Færsluflokkur: Bloggar
Smalaþúfa
Föstudagur, 29. júní 2012
Alltaf er ég að læra eitthvað nýtt. Ég þekki nú helstu fjöllin í fjallahringnum en ekki vissi ég hvað Smalaþúfan væri. Ég fékk upplýsingar frá góðri grannkonu og saman örkuðum við krakkarnir upp á Smalaþúfu. Þetta er mjög góð ganga ef maður ætlar ekki upp á fjall en vill samt fá smá bruna í lærin.
Við gengum eftir stíg mest alla leiðina og fórum lengri leiðina alveg upp í Klifbotna og svo þaðan aðeins til hægri og upp á Smalaþúfu þar sem örlítil varða stendur. Við bættum þremur steinum í og skelltum í okkur Mariyland súkkulaðikexi. Gangan tók einn og hálfan tíma og mikið spjallað, spáð og spekúlerað. Við hittum tvær lóur og sáum eina rjúpu. Það ku vera lítið af mófuglum þar sem minkurinn og refurinn eru skæðir í þeim. Vonandi stendur það til bóta með meiri veiði á rebba. Þetta fræddist ég um í göngunni frá Söxu.
Um daginn þegar ég fór að Steinboganum lærði ég að ég þarf að fara yfir Lakagil til að hringganga Álfrafellið Jafnadalsmegin.
Ég á margt eftir ólært um staði og örnefni hér í firði en stefni á að fara í fleiri göngur með mér fróðara fólki til að safna í sarpinn. Svo er gangan mitt besta verkjalyf og um að gera að nota sem mest. Engin ofskömmtun nema ég fari of skart.
Kveðjur inn í helgina
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Komnar heim
Miðvikudagur, 13. júní 2012
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verslunarferð erlendis.
Sunnudagur, 10. júní 2012
Já það er flott að vera í útlöndum og skella sér í verslunarferð til útlanda. Við smelltum okkur yfir til Svíþjóðar í gær ásamt öllum hinum Norðmönnunum og kíktum í moll. Þó landslagið hafi mest einkennst af túnum og trjám var það fagurt engu að síður. Á þessar slóðir sækja Norðmenn mikið því þar er miklu ódýrara að versla heldur en í Noregi, bæði fatnað og matvöru.
Þar sem mamma er nú ekki hraðskreið fengum við ótrúlega góðan fararskjóta, voldugan hjólastól með góðri verslunarkörfu sem ég gat geymt dótið mitt í. Hún hafði hug á að versla sér buxur og golftreyju og það gerðum við í fyrstu búðinni sem við fundum. Ég var ekkert í neinum fatahugleiðingum fyrir mig enda verð ég óttalega heilalaus í svona mannmergð og stórum búðum. Ég fann sitthvað handa krökkunum en þótti úrvalið í Dressmann frekar dapurt og á því eftir að finna eitthvað á bóndann. Við fórum í alveg ljómandi fína skóbúð og þar tókst mér að finna fimm pör af skóm á korteri, ég hefði svo getað bætt einu við og fengið frítt og Sóli nýtti sér það með skóm handa Petreu. Fyrir herlegheitin greiddi ég sem svarar 13 þús ísl krónur, það slagar rétt upp í par heima. Mamma fann sér svo ljómandi fína inniskó.
Ég skellti mér í langþráðan göngutúr með Sóla og Petreu. Hún þeystist um á hjólinu sínu og í þessari ferð náði hún þeim merka áfanga að komast sjálf af stað þar sem smá hallaði undan fæti.
Í dag eru engin stór plön nema kannski hjólaferð með Sóla og Petreu. Við sváfum vel og lengi og njótum þess enn og aftur að vera í rólegheitum. Mamma les og leggur sig þess á milli og hefur það notalegt. Kannski skreppum við eitthvað aðeins á rúntinn.
Veðrið var frekar þungbúið í gær og rigning með köflum. Við komumst þó þurr úr göngunni. Það er þungbúið í dag og ekki gott að vita hvort hann skvettir úr sér eitthvað.
Síðasti dagurinn er svo á morgun og annað kvöld liggur leiðin aftur heim á Frón þar sem annir hversdagsins taka við strax á þriðjudag, engin miskunn.
Yfir og út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skvísurnar í Norge
Fimmtudagur, 7. júní 2012
Þá höfum við mæðgur dvalið í Noregi síðan seint á mánudagskvöld. Allt ferðalagið gekk eins og smurt. Við flugum suður að kvöldi sunnudags, gistum á Lambastaðabrautinni og flugum svo út seinnipart mánudags. Heimsóttum Jón og Laufeyju og Siggu frænku áður en við yfirgáfum landið.
Flugið var ljómandi fínt í alla staði og vélin hreyfðist ekki neitt. Ég var farin að hlakka til að horfa á einhverja þætti í vélinni því vélarnar hjá Icelandair eru svo flottar og fínar. Nei þá fengum við óbreytta vél eins og þeir kölluðu og enginn skjár í sætinu, bara í loftinu og þar var sýnd bíómynd sem ég sá í einhverju flugi. En það skemmdi nú ekki ferðafílinginn og við fengum snakk í sárabætur, örlítinn poka.
Sóli tók á móti okkur á forláta Benz sem hann fékk lánaðan hjá vini sínum. Þau eru á milli bíla eins og stendur og þá er gott að eiga góða að.
Hafdís beið okkar með velgjörðir, dásemdar köku sem hún hafði galdrað fram af sinni alkunnu snilld. Petrea faðmaði okkur vel og innilega og sýndi ömmu sinni sykurkarið sem þær höfðu útbúið sérstaklega fyrir ömmu.
Á þriðjudag fengum við mamma snyrtingu hjá Hafdísi og þau kíktu með okkur í moll seinnipartinn. Það var stutt stopp en mér tókst þó að finna eina blússu sem kostaði ekki augun úr. Einhvern veginn laðast ég alltaf að fatarekkunum. Hafdís var að búa sit til brottfarar til Íslands og fór í gærmorgun. Henni bauðst hálfs mánaðar vinna á snyrtistofu í Keflavík og gat ekki neitað því. Við snæddum svo dásemdar grillmáltíð um kvöldið.
Við mútta höfum því verið í rólegheitum yfir daginn sl tvo daga. Ég þurfti að læra leiðina í skólann hennar Petreu og sótti hana í skólann seinnipartinn og Sóla svo í vinnuna stuttu síðar. Við komum við í búð á leiðinni frá skólanum hennar Petreu og ég keypti þá allra dýrustu banana sem ég hef á ævinni keypt. Mér tókst líka að keyra niður göngustíg þegar ég beygði í átt að búðinni, þeir eru svo breiðir og mér fannst þetta vera afrein, ég lenti ekki í neinu brasi og fannst þetta aðallega fyndið og kjánalegt.
Ég hef ekkert skoðað umhverfið enda er þetta ferðin hennar mömmu og við erum í rólegheitum hér heima yfir daginn, lesum, prjónum og hlustum á Rás 1 í gegnum netið. Ég geri mínar jógaæfingar á dýnunni hennar Hafdísar og skrepp út á svalir þegar sólin sýnir sig. Það er aðeins of mikil forsjárhyggja í skýjunum að mínu mati en við brennum ekki á meðan.
Ég hef hug á að fá mér hjólatúr í kvöld hér í kring og sjá aðeins hvað þetta svæði hefur upp á að bjóða og fá smá hreyfingu líka. Við förum í sumarveislu í skólann hennar Petreu seinnipartinn og þar verður eflaust mikið fjör.
Segi þetta gott í bili og læt sjá mig hér áður en dvölinni lýkur. Ég held ég nái smá sólarglætu.
Yfir og út, Solla í Norge.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Að bjarga verðmætum !
Föstudagur, 1. júní 2012
Í síðustu viku uppgötvaðist leki í kjallaranum sem farinn var að skemma góflið í holinu. Allt í góðu með það fyrir utan ónýtt gólf og eitthvað sem tryggingar bæta ekki nema þarna var slatti af bókakössum sem alltaf átti eftir að koma í hillur eftir flutningana okkar frá Leynimel fyrir sex árum.
Eins og gefur að skilja fór ýmislegt í ruslið því vatn og bækur eiga ekki góða samleið. Samt hittist svo á að þetta voru aðallega Liverpool blöð (sem aldrei má henda) og einhverjir reyfarar sem enginn hér á bæ á eftir að lesa held ég. Mér tókst með naumindum að bjarga tveimur eintökum af Flambarðssetrinu, bækur sem mér er mjög annt um. Þær þurfa samt smá aðstoð frá Maju í Rjóðri því það varð á þeim smá skaði. En vænst þótti mér um að bjarga sögubókinni hans Friðriks sem hann skrifaði þegar hann var í öðrum eða þriðja bekk. Hún var gegnsósa en ekki byrjuð að mygla. Við náðum blaðsíðunum í sundur og gátum þurrkað. Svo verður hún plöstuð blaðsíðu fyrir blaðsíðu til að gera hana varanlega og svo við finnum ekki fúkkalyktina af henni.
Þetta eru dásamelgar sögur eins og gefur að skilja þegar maður er sjö eða átta ára og hér koma nokkur sýnishorn. Ég leyfi mér að setja punkta eða kommur en stafsetning heldur sér.
- Eynu sinni voru ridarar sem hétu Rafael, Jaiko, Rascukus og Dannu. Þeir fóru í lítið virki sem var vondur ridari. Síðan Fór Jaiko og ætlað að drepa hann. Síðan kom Rasckus. Síðan kom Rafael og henti steini.
- Einu sinni var kóngur. Hann var góður við allt fólkið. Síðan komu riddarar úr sporðdrekaliðinu sem vildi berjast. Kóngurinn góði hann reyndi með öllum kröftunum sínum að reyna að sigra. En síðan tók vonda liðið sigurinn.
- Eynu sinni var konungsríki sem var langt í burtu. Þar bjó fallegasta prinsessan í öllum heiminum. Síðan þegar hún fór að sofa kom dauðinn og skrímslið. Svo bættist í hópinn beinagrind og vitsuga. Kóngurinn kallaði á alla riddarana sína og þeir fóru að berjast. Síðan tók kóngurinn sigurinn.
- Einu sinni ætlaði ég að leika við Villa og Hlyn. Ég flýtti mér of mikið og bíllinn keyrði á löppina á mér. Síðan þurfti ég að fara til Eskifjarðar. Úff. Þarna fylgdi ekki sögunni að það var ég sem keyrði yfir fótinn á honum, hann fór út áður en bíllinn stöðvaði, rann undir bílinn og ég keyrði yfir ristina á honum. Já, og fæ enn samviskubit en hann lærði dýrmæta lexíu og varð ekki meint af, ótrúlegt en satt. Snjórinn mjúkur undir og hann í vel fóðruðum stigvélum og ullarsokkum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Að syngja í tómri tunnu !
Laugardagur, 19. maí 2012
Þannig leið mér á vortónleikunum okkar í fyrradag. Það réðst á mig eitthvað vorkvef sem tók búsetu ofarlega í höfðinu á mér og þegar ég söng fannst mér ég vera innan í tómri tunnu.
Tónleikarnir þóttu samt takast vel svo ég hef ekki strumpað mikið falskt.
Það er alltaf leiðinlegt að vera ekki í standi í svona skemmtilegheitum. Ekki vildi ég samt vera heima, ónei meðan ég væri uppistandandi skyldi ég syngja, þó ég svitnaði og kólnaði á víxl.
Kórinn átti svo notalega stund á Kaffi Steini þar sem við snæddum dýrindis kvöldverð.
Daginn eftir steig ég varla upp úr rúmi nema staulast á stað sem ég gæti lagt mig á. Já ég var lasin og það gerist sem betur fer afar sjaldan hjá kerlunni. Það er nóg að vera í vinnu við að halda dampi með blessuðu vefjagigtina sér við hlið. Ég lá eins og skatan og beið meðan tíminn leið. Hafði ekki heilsu til að lesa og nennti ekki að horfa á sjónvarpið, gat ekki einu sinni sofið. Eftir kvöldmat gat ég þó setið upprétt í sófanum og horft á imbann með fjölskylunni.
Ég er öllu skárri í dag og get verið lengur í uppréttri stöðu en í gær. Ég gat meira að segja moppað svolítið ryk af stofu og eldhúsgólfi og naut dyggrar aðstoðar unganna minna við hin þrifin. Geri fastlega ráð fyrir að morgundagurinn verði alveg glimrandi.
Ég tek svo við orðunni "starfsmaður mánaðarins" á kennarastofunni á mánudag. Þann titil fá þeir sem verða lasnir í frítíma sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hugmyndir !
Föstudagur, 11. maí 2012
Ég fæ oft ótrúlega góðar hugmyndir í morgunsárið, rétt þegar ég er að losa svefn. Oftast tengjast þær einhverju sem blundar í kollinum líkt og heilsu og jógadaginn sem mig langar að halda en er ekki alveg búin að móta og svo öll sjálfstyrkingarnámskeiðin sem liggja í undirvitundinni, hálf mótuð líkt og hið fyrra.
Góð vinkona mín (Díana Mjöll) sem er mjög hugmyndarík og dugleg að koma hugmyndum sínum í framkvæmd var lengi vel með litla bók á sér sem hún skrifaði hugmyndir í. Svo fékk hún diktófón eitt árið í jólagjöf og ég efast ekki um að þangað hafa ratað margar góðar hugmyndir.
Ég er komin með bók á náttborðið og skrifa inn í hana ýmislegt varðandi það sem ég er að gera til að bæta heilsuna mína og ýmsa jákvæða punkta og pælingar um lífið og tilveruna.
Um daginn þegar ég fletti bókinni datt ég niður á þennan punt: Streita og afleiðingar hennar + leiðir til að minnka streitu. Kannski verður þetta eitt af haustnámskeiðunum. Ég hef líka á bak við eyrað það sem góður kennari minn sagði eitt sinn. " Það þýðir ekki að láta sig alltaf dreyma um að gera hitt og þetta en framkvæma aldrei neitt. Bókaðu stað fyrir námskeiðið og dagsetningu, þá er hvatinn kominn til að setjast niður og skrifa". Góður punktur.
Hvað segið þið um föstudaginn 7. september í Grunnskólanum á Stöðvarfirði klukkan 20:00??
"There is no try, only do". Spurning um að koma sér í framkvæmdagírinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Kvitt!
Fimmtudagur, 3. maí 2012
Þar sem gestir mínir síðustu vikur hafa lítið verið að kvitta fyrir lesturinn langar mig að sjá hverjir reka hér inn nefið. Ég er að spá í að læsa henni aftur og þá er gott að vita hverjir hafa áhuga á að fá lykilorðið.
Venlig hilsen !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gjafabréf
Fimmtudagur, 3. maí 2012
Í fyrradag beið mín svohljóðandi gjafabréf á koddanum.
Gjafabréf
Nú færðu að velja
Halda forstofunni hreinni. Gildistími 1 vika.
Ég verð með "Kósí kvöld" fyrir þig 1x í viku. Gildistími 3 vikur.
Ég elda tvisvar í viku. Gildistími 2 vikur.
Vona að þér hafi líkað það sem ég bauð upp á.
Þetta kom að sjálfsögðu frá dömunni minni og ég satt best að segja í mestu vandræðum með að velja. Valið stóð á milli dekursins og eldamennskunnar...... Ég var að spá í að gera samning um að fá dekur í tvær vikur og eldamensku eina viku en ákvað svo að þiggja dekrið. Fyrsta dekurkvöld er í kvöld og ég er spennt að sjá hvað daman bíður upp á.
Miðinn fer í sarpinn ásamt ýmsum fallegum orðsendingum og ástarjátningum sem ég hef fundið á koddanum mínum í gegnum tíðina. Falleg utan sem innan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fótboltamamma
Sunnudagur, 29. apríl 2012
Dagurinn í gær var skemmtilega fjölbreyttur. Ég byrjaði daginn á að kynda jógaherbergið niðri á Steðja og svo mættu kerlurnar rétt fyrir hálf ellefu og við styrktum, teygðum og togðum og svitnuðum þokkalega í þessar 70 mínútur sem tíminn stóð.
Þá tók við sprettur heim, aðeins að svitna meira, í sturtu og í svörtu fötin og klukkan hálf eitt var ég mætt á æfingu fyrir jarðarför sem var þá um daginn. Enn einn samferðamaðurinn, Guðbjörn frá Vík sem kallaður var burtu allt of snemma. Athöfnin var falleg að venju og söngurinn lukkaðist nokkuð vel þó við séum alltaf öruggari með okkar eigin kórstjóra.
Síðan lá leiðin heim og enn var skipt um föt og nú farið í fótboltamömmufötin. Frikki karlinn var að keppa á Fjarðaálsmótinu á Reyðarfirði og það var komið að okkur Stödda mömmunum að standa okkar vakt. Ég náði síðustu fimm mínútum leiksins og þá var Frikki farinn út af sökum smávægilegra meiðsla.
Frá tæplega fimm til að verða níu dunduðum við okkur í eldhúsinu í Grunnskólanum á Reyðarfirði. Stöddamömmurnar, ég, Gurra og Guðný í Lyngholti elduðum og framreiddum mat fyrir 80 fótboltastráka og þeirra fylgdarlið. Það gekk eins og smurt og þetta var rosalega gaman.
Ég er örlítið meira lurkum lamin í dag en aðra daga en gigtin mín hefur verið í stuði síðustu daga blessunin en það er einn og hálfur tími í næstu lotu. Sjoppuvakt frá tólf til tvö og svo að aðstoða við grillið og ganga frá í skólanu.
Þetta er hluti af því að vera fótboltamamma. Fótboltapabbinn á heimilinu hefur haft veg og vanda að skipulagningu foreldravakta, verslað inn og sollis. Ég sendi honum sms í morgun og spurði hvort hann hefði sofið hjá mér í nótt því þegar ég fór að sofa var hann ókominn og þegar ég vaknaði var hann farinn. Jú mikið rétt, það var hann sem hafði bælt rúmfötin.
Það er frábært að vera þátttakandi og fylgja krökkunum í sem flestar fótboltaferðir og að sjálfsögðu á mótin. Að sitja í kulda og trekki umvafinn teppi og hlýtum fötum með kakó í bolla í félagsskap annarra frábærra fótboltaforeldra er ótrúlega skemmtilegt.
Um næstu helgi keppir Dýrunn á sama móti og ég aðstoða eitthvað þar þó ég taki eitt skrepp til Rvk. og svo liggur brátt fyrir dagskrá sumarsins og í kringum hana er pússlað. Ég veit að árin sem fótboltamamma eru ekki mjög mörg og líða hratt svo það er um að gera að njóta í botn. Svo ég tali ekki um forvarnargildið. Það er efni í annan pistil.
Njótið ykkar í botn !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)