Færsluflokkur: Bloggar

Pistillinn !!

Jólapistill í Hólalandi á aðventu 2012

Jólasveinn

 

Þegar ég sest niður og rita pistilinn þetta árið fyrir Hólalandsgengið finnst mér eins og ég sé ný staðin upp frá því að rita síðasta bréf.

Tíminn flýgur svo sannarlega, já líka hér í fámenninu enda hafa allir meira en nóg á sinni könnu og vel það á stundum.

Byrjum á börnunum þetta árið.

DEJ

Dýrunn Elín á sínu sínu tólfta ári og hefur lengst enn frekar í ár, svo mikið að henni þykir nóg um blessaðri. Hún slagar hátt upp í bróður sinn og var um tíma á þessu ári álíka há og hann. Hún æfir fótbolta með Fjarðabyggð og fer á samæfingar á Reyðarfirði reglulega og æfir þess á milli fótbolta og er á þrek og styrktaæfingum hér heima líka. Í vor tók hún stigspróf á píanó og fékk nýjan kennara í haust sem nær vel til hennar og hvert lagið á fætur öðru hljómar hér í stofunni, mjög notalegt. Hún spilar á píanóið í kirkjunni á aðfangadagskvöld og jafnvel fær pabbinn að taka í bassann með henni.

Í sumar æfði hún frjálsar ásamt fótboltanum, fór í æfingabúir á Egilsstöðum í vor og keppti á Sumarhátíð ÚÍA og sínu fyrsta Landsmóti á Selfossi. Múttur tvær brunuðu svo með börn á æfingar á Fáskrúðsfjörð þar semvið höfum ekki aðstöðu til slíkrar iðkunar. Þegar hún er ekki í spriklinu dundar hún sér lon og don eða brasar með vinkonunum. Fléttar hár eftir kúnstarinnar reglum með aðstoð Youtube og föndrar og hannar. Töluvert listfengi þarna á ferð enda bíður hún spennt eftir saumavélinni sem hún fær frá ömmu sinni. Súper flott stelpa, heilsteypt og hugsandi og forréttindi að fá að leiðbeina henni út í lífið.

IMG_4590

Frikki er og verður töffari fram í fingurgóma. Hann hefur stækkað umtalsvert á þessu ári og eins og gengur vaxa líkamshlutarnir mis hratt. Í fyrra voru keyptir skór í 39 en í haust var það komið í 44, reyndar voru þeir aðeins rúmir. Röddin brestur reglulega en hann hefur bara húmor fyrir því enda eru svo miklir húmoristar hér á bæ. Hluti af þessu skemmtilega tímabili er að kappinn pælir í ótrúlegustu hlutum og gaman að fylgjast með sjóndeildarhringnum stækka hjá honum. Þeir feður eiga stundum skemmtilegar rökræður þegar annar fullyrðir eitt og hinn sem hefur stærra innlegg í reynslubankanum gerir sitt besta til að útskýra fyrir unga besservissernum.

Hann stundar fótboltann líkt og systirin og hefur í tvígang æft með úrvalshópi fótboltakappa hér á Austurlandi í sínum flokki. Hann stundaði líka frjálsar í sumar, fór í sömu æfingabúðir og Dýrunn og keppti á sömu mótum. Hann stundar gítarnámið af kappi og hefur spilað víða á þessu ári m.a. á Nótunni á Akureyri ásamt þremur fræknum gítarleikurum. Sl. föstudag spilaði hann með félögum sínum á SamAust sem er keppni félagsmiðstöðva á Austurlandi. Flottur náungi en fyrirferð þessa umbrotaaldurs þykir sumum kennurum aðeins of mikil svo málin eru rædd reglulega og alltaf fyrirheit um bót og betrun, hún endist mis lengi.

Bæði léku þau lykilhlutverk í leikritinu á Árshátíð skólans sem hægt er að horfa á í heild sinni á www.stodvarfjordur.is Frikki er kóngurinn sjálfur og Dýrunn norn.

Jósef karlinn er stiginn á 45 aldursárið og venti sínu kvæði í kross á vormánuðum og skipti um vinnu. Kvaddi Eimskip og færði sig yfir til Tandrabergs á Eskifirði og er þar annar af tveimur verkstjórum. Þetta er ekki skrifstofuvinna og hann er töluvert á ferðinni út og suður og stjórnar löndunum og uppskipunum og alls konar verkefnum. Mesti munurinn sem við finnum og sjáum hér á heimilinu er að þegar hann á frí á hann frí og síminn er ekki logandi lon og don, þvílík dásemd. En vinnudagurinn er langur á köflum og það tekur stundum á hjá svona "gömlum" karli :) Hann syngur í kórnum og nú hefur körlunum fækkað svo hann fær stundum að syngja einsöng og klárar sig fínt við það. Hann stússast í ýmsu, er formaður Fræðslunefndarinnar í Fjarðabyggð og situr í stjórnum hér og þar. Hann lagði þjálfarastarfið á hilluna eftir vinnuskiptin því það samræmdist ekki vinnutímanum. Engin lognmolla hjá karli, frúin kvartar stundum undan því að lítið gerist í ýmsu viðhaldi heima við en kofinn er ekki hruninn enn :)


Frúin sem þetta ritar er alltaf jafn ung í anda og hefur ekki tekið neinar U beygjur í starfsvali enda ekki margt í boði. Kennslan í skólanum er aðal vinnan og svo kemur Herbinn og jógað sem eru sterkust í að hjálpa kerlu til að halda niðri gigtarskömminni og auka orku og styrk, góð blanda. Heitt jóga var nýtt á dagskránni í vor og svo aftur í haust en svo var aftur skipt yfir í gamla góða Hatha jógað. Hópurinn sami kjarni og alltaf, ótrúlega duglegar og þrautseigar konur og einn hugrakkur karl. Á þessum árstíma þegar kuldinn smýgur inn kroppinn þráir kerlan heitan pott á svalirnar en því miður er ekki komið að honum í framkvæmdaröðinni. Fjallgöngur sumarsins urðu nokkrar en samt færri en fyrirheit voru um. Þær voru færðar yfir á næsta ár. Steinboginn í Stöðvarfirði var þó á toppnum enda ægifagurt að líta í gegnum hann út fjörðinn og sjá hvernig hann rammar þorpið inn. 

Steinboginn

Við smelltum okkur þó af stað í brýnasta viðhaldsverkefni hússinns í vor, að skipta um glugga. Í fyrstu lotu var skipt um sjö glugga og á nýju ári verða nokkrir teknir til viðbótar. Við klárum svo hringinn vonandi árið 2014. Þá tekur eitthvað fleira við. En við finnum mikinn hitamun í þeim herbergjum sem eru núna hætt að kynda umhverfið í kringum húsið. Stór hluti ofna hússins var endurnýjaður og það er nýtt líf að skríða upp í rúm og það er notalegt og hlýtt í herberginu. Gömlu ofnarnir voru orðnir full dyntóttir og höfðu einhverja hentugleikastefnu að leiðarljósi sem enginn skildi.

Ferðalögin tengdust fyrst og fremst fótbolta og frjálsum íþróttum og enn sem fyrr höfum við gaman af þessu brölti. Við fjárfestum í fellihýsi í sumar, vel með förnu með góða sál. Svolítið þungt fyrir Súbba gamla að draga en við komumst allt það sem við ætluðum okkur. Við lentum í einni raun á Pæjumóti á Siglufirði þegar það skall á stormur fyrri nóttina og við hjónin rérum lífróður mest alla nóttina við að halda fortjaldinu á réttum stað. Frúin tilkynnti að herlegheitunum skyldi pakkað niður daginn eftir og við fengum gistingu hjá sýslumanninum sjálfum (sem er náfrænka frúar og barna).

Jobbi þurfti að vinna um verslunarmannahelgina og móðir og börn brunuðu á Unglingalandsmót á Selfoss með gamla Tjaldborgartjaldið í skottinu því kerlan treysti sér ekki með flykkið (fellihýsið). Það var ótrúlega notalegt þó það sé þolraun fyrir elsta tjaldbúann að sitja og liggja á jörðinni eftir að hafa setið í brekkum og hlaupið um keppnissvæðið allan daginn, skrá þennan þar, fylgjast með að þessi komi tímanlega í nafnakall, horfa á Dýrunni þarna og svo Frikka strax á öðrum stað, alltaf með hálfa búslóðina á bakinu og passa svo að allir hafi nóg að borða og séu örugglega búnir að pissa fyrir keppni. Hvað gerum við ekki fyrir börnin okkar, dásamlegt. Við vorum tengd í rafmagn og þegar nóttin var orðin köld var fírað upp. Krökkunum fannst þetta æði en skilgreiningar á fimm manna tjaldi 1975 voru aðrar en í dag.

 Frúin skellti sér þó aðeins út fyrir landsteinana, gerðist fylgdarmaður móður sinnar og dvaldi í viku í Noregi hjá Sóla bró og fjölskyldu sem var staðsett þar. Það var mjög notaleg dvöl og við höfðum það aðallega kósí með prjónana og stukkum út á svalir þegar sólin lét sjá sig. 

2012-06-26 12.49.43

Í júní fengum við góða heimsókn þegar Halla, Árni og Helena Emma kíktu í heimsókn. Þau búa í Þýskalandi þar sem Árni spilar handbolta.  Það var stutt en verulega ánægjuleg dvöl.  Við hittum þau líka fyrir Norðan meðan þau voru í sumarfríinu.  Litli gleðigjafinn heillaði að sjálfsögðu alla á heimilinu nú sem fyrr, nema kannski kisu sem lét lítið sér fara meðan sú stutta þeystist um. Þarna hitti hún kisuna Sjonna hjá Rósu frænku þegar við fengum okkur bæjarrölt. 

Frikki er í ferðahóp og við foreldrarnir erum í lykilhlutverki í að hjálpa þeim með fjáröflun. Það gengur vel enn sem komið er og spennandi að sjá hvað sjóðurinn verður drjúgur eftir tæp tvö ár. Bakstur, sala á klósettpappír, lakkrís, þvottaefni, hálkubana og ýmsu öðru er bara mjög skemmtilegt verkefni og gengur vel því sveitungar okkar taka alltaf vel á móti ferðahóp.

Í nóvember flutti Solla gamla Sigurjóns á dvalarheimilið Uppsali á Fáskrúðsfirði. Hún þurfti á meiri umönnun að halda en er hress og ánægð með lífið í fallega rýminu sínu. Húsið hennar keypti Arnar, eitt baranabarnið og ljóst að það verður í góðum höndum.

Á þessum tíma er þakklæti alltaf ofarlega í huga undirritaðrar. Þegar litið er um öxl yfir árið er ég gífurlega þakklát fyrir það sem við höfum og það gefandi og viðburðaríka líf sem við höfum skapað okkur.

Í heildina hefur árið verið gleðiríkt og margt skemmtilegt brasað sem ekki er pláss að telja upp en sorgin sló okkur samt hressilega þegar litla dóttir Kára systursonar míns dó rétt áður en hún fæddist. Símtalið sem átti að vera gleðisímtal frá ömmunni setti tilveruna hjá fjölskyldunni á annan stað um stund. Þá sýnir sig hvað það er dýrmætt að eiga góða fjölskyldu sem hlúir hvert að öðru. Kári og Hugga ákváðu strax að komast sterk frá þessari raun ásamt börnunum sínum og eru okkur öllum frábær fyrirmynd.

Þau giftu sig í sumar í Austurríki og fyrir stuttu fengum við þær gleðifréttir að það sé annar gullmoli á leiðinni á nýju ári.

Í dag syngjum við hjónakornin á Aðventuhátíðinni í kirkjunni, Dýrunn syngur og leikur helgileik og fermingardrengurinn sjálfur tekur þátt í helgileik enda fullur af heilögum anda þessa dagana, eða þannig :)

Frikki fermist svo í Stöðvarfjarðarkirkju 28 mars næstkomandi, spurning hvort það verður ekki bara slegið í tónlistarveislu. Hver veit.  

Megið þið öll eiga yndislega aðventu og gleðiríka jólahátíð. 


Knús og kveðjur úr Hólalandi 18, þar sem alltaf er heitt á könnunni (engin loforð um bakkelsi nema menn hringi á undan sér). 


Nóvember á ofurhraða

 

 Cheap-Christmas-Decoration-Candles-3

Vá, rosalega hefur þessi nóvembermánuður liðið hratt. Ég fer bara bráðum að munda lyklaborðið og skrifa jólapistil ársins 2012 og opna síðuna um óákveðinn tíma.  

Ég neita því ekki að örlítill fiðringur er farinn að fara um mig og það er notalegt. Ég var samt alveg gjörsamlega ósnortin í Reykjavíkinni þó þar væri farið að skreyta í búðum og götum.Ég hleypi því meira að þegar aðventan byrjar.

Við fórum að syngja jólalögin í kórnum fyrir töluverðu síðan og það er alltaf jafn dejligt, Baggalútur er reyndar farinn að óma í bílnum og ég viðurkenni hér með að heilögu aríurnar með Andrea Bocelli hafa fengið að óma um húsið 2x.

Ég er passlega róleg hvað jólahreingerningu varðar en hef nú samt smá standard þó allir veggir og loft séu ekki þrifnir.  Ég þreif veggi svefnherbergisins fyrir tveimur árum og þeir voru ekkert skítugir svo það er ekki ástæða til að kíkja á þá strax Cool. Gluggarnir fá þó smá strokur enda fjárfesti ég í svo góðri græju til þess í fyrra frá Enjó. Mér finnst að þær vörur ættu að heita Enjoy því það er bara létt og löðurmannlegt að þrífa með þeim, lítið löður þar sem sápur eru lítt sem ekkert notaðar. Mjög umhverfisvænt og ég er alltaf að svífa meira inn á þær slóðir. 

Jólamarkaðurinn verður í skólanum um helgina með tilheyrandi vöfflubakstri og sölumennsku hjá ferðahópnum sem Frikki er í, gaman gaman.  Þá er bara vika í aðventuna. Þetta er ljúft.

 Njótið þess að kveikja á kertum í myrkrinu Heart 

 


Kertagerð

Í gærkvöld steyptum við Dýrunn kerti í fjórar mjólkurfernur. Aðventukertin þetta árið, endurnýting á ótal kertabútum. Þegar þau voru svo klár í morgun olíubar ég borðstofuborðið, smellti englalöbernum á og svo kertunum fínu.

Þau eru svo klunnaleg og misfalleg en ilma dásamlega. Hér er smá sýnishorn. Nú má aðventan koma LoL

Dýrunn sker niður Búið að hella í mótinkomin á sinn stað

 


Árangur af sykur og hveitipásu

Þann þriðja september sl. skrifaði ég í heilsufarsdagbókina.

 

 Nýtt upphaf og ný lína dregin í sandinn. Nú skal hvíti sykurinn út ásamt hvíta hveitinu. 

Tímabilið 120 dagar, þ.e. út árið frá og með deginum í dag.

Markmið: Minnka bólgumyndun og auka vellíðan í líkamanum.

Staðan í dag: Mikill stífleiki í vöðvum og festum ásamt verkjum.....

....... Muna líka að vera jákvæð og duglega að fylgjast með hvað gerist í þessum elskulega skrokki.  

 

Og nú rúmum tveimur mánuðum síðar og svona 97% sykur og hveitilaus..........

 

red_health_apple
  • Stífleiki á undanhaldi og verkir þar af leiðandi líka. 
  • Líðanin á allan hátt betri. 
  • Líkaminn er úthvíldur að morgni ekki stífur og stirður líkt og valtarinn hafi tekið nokkrar umferðið á efra bakinu. 
  • Meiri og jafnari orka 
  • Vigtin hefur smellt sér niður um 2,5 kg þó það hafi ekki verið sérstaklega á planinu
  • Mér finnst ég líka svo miklu huggulegri öllsömul LoL
 
 
 
Ég hef líka verið svo lánsöm að hafa fengið auka hjálp, frá þessum heimi og að handan Smile. Nuddið og heilunin hjá Njáli er algerlega á réttum tímapunkti í lífi mínu. 
 
Fann ég muninn strax? Ónei, ég fann smá mun samt fyrst í stað en það hjálpaði að ég kenndi heitt jóga 4x í viku og fékk úthreinsunina fljótt. Svo fyrir tveimur vikum fattaði ég þetta með morgunstirðleikann og vá, þvílíkur munur. 
 
Finnst mér erfitt að fá mér ekki nammi? Nei alls ekki. Ég hef gert mér gúmmulaði úr döðlum, kakói og kókos sem uppfyllir þá litlu löngun sem kemur stundum.  Eina sem mig hefur langað í er lakkrís og þá hef ég stundum keypt sykurlausan Ópal og þá kemst ég yfir það.
 
Finnst mér erfitt þegar aðrir borða nammi og kökur í kringum mig? Nei, alls ekki.
 
Finnst mér fyndið þegar boðið er upp á kræsingar t.d. á kóræfingum og ég afþakka og sumir eiga erfitt með að skilja að þetta er mitt val ?
 
Ó já, mér finnst það fyndið en líka sorglegt því flestir taka slíkar ákvarðanir af einhverri ástæðu og því ekki bara að virða það?  
 
Ég hlakka gífurlega til þess að takast á við púkana á aðventunni og koma undan jólum hress og endurnærð - ekki þreytt, þrútin og full af verkjum.  Ég ætla að borða vel og mikið líka.
 
Yfir og út inn í helgina og borðið það sem þið ákveðið að borða.  
 
 
 
 

 


Heimaskorinn ostur og heimagerður ís

Þegar við vorum með búðina keypti kona nokkur alltaf heimaskorinn ost. Þá keyptum við langan ost og hann var svo skorinn í bita eftir óskum viðskiptavinarins. Oft keyptu togararnir þessa stóru osta og svo þessi góða kona. Og heimaskorni osturinn þótti henni miklu betri. 

Heimagerður ís er hátíð miðað við margt jukkið sem keypt er dýrum dómum frá ísframleiðendum. Stútfullt af alls kyns aukaefnum, bindiefnum og ég veit ekki hvað og hvað og oft á tíðum t.d. enginn rjómi.

Í rjómaís á að vera rjómi og ég elska heimagerðan ís. Við höfum yfirleitt skellt í slíkan fyrir jólin og önnur hátíðleg tækifæri og nú er Dýrunn mín orðin ansi leikin við framleiðsluna.  Hér á myndinni fyrir neðan sést merkingin á nýjasta ísnum hjá kerlu.  Ég verð að láta mér nægja að horfa á þau gæða sér á ísnum þar sem hvíti sykurinn er ekki á neyslulistanum hjá mér þessa dagana.  Það lá við að Friðrik malaði þegar hann smakkaði áðan svo góður þótti honum ísinn.  Ég geri minn ís fyrir jólin og hann er í bígerð í kollinum eins og ýmislegt góðgæti sem er án hvíta sykursins.

 2012-11-03 11.20.13  


Nýjustu myndir...

Toppmyndin mín á síðunni er fallega blá. Ég er búin að gera margar tilraunir til að minnka Súlurnar mínar elskulegu og hafa þær sem toppmynd en við erum ekki alveg að tala saman. Alltaf fæ ég meldingar um að hún sé of stór og samt er ég búin að minnka myndina niður í varla neitt. Tæknin ekki á mínu bandi í dag. Himininn verður því bara blár.

Yfir og út í krapasnjónum.


Annir og uppeldi

Eitt af því sem er ótrúlega mikilvægt fyrir foreldra er að kenna börnum sínum að þau þurfa oft að velja og hafna. Oft er tilhneigingin í þá átt að það eigi alltaf að taka þátt í öllu. Stundum stangast hlutir á og því fyrr sem börnum er kennt það því betra. Það er ekkert auðvelt að velja og hafna en það er hluti af lífinu.

Ég spái oft í það hvað krakkarnir mínir hafa úr miklu að moða. Þau hafa gaman af íþróttum og hafa tök á að sækja þær fjóra virka daga í viku án þess að það sligi pyngjuna. Þeim býðst að vera í félagsmiðstöð, við getum veitt þeim að vera í tónlistarnámi, þau taka þátt í kirkjustarfi, störfum fyrir Rauða krossinn, Friðrik í ferðahóp ofl. og það er alltaf eitthvað um að vera. Svo mikið að ef það á að skipuleggja eitthvað þá er einhver yfirleitt upptekinn þarna og þarna.

Og þá að uppeldinu. Það eru líka annir hjá foreldrum og ég var nú komin með hálfgert samviskubit sl. fimmtudag þegar við foreldrarnir vorum að fara út þriðja kvöldið í röð og börnin ein heima. Þetta raðaðist svona þessa vikuna. En þriðja kvöldinu var vel varið. Við fórum á fyrirlestur hjá Húgó á Reyðarfirði og hann sagði okkur að "Uppeldi virkar". Ég sem er svo áhugasöm um allt á þessu sviði og sífellt að vinna í því að gera mig betri og betri á uppeldis og samskiptasviðinu fékk stóra vítamínsprautu þarna.

Daginn eftir fékk ég að fara í vinnuna (þurfti ekki) og ég fékk að kenna þessum dásamlegu börnum (þurfti ekki) heimilisfræði. Þau voru svo heppin að fá að gera grænmetisrétt og núðlurétt (þurftu ekki).

Breytingarnar snúa oftar en ekki að breytingum á því hvernig við segjum hlutina, að við segjum líka það sem við meinum og ætlumst ekki til að aðrir viti alltaf hvað við meinum.

Um daginn sagði Friðrik við mig "Af hverju tökum við ekki að okkur fósturbarn"? "AF hverju ertu að spá í það" svaraði ég. "Nú, þú ert svo góð í uppeldinu". Vá er þetta ekki ótrúlega flott hrós og það frá 13 ára unglingnum. Er á meðan er, kannski kemur annað hljóð í strokkinn á næsta ári ............. eða ekki. Ég er í það minnsta mjög montin og ætla að vera það áfram.

Uppáhalds ungarnir Yfir og út.


Hreyfing

Mér hefur alltaf þótt það merkilega þegar fólk tengir hreyfingu bara við það að grennast og tekur reglulega skurk í ræktinni í því skyni að missa nokkur kíló.

Ég er voða fegin að hafa verið á hinum endanum í gegnum tíðina og hreyft mig mér til ánægu.

Ég missti einbeitingu um tíma og  var ekki í mikilli né kröftugri hreyfingu þegar ég glímdi sem mest við þyngdarpúkann en þá var orkan líka svo lág að úthaldið í hreyfingu var lítið. Hélst í hendur við ruslið sem ég lét ofan í mig. Þegar ég tók á mataræðinu sem er jú lykillinn í því að halda þyngdinni á réttu róli og fékk meiri orku þá naut ég þess enn meira að hreyfa mig.

Mér er enn minnisstætt þegar ég var að glíma við að koma mér af stað. Þá komst ég ekki í gegnum heilan jógatíma af diski (sem er by the way mjög rólegur) og var alveg að drulla á mig. En smátt og smátt jókst styrkurinn og ég fór að njóta jógans í botn.

Það sem er svo skemmtilegt við jógað er að yfirleitt heldur fólk sér sem stundar það sér á réttu róli þyngdarlega. Það sé ég svo vel á kerlunum sem hafa fylgt mér í jóganu frá upphafi og stunda það reglulega. Konur sem komnar eru af léttasta skeiði en halda sér svo fínum. Þær eru auðvitað margar í annarri hreyfingu og frábært að hafa hana sem fjölbreyttasta.

Jógað gefur nefnilega líka svo fallega mótun og mér finnst jógafólkið alltaf í flottasta forminu - eðlilegt og með góðan grunnstyrk, ber sig vel og geislar.

Um það leyti sem ég byrjaði að kenna jóga kom prófaði kona tíma hjá mér. Þetta reyndist henni töluvert erfitt en hún kom aldrei aftur því hún sá það nú strax að hún myndi aldrei grennast á því að vera í jóga. Í jóga þurfum við rosalega að takast á við okkur sjálf og það höndla það ekki allir. 

 Í mínum huga er hreyfingin svo mikið sálarmeðal og fyrir gigtarskrokkinn minn besta verkjalyfið ever. Líðanin í sálinni og skrokknum helst jú í hendur og fátt betra en hressandi göngutúr til að hreinsa út angur í kollinum.

Þetta var hugleiðing dagsins, bleik í tilefni af bleikum október,  með fyrirheitum um fleiri hugleiðingar síðar.

 

Yfir og út.


Áframhaldandi tilraunir

Allt er vænt sem vel er grænt.  Áfram halda tilraunir hér í landinu hóla. 

Ég fór á Franska daga í gær sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi og sá þar krem gert úr morgunfrú og blágresi, grunnurinn var kókosolía.  Í morgun skellti ég kókosolíu í pott, stal mér þremur morgunfrúm frá Fjarðabyggð (segið engum frá) og náði mér í blágresi og smá blóðberg. Sauð svo saman og ég náði í tvær 50ml krukkur. Ægilega spennandi og næstu daga smyr ég á mig yngjandi kremi því blágresið á víst að vera svo gasalega gott fyrir húðina og morgunfrúin líka.

 Ég bíð núna spennt eftir jojoba olíunni, rósavatni og shea smjörinu úr jurtaapótekinu.  Þá verður sullumallað. 

Líklega fer ég að bera afurðirnar í vini og vandamenn ef ég hef ekki undan við að smyrja á mig.  

Svo er ég að leggja grunn að magnaðri gigtarolíu til að nudda mína stirðu vöðva í vetur og til að setja í baðið. Engifer kominn í olíu og hitt verður sett í krukkur um leið og ég hef viðað að mér réttu hráefni. Hvar skyldi ég finna eini.... hm....Svo spennandi.

Baðsaldið ilmar í krukkunni af lavender og vanillu og spurning hvort ég skelli mér ekki bara í bað í kvöld. 

Spurning hvort það sé ekki sniðugt að leita uppi eitthvað námskeið svona til að vita eitthvað um hvernig á að gera svona gúmmulaði.  Annars er googlið og youtube ótrúlega drjúgur viskubrunnur. 

Blómakveðjur  SF  

 


Jurtir

Nú hef ég stigið fyrsta skrefið í að safna mér jurtum markvisst og sit hér með ilmandi te úr blóðbergi, maríustakki og guðmöðru. Út í er smá dass af fíflahunangi sem ég gerði í júní.

 Ég þekki allt of lítið af íslenskum jurtum en svo lengi lærir sem lifir og ég hef ákveðið að bæta í þennan viskubrunn. Það heillar mig að gera krem og ég er komin með grunnbókina og er að viða að mér grunnhráefni til þessarar gerðar. Þá er nú flott að kunna á jurtirnar.  

Í gær tíndi ég slatta af fjallagrösum og í þessum skrifuðu orðum er fjallagrasa og kúmenbrauð að hefast. Lyktin lofar góðu og uppskriftin er eitthvað á þessa leið:  

 

  • Vatn  
  • Súrmjólk
  • Ger
  • Smá kókospálmasykur og fíflahunang (3 tsk ca samt)
  • Fjallagrös, ca 2 msk 
  • Slatti af þriggjakornablöndu
  • Slatti af sesamfræjum
  • Smá ólívuolía 
  • ca 2 msk kúmen
  • smá hveitiklíð
  • Fyllt upp með spelt gróft 1/3 á móti fínu
Herlegheitin eru í fyrstu hefingu. Svo ætla ég að baka þessi brauð í formum  og hlakka svo mikið til að smakka. Þetta verður Fögruhlíðarbrauð því ég ætla að skreppa með mömmu og Sólrúnu sys, Dýrunni og Emil í smá Fögruhlíðarhleðslu og það verður haft meðferðis
.    
 
Skjál í jurtatei 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband