Færsluflokkur: Bloggar
"Hvað, finnst þér ég tala of mikið?"
Mánudagur, 15. september 2008
Sagði Dýrunn við pabba sinn í morgun en hann var viðstaddur morgunverðartíma áður en farið var í skólann, yfirleitt er hann lagður af stað á Eskifjörð meðan við hin erum enn í draumalandinu.
Dýrunn þessi elska getur talað og talað og talað og gaman væri að vera fluga á vegg við morgunverðarborðið; Ég ; "Dýrunn, taktu nú lýsið þitt og vítamínið".... Dýrunn heldur sögunni áfram sem hún var byrjuð á eða draumnum langa sem hana dreymdi um nóttina. Ég ; Dýrunn mín, geymdu söguna aðeins og taktu lýsið og vítamínið, þú mátt halda áfram á eftir..... og svona gengur þetta með morgunverðinn líka þó hann sé hjá flestum fljótafgreiddur þá eru teknir sopar og svo heldur frásögnin áfram.
Pabbinn er ekki með eins mikið langlundargeð og ég, sérstaklega ekki ef sögustund hefst í miðjum fótboltaleik og tekur drjúga stund af fyrri hálfleik. Um daginn var hann eitthvað að stoppa hana af þá svaraði hún ákveðið; "Nú, ég hef bara frá mörgu að segja". Hún bætir því gjarnan við þegar sögustundir ber á góma og aðstæður leyfa ekki langa hlustun; "Nú ég fæddist líka talandi".
Það liggur við enda var hún mjög fljót að tala og fyrsta orðið var mamma að sjálfsögðu. Ég var dugleg að skrá fyrstu orðin en um 16. mánaða aldurinn var hún farin að segja allt sem við hana var sagt, farin að tengja saman orð og beygja. Tæplega ársgömul var hún í pössun hjá Gurru og þá sagði hún iðulega "pabbi minna, mamma minna".
Þetta skrifaði ég í dagbókina: 18 mánaða var ég farin að tala rosalega mikið og sagði langar setningar. Tæplega tveggja ára orðin altalandi og kunni mörg lög. Talaði mikið og söng og hafði alltaf svör þegar ég var spurð.
Þetta skrifaði hún sjálf í dagbókina eftir 7 ára afmælið: Þegar ég var 7 ára þá bauð ég Brinjari, Mána, Rakeli, Sigga, Kolbrúnu, Eyþóri, Viktori, Jónatani, Magneu, Jónínu og Arney. Ég hafði ormaköku og rjómatertu og þeim fanst það gott. Og ég bauð Dagní Sól líka og ég fékk eirnalokka. (kommur og punktar eru mín viðbót)
Annasöm vika framundan og frábær helgi með Herbavinum mínum í Reykjavíkinni, hlakka mikið til, hef meira að segja bóndann með og það er ekki verra
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Lífsmark.....
Mánudagur, 8. september 2008
Já já, ég er á lífi og vel það. Bloggandinn er ekki yfir mér þessa dagana, mikið að gera og það er alltaf gaman. Ég hef mikið verið að velta fyrir mér tilgangi bloggsins míns og hvort ég vil hafa hana opna öllum umheiminum. Nánar um það síðar.
Hafið það eins og þið viljið.
Ein snilldar setning tengd efni sem ég er að vinna í þessa dagana.
"When you focus on the past, you deny yourself the future". Karim Hajee
Hafið það eins og þið viljið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
-Snilld-
Miðvikudagur, 27. ágúst 2008
Eins og talað út úr mínu hjarta. Spakmælið sem ég fékk frá velgengni.is í dag.
-Svartsýnismaður kvartar yfir óhagstæðum vindi. Bjartsýnismaður býst við að vindurinn breytist á hverri stundu. Leiðtogi hagar seglum í samræmi við vindinn- John Maxwell
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
-Haustið-
Þriðjudagur, 26. ágúst 2008
Hver árstíð hefur svo sannarlega sinn sjarma. Einu sinni varð ég oft döpur á haustin. Þegar allt líf sumarsins virtist fölna á örskotsstundu. Með árunum og já einu og einu gráu hári hefur þetta breyst og í dag leitast ég eftir því að sjá það fallega úr hverri árstíð fyrir sig.
Ég á samt mína uppáhalds árstíð, vorið þegar allt er að lifna en sjarminn í haustinu er líka ótrúlegur. Þegar birkiskógarnir skipta litum svo svakalegum að mann hefði ekki grunað að öll þessi gulleitu litatilbrigði væru yfir höfuð til. Berin maður lifandi upp um öll fjöll og jafnvel niður að fjöru. Það er verið að plana að safta og skella í einhverja góða bláberjasultu. Radísurnar komnar upp úr moldinni og gulræturnar á endasprettinum, reyndar eitthvað dvergakyn að því er virðist og blómkálið verður væntanlega blómkál næsta sumar með meiri fyrirhyggju í nýrri sáningu. Sem sagt uppskerutími. Uppskeran lítur dagsins ljós á fleiri sviðum og er ég gífurlega þakklát fyrir það, kemur í mig meiri krafti og sannfæringu að ég hafi valið rétt á sínum tíma.
Nú er tími fyrir kertaljós, kósí ljós hér og þar og kósíheit yfir höfuð. Sólblómið mitt stendur enn þó það sé ekki eins fallegt og á myndinni sem fylgir með. Það er búið að gleðja okkur í allt sumar og spenningur að fylgjast með því vaxa og dafna og ekki slæmt að eiga þessa minningu á stafrænu formi
Hafið það eins og þið viljið í haustinu.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Brúðkaup við sjávarnið.
Miðvikudagur, 20. ágúst 2008
Það gerist vart dásamlegra. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera við brúðkaup Rósu frænku minnar og Zdenek sl. laugardag. Í garðinum í Sætúni sem hefur tekið þvílíkum stakkaskiptum í sumar frá því að vera eitt þúfna kraðak í það að vera fallegur sælureitur. Stefnir í sannkallaðan listigarð.
Brúðurin var litrík og falleg og eins mikið hún sjálf og hún hefur alltaf verið og Zdenek glæsilegur við hennar hlið. Gunnlaugur lagði sig allan í athöfnina og undirleikurinn frá fjörunni, öldugjálfrið við steinana var stórfenglegur.
Veislan var ekki slor enda meistarakokkar í Skuldinni og skolað niður með góðum veigum. Gleðin stóð langt fram á nótt eða morgun og verður lengi í minnum höfð .
Sunnudagurinn var sannkallaður hvíldardagur og engin stórafrek unnin. Á mánudag var svo níu ára afmælisveisla frumburðarins míns og eftir hana brunað í tveggja ára veislu Jónínu frænku hans í Berufirðinum sem hann var svo heppinn að fá í afmælisgjöf.
Mikil gleði og fjör.
Nú er skólastarfið að hefjast og þá hefst pússl og skipulag. Nú reynir á kerluna að skipta sér á milli fjögurra vígstöðva: heimilisins, skóla, Herbalife og jóga. Yfirleitt kemst það fljótt í rútínu en alltaf samt viðbrigði að koma sér í gang.
Spakmælið:
"Augnablikið er gjöf til mín". G.G.B.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Spakmæli dagsins...
Miðvikudagur, 13. ágúst 2008
Þetta hafa eflaust margir fengið í netpósthólfin sín, þ.e.a.s. þeir sem eru skráðir hjá velgengni.is og fá send spakmæli daglega.
- Dagurinn í dag kemur ekki aftur, notaðu hann vel-
Það ætla ég svo sannarlega að gera enda nóg af verkefnum framundan frá morgni til kvölds .
Örlítil breyting frá því þegar markmiðið hjá mér var að komast í gegnum daginn í þreytunni og orkuleysinu. Það hafðist yfirleitt með því að leggja sig að minnsta kosti einu sinni yfir daginn, stundum tvisvar og svo var það sófinn á kvöldin í einhverju meðvitundarleysi.
Ég er gífurlega þakklát fyrir að hafa fundið það sem kom mér af stað aftur og náð upp orku sem ég hef aldrei kynnst áður, jafna sem endist allan daginn.
Hafið það eins og þið viljið elskurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
-Jóganámskeið á haustönn-
Mánudagur, 11. ágúst 2008
Nú er dagskráin fyrir haustið klár og til að byrja með verð ég eingöngu með jóganámskeið á Stöðvarfirði, sé til hvað ég geri með hina staðina þegar fram líða stundir í vetur. Hlakka til að sjá sem flesta og til að sjá frekari dagskrá skoðið í póstkassann á morgun (Stöðfirðingar og Breiðdælingar) eða kíkið á jógasíðuna mína, linkurinn er hér til vinstri.
Jógakveðjur .......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Komin heim eftir Króksmót !
Mánudagur, 11. ágúst 2008
Um helgina varði fjölskyldan í Hólalandinu helginni á Sauðárkróki á Króksmóti. Þetta er orðinn árlegur viðburður, annað skipti sem við förum og Dýrunn skellti sér með þetta árið. Lögðum land undir fót á fimmtudagseftirmiðdegi með grána gamla í eftirdragi og gistum á Akureyri. Vorum komin á Krók um tvöleytið á föstudag og fengum fínt tjaldpláss á svæðinu þar sem flestir úr Fjarðabyggð tjölduðu.
Það er alltaf yndislegt að koma á Krókinn og mér finnst ég alltaf svolítið vera að koma "heim" og fer í smá nostalgíu fíling að hugsa til vetranna tveggja sem ég dvaldi þar í Fjölbrautaskólanum sem eru án efa einn skemmtilegasti tími í mínu lífi.
Mótið hófst snemma á laugardag með skrúðgöngu að sjálfsögðu og þar skartaði Fjarðabyggð rosalega flottum hóp, allir í nýju Fjarðabyggðagöllunum og ekkert smá flottir. Þetta voru aðallega strákar nema í yngsta flokknum og eldri dömurnar kepptu á pæjumóti á Siglufirði.
Nú svo hófst fyrsti leikur og því miður lagði hann línurnar um framhaldið. Liðið þeirra var ekki nógu sterkt til að vera B lið og úrslitin urðu eftir því. Það féllu því mörg tár þann daginn og það var nokkuð niðurbrotinn náungi sem settist inn í tjaldvagn eftir leikinn og sagði "ég er hættur".
Eftir sundferð í Varmahlíð og ís á eftir var hann búinn að hrista þetta af sér og skemmti sér hið besta á kvöldvökunni um kvöldið þar sem Gunni og Felix skemmtu.
Á sunnudag var meiri barátta í þeim og töpin urðu ekki eins stór og sár, skrápurinn orðinn harðari og þeir gáfust ekkert upp.
Þetta er eitthvað sem þarf að huga betur að og sameinast um að koma þessum strákum á fleiri samæfingar svo þeir fái líka spilareynslu saman. Ég trúi því að það komist í markvissara horf í framhaldinu. Við búum við það fámenni hér á Stf að ekki er hægt að halda úti æfingum fyrir þessa flokka og stundum erfitt að koma því inn í stundaskrána að vetrinum til að keyra á næstu firði en þetta skýrist allt með haustinu hvernig skipulagið verður í vetur.
Heim keyrðum við seinnipartinn með viðkomu í kvöldmat á Akureyri og skriðum í ból rúmlega hálf eitt í nótt, ósköp þreytt. Þrátt fyrir stórtap var kappinn þannig lagað ánægður með helgina, Dýrunn hæstánægð að hafa komist í útilegu og allir vel útiteknir eftir sólina á Króknum.
Læt fylgja smá sýnishorn af helginni.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
-Aldan-
Mánudagur, 4. ágúst 2008
Á frídegi verslunarmanna heimsóttum við Dýrunn Ölduna. Ég vissi að það væri háfjara og notaði tækifærið eftir trimm morgunsins að heimsækja Ölduna. Hún skartaði sínu fegursta og Dýrunn naut sín í botn. Við fórum í leikinn "sjórinn getur ekki náð mér" og Dýrunn uppskar örlitla bleytu í fæturnar og við báðar ánægju og gleði. Það er alltaf gaman að skrifa í sandinn
Við dvöldum sem sagt í rólegheitum heima þessa helgi enda framundan heilmikil fótboltahelgi á Króknum um næstu helgi. Það var gott að vera heima og garðurinn naut góðs af því. Hér koma fleiri myndir úr ferðinni okkar Dýrunnar í morgun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Og svo bara....
Föstudagur, 1. ágúst 2008
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)