upp á síðkastið og hugurinn meira á ferðinni en fæturnir. Við ætluðum fyrst inn í dal og ganga inn að fossunum en þar er jarðvegurinn mjög blautur svo við ákváðum að fara á Hellufjall (fyrir framan Sauðabólstind). Göngum á milli Vallánna og svo þar upp. Þar snæðum við nesti og þeir sem vilja fara lengra fara niður Sauðabólstind, upp í Lambaskarð og þaðan niður í þorp. Ég hef aldrei farið þessa leið og planið er að fara hana áður en við förum með krakkana, svona til að meta tíma og áhættu . Eins og viðrar í dag er ekki útlit fyrir miklar göngur því fjöllin eru alhvít, já þetta var stutt og sólríkt sumar en svei mér þá ef ég fékk ekki fleiri freknur þetta sumar en í fyrra. Við krossum þó fingur að veðrið verði skaplegt í næstu viku, erfitt að vera með útidagskrá í heila viku ef veðrið er leiðinlegt.
Ég er einnig í undirbúningsnefnd fyrir óvissuferð kennara og skólaliða. Þar er að fæðast skemmtileg dagskrá.
Frikki er enn með hákarlaveikina eftir sundið og er olíuborinn kvölds og morgna og tekur sitt Histasín þegar kláðinn er mjög yfirþyrmandi. Hann tekur þessu með ótrúlegu jafnaðargeði blessaður. Hann stóð sig vel á tónleikum Tónlistarskólans í vikunni að vanda og dagskráin þar var mjög lífleg og skemmtileg.
Prófin eru í fullum gangi, Dýrunn tekur sín próf við eldhúsborðið, stærðfræði og skrift í dag hjá kerlunni. Gott að hafa eitthvað fyrir stafni.
Læt þetta duga í bili...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Meira af kirtlakerlu
Laugardagur, 14. maí 2011
Fyrsta nóttin var eins og gefur að skilja frekar erfið hjá kerlunni. Hún vaknaði ört og fékk sér vatn með Aloe vera. Það var gott því annars hefði hálsinn verið svo þurr ef hún hefði sofið alla nóttina. Erfiðlega gengur að koma ofan í hana því verkjalyfi sem hún fékk uppáskrifað svo ég endaði bara með freyðitöflur. Það er heilmikil athöfn að drekka það og vatnsglas með sem hún skellir í sig á eftir.
Gærdagurinn var bara nokkuð fínn hjá henni. Hún prjónaði og prjónaði og mér fannst hún orðin full spræk um kvöldið. Hún svaf í beit til fjögur, þá var hálsinn þurr og við tók erfiður morgun og þegar hún vaknaði alveg um níuleytið var hún mjög þurr, gat varla talað (sem reynist henni erfitt) og fannst erfitt að borða. Hún er öll að braggast og farin að tímasetja verkjalyfjatökuna svo hún verði í sem bestu standi í kvöld þegar Eurovision fer fram.
Friðrik er nokkuð hugulsamur við systur sína og lánaði henni leikjatölvuna sína í morgun fyrir hálft orð. Hann steyptist allur út í ofnæmi þegar hann fór í sundið og fyrri nótt og dagurinn í gær framan af var erfiður og mikill kláði út um allt. Ég gluðaði á hann Extra virgin olíu rúmum klukkutíma áður en hann fór í sund og hann var ágætur þegar hann kom upp úr. Þetta er svo skrýtið, allt bakið og bringan er eins og skrápur og bringan var töluvert rauð. Lærin líka smá rauð og gróf húð. Hann átti góða nótt í nótt og er fínn í dag.
Ég hins vegar hef verið alveg í rusli það sem af er morgni. Druslaðist loksins í að fara í gegnum nokkra dót og draslkassa í kjallaranum. Rauði krossinn fær sitt í dag það er nokkuð ljóst og einnig ljóst að ég þarf á gámavöllinn því þetta kemst ekki allt fyrir í grænu tunnunni. Þó við Stöðfirðingar komum slakast út varðandi flokkun í Fjarðabyggð veit ég að ég er að skila mínu vel og held því að sjálfsögðu áfram og stefni á að gera enn betur.
Njótið helgarinnar og hafið það súpergott.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kirtlataka og myndataka í göngunum !
Fimmtudagur, 12. maí 2011
Segðu sííííís. Já loksins er búið að taka mynd af mér í göngunum og ég gleymdi að brosa !!!!! En þar sem ég er sérdeilis löghlýðinn borgari eins og þið vitið og fer aldrei upp yfir löglegan hámarkshraða og alls ekki í göngunum þá á ég ekki heiðurinn að þessari myndatöku. Í morguntraffíkinni var einn bílstjórinn aðeins of leiður á að keyra bara á 70 og tók fram úr bílnum á eftir mér og svo mér akkúrat þegar við fórum framhjá myndavélinni. Ég fékk nett adrenalín kikk og snöggreiddist. Svo brunaði ég upp að afturendanum á honum til að ná númerinu. Sá að þetta var bíll merktur Fjarðabyggð svo eftirleikurinn var auðveldur. Jósef fór í málið og bílstjórinn fannst og baðst afsökunar á framferði sínu. Þar sem við þekkjum hann ágætlega verður hann hér eftir nefndur "gangnadólgurinn" og fast skotið næst þegar við hittumst.
Við náðum á sjúkrahúsið akkúrat á mínútunni og mín innbyggða ofurstundvísi var farin að skjálfa því ég vil ekki koma á mínútunni heldur aðeins fyrir áætlaðan tíma. Nú svo tók auðvitað við bið í um klukkutíma svo ég hefði ekki þurft að stressast neitt. Það var eitt tveggja ára Séð og heyrt blað á biðstofunni og þriggja ára Nýtt líf eða eitthvað svoleiðis ásamt misöldruðum bæklingum. Ég fræddist heilmikið.
Þegar loksins kom að dömunni var henni skverað inn á skurðstofu og svæfð med det samme. Ég varð auðvitað að fara út þegar hún var sofnuð og ég fullvissuð um að hún væri í mjög færum og góðum höndum. Sem ég auðvitað vissi og ég fékk ekki neitt róandi.
Ég var svo sniðug að taka prjónana með mér og var rétt búin með þrjá eða fjóra hringi í munstrinu á erminni (á ermunum sem ég er að prjóna) þegar læknirinn kom og sagði að aðgerðin væri búin og allt hefði gengið vel. Kirtlarnir voru ekki stórir þannig að skurðurinn var ekki mjög djúpur. Það tók hana smá stund að vakna en hún varð fljótt hress, hafði fengið lyf við velgjunni að minni beiðni svo henni var ekkert óglatt.
Við fengum síðan að fara heim á leið upp úr þrjú og þá var að sjálfsögðu fyrsti ísinn keyptur. Þvílíkt sældarlíf, ég keypti svo meira í Krónunni og tók út verkjalyfið sem hún á að fá næstu daga.
Hún er nokkuð hress en við taka rólegheit og Aloe vera í vatni næstu 10 daga og enginn hamagangur næstu tvær vikur. Hún getur því ekki tekið þátt í ýmsu á vordögunum t.d. Balahlaupinu og verður að fara varlega í skógræktarvinnunni. Hún missir af einu fótboltamóti, að spila á vortónleikunum, en svona er þetta og þegar upp er staðið þá verða lífsgæðin væntanlega meiri þegar hún verður búin að jafna sig.
Yfir og út...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kirtlar
Miðvikudagur, 11. maí 2011
Loksins fer Dýrunn í langþráða kirtlatöku á morgun. Þessar elsku hafa verið að gera henni lífið leitt lengi lengi lengi, næstum eins lengi og elstu menn muna. Í það minnsta eins lengi og hún man. En meðan ekki eru þrálátar sýkingar og tilheyrandi sýklalyfjagjafir hika þeir við að taka þá. Frekar hefur hún mátt búa við stöðugar hálsbólgur, verki í kirtlunum, verki í eyrum og höfði. Eiginlega aðdáunarvert hversu mikið langlundargeð þessi elska hefur sýnt í þessu ferli. Loksins tók doksi þá ákvörðun að taka kirtlana og þá tók við kvíðatímabil hjá móðurinni. Ég man hvað það var erfið tilfinning að skilja við hana sofandi á skurðstofunni þegar nefkirtlarnir voru teknir um árið og ég þurfti að bíða í stofu langt í burtu meðan aðgerðin fór fram.
Ég trúi og treysti að þetta gangi allt saman mjög vel og það létti af henni þessari blessaðri kirtlaánauð. Það fylgja því nú nóg óþægindi að stækka eins og manneskjan gerir, skellti sér upp í tvö staðalfrávik frá miðlínu í hæð á þessu ári og það segir vel til sín í skrokknum og komin í skóstærð 38, stutt í að hún fari að stela skónum mínum, eða ég hennar :). Það tók nú alveg steininn úr þegar ég keypti fótboltaskó á Friðrik og hann var kominn í skóstærð 40. Common, hann er ellefu ára, ó mæ ómæ, það munar um heilan verðflokk líka. Spurning um að koma honum í aukavinnu til að hafa pening í allt propsið sem fylgir boltanum.
Já þau stækka þessar elskur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggpælingar !
Mánudagur, 9. maí 2011
Eins og flestir vita hefur þessi blessaða síða mestmegnis verið notuð til að koma jólapilstlinum á framfæri síðustu tvö ár. Gerð var máttlaus tilraun til að hefja blogg á ný en neistinn kviknaði ekki aftur og ég komst ekki í gang. Ég hef þó verið að spá í að skella hugleiðingum mínum aftur inn og í morgun áttaði ég mér á því hvað bloggið mitt er í raun mikil heimild um okkar líf. Dýrunn var að googla eitthvað og lenti inn á bloggið og las þar eitthvað sem ég hafði skrifað þegar hún var í fyrsta bekk. Þetta þótti henni svo gaman að lesa að ég fór að spá hvort það væri ekki bara kominn tími á að skella sér í gang. En þá ákvað ég um leið að gefa útvöldum vinum og ættingjum aðgang að síðunni ef þeir hefðu áhuga, ég ætla sem sagt að læsa henni.
Svo er að sjá hvernig gengur að koma sér í gang aftur.
Knús og kveðjur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Jólapistill 2010
Föstudagur, 17. desember 2010
Heil og sæl á aðventu á því herrans ári 2010
Þá er frúin sest við skriftir enda búin að skrifa á jólakortin sem fóru póstleiðina þetta árið að jólapistillinn biði hér. Árið sem er að líða var viðburðaríkt að venju og ótrúlega fljótt að líða líka. Ég veit að fleiri kannast við þá tilfinningu.
Í upphafi árs skelltu hjónakornin sér til höfuðborgarinnar og fögnuðu með Herbalife á Íslandi í galapartýi á Hótel Borg góðum árangri ársins á undan. Við fögnuðum líka 90 ára afmæli Friðriks í sama mánuði á Akureyri.
Kerlan vann sér inn flugferð hjá Herbalife og brá sér til Noregs í byrjun febrúar og átti þar góða þjálfunarhelgi með samstarfsfólki. Stuttu síðar skreið sama kerling upp á fimmtugsaldurinn og hélt upp á það með pompi og prakt í flottum "veislusal" sem eitt sinn var fiskvinnslusalur. Þar mætti margt fólk og það var fjör fram eftir nóttu. Fyrir afmælispening keypti kerlan sér gönguskó og innanundirfatnað til að vera klár fyrir fjöll sumarsins.
Stuttu síðar kom afmælisdagur Dýrunnar og hún þá orðin níu ára. Henni liggur aðeins á að stækka þessari elsku og það segir stundum til sín í skrokknum.
Í upphafi sumars fóru hjónin á bænum til Kanada með samstarfsfólki í grunnskólanum hér og á Fáskrúðsfirði. Fleiri skólar voru með í för. Leiðin lá til Winnipeg og þar skoðuðum við skóla og ýmislegt fleira. Við fórum í tvær dagsferðir, aðra til Gimli og Hecla Island og svo til Norður Dakóda. Hvor um sig var mjög góð. Það var virkilega gaman að koma á þessar slóðir og fá fræðslu um líf Íslendinga þegar þeir voru að nema þar land. Það var ekki alltaf dans á rósum. Börnin voru í góðu yfirlæti hjá ættmennum, Dýrunn á Akureyri og Friðrik á Stf. Fótboltaprógrammið hjá honum var stíft og hann komst ekki frá. Dýrunn skellti sér í hjólatúr með frænku sinni sem endaði uppi á spítala og út kom hún með sjö spor í hökunni. Ætlaði aldrei aftur að hjóla en gleymdi því svo sem betur fer.
Í gönguvikunni í Fjarðabyggð var stefnan að ganga á fjöllin fimm. Stundum fer eitthvað öðruvísi en ætlað er og tvö urðu útundan þetta árið. Dýrunn kom með á Svartafell og við Friðrik örkuðum á Goðaborg í Norðfirði og Kistufell í Reyðarfirði. Þar var þoka mikil og hálfgerð slydda og varð móðirin hrædd um að sonurinn yrði úti þarna á fjallinu því honum var svo kalt og ekki gátum við farið á undan niður, svo mikil var þokan. Á myndinni sést hvar við Gurra reynum að skýla honum á milli okkar. Þegar niður var komið var kuldinn fljótt gleymdur og þetta hið mesta ævintýri. Þó kerlan hafi ekki farið á öll fimm í þessari lotu átti hún fjögur inni frá því í fyrra og fær því viðurkenningu fyrir það og Friðrik með sín þrjú fjöll. Við erum því komin með titilinn "Fjallagarpar Fjarðabyggðar". Ekki slæmt. Á næsta ári stefnir Dýrunn á að koma með okkur á Hádegisfjall. Við ætlum að æfa okkur á minni fjöllum meðan hún nær upp þoli og styrk. Friðrik er eins og fjallageit og þetta liggur aðeins betur fyrir honum en þeirri "gömlu"(mömmunni). Einhverra hluta vegna hefur ekki tekist að vekja upp áhuga bóndans á fjallgöngum en maður veit aldrei hvað gerist. Það eru mörg fjöll komin á markmiðalistann fyrir næsta ár hjá Friðrik og ljóst að móðirin þarf að vinna í að halda forminu góðu............ nú og á framtíðar framtíðar plönunum hans eru það Kilmanjaro og Everest. Ég held ég passi á Everest, hitt gæti gengið.
Í júní dvaldi fjölskyldan í nokkra daga á Akureyri. Friðrik keppti á N1 mótinu í fyrsta skipti. Það gekk svona upp og ofan en aðallega niður á við. Þeir áttu þó góða spretti og voru með sterkan stuðningsmannahóp foreldra sem voru samt mjög prúðir. Við héldum líka upp á áttræðisafmæli Dýrunnar og 90 ára afmæli Friðriks í annað sinn. Þar var mikið fjör. Barnabörnin spiluðu saman á hljóðfærin sín eitt af uppáhalds lagi afa gamla og svo var sungið og trallað fram á rauða nótt.
Í júlí skellti kerlan sér í þriðju utanlandsferðina á þessu ári. Það var að sjálfsögðu Herbalifeferð og í þetta sinn fór með henni hópur af spenntum dreifingaraðilum sem í framhaldinu gaf af sér vöxt í viðskiptunum hérlendis og erlendis. Stokkhólmur var staðurinn og ráðstefnan í Globen. Við vorum tvær saman sem gistum hjá vinkonu minni og þar sem stoppið var stutt og pökkuð dagskrá alla daga sáum við lítið af borginni. Eina HM búð heimsóttum við í miðbænum en ekki mikið meira en út um lestargluggana sáum við fallegt landslag.
Í byrjun ágúst keppti Friðrik á Króksmóti og líklega í síðasta skipti. Þetta var okkar fjórða Króksmót og ljúft að venju. Gráni gamli fékk ekki að fara í fleiri ferðalög og bíður þess að enda í brotajárni. Við vorum svo heppin að Sjonni bróðir og Stína lánuðu okkur vagninn sinn og við vorum eins og blóm í eggi þessa helgi. Þetta var eina útilega sumarsins hjá okkur saman en Jósef og krakkarnir skelltu sér í Ásbyrgi meðan frúin skrapp til Stokkhólms.
Á haustmánuðum skellti kerlan sér í nám frá Háskólanum á Akureyri að sækja sér kennsluréttindi, kominn tími til eftir 12 ára kennslu. Hún hefur brunað Norður í lok hvers mánaðar, í alls fjögur skipti og setið fyrirlestra. Prófin gat hún tekið á Reyðarfirði. Þetta tók nett á gigtarskrokkinn en hafðist allt að lokum og eftir áramót er einungis vettvangsnám. Það verður tekið á Djúpavogi og verður spennandi verkefni.
Við hjónin syngjum enn í kirkjukórnum og höfum sungið nokkrar messur og héldum tónleika í vor. Í byrjun okt. lagði kórinn land undir fót og við sungum við útvarpsmessu í Bústaðakirkju. Það gekk mjög vel og var skemmtilegt verkefni. Þegar þetta er skrifað eru aðventutónleikar afstaðnir og jóladagskráin framundan. Þetta er alltaf gaman.
Í nóvember fögnuðum við útkomu bókar með ljóðum Sigurjóns Jónssonar afa míns frá Snæhvammi. Bókin heitir Jörðin kallar á börnin sín og í henni er ásamt ljóðunum, ritgerð um afa eftir Sólmund bróður. Teitið var haldið í Gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík og það var yndisleg stund.
Börnin una sér vel við leik og störf. Friðrik skipti yfir á gítar í tónlistarskólanum og það nám sækist vel. Svo eru það samæfingar á Reyðarfirði 1x í viku og þess á milli fer hann í íþróttahúsið. Dýrunn hélt áfram á píanó, æfir reyndar ekki fimleika í vetur en er dugleg að sækja það sem í boði er í íþróttahúsinu og fer í félagsmiðstöðina í hverri viku. Þeim gengur vel í skólanum og á síðunni www.stodvarfjordur.is er ýmislegt að sjá úr skólastarfinu. Þau áttu bæði snilldarleik á árshátíð skólans nú í nóvember og m.a. var frumflutt leikrit eftir Dýrunni. Það var mikil upphefð.
Nú eru þau komin í jólafrí og vita ekki alveg hvað þau eiga af sér að gera þennan fyrsta frídag. Úti blæs vindurinn hressilega svo það hentar ekki að fara í einhverja útivist. Ætli mamman finni ekki upp á einhverju stússi fyrir þau.
Á morgun fer fjölskyldan í Héraðið og verslar inn fyrir jólin. Frúin fær jafnframt jólaklippinguna. Þetta ár erum við hjónin í Hjónaballsnefnd og kollurinn er fullur af skemmtilegum hugmyndum hvað það varðar. Það fer fram þann 30. des. í Kaupfélagshúsinu sem nú er að breytast í kaffihús með veislusal og væntanlegu gistihúsi. Þökk sé nokkrum dugnaðarforkum. Áramótunum verjum við líklega hér heima (þrátt fyrir öflug mótmæli barnanna) en það er ekki alltaf hægt að gera svo öllum líki.
Þó hér hafi verið tæpt á atburðum ársins þá gleymdist helllingur enda efni í heila bók. Við hlökkum til næsta árs enda næg spennandi verkefni framundan sem verður gaman að greina frá þá.
Sendum ykkur enn og aftur bestu óskir um gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár ! !
Solla, Jobbi, Friðrik og Dýrunn
Bloggar | Breytt 28.12.2010 kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)