Færsluflokkur: Bloggar
Hólalandsannáll 2009
Fimmtudagur, 17. desember 2009
Sælt veri fólkið.
Enn á ný er jólakveðja Hólalandsfólksins á rafrænum nótum svona að mestu leyti. Kortin fara út þetta árið en pistillinn sjálfur verður á þessum miðli.
Hefst þá lesturinn:
Árið 2009 hófst með miklum sprengingum eins og vaninn er um áramót og við vörðum þeim í faðmi fjölskyldunnar á Akureyri.
Svo var nú tíðindalítið þar til upp úr miðjum janúar þegar bóndinn skellti sér í kransæðastíflu númer tvö á innan við tveimur árum. Það gekk sem betur fer allt vel en erfitt að fara aftur í gegnum það ferli að senda bóndann í sjúkrabíl út í nóttina og óvissuna og skók lífið í Hólalandi hressilega. Karlinn var þó fljótur að hressast og hefur nokkuð vel farið eftir ráðleggingum lækna sem tóku niður silkihanskana í þetta skiptið nota bene og gerðu honum grein fyrir að svo vel gæti hann ekki búist við að sleppa aftur.
Fyrir utan þetta hressilega hliðarspor hefur annað lítið breyst á okkar vígstöðvum. Jósef starfar enn hjá Eimskip, er núna kominn með aðsetur á Reyðarfirði svo aksturinn í vinnuna styttist örlítið. Ég sjálf kenni skólanum, vinn við Herbalife og kenni jóga. Hef líka haldið nokkra fyrirlestra tengda persónuuppbyggingu og stundum fengið greitt fyrir :). Ég hef aukið umsvif Herbalife á árinu enda veitti ekki af því í heimilisbókhaldið og stefnan sett á að auka enn frekar á næsta ári.
Friðrik hefur stundað boltann af kappi. Hann æfir með Fjarðabyggð og sækir samæfingar á Reyðarfjörð 1x í viku, æfir svo ýmsar íþróttir á Stf. þess á milli.
Sumarið er nokkuð þétt skipað af mótum og þvíumlíku og það bættist við mótin því hann var nokkrum sinnum fenginn að láni í eldri flokk til að keppa með þeim. Móðurinni þótti skrýtið að senda litla strákinn sinn alla leið til Vopnafjarðar með stóru strákunum til að keppa. Honum finnst þetta mjög skemmtilegt og stendur sig vel. Plönin varðandi framtíðina eru í fótboltaátt og eftir að hafa mætt á Sportráðstefnu Herbalife breyttist stefnan í nokkra daga og hann setti markið á að vera fjórfaldur heimsmeistari í Fitness. Gott að hugsa stórt.
Dýrunn æfir fimleika á Egilsstöðum og þær hafa verið 3-4 sem hafa stundað héðan frá Stöðvarfirði. Mæðurnar eru skipulagðar og skipta ferðunum bróðurlega á milli sín. Ferðirnar eru notaðar til að versla í Bónus og útrétta ýmislegt enda er þetta sú Bónusverslun sem er næst okkur.
Hún hefur tekið miklum framförum og styrkst mikið líkamlega og andlega. Dagana sem hún er ekki í fimleikum mætir hún í allt sem er í boði í íþróttahúsinu og stundum er erfitt að koma heimanáminu inn í alla þessa dagskrá.
Bæði stunda þau nám í Tónlistarskólanum og spila á píanó. Þau hafa að sjálfsögðu mikla hæfileika á því sviði og sprengja foreldrana af stolti á hverjum skólatónleikum.
Dýrunn syngur með barnakórnum sem er smár en syngur undur fallega.
Ferðalög fjölskyldunnar einkenndust aðallega af fótboltaferðum út og suður. Við skelltum okkur þó í nokkra daga frí til Reykjavíkur í byrjun júní og fórum á landsleik í ...fótbolta að sjálfsögðu.
Við vorum svo heppin að hitta líka á landsleik hjá handboltalandsliðinu sem hefur verið kallað 2012 liðið og þar var tengdasonurinn að spila. Úrslit þessara leikja voru okkur ekki í hag en ótrúlega skemmtileg upplifun. Við fórum hringinn og tókum Norðurlandið á heimleiðinni og áttum góðar stundir með fjölskyldunni þar.
Gamli gráni (tjaldvagninn) fór í tvö ferðalög.
Okkur tókst að skvísa einni útileguhelgi inn í prógrammið og brunuðum í Skaftafell til að efna loforð við Friðrik frá því hann var 5 ára. Honum var lofað að þegar hann yrði 10 ára fengi hann að fara á bak við fossinn í Svartafossi. Nú þar sem við höfum verið minnt á loforðið á hverju ári var látið slag standa.
Beggi bróðir Jósefs og fjölskylda fylgdi með og úr var hin skemmtilegasta útilega. Þarna sjást þeir feðgar bak við fossinn. Ég valdi að taka myndir og Dýrunn ákvað að fara bara þegar hún yrði 10 ára.
Næsta ferð Grána var á Sauðárkrók á svokallað Króksmót sem er nota bene fótboltamót. Það var mjög skemmtilegt og við fengum ágætis veður þrátt fyrir reglulegar úrhellingar himnaföðursins.
Hvort Gráni fer í fleiri ferðalög er ekki vitað. Hann var ekki sendur í lögbundna skoðun og er svona alveg á mörkunum að meika það greyið, kominn með tvo tréfætur kallinn. En það kemur í ljós með vorinu. Ég hef svo sem áður ætlað að leggja honum.
Utanlandsferð var ekki í boði fyrir fjölskylduna en Herbalifekerlingin fór til Prag í boði Herbalife, menn láta slíkt ekki fram hjá sér fara. Það var yndisleg ferð og gaman að koma á þessar slóðir. Þar sem fjölskyldutengsl eru til Prag gisti ég ásamt vinkonu í heimahúsi og við fengum extra skammt af því hvernig lífið virkar í Prag og nágrenni. Þarna sést skvísan bíða eftir sporvagni síðasta daginn í Prag.
Kerlan hefur byggt líkamann upp smátt síðustu ár og á þessu ári tókst það sem lengi hefur verið stefnt að; að ganga á fjöll án þess að liggja í rúminu dagana á eftir.
Ég tók þátt í Gönguviku Fjarðarbyggðar og gekk þar sex öflugar göngur, ætlaði að taka "fjöllin fimm" á fimm dögum en skrokkurinn leyfði ekki göngu á fjórða degi svo hann var tekinn í hvíld svo þau urðu bara fjögur en markið sett á "fjöllin fimm" á næsta ári að lágmarki að sjálfsögðu. Ótrúlegt að geta látið svona draum verða að veruleika og ljóst er að fjöllunum fjölgar jafnt og þétt næstu árin.
Í haust skelltum við hjónin okkur í kór á ný eftir nokkurra ára pásu. Ég hef sungið við jarðarfarir þegar það hefur vantað kórfólk en nú fórum við af stað á fullu. Við syngjum með kirkjukórnum og í lok nóvember sungum við með risakór héðan af Austurlandi á miklum aðventutónleikum á Eskifirði. Það var svaka upplifun. Dýrunn söng með barnakórnum og var ekki síður upplifun fyrir hana að vera þátttakandi í svona batteríi og syngja með heilli symfóníuhljómsveit.
Við sungum á aðventuhátíð í kirkjunum í okkar prestakalli og svo er það aðfangadagur og annar í jólum. Annasamt jú en ótrúlega skemmtilegt og gefandi. Við erum því gólandi og galandi í tíma og ótíma börnunum til mikillar armæðu.
Ýmislegt fleira hefur verið brallað, limgerðið í garðinum rifið burt, fleiri ferðir út og suður, bústaðurinn aðeins heimsóttur og sitt hvað fleira.
Þegar þetta er ritað er kerlan og börnin að fara í jólafrí í skólanum. Miklar annir hafa verið undanfarið og fríið kærkomið. Margt er enn ógert og það er bara svo, jólakortin fara stað með seinni skipunum þetta árið en meðan þau komast á leiðarenda er markmiðinu náð, að koma kveðju til vina og vandamanna.
Við þökkum samfylgdina á þessu herrans ári, óskum ykkur góðrar heilsu og velfarnaðar og hlökkum til að hitta ykkur sem allra oftast á komandi árum.
Gleðileg jól, Solla, Jobbi, Friðrik og Dýrunn
P.S. Hún Sóla, kisan okkar hefur dvalið hjá okkur allt árið og ekki lagt í neinar meiriháttar útilegur.
Bloggar | Breytt 20.12.2009 kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Á lífi og vel það :)
Sunnudagur, 11. október 2009
Ég rakst hér inn á flökti mínu um netið og rifjaði upp hvað ég hafði verið liðtæk í blogginu, svo hætti ég bara. Ég tók í það minnsta pásu og spurning er hvort ég kem mér í gírinn aftur. Eitt og eitt trýni rekur enn inn nefið, kannski í þeirri veiku von að ég byrji aftur. Hver veit.
Síðast skrifaði ég um væntanlega fjölgun í garðinum okkar sem varð svo að engu því kisa blessunin náði að hrekja foreldrana úr hreiðrinu og engir urðu ungarnir. Blátoppurinn var svo fjarlægður og fékk nýtt heimili niðri við sjávarsíðuna í skrúðgarði Rósu og Zdenek hjá Sætúni.
Já margt gerist á ekki lengri tíma .
Ég bið ykkur vel að lifa í bili og sé til hvað ég nenni að gera í þessum bloggmálum.
Venlig hilsen .................
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fjölgun !
Sunnudagur, 14. júní 2009
Já það er von á fjölgun í Hólalandinu. Þröstur einn er búinn að gera sér hreiður í blátoppinum úti í garði. Við vorum fjarverandi í viku, kisa höfð inni og hann hefur að sjálfsögðu notað tækifærið í rólegheitunum. Ég gat ekki stillt mig og kíkti aðeins innfyrir í kotið hans og sá í það minnsta fjögur egg sem ég festi á "filmu" og þið sjáið hér. Það er nokkuð ljóst að hann lætur til sín taka þegar ungarnir verða komnir úr eggjunum og þá á kisa líklega ekki sjö dagana sæla.
Hjá okkur er í nógu að stússast, nýbúin í viku fríi þar sem við náðum tveimur landsleikjum, geri aðrir betur. Kerlan er gengin upp að hnjám eftir göngu yfir Stöðvarskarð og svo Stuðlaheiði sitt hvort daginn. Þokkalegt fyrir gigtarskrokkinn en dásamlegt engu að síður.
Bið ykkur vel að lifa !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tvær skutlur !
Þriðjudagur, 26. maí 2009
Skyldu þær vera eitthvað skylda þessar tvær ?
Þær eru í það minnsta voða glaðlegar.
Enda líður að skólalokum, vordagar í fullum gangi. Búið að þræla börnunum út við leik og störf og tveir dagar eftir enn. Eitthvað fer þessi þrælkun í geðið á sumum englabossunum og var minn maður ekki glaður eftir fyrsta vinnudaginn .
Æ ég held að þau hafi gott af því að reyna aðeins á sig og fá rispur eftir greinarnar og marbletti hér og þar.
Hafið það eins og þið viljið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vorið !
Föstudagur, 22. maí 2009
Er alltaf jafn yndislegt. Lognið á kvöldin, lognið á morgnana, dásamlegt og engin afsökun fyrir því að fara ekki út að ganga og njóta blíðunnar.
Börnin vakna úr dvalanum og sjást varla heimavið. Helsti spenningurinn núna er að byggja kofa í kofabyggðinni. Þar eru að rísa mismunandi hús í öllum stærðum og gerðum. Þar er smíðað kvölds og morgna. Síðustu kennsluviku (í bókum) í skólanum er lokið og nú taka vordagarnir við. Í næstu viku verður gróðursetning, fjöruhreinsun, unnið í Nýgræðingnum, farið í fjallgöngur og ýmislegt fleira. Í lokin endum við á grillinu í Nýgræðing, fastir liðir eins og venjulega.
Hér á bæ leyndi sér ekki að Eurovision var um daginn. Bæði eru þau syskinin miklir aðdáendur og síðustu mánuði hefur verið hlustað á íslensku lögin og svo tók aðalkeppnin við. Diskarnir eru keyptir ár hvert og spilaðir frá keppni til keppni. Spenningurinn var mikill og mikil gleði yfir úrslitunum. Mér þykir gaman að horfa og upplifa spenninginn hjá krökkunum þó lögin renni framhjá hvert af öðru án þess að ég veiti þeim sérstaka athygli. Dýrunn er komin með Jóhönnuvegg hjá sér, klippti myndir af henni úr öllum blöðum eins og óð væri og þetta er útkoman.
Vortónleikar tónlistarskólans voru í vikunni og þar sáum við afrakstur vetrarins. Börnin spiluðu og sungu af hjartans list. Systkinin spiluðu á píanóið og hér eru þau ásamt Kelly sem kom til okkar í vetur og hefur kennt þeim frá áramótum og hinum nemendunum hennar. Dýrunn er að verða altalandi á ensku og bregður fyrir sig dásamlegum frösum lon og don.
Allir eru fegnir því að sumarfríð sé í nánd, ég starfa heima við í sumar í Herbalife ásamt því að sinna börnum og búi. Við verðum eitthvað á faraldsfæti og hver veit nema ég skelli inn einhverjum viðburðum sumarsins ef ég hef nennu til.
Hafið það eins og þið viljið í vorinu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Rós til þín í tilefni dagsins !
Föstudagur, 1. maí 2009
Þessi fallega rós byrjaði að opna sig í gærkvöld og í dag skartar hún sínu fegursta verkalýðnum til heilla. Ilmurinn ber fögur fyrirheit um framtíðina......
Til hamingju með daginn !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvert er okkar val?
Mánudagur, 20. apríl 2009
"Ég hef valið það að vera hamingjusamur". Eitthvað í þessum dúr stendur á forsíðunni á blaðinu Skýjum ofar í flugvélum flugfélagsins þessa dagana. Mér finnst þetta frábær setning og hún segir svo margt. Við höfum val um það að vera hamingjusöm, óhamingjusöm, fórnarlömb og þar fram eftir götunum.
Sú staða sem ég er í í dag er sköpuð af mér og engum öðrum. Þetta atriði er mér oft hugleikið þegar ég heyri kvart og kvein um að þetta og hitt sé hinum og þessum að kenna.
Ekki þvingaði neinn mig til að borða of mikið á sínum tíma sem varð til þess að ég varð of feit og tapaði stórum hluta heilsunnar. En þökk sé mér tók ég ábyrgðina í eigin hendur sem hefur haft jákvæð áhrif á allt mitt líf. Ef ég hefði ekki gert það væri ég mjög líklega enn í fórnarlambsgírnum.
Þar sem ég hef lítið verið í spakmælunum upp á síðkastið ætla ég að láta nokkur fylgja sem mér þykja skemmtileg:
- Þeir sem eyða tímanum í áhyggjur af því hvað aðrir eru að hugsa um þá, myndu sleppa því ef þeir vissu hve sjaldan aðrir hugsa um þá.
- Fúllyndur maður er fangi óvinar sem engin leið er að sleppa frá. SA´DI
- Hættu að hafa áhyggjur af því sem þú færð engu um breytt því áhyggjur eru eyðandi hugsanir.
Og í lokin eitt gott frá Plató:
- Sá maður sem veit í að í einu og öllu hann er sinnar gæfu smiður og enginn annar, hefur tamið sér gæfulegustu leiðina til að verða gæfumaður. Sá maður er sonur viskunnar og hófseminnar; sannur mannkostamaður.
Hvað velur þú ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Páskaspenningur!
Þriðjudagur, 7. apríl 2009
Kannast einhver við páskaföndur? Ungar og egg og hitt og þetta. Hér á bæ er gjarnan perlaður nettur skammtur af ýmsu páskaskrauti, svo er til slatti úr skólanum og síðan þau voru í leikskólanum. Þegar við vorum komin með greinar í vasa á tveimur stöðum og enn var slatti eftir sem átti eftir að hengja upp brugðum við á það ráð að skella restinni á gardínustöngina í eldhúsinu. Þetta er útkoman:
Svo heppileg vill til að við erum með tvo glugga svo báðir eru nú ósköp páskalegir og ekkert þarf að fara aftur inn í skáp.
Dýrunn er aðal skreytarinn og í gær blés hún úr sex eggjum og skreytti fagmannlega. Það kallar á bakstur hjá kerlunni og ég ætla að vera svo gamaldags að skella í vínarbrauð með rabarbarasultu. Ég fann slatta af henni þegar ég tók til í ísskápnum í gær.
Þarna sést skutlan með eitt eggið sem hún málaði.
Mér þykir ótrúlega gaman að halda upp á ýmislegt sem þau hafa föndrað í gegnum tíðina og uppáhalds páskaunginn fékk sér myndatöku í gær þar sem hann tróndi á gardínustönginni. Höfundur þessa svipprúða fugls er Friðrik og hann gerði hann á leikskólanum í sínum tíma.
Hér eru að hefjast framkvæmdir í barnaherbergjum. Friðrik flyst á neðri hæð og Dýrunn í hans herbergi og að sjálfsögðu þarf að fínisera og mála svo ég tali nú ekki um að finna stað fyrir draslið sem er fyrir í herberginu.
Njótið frídaganna þegar þeir koma
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Jóga jóga
Laugardagur, 4. apríl 2009
Flott að vera með tvær bloggsíður og vísa alltaf í hina síðuna þegar eitthvað nýtt birtist þar. Ég skrifa ekki oft inn á jógasíðuna enn sem komið er en nú eru komnar nýjar upplýsingar varðandi jóga kringum páskana og svo fram á vor.
Páskaspenningur er í hámarki og vorspenningur líka. Það gerist á svona góðum dögum að börnin "hverfa" eitthvað út í buskann og koma svo heim rjóð og sælleg eftir bras úti í góða veðrinu, frábært!
Friðrik kom rennandi blautur heim í hádeginu, hafði skellt sér á fótboltavöllinn með vini sínum og völlurinn er nett blautur, einhverjar byltur hafa menn tekið því kappinn var holdvotur frá toppi til táar.
Þetta er bara gaman. Einhvern vegin verður kerlunni minna úr verki í blíðunni, gigtarskrattinn að plaga hana þessa dagana og það er frekar lame.
Skellti mér á opnun á Rauða kross búðinni í Heimalundi og það var mjög fínt. Frábært framtak hjá þessum duglegu konum.
Andinn svífur ekki yfir vötnum þessa dagana og ég ætla að druslast með skammt úr einni vél út á snúru.
Hafið það eins og þið viljið...............
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gefðu þér tíma....
Miðvikudagur, 25. mars 2009
Morgunstund gefur gull í mund. Einn dýrmætasti tíminn með börnunum mínum eru morgnarnir. Hálftíminn sem við tökum okkur við morgunverðarborðið er mér mjög mikilvægur. Á þeim tíma leggjum við línurnar inn í daginn, ræðum hvað okkur dreymdi um nóttina og ýmislegt fleira.
Í morgun vorum við að ræða um hvernig gott sé að bregðast við ef einhver er að segja eitthvað neikvætt við mann ásamt miklu fleiru að sjálfsögðu því það er farið um víðan völl.
Þessar stundir eru gulls ígildi og ég veit að þær eru að skila miklu inn í daginn. Að kvöldi er svo gott að fara í gegnum hvernig þeim leið yfir daginn, hvað gekk vel og hvað var erfitt og finnum leið til að losna við erfiðar tilfinningar.
Á fundi í gærkvöldi sýni kollegi minn í Herbalife okkur góða vísu sem gott er að hafa í huga á hverjum degi og fara eftir þegar við erum að annast börnin okkar.
Take moment to listen today
to what your children are trying to say.
Listen to them, whatever you do
or they won´t be there to listen to you.
Listen to their problems, listen to their needs,
praise their smallest triumphs, praise their littlest deeds;
Tolerate their chatter, amplify their laughter,
find out what´s the matter, find out what they´re after.
If we tell our children all the bad in them we see,
they´ll grow up exactly how we hoped they´d never be;
But if we tell our children we´re so proud to wear their name,
they´ll grow up believing that they´re winners in the game.
So tell them that you love them every single night;
and though you scold them,
make sure you hold them
and tell them they´re all right,
"Good night, happy dreams, tomorrow´s looking bright".
Take a moment to listen today
to what your children are trying to say.
Listen to them whatever you do,
and they´ll be there to listen to you.
Denis Waitley
Hafið það eins og þið viljið....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)