Færsluflokkur: Bloggar

-Stundvísi-

Ég spái oft í þetta merka fyrirbæri stundvísi og óstundvísi. Minn betri helmingur segir stundum að ég sé svo stundvís að ég sé óstundvís. Hvað um það þá þykir mér gott að hafa tímann fyrir mér og vil vera komin tímanlega þangað sem ég á erindi þó ég sé stundum svolítið snemma á ferðinni Smile.

Hins vegar þykir mér erfitt að takast á við óstundvísi hjá fólki og tel það jafn mikinn ávana og stundvísi.

Maður mér mjög náinn á besta aldri (hávaxinn, aðeins farinn að grána í vöngum) mætti iðulega  of seint í frystihúsið þegar hann var að vinna þar. Mamma sagði stundum að hann væri stundvíslega óstundvís. Það var þá og ég veit að hann stendur sig vel í dag með að mæta á réttum tíma Smile.

Ein góð vinkona mín lét iðulega bíða eftir sér í denn þegar við vorum að fara eitthvað saman og mér fannst það mjög leiðinlegt en það breyttist ekki fyrr en ég stóð upp á afturlappirnar og sagði hvað mér fannst Smile. Hún stríðir mér á því enn í dag. 

Það er alltaf sama fólkið sem kemur of seint hvar sem er, í vinnu, í skóla, á fundi, á fyrirlestra og hvar sem er þá er þetta mikil truflun og í raun dónaskapur við þá sem mæta tímanlega og eru að hefja vinnu þegar enn er að tínast inn fólk.

Mér þykir óstundvísi mikil ókurteisi við aðra og á þeirri skoðun stend ég föstum fótum og hana nú. 

Hvernig skyldi nú fólk getað vanið sig af óstundvísi. Veit ekki, því ég hef ekki staðið í þeim sporum. Skyldi þeim vera sama um aðra í kringum sig? Veit ekki, hef ekki verið í þeim sporum. Sjá þeir ekki truflunina sem þeir valda ? Veit ekki, hef ekki  verið í þeim sporum.  Eigum við að gefa þeim klukku sem er 10 mínútum of fljót?

Veit ekki en hver og einn verður að sjá hjá sér og hafa vilja til að breyta. Það er með þetta eins og annað ef við sjáum ekkert athugavert í okkar eigin fari er þá einhver ástæða til að breyta því ? 

 Í það minnsta ætla ég að halda áfram að vera stundvís. 

Hafið það eins og þið viljið..... stundvís eða óstundvís. 

 


Fín vekjaraklukka !

Skórinn úti í glugga er fín vekjaraklukka á þessu heimili. Tíu mínútur fyrir sjö í morgun voru allir komnir á fætur og búið að kíkja í skóinn og allir sáttir við sitt. Sá eldri veit hver sér um gjafirnar en Dýrunn er enn með fulla trú og skrifar bréf á hverju kvöldi, væntanlega fram að jólum. Hver sveinki svarar og þakkar fyrir með skelfilegri rithönd.  Allar þessar ritsmíðar eru vel geymdar og síðar verður hægt að ylja sér við minningarnar sem þær geyma.

Hér fara líka allir í háttinn á skikkanlegum tíma, reyndar er góð rútína á því á skólatíma, engin tölva eftir sex  og í háttinn á þeim tíma að menn séu úthvíldir því ég hef þann metnað að börnin mín geti sinnt vinnunni sinni í skólanum án þess að vera gapandi og geispandi eða geðvond af einskærri þreytu. Friðrik má velja sér einn fótboltaleik í vikunni að horfa á eftir kvöldmat og hann gengst við því. 

Eitt af því sem mér þykir vanta í samfélag nútímans er að börnum séu sett mörk eða eins og sálfræðikennarinn minn orðaði um árið í þroskasálfræðinni "Börn þurfa ást og aga". Þetta er mér mjög hugleikið og ég á óskaplega erfitt að verða æðrulaus yfir því hvað börnin eiga erfitt með að fara eftir reglum, sýna samhug og eiga eðlileg samskipti, alltaf keppni og sífelldir árekstrar. Sorglegt í alla staði. Börnin endurspegla  það umhverfi sem þau eru í og því er sjaldan of oft kveðið., "aðgát skal höfð í nærveru sálar", muna það að börn endurspegla það sem fram fer á heimilunum í orðum og gjörðum, þau sem alast upp við neikvæðni eru neikvæð, þau sem heyra talað um annað fólk á neikvæðum nótum gera það líka og oftar en ekki mistúlka eða túlka á eigin hátt.

Ekki eru allir foreldrar á þessum nótum sem betur fer og ýmsir sem ég þekki sem hafa lausnamiðaða hugsun, hjálpa börnunum að hugsa stórt og hjálpa þeim að efla draumana sína, kenna börnum sínum að þau beri ábyrgð á eigin vellíðan og það sem þau sendi frá sér fái þau til baka, jákvætt eða neikvætt. Þeir foreldrar vita líka að það er skratti erfitt að sá jákvæðu fræjunum í neikvæðu samfélagi en gefast ekki upp og halda áfram og áfram því þeir vita hver ávöxturinn er.  Smile Ég tek ofan af fyrir ykkur kæru vinir þið vitið hver þið eruð með þessum lestri. 

Það var mikið passað upp á að við heyrðum ekki ef rædd voru fullorðinsmál sem við ekki skildum og sem betur fer ólst ég ekki upp við öfund í garð náungans, eða að sífellt væri verið að kenna öðrum um hitt og þetta sem miður fór,  heldur að vera sátt við mig og það sem ég stend fyrir. Stundum þegar einhver var í heimsókn hjá mömmu og ég mátti ekki heyra eitthvað sagði mamma "Litlar könnur hafa stór eyru" og þá féll umræðan niður eða ég mátti gjöra svo vel að fara út að leika mér eða upp að leika og réði engu um það. 

Þá er ég aðeins búin að pústa, það er gott, en að öðrum dægurmálum.

Kisa er svoddan ólíkindatól. Nú hafði ég talið hana af en hafði heyrt af kisu á hennar gömlu slóðum, var búin að panta dýraeftirlitsmann frá Fjarðabyggð til að fanga í búr og útvega mér annað til að fara með hana í Breiðdalinn til að fara í "sveitina" langt í burtu.  Um kvöldmatarleytið var vælt fyrir utan, mjáááá´, "Bíðið við" sagði Jósef, "ég heyrði örugglega mjálm", svo stökk hann inn í forstofu og opnaði dyrnar og þar beið Sóla, nuddaði sér utan um fæturna á honum og leitaði svo að matardiskunum. Allt fór á hvolf og hún fékk dýrindis máltíð og hver fjölskyldumeðlimur var nuddaður vel um fæturna svo vel þakkaði hún fyrir sig.  Hmmmmmm, þar með var kerlan komin í klípu eina ferðina enn og  enn og aftur bakkar hún og leyfir þessari snúllu að bræða sig með keleríinu og fögrum loforðum um að gera þetta aldrei aftur. 

Ég fer þó með myndir á vettvang þar sem talið er að hún hafi verið að guða á glugga og ef það endurtekur sig þá verð ég að taka á honum stóra mínum og standa við stóru orðin, því miður því ég vil ekki að fólk geti ekki opnað glugga vegna kattarins míns. Ég bý svo vel að búa hátt uppi og get opnað flesta glugga án slíkra heimsókna, hina opna ég ekki því þá birtist fress sem mig langar ekkert að fá í heimsókn. 

Í gær fengum við óvænta sendingu frá vinum okkar í Þýskalandi sem voru að hugsa til okkar í kreppunni eins og þau orðuðu. Hún kom mér til að vökna um augu og þau eiga margfaldar þakkir skildar. 

Aðventutónleikarnir í kirkjunni verða í kvöld og krakkarnir syngja þar að sjálfsögðu. Fricco eins og hann kallar sjálfan sig þessa dagana er að eigin mati að verða of stór til að syngja í þessum hóp en allir taka þátt og munar um hverja röddina. Smá vottur af gelgju og uppreisn í aðsigi.  

Á morgun verða jólatónleikar tónlistarskólans og ég hlakka mikið til. Ég er svo ánægð og stolt af því hvað þeim gengur vel með að spila og bíð spennt að sjá. Dýrunn er að spila á sínum fyrstu tónleikum og það er svakaleg upplifun og mikil tilhlökkun hjá henni.  Friðrik spilar með hljómsveit í fyrsta sinn, fallegt verk og gaman væri að sjá einhverja fjölskyldumeðlimi á tónleikunum á morgun. Wink

Jæja elskurnar mínar, hafið það eins og þið viljið og farið snemma í háttinn..... annars verður skórinn kannski tómur LoL

 


Og hún lækkar enn...

Þegar ég var í námi fyrir norðan eða í Reykjavík fékk ég reglulega fréttir af sólarganginum frá pabba. Eldhúsglugginn vísar út að fjarðarmynninu og með fallegri sýn yfir Kambanesið. 

"Jæja, nú skríður hún rétt yfir Hnútuna" eða "Nú kemst hún ekki lengur upp á hálsinn" voru m.a. lýsingar hans á því hvernig staðan var í hvert skipti eftir því sem sólin lækkaði meira og meira.  Mér dettur þetta oft í hug á þessum tíma þegar sólin er lægst á lofti og smellti þessari mynd af áðan þegar ég kom heim úr göngutúrnum mínum í kyrrðinni og frostinu.

Alltaf hugsa ég til pabba á þessum tíma og ýmsar minningar rifjast upp. Þó liðin séu 10 ár frá því að hann kvaddi þessa jarðvist kemur söknuðurinn alltaf  upp hjá mér á þessum árstíma. 

En sú tilfinning sem er efst á baugi er þakklæti. Þakklæti fyrir að hafa fengið þennan yndislega tíma með honum. Þakklæti fyrir allt það veganesti sem ég fékk frá honum. Þakklæti fyrir húmorinn sem hann gaf okkur sinn skammt af og þakklæti fyrir að hafa alltaf trú á mér og því sem ég tók mér fyrir hendur. 

Takk takk....HeartHeartHeart

Og hér skellir hún sér nokkuð léttilega yfir hnútuna í dag ..........solaruppras_5_des2008.jpg


"Ég átti eitt sinn kött.....

........sem að gufaði upp, já hann hvarf bara svona einn daginn. Ég vissi aldrei aldrei hvað af honum varð því ég sé hann aldrei ganga um bæinn .... o.s.frv."

Þetta var eitt af mínum uppáhaldslögum þegar ég var ung því ég átti alltaf kisu og þeir (þetta voru alltaf fress) áttu það til að "gufa" upp með tilheyrandi sorg.

Sóla mín flakkarinn víðförli fór út að pissa á laugardag og hefur ekki sést hér síðan. Eitt er að hún fari í leiðangra á sumrin þegar hlýtt er og nóg æti en ég er hrædd um að hún hafi leitað sér skjóls einhvers staðar og það hafi fennt fyrir því það var mikill skafrenningur um helgina. Greyið skinnið ef svo er. Ég bíð því eftir hlákunni. Ég hef hugsað mér að skrifa bókina"Flökkusögur  Sólu", hún kemur út um næstu jól.

Einhver hugsar eflaust, hvernig nennir þú þessu, af hverju lætur þú ekki svæfa hana? Ég viðurkenni að ég hef hugsað þá hugsun en hún er samt svo yndisleg og góð þegar hún lætur svo mikið að dvelja heima við að ég get ekki fyrir mitt litla líf sent hana yfir móðuna miklu.  Þannig er nú það. Ekki svæfir maður börnin sín ef þau eru til vandræða og ég valdi það að annast þetta blessaða dýr og geri það með hennar kostum og göllum. 

Að öðru en kisurauli. Hér gekk aðventan í garð á rólegum nótum um helgina. Krakkarnir vildu helst skreyta allt en ég held mig á bremsunni og tók aðventukassana upp. Reyndar eru þeir enn fullir af sínu aðventudóti en það tínist upp úr þeim smátt og smátt. Ljós bætast í glugga dag hvern og með hvítan snjóinn úti er allt mjög hátíðlegt. Kveikt var á myndarlegu jólatré á Balanum á laugardag og börn og foreldrar gengu í kring um það syngjandi í kuldanum. Sveinarnir mættu með mandarínur og piparkökur. 

Ég fór á hreint út sagt frábæra aðventutónleika í Eskifjarðarkirkju á sunnudag og það var dásamlegt sálarkonfekt, hrollur aftur og aftur, bros og tár, allur skalinn. Egill Ólafs og Diddú sungu ásamt frábærum kór Fjarðabyggðar og ekki síður yndislegum barnakór frá Neskaupstað, Eskifirði og Reyðarfirði. Svo voru nokkrir hljóðfæraleikarar líka, óbó, fiðlur,selló,kontrabassi, píanó og orgel. Þetta var æði og kirkjan var troðfull. 

Dýrunn sýnir listir sínar á fimleikasýningu í dag og það er mikill spenningur og öll fjölskyldan fer til að horfa á. Ferðin er notuð til útréttinga að sjálfsögðu og alltaf bætist á tossalistann.

Þakklæti er ofarlega í mínum huga um þessar mundir og það hjálpar svo sannarlega að bægja frá áhyggjum vegna ástands mála í þjóðfélaginu. Hvern dag byrjum við á því við morgunverðarborðið að þakka fyrir eitthvað í okkar lífi. Mættu margir taka það sér til fyrirmyndar því mér er það mikið áhyggjuefni hvað mörg börn koma neikvæð inn í daginn....... hvar þarf þá að taka til ? 

Hafið það eins og þið viljið elskurnar .....


-Markaðurinn-

Síðustu daga hefur tilveran snúist í kringum jólamarkaðinn sem var loksins á sunnudaginn. Hér er búið að baka kökur og trölladeig og afraksturinn var seldur um helgina. Ekki skrýtið að í dag sé ég eins og hvítur stormsveipur því húsið er glimrandi af glimmeri í hólf og gólf. Kannski ætti ég að sleppa því og nýta það sem jólaskraut Smile.

 Þetta er held ég í 12 skipti sem markaðurinn er haldinn og alltaf er þetta jafn gaman. Ég hef sjálf tekið þátt síðustu ár til að auglýsa sjálfa mig og viðskiptin mín og svo fóru krakkarnir af stað í fyrra. 

Alltaf góð stemmning og notalegt, kaffihús með vöfflum, kakó og kaffi, tónlistaratriði og söngur. 

Að sjálfsögðu fylgja myndir af börnunum við borðin sín. 

Dýrunn og Kolbrún á jólamarkaðiEyþór og Friðrik með kökurnar sínar


Áttu tæpar sex mínútur aflögu?


Speki dagsins

Frá velgengni.is koma spakmæli á hverjum degi og þetta fékk ég í dag:

 

 - Sá sem tapar peningum, tapar litlu,

Sá sem tapar heilsunni tapar miklu,

en sá sem tapar hugrekkinu, tapar öllu-

Höf ókunnur

 

Þetta ætla ég að hafa að leiðarljósi í dag.    Hafið það eins og þið viljið Heart


Eldhnöttur á himni

Þegar dagarnir styttast smátt og smátt býður himnafaðirinn upp á hverja glæsisýninguna á fætur annarri á hverjum morgni solaruppras.jpgþegar nokkuð heiðskýrt er. 

Þessi sýning bauðst í morgun og ekki dónaleg. Ég skellti mér bara út á svalir og blessuð flaggstöngin kemst ekki hjá því að vera með, sólarupprásin er falleg engu að síður.

 Hér eru dagar myrkurs og mikið um að vera. Kertafleyting á mánudag, á þriðjudag var sögustund í skólanum og allir mættu svartklæddir, á miðvikudag var myrkrafílabolti í íþróttahúsinu og þar skemmtu menn sér konunglega, á fimmtudag var árshátíð skólans sem bar yfirskriftina "Ljósið í myrkrinu" á föstudag var m.a. kyndlaganga frá Byrgisnesinu og kakó á Brekkunni á eftir.

Í dag verður opið hús í Landatanga og hægt að sjá hvað þeir félagarnir Toni og Maggi eru að bralla þar, vinnustofa Rósu verður líka opin og jógarýmið mitt sem staðsett er í sama húsi. Einnig verður opið hús hjá Gúmmí og plasti ehf. í gömlu bræðslunni og vöfflukaffi milli 14:00 og 16:00.  Sem sagt nóg að gera og á morgun skella allir sér í sunnudagaskólann þar sem verður sungið, teiknað og mikil gleði. 

Hjá mér varð smá brotlending eftir ferðalagið þegar það lagðist í mig pest sem lagði mig samt stutt í rúmið. Ég var skíthrædd um að þarna væri ég að taka í mig æluna sem er að ganga en ákvað að svo væri ekki (ótrúlegt, það virkar)  lá samt bakk í fjóra tíma með öll öryggistæki við höndina (fötuna góður).  Var mjög leið yfir því að þurfa að aflýsa jógatíma en ég held að það hafi gerst einu sinni á mínum jógakennsluferli (sem er orðinn okkur ár) að ég hafi þurft að aflýsa tíma vegna veikinda. 

Ég var reyndar hálf skrýtin á fimmtudaginn en þá var árshátíðarundirbúningur og engin leið að hanga heima, var svo orðin nokkuð fín um kvöldið. 

Við Dýrunn fórum í kyndlagönguna í gærkvöld og Sólrún skellti sér með. Við fengum þessa flottu kyndla sem voru reyndar þeirrar náttúru gæddir að þeir flosnuðu upp og logandi tægjur lágu um allt Byrgisnesið á köflum. Börn og fullorðnir sluppu ósködduð en skórnir hennar Sólrúnar fengu illa útreið þegar hún ætlaði að slökkva í einni tutlunni. Þá bara logaði allt og þetta var næstum því eins og í bíómynd þar sem hún dansaði í eldhafinu. Hún slapp ómeidd. 

Njótið helgarinnar eins og þið viljið Smile


Magnað !

Já hreint út sagt magnað... Ég upplifði ótrúlega yndislega helgi í Englandi með Herbalife vinum mínum. Fékk heilmikla hleðslu á tankinn og enn meira sjálfstraust og vissu um að ég hef valið vel með því að velja Herbalife.   Gef ekki meira upp en hafir þú áhuga á að vita meira getur þú bjallað og ég get frætt þig um hvað það er sem er svona skemmtilegt-einfalt og töfrandi við Herballífið Wink

Hér er ein mynd af mér og góðum vin. Við myndumst alveg einstaklega vel bæði tvö og berum aldurinn vel hehe. 

bornmouth_ofl_044.jpgHafið það svo eins og þið viljið Heart


Á vit ævintýra

Nú ætlar daman að leggja land undir fót og skella sér til Bornmouth á Englandi í miðju stuðinu í efnahagskrísunni, gaman gaman.  Tilefnið er World Team skóli hjá Herbalife og það er eitthvað sem ég vil ekki fyrir mitt litla líf missa af, ónei.

Dagskráin verður þétt skipuð að vanda en samt tími til að rölta um og skoða nágrennið, nokkuð ljóst að ekki verða búðirnar heimsóttar að neinu marki og ekkert kort straujað. Ráðstefnuferð með algjöru heilsuívafi og það er bara gaman. Frábær félagsskapur og mikil tilhlökkun enda fyrirlesarar ekki af verri endanum.  

Best að fara að pakka .....   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband