Færsluflokkur: Bloggar

"Góða nótt" í morgunsárið..

Þegar ég kyssti Dýrunni bless áður en hún lagði af stað í skólann datt þetta af vörum hennar "góða nótt". Það eru svona ákveðnir rútínukossar, kyssa áður en farið er að sofa og kyssa áður en farið er í skólann. Hún hló að sjálfri sér fyrir vitleysuna. Auðvitað eru milljón önnur tilefni til kossa á hverjum degi.

Í morgun var hún eitthvað að kvarta undan eymslum undir hendinni og var að ræða við pabba sinn. Ég spurði hvort hún hefði eitthvað meitt sig, " Já, ég faðmaði málningardótið hans pabba í forstofunni í gær". Atburðarrásin var sú að hún hljóp fram í forstofu, datt um þröskuldinn og faðmaði málingardótið. Að sjálfsögðu ekki hlægilegt þá en gott að brosa af því eftir á. 

Hér á bæ er unnið í því markvisst að halda jákvæðninni gangandi. Börnin skilja ekki frekar en fullorðnir hvað gengur á í þessu samfélagi öllu en skilja að það þarf að draga saman seglin og skipuleggja hlutina vel. 

Nú skiptir rosalega miklu máli að foreldrar gefi sér tíma með börnunum sínum. Lítill göngutúr getur verið heilmikil sálarbót og styrkir böndin. Að setjast niður og perla eða leira eða pússla þó maður hafi ekki tíma í það að eigin mati, en hlaupa heimilisverkin frá okkur, ónei, ekki hef ég orðið vör við það, þau bíða spennt eftir að einhver taki til hendinni þó það sé ekki gert eftir klukkunni. 

Nú er sælustund hjá mér í klukkutíma og ég ætla að nota þá stund vel áður en ég held af stað í vinnuna mína. Set frábært efni á fóninn eða Ipodinn og læri eitthvað spennandi. 

Hafið það eins og þið viljið og verjið tíma með þeim sem skipta ykkur mestu máli ! 


Vetrarfrí !

Langþráð vetrarfrí skólans er langt komið og fóru plön öðruvísi en áætlað var. Á föstudag söng ég í jarðarförinni hennar Rósu blessunarinnar á Vengi og stökk svo af stað til að klára að græja fjölskylduna fyrir norðurferðina.  Það var mikill spenningur í smáfólkinu enda fyrirsjáanlegt að við hefðum þrjá heila daga hjá frændfólkinu þar.  Um fimmleytið vorum við komin á Reyðarfjörð og biðum þar í um klukkutíma eftir Jósef sem tafðist í vinnunni. Það fannst mér mjög bagalegt því spáin var hvöss og ég vildi komast sem fyrst af stað. 

Jæja, af stað var brunað rúmlega sex, fyllt á tankinn á Egilsstöðum og áfram lá leiðin. Jósef í símasambandi við bílstjóra úr vinnunni til að athuga með færð og rétt áður en við komum í Jökuldalinn fengum við þær fregnir að Víkurskarðið væri orðið ófært. Það var þá ekkert annað í stöðunni en að snúa við og varð mikil sorg í aftursætinu.

Á laugardag biðum við milli vonar og óttar en vetur konungur hafði ákveðið að heiðra Norðurland svo um munaði og það hófst ekki ruðningur á skarðinu fyrr en undir kvöld.  Enn var haldið í vonina og á sunnudagsmorgni var kíkt á netið enn og aftur en þá var ófærðin farin að færa sig lengra yfir fjöllin og stór hluti þeirra ófær. Ferðaplön voru því blásin af.

Á laugardag lofaði ég Dýrunni að við myndum þrífa herbergið hennar ef við kæmumst ekki Norður og við hófumst handa við tæmingu um morguninn á sunnudag. Þegar litla skotið hennar var orðið tómt kom í ljós að það vantaði frekar nýja málningu heldur en þvott svo Jósef fór í leiðangur í kjallarann og fann málningu. Það var spaslað og horft á Liverpool leik meðan það þornaði, síðan rennt yfir og frökenin gat sofið í sælunni í nótt. Nú tekur við að fylla það aftur. Ótrúlegt drasl sem safnast saman og kemst fyrir í svona litlu herbergi en hún er samt viljug að losa sig við ýmislegt sem hefur lokið hlutverki sínu. Eitthvað annað en Friðrik sem varð vitlaus um daginn þegar ég nefndi að henda Gilitrutt sem hann gerði á leikskólanum, "Nei mamma, þetta eru minningar". Ó boy ó boy. Hún fer væntanlega upp í skáp með leirköllunum sem hann leiraði um árið og eru líka minningar. 

Við erum sem sagt í vetrarfríi heima í dag og á morgun og í dag er planið að fara í sund á Djúpavogi, ummm hún er svo yndisleg laugin þar.

Gengur bara betur næst með norðurferð.........


Yessss, hann er ekki farinn

Þessi orð kváðu við þegar Friðrik leit út um gluggann í morgun. Áður en hann fór að sofa í gærkvöld var hann að velta því fyrir sér að það væri alveg týpiskt að snjórinn yrði svo farinn í dag.  En hann fór ekki og úti blæs vindurinn og það er bara kominn vetur, ótrúlegt en satt og fyrsti vetrardagur ekki enn kominn og ég naglalaus, same old same old. 

Við fullorðna fólkið köllum þetta varla snjó, smá föl og það hefur fokið í smá hrúgur hér og þar. Þetta dugar samt til þess að gleðja yngri kynslóðina, sleðarnir eru dregnir fram og ég sá eina dömu draga sleðann sinn á eftir sér niður Balann þegar ég sat með morgunsjeikinn minn og horfði á mannlífið.  

Áður fyrr var hægt að sitja og fylgjast með þegar þorpið vaknaði. Þá voru flestir að vinna hér á staðnum og voru á leið til vinnu eða að skutla börnunum í skólann og leikskólann. Það skapaðist meira að segja stundum smá öngþveiti við einu almennilegu gatnamótin okkar en það er liðin tíð.  Eina hreyfingin rétt fyrir átta þessa dagana eru skólabörn og kennarar á leið í skólann og eða leikskólann. Flestir hinir eru farnir áður en við komum á ról í vinnuna sína á næstu fjörðum. 

Svona breytist þetta allt saman. 

 Sendi ykkur góðar kveðjur inn í nýja vinnuviku og munið að hafa það eins og þið viljið Wink


Týndi "sauðurinn".

Hver haldið þið að hafi bankað á dyrnar rúmlega sjö í morgun ?  Hún Sóla blessunin sem fór í útlegð þegar við vorum fjarverandi í júní og leiðinda fress lagði undir sig kjallarann sem hún hafði til afnota í fjarveru okkar.

Ég var búin að afskrifa hana greyið en samt ekki meira en svo að ég var ekki búin að gefa kattarmatinn hennar. Hún á svosem sögu um lengri fjarveru, var 7 mánuði í burtu þegar við fluttum og hún strauk frá okkur og ekki lífsins mögulegt að nálgast hana.  Nú skilaði hún sér sjálf og það tel ég gott, búin að stytta ævintýrið um 3 mánuði svo ef hún skreppur frá aftur verður það kannski bara 1 mánuður.

Ég var reyndar búin að viðra þá hugmynd að ef hún fyndist gætum við ekki haft hana ef hún væri alltaf á einhverju svona flandri því erfitt er að vita ekki hvar hún er eða hvort hún er á lífi.  Þær hugmyndir fuðruðu út um gluggann þegar við hittumst í forstofunni og hún nuddaði sér utan í mig vinstri hægri.  Á hún ekki skilinn annan séns, jú það finnst mér og líka Friðrik og Dýrunn sem vöknuðu við að hún hoppaði uppí til þeirra líkt og hún hefði verið burtu eina nótt.  Jósef hefur ekki atkvæðisrétt hehe. 

Hún er samt svolítið hvekkt og hefur látið lítið fyrir sér fara í dag enda vön frjálsræðinu úti í náttúrunni. Eitthvað hefur hún fengið að borða blessunin og lítur svo vel út þessi elska.  Nú tekur við ormahreinsun og svo er að sjá hvernig hún plumar sig greyið. 

 Hafið það eins og þið viljið og verið góð við dýrin  Wink


Staldraðu við...

Þetta fékk ég sent frá Velgengni.is og deili því hér áfram með ykkur....

-Staldraðu við,

Horfðu á alla demantana sem glitra allt í kringum þig. Börnin þín, makann, foreldra, vini. Horfðu á trén, svo falleg í haustlitinum, horfðu á allt þetta fallega í umhverfinu sem umlykur þig hvern dag.

Sama hvernig ástandið er í þjóðfélaginu, þá eru þetta verðmætin sem skipta þig máli. Hugsaðu um það.

 

Eigðu góðan dag - 

 


Mikill kvenskörungur...

Já þær voru öflugar kvenpersónurnar í Íslendingasögunum. Ég má til með að deila ykkur snilldar setningu úr leikriti sem Friðrik og félagar eru að vinna úr Snorra sögu. 

"Ingibjörg horfði á Snorra og Snorri datt og rotaðist".  

Það er sem sagt líka hægt að rota með augnaráðinu. Magnað.  Ég vona að leikritin verði sett upp því ég sé fyrir mér að þetta verði mjög tilkomumikið atriði. 

Nú er að baki yndisleg helgi. Saumaklúbburinn Hvalnessystur átti sinn árlega hitting um helgina. Það dugar ekkert minna en helgi.  Í ár hittumst við á Djúpavogi, gengum um sandfjöruna, fórum í sund og fengum okkur pizzu. Brunðuðum svo í gististað á Hof með  viðkomu á Kerhömrum hjá Hlíf og Hafþóri og sungum bæði ljúfu og rapp útgáfuna af "Kalli kálormur" við undirleik Hafþórs. 

Þetta var upphafið að ótrúlega hláturmildri helgi enda ekkert annað í boði þegar Hvalnessystur eru annars vegar.  Óboy óboy. Ég ætla ekki í neinar frekari útlistingar því þetta var helgin okkar Smile en mikið lifandi skelfing hlakka ég til næsta hittings.  Það er ekki oft sem magavöðvarnir eru í krampa heila helgi, mikil lifandi skelfing hlýtur þetta að vera gott fyrir heilsuna.

Dýrmætt að eiga svona skemmtilegar vinkonur líka. Allar með sömu ræturnar úr Stöðvarfirðinum góða og höfum haldið sambandi frá því við vorum í saumaklúbb í Reykjavík fyrir möööörgum árum og haldið úti fréttabréfi sem fer hring eftir hring ár eftir ár síðan 1994 ef mér skjöplast ekki. 

Hér kemur ein falleg úr óvissuferðinni sem Hafþór og Dóra fóru með okkur í á þvílíkum kagga í eigu Hafþórs Winksystrahittingur_016.jpg

 Yfir þennan sjó og sand var okkur keyrt úr í Brimilshólma og hvað halið þið að við höfum séð? Jú sjö seli sem kunnugum þótti heldur lítið. Þvílík fegurð þarna og ekki létum við veðrið aftra okkur en hann blés hressilega. 

Hugsið um hvað það er dýrmætt að rækta félagsskapinn sem lætur manni líða vel.

 

 

 

Eitt spakmæli um vináttuna. Vel við hæfi.

"Ég þekki gildi vináttunnar.

Hver vildi lifa án hennar? 

Hún er ágæt í meðbyr; ómetanleg í mótbyr.  Jos.von Görres


Burrrrrrrrr

Merkilegt hvað haustkuldinn er rosalega kaldur. Þetta virðist koma manni á óvart á hverju hausti.  Reyndar bregður við þegar hann fellur um nokkrar gráður að því er virðist á einni nóttu.  En mikið lifandi skelfing eru fjöllin falleg og Súlurnar hafa skartað sínu allra fegursta alla vikuna. Þessi var tekin fyrsta morguninn sem gránaði.

 

sept_009.jpg

 

Njótið helgarinnar að vild. Ég ætla að verja tíma mínum í dýrmætum félagsskap kenndan við systurnar frá Hvalnesi.  Treð mér í Súlutreyju með auglýsingunni Spread Satin framan á, örlítið þrengri en um árið en mikið gasalega fara gulu og bláu litirnir mér vel. Að sjálfsögðu verða stuttbuxur og sokkar í stíl.  


Fátt þykir mér yndislegra...

..en jóga í morgunsárið. Loksins gafst færi á að vera með laugardagsjógað með jógahópnum sem ég er að kenna. Þær báðu mig vinsamlegast um að vera á rólegu nótunum og þannig er það nú að ég er það stirð eftir nætursvefninn að rólegheit á morgnana henta mér best. Við gerðum liðkandi og losandi æfingar í klukkutíma og slökuðum svo á í um korter mmmmmmmmmmmmmm þvílík dásemd.Það var mikið stunið alla leið út úr húsi svo vel leið þeim eftir herlegheitin. 

 Þær eiga heiður skilinn þessar duglegu konur sem eru búnar að koma til mín ár eftir ár í jóga og eru með toppmætingu alltaf hreint. Nú eru liðnar fjórar vikur af jóganu okkar á haustönn og ég og þær finnum svo mikinn mun hvað varðar styrk og liðleika. Það hægist yfirleitt aðeins á yfir sumartímann en alltaf er maður fljótari að komast í formið þegar byrjað er og á alltaf meira og meira inni. 

Ég var mjög dugleg við hugleiðsluna í sumar enda er hún svo yndisleg að það hálfa væri hellingur (að mínu mati).  Ég geri líka alltaf æfingar allan ársins hring en er markvissari á veturna þegar ég er með námskeiðin, æfi nýjar útfærslur til að kenna og svoleiðis.

 Hafið það eins og þið viljið í restinni af helginni................. Heart


Og í dag..

Er ég eins og nýsleginn túskildingur þökk sér frábærri næringu og uppbyggingu í skrokknum. Áður hefði ég verið vikuna að jafna mig eftir svona törn eins og um helgina. 

 Var nett þreytt þegar ég kenndi jógað í gærkvöld en ef maður er þreyttur er 100% ástæða til að drífa sig í jóga því þaðan kemur maður endurnærður og finn :)

Framundan er annasöm vika, stafgöngudagur á laugardag klukkan 13:00, síðasta ár var svaka góð mæting og vonandi í ár líka.  Á sunnudag tek ég þátt í kynningu á Egilsstöðum á mínum uppáhalds vörum og segi þar árangurssögu mína sem er nokkuð mögnuð að ég segi sjálf frá Smile

Það eru því stafgönguæfingar, jóga og allt hitt skemmtilega sem ég ætla að taka mér fyrir hendur í þessari frábæru viku...

Hafið það eins og þið viljið við leik og störf. 


Mér líður í dag...

..eins og trukkur hafi keyrt yfir mig en samt er ég svo glöð og ánægð. 

Um helgina var sannkölluð mega helgi hjá mér og Herbalifevinum mínum á Íslandi. Á föstudagskvöld fræddi ég stóran hóp af mínum nánasta samstarfsfólki um persónulega uppbyggingu og fræddist sjálf heilmikið.

Á laugardag fræddist ég enn meira og tók eina mikilvæga ákvörðun. Um kvöldið var okkur boðið í Kokteil í Turninum í Kópavogi ásamt góðu fólki sem allt á það sameiginlegt að hafa unnið vel og markvisst síðustu mánuði og fékk þessa viðurkenningu að launum.

Sunnudagurinn ekki síður magnaður, þá starfaði ég við Sportrástefnu sem Herbalife hélt í Háskólabíói og það mættu hvorki meira né minna en um 1000 manns. Aðal gestirnir voru dr. Luigi Gratton og Else Lautala, ótrúlega magnað fólk og gaman að hitta þau líka privat og persónulega eins og sum okkar fengum á laugardagskvöld og sunnudagsmorgun.

Ég var í sjeikliðinu og það þurfti snör handtök að blanda sex tegundir af sjeikum ofan í 1000 manns, ótrúlega magnað. 

Mesta ánægjan var að hafa bóndann með og hafði hann gaman af þó honum væri ekki þrælað í gegnum allt prógrammið, menn hafa bara úthald í það þegar 

Þetta var vægast sagt stór vítamínsprauta og ég ætla ekki að hafa meiri orð um það.... búin að panta drykkinn og bíð spennt Wink   

Kíkið á linkinn ...   www.herbalife-h3opro.com/is/ 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband