Færsluflokkur: Bloggar
Restin af ferðinni.... leti og notalegur dagur í Berlín
Mánudagur, 5. maí 2014
Ég átti víst eftir að klára ferðasöguna.
Á föstudaginn langa og yfir páskahelgina höfðum við það mjög náðugt. Skruppum aðeins til Chemnitz til að taka allra síðasta verslunarsprettinn og svo voru bara páskar og notalegheit. Enn var veðrið ekki í sínum besta ham en á páskadag skein sólin svo við gátum setið á svölunum, drukkið einn bjór og etið feita þýska pylsu með beikoni.
Páskaeggjunum slátruðum við á góðum hraða og allir einhvern veginn komnir með nóg af sældarlífi.
Heim héldum við snemma á þriðjudagsmorgni. Keyrðum sem leið lá til Berlin og það gekk allt vel. Við sáum flugvallaskiltin og fundum bensínstöð til að fylla blílaleigubílinn fyrir skil en svo fór allt í flækju. Naví kerlurnar vissu ekkert hvert þær voru að senda okkur, við vorum ekki með nákvæma addressu heldur og nú tók við hringakstur á flugvallasvæði sem við komumst síðan að að er nýtt flugvallasvæði sem er að fara í notkun. Í stressi yfir því að vera á síðustu stundu með að skila bílnum þurftum við að halda til baka á hraðbrautinni til að geta snúið við og restina keyrðum við eftir skiltum. Þá gekk þetta upp.
Við erum orðin hagvön á Schönefeld og brunuðum beint með töskurnar í töskugeymsluna. Röggsöm kerla hjálpaði okkur við að raða þeim í hólfin og þá tók við labb í lestina sem er nokkuð drjúgt.
Við tókum stefnuna á aðal járnbrautarstöðina, fundum þar ítalska veitingastaðinn Vapiano og þar var bóndanum boðið að borða í tilefni afmælisdagsins. Þar sátum við úti og fengum dásamlegan mat eins og þeim einum er lagið.
Svo tók við rölt. Við vorum ekki með kort en langaði að skoða þinghúsið og Brandenburgarhliðið. Að sjálfsöðgu römbuðum við á það og það var gaman að koma á gamlar slóðir.
Síðan tók við leitin að símabúðinni þar sem Frikka langaði að kaupa sér ákveðinn síma. Eftir nokkuð labb ákváðum við að hækka símareikninginn aðeins og skoða hvar hún væri staðsett. Ótrúlegt en satt þá vorum við á réttri götu og fundum búiðina og aðra til, enn aðra og þá fjórðu en alls staðar var síminn uppseldur. Ég hef sjaldan séð Jósef svona ákveðinn á göngunni :). Lendingin var að fara í Saturn á Alexanderplatz og þar var síminn keyptur. Mitt á þessu labbi römbuðum við á minningargrafreit um alla þá gyðinga sem voru drepnir í Seinni heimsstyrjöldinni og það var mjög áhrifaríkur staður. Ég á eftir að fara aftur og gefa mér betri tíma til að skoða það sem er neðanjarðar.
Þarna vorum við orðin frekar fótafúin enda er borgarlabb ótrúlega lýjandi. Við settumst í sólstóla á torginu og fengum okkur drykk. Þarna var heljarinnar markaður í gangi, eitthvað enn tengt páskum og mikið fjör, meira líf en þegar við vorum þarna fyrir tæpum þremur árum.
Allt gekk vel í fluginu þó þreytan væri farin að segja vel til sín í flugvallarröðinni enda dagurinn orðinn langur. Við flugum heim á Wow tíma og vorum á undan áætlun, gistum hjá Sóla og Hafdísi og keyrðum til Akureyrar daginn eftir, eftir smá útréttingar.
Þar dvöldum við fram að helgi, skildum krakkana eftir í óvissuferð með félagsmiðstöðinni, komum heim og smelltum okkur beint á Djúpavog á magnaða tónleika með Todmobile á Hammondhátíðinni. Gistum hjá Kára og Huggu en mikið lifandi skelfing var gott að skríða svo í bólið sitt á sunnudagskvöld. Bólið heima er alltaf best.
Í heildina var þetta rosalega vel heppnaði frí og allt gekk að óskum. Tveimur dögum eftir heimkomuna fæddist litla Sara Marín hjá Höllu og Árna. Það var skrýtið að fara vitandi að hún væri alveg að koma í heiminn. En við erum jarðbundin og bíðum "róleg" þar til í júní þegar þau koma til Akureyrar og við getum hitt þau.
Yfir og út ......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góður dagur í Prag, kræklóttir vegir og lítil þorp
Föstudagur, 18. apríl 2014
Í gær lögðum við enn meira land undir fót (dekk) og smelltum okkur til Tékklands. Áfangastaðurinn var Prag. Við fórum lengri leiðina eftir hraðbrautinni því þá sluppum við við kræklóttar beygjur og sveigjur yfir fjöllin. Naví kerlingin er eitthvað undarlega stillt fyrir okkar smekk því hún reynir í sífellu að koma okkur inn á sveitavegina. Við náðum nú að halda okkur á hraðbrautinni að mestu en svo létum við undan henni og fórum of snemma út af, sem þýddi rúnt um sveitir og bæi þar til við komum yfir landamærin á ansi eyðilegum stað.
Þegar þarna var komið þurfti frúin að pissa. Við komum að bensínstöð sem gaf góð fyrirheit um klósett og einhverja hressingu en þegar inn var komið fékk ég þau svör að klósettið væri bilað. Náunginn var frekar krípí og vildi svo sannarlega ekki þjónusta okkur, punktur. Ég þakkaði fyrir á kjarnyrtri íslensku að við myndum þá ekki kaupa hressingu af honum og kvaddi.
Áfram héldum við og komum að einhverjum landamæramarkaði hvar menn selja alls konar dót og drasl. Þar var klósettmerki og nú var þetta orðið vel aðkallandi og við Frikki stukkum út. Ónei, þetta voru hin eyðilegustu klósett sem ég hef séð og ekki verið pissað í þau lengi, eða í það minnsta ekki sturtað niður. Allt meira og minna brotið og ekki verið hirt um neitt lengi lengi.
Áfram var haldið og ég var næstum því komin að því að stoppa út í kanti og pissa úti í skógi en spennti grindarbotnsvöðvana og brátt komum við í smábæ með þokkalegri bensínstöð. Þar gat ég fengið að pissa bakatil og maður, það var ljúft.
Við komum til Prag um hádegisbil og mjökuðumst í mjög miklum rólegheitum í gegnum miðbæjarumferðina að bílastæðahúsinu sem við vorum búin að velja. Tókum eina vitlausa beygju og það kallaði á meiri rúnt í rólegheitunum.
Staðsetningin var frábær, stutt labb að Karlsbrúnni og í miðjuna. Við byrjuðum á því að leysa út nokkrar evrur yfir í tékkneskar krónur og snæddum síðan á notalegum veitingastað mitt í allri mannmergðinni. Það virðast allir hafa tekið þá ákvörðun að fara til Prag yfir páskahelgin því mannfjöldinn var gífurlegur. Reyndar er alltaf margt fólk í miðbæ Prag.
Eftir matinn röltum við um og kíktum á klukkuna frægu sem spilar á klukkutíma fresti og allir safnast saman til að horfa á. Ekkert voðalega tilkomumikið en er aðdráttarafl fyrir ferðamenn og vasaþjófa. Okkar vasar tæmdust ekki enda vel haldið um budduna.
Við enduðum miðbæjarröltið á Karlsbrúnni. Þar er mikið mannlíf og margir að selja ýmis konar glingur og dót. Við snertum styttur sem veita ævarandi velgengni og hlustuðum á djassaða tónlistarmenn.
Næst tók við klukkutíma akstur þá 18 km sem voru til Pövlu og Zdenek. Við virtum fyrir okkur borgina og ræddum að dagsferð sé í allra minnsta lagi því svo margt er að skoða og njóta í þessari fallegu borg.
Hjá Pövlu og Zdenek biðu okkar velgjörðir sem við náðum alveg að gera ágætis skil þrátt fyrir að hafa borðað pizzuna þremur tímum fyrr. Við sátum úti á pallinum með útsýni yfir fallega garðinn þeirra og það var notalegt meðan sólin skein. Við ræddum saman á þýsku og ensku við þau heiðursshjón.
Við fórum aðra leið heim og styttri í tíma og kílómetrum. Núna tókum við annan pól í hæðina og stylltum navíið á Tékkneskan bæ sem lá við þann þjóðveg sem við vildum keyra. Síðan var kúrsinn tekinn á Chemnitz og svo stilltum við navíið á Aue. Aðeins of snemma því hún beindi okkur strax af veginum inn á sveitaveg. Við slepptum fyrsta afleggjara sem lá í gegnum skóg en beygðum svo eins og sauðir næst þegar hún gaf okkur merki. Þá tók við keyrsla upp og niður hæðir í gegnum vegi sem eru jú tvíbreiðir en þvílíkt mjóir, með tré í kantinum og þar má keyra á 100km hraða. Það er nógu skelfilegt að keyra þetta í björtu hvað þá í myrkri, ómæ god. Ég held að það sé far í gólfinu farþegamegin eftir bremsutilraunir mínar. Þarna hafa örugglega margir farið yfir móðuna miklu.
Ekki nóg með að við keyrðum í gegnum hvern skóginn á fætur öðrum, þá tók alltaf við eitthvað þorp, óspennandi og eyðileg svona í myrkrinu og allt einhvern veginn eins. Frú Naví ætlaði að láta okkur beygja þar sem ekki var hægt að beyja og stundum var búið að loka þeim vegum sem hún benti á og þá bættist við vegalengdina. Þessir rúmlegu 40 km sem við keyrðum á þessum vegum voru svakalega langir. Þegar inn í Aue kom leist okkur ekki á blikuna því þar var nýlokið leik Aue og Dinamo Dresden. Bærinn var undirlagður af drasli og gomma af lögreglubílum út um allt að koma síðustu bullunum í burtu. Þetta eru víst svakalegir leikir því þarna er mikill rígur á milli. Áhorfendur eru sendir frá Dresden til Aue í lélegum lestum á staðinn því allt er eyðilagt svo mikill er atgangurinn.
Mikið vorum við glöð að renna í hlað hér í Dorfstrasse eftir tveggja og hálfs tíma keyrslu með taugarndar þandar síðasta klukkutímann.
Þjóðverjar taka föstudaginn langa af mikilli alvöru (annað en í Tékklandi) og allt er lokað. Við ætlum því að halda okkur í rólegheitum í dag. Líklega kemst ég nú í göngutúrinn minn loksins því það virðist ætla að stytta upp og snjókoman er búin í bili, engin afsökun lengur. Við erum jú upp í fjöllum hér.
Litla skottið er ánægt að hafa svona margt fólk í kringum sig og það eru kaffiboð hægri vinstri. Það er gaman að fá að snúllast aðeins með hana. Hún er mjög hrifin af Frikka og Dýrunni og alveg sátt við gamla settið.
Yfir og út þar til næst....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dresden í dag, Prag á morgun
Miðvikudagur, 16. apríl 2014
Í dag smelltum við okkur á enn einn rúntinn og núna áleiðis til Dresden. Mesta verslunaræðið er runnið af okkur og þetta var næstum því alveg bara menningarrúntur.
Ótrúlega vel gekk að keyra inn í miðbæinn og finna bílastæðahúsið, þó við værum ekki alveg viss um hvar við ættum að fara inn, já hálfgerðir sveitamenn. Við lögðum alveg í gamla bænum og eftir smá rölt vorum við komin að Frúarkirkjunni. Fyrst fundum við okkur veitingastað hvar við snæddum hádegisverð. Matseðillinn var framandi fyrir krakkana og Dýrunn var ekki yfir sig glöð. Við ákváðum tvo rétti og svissuðum í miðju kafi. Þetta var svo vel útilátið að við gátum ekki klárað.
Áfram röltum við um og fórum nú aðeins inn í Frúarkirkjuna sem er mikil smíð og falleg, með listaverkum út um allt. Svo röltum við niður að Saxelfur eða Elbe og þar liggja margir bátar sem sigla með spennta túrista. Veðrið var fínt, svolítill kuldi en sólin gægðist fram og vermdi okkur af og til. Hitinn fór nú líklega ekki mikið yfir 10 gráðurnar samt.
Við ákváðum að skella okkur í miðbæjarrúnt í hestvagni og það var dýr og stutt skemmtun. Gaurinn talaði takmarkaða ensku svo hann rétt smellti inn hvað húsin hétu en það var betra en ekkert og við gáfum honum líka þjórfé að þýskum sið.
Að sjálfsögðu heimsóttum við eitt mollið en lítið verslað nema aðeins í matinn og jú við fundum ferðatöskuna sem planið var að kaupa undir allan kaupskapinn í ferðinni.
Heimleiðin gekk vel en á móti okkur var örugglega um 10 km löng umferðarteppa eða stau eins og Þjóðverjarnir kalla það og það var svolítið sérstök sjón.
Jósef er orðinn þvílíkur jaxl á hraðbrautinni samt bruna þeir margir hverjir fram úr okkur á ofurhraða. Við ákváðum að leggja annarri naví kerlingunni því þær eru aldrei sammála. Sú sem er föst í bílnum dugar vel.
Á morgun liggur leiðin til Prag. Þar ætlum við að skoða miðbæinn, labba á Karlsbrúnni og kíkja í kaffi til Zdenék og Pövlu. Gott að eiga vini í hverri stórborginni á fætur annarri. Myndir dagsins eru á fésbókarsíðunni.
Yfir og út
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í 500 metra hæð yfir sjávarmáli
Þriðjudagur, 15. apríl 2014
Þá er familían Von Hólaland komin í Schneeberg austarlega í Þýskalandi. Fyrsti áfangi ferðarinnar var Stf-Kef og gist á Hóteli Sóli og co. Flogið til Berlinar og þaðan keyrt eins og leið lá til Hamburg.
Í Norður Þýskalandi dvöldum við frá fimmtudegi fram á sunnudagsmorgun. Dvöldum hjá góðum vinum, Henning og fjölskyldu og hittum foreldra hans Peter og Brigitte. Á föstudegi fórum við til Bad Schwartau og ætluðum að snæða þar hádegisverð á ákveðnum veitingastað. Sá hinn sami var lokaður þar til seinnipartinn og þá fórum við á næsta áfangastað, Lübeck og það var æðislegt að koma á gamlar slóðir. Við röltum aðallega um gamla miðbæinn, fórum á Ráðhústorgið og í marsípanbúðina víðfrægu hjá Nideregger og ég keypti súkkulaðihúðaða marsípankirkju handa mömmu. Þá hittum við gamlan kunningja, Billy að nafni sem rölti með okkur um miðsvæðið. Fórum í Maríukirkjuna sem var sprengd í Seinni heimsstyrjöldinni en byggð upp aftur eftir stríð og hann sýndi okkur gamlar götur og fræddi okkur um svæðið. Að sjálfsögðu settumst við á veitingastað og fengum okkur einn bjór :). Hann fór með okkur upp í kirkjuturn þar sem við sáum yfir miðborgina og það er yndisleg sjón. Lübeck er ein af þeim dásamlegustu borgum sem ég hef kynnst og þangað hef ég sterkar taugar.
Á laugardag fór Henning með okkur um miðborg Hamborgar og sýndi okkur ýmislegt markverk. Eitt af því sem stóð uppi var búð sem seldi steingervinga. Þar voru ótrúlegustu hlutir og þeir stærstu og merkilegust ametyst steinar sem ég hef augum litið. Ég væri til í einn í stofuna hjá mér þar sem þetta er jú mánaðarsteinninn. Við sigldum um hafnarsvæðið og sáum m.a. næst stærsta gámaskip í heimi og það þótti Jósef nú ekki slor.
Á sunnudegi lögðum við í hann um tíuleytið áleiðist til Aue, rúmlega 500km leið. Naví kerlingarnar tvær sem leiðsegja okkur voru ekki sammála og önnur vildi fara lengri leið en við völdum þá styttri. Nú eitthvað var fókusinn úti á túni fljótlega og við misstum af einni afrein. Þá var okkur vísað um fallegar sveitir Þýskalands og lítil og skemmtileg þorp þar til við komumst á viðeigandi hraðbraut. Ekki hafði þetta áhrif á ferðahraðann og við komumst á áfangastað heilu og höldnu á góðum tíma.
Hér er landslagið hæðótt og fallegt, ólíkt sléttunum í Norður Þýskalandi og við nánast úti í sveit, í bæ sem heitir Schneeberg og ber svo sannarlega nafn með rentu því fyrsta morguninn okkar kom slydduhríð líkt og það væri hreinræktuð íslensk slydda. Það varði stutt en hitastigið var ekki til að hrópa húrra fyrir en við erum jú í rúmlega 500 m hæð yfir sjávarmáli. Að sjálfsögðu notuðum við tækifærið í kalsanum til að versla og Visa kortið var straujað feitt enda sumir orðnir fatalitlir. Við afrekuðum þetta í bæ sem heitir Chemnitz og er í 40 km fjarlægð frá Schneeberg.
Í dag höldum við eflaust áfram að strauja kortið því við gleymdum að kaupa aðal atriðið, nærbuxur, æææ, þá höfum við ástæðu til að rúlla í einhverja verslunarmiðstöð. Við ætlum eitthvað að kíkja í bæinn og jafnvel til Zwichau sem er hér í næsta nágrenni.
Hitinn í dag þriðjudag er ekki til að hrópa húrra fyrir svo morgungöngur hafa setið á hakanum, samt var fjárfest í trimmúlpu í Dechatlon í gær.
Langtímaspáin segir að það eigi að hlýna aðeins og það verður eflaust notalegt um páskahelgina. Dresden er á dagskrá, kannski bara á morgun og Prag líklega á föstudaginn :).
Yfir og út þar til næst
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Enn bætist við titlana
Mánudagur, 17. febrúar 2014
Jebbs, kerlan hafði það af. Kláraði Foam flex kennaranámskeiðið með bravúr í gær.
Það var reyndar ekki mikill bravúr á kerlunni í lok fyrri dags þegar hún skrönglaðist máttlaus úr úr 40°heitum salnum eftir að hafa unnið í honum more or less í sex klukkutíma.
Draumurinn kviknaði fyrir nokkrum árum þegar ég heyrði af þessu fyrirbæri Foamflex. Fyrst í stað hugsaði ég mér að það væri gaman að komast í svona tíma til að læra að rúlla úr mér bólgurnar svo fór hitt að kikka inn, kannski væri bara gaman að læra að kenna þetta og bæta við flóruna mína í jóganu. Tækifærið kom, Sollan stökk á það og teygði fjárhagsrammann örlítið í leiðinni og það var svo sannarlega þess virði.
Ég mætti á laugardagsmorgni í Sporthúsið, tímanlega að sjálfsögðu og næsti nemandi sem mætti var líka utan af landi ef svo má sega, reyndar úr Keflavík. Alltaf mæta þeir fyrst sem koma lengst að.
Við byrjuðum strax í heita salnum og var strax skellt út í djúpa vinnslu og útskýringar á ýmsum álagspunktum í líkamanum sem koma vegna ýmissa þátta. Við rúlluðum, nudduðum, hoppuðum og toguðum okkur og teygðum, losuðum sjálf um heilmikið í okkar skrokki og ég get sko sagt ykkur að það er af nógu að taka. Þegar við tókum svo pásu og fórum í annað verkefni í öðrum sal leið mér eins og ég væri bara glæný. Þar lærðum við að smassa sem er djúpt nudd aftan á lærum og kálfum, eitthvað sem við gerum ekki í opnum tímum og ég hyggst t.d. mest nýta á mínum stífu og stirðu fótboltabörnum. Það er mjög áhrifaríkt og ekki alveg það þægilegasta því á þessu svæði eru margir triggerpunktar sem eiga það til að verða aumir. Einnig lærðum við nokkrar átaksteygjur.
Eftir hádegi hélt vinnslan áfram í heita salnum og seinnipartinn bættust í hópinn sænskir afreksmenn í íþróttum. Við fengum að spreyta okkur á þeim með nokkrar rúllur og teygjur og það var skemmtilegt. Ég fékk að glíma við mikinn köggul, hressan strák alveg skelfilega stífan og stirðan. Það þurfti sko aðstoð við hann. Á þessum tímapunkti var vökvaskortur og þreyta farinn að segja til sín hjá kerlunni og ég skrönglaðist fram til að jafna mig enda alveg að líða út af. Ég drakk samt auðvitað helling en þetta gufar jafn óðum út.
Hildur mín elskuleg sótti mig ásamt Agnesi og við brunuðum sem leið lá til Keflavíkur. Þar fór ég í þá dásamlegustu og þráðustu sturtu sem ég hef farið í lengi og fékk svo ekki síður dásamlegan mat hjá Sóla bró. Hafdís var í bústað með vinkonum sínum. Við skoðuðum OM setrið þar sem Hafdís ásamt fleiru góðu fólki er komin með sína aðstöðu í snyrtingu, nuddi, jóga o.fl. á sama stað. Jógasalurinn er æði og einhvern tíman ætla ég að hafa aðstöðu í svona flottum sal.
Júróvisíon tækluðum við hjá Sóla og þó ég hafi dottað hressilega var ég sátt við Pollapönk, hressir og skemmtilegir og flottur boðskapur hjá þeim.
Eins ónýt og ég var um kvöldið þá kom mér á óvart hvað ég var lítið ónýt daginn eftir. Við byrjuðum daginn á bóklegu í tvo tíma og fórum svo í opinn Foam flex tíma milli ellefu og tólf. Það var mjög gaman að upplifa það. Eftir hádegi tók svo aftur við bóklegt og svo aftur vinnsla í hitanum. Útskrift í lokin, beint út á flugvöll og svo heim. Dásamlegt flug í næstum skýlausu veðri og á vellinum tók fjölskyldan á móti mér. Við snæddum í Söluskálanum og þegar heim var komið beið glæsileg útskriftarkaka á eldhúsborðinu ala Dýrunn Elín. Ekki oft sem drukkið er kvöldkaffi í Hólalandinu. Sófakúr í framhaldinu og dottað yfir Erfingjanum.
Nú er fyrirliggjandi að panta bolta og rúllur til að geta hafið kennslu í Foam flex en ég byrja á henni í mars ef allt propsið verður komið til mín. Gaman gaman.
Það er þokkaleg vinna framundan með eigin skrokk líka og ég er viss um að ég get t.d. linað verkinn í öxlinni minni og komið mjöðminni í betra horf með því að auka blóðflæðið á þessa staði með nuddi og rúlli. Rúll og nudd, rúll og nudd framundan og 100 hamingjudagar í þokkbót.
Yfir og út
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Foam flex
Fimmtudagur, 6. febrúar 2014
Já langþráður draumur kerlunnar að fara að rætast. Í næstu viku flýg ég á vit ævintýranna á kennaranámskeið í Foam flex í Reykjavíkinni. Ekki allir sem vita hvað það er en þá er bara að googla.
Í stuttu máli er þetta æfingakerfi sem miðar að því að losa um spennu í vöðvum á svokölluðum triggerpunktum, vinnur á stífum og þreyttum vöðvum, vinnur á vökvasöfnun, losar um triggerpunkta, liðleiki verður meiri og þar fram eftir götunum. Framkvæmt með litlum boltum og svokölluðum Foam rúllum.
Ég á slíka rúllu og hef aðallega rúllað brjóstbakið því hitt er svo vont...... já það er ógeðslega vont að rúlla á aumum punktum en ef við rúllum þá ekki verða þeir bara verri og líkamsstaðan okkar fer í hnút. Það er því ýmislegt á sig leggjandi. Ég er því að æfa mig á rúllunni svo ég verði ekki alveg út úr kú þegar ég kem á sjálft kennaranámskeiðið.
Ég fékk nettan hnút í magann í gær þegar ég sá póst á veggnum hjá Foam flex að við eigum að Flexa (eins og það er kallað) nokkra afreks íþróttamenn frá Norðurlöndunum sem eru þreyttir og stífir. Já sæll. Það er bara beint út í djúpu laugina, amen. Iss, ég rúlla því upp.
En ég hlakka mikið til og kvíði ponsu fyrir, það fylgir að fara út í eitthvað sem er fyrir utan þægindarammann.
Nánari fréttir síðar..... og bíðið spennt eftir auglýsingunni frá mér því það verða sko nokkur námskeið í boði hjá Sollunni í mars, jibbí skippí.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rigning og C vítamínið
Mánudagur, 27. janúar 2014
Já ég hef ekkert yfir henni að kvarta. En blessaði steypuklumpurinn sem ég bý í sem þyrfti svo sárlega á klæðningu að halda er aðeins farinn að kvarta og ég veit hvað tekur við með hlýnandi veðri þegar rakinn fer að rjúka úr veggjunum, þ.e. ef það rignir ekki líka í sumar.
Þó ég væri jú alveg til í að sjá meira af blessaðri sólinni sem hækkar sig víst á hverjum degi þá hef ég lagt upp með það að pirra mig ekki á veðri og sé frekar kostina í stöðunni heldur en hitt. Ef öll þessi úrkoma væri snjór, værum við líklega fennt inni. Ungviðið myndi gleðjast yfir því en ég held að bóndinn sem sækir vinnu lengra til væri ekki hlynntur því fyrirkomulagi. Þó lægðirnar hægi á skrokksa mínum þá venst það og er betra en sífelldir umhleypingar. Ég tala nú ekki um að geta keyrt á milli staða án þess að hafa áhyggjur af hálku í rússíbanabrekkunum hér á milli fjarða.
Já það eru oft fleiri kostir í stöðunni en gallar og gott að hafa það í huga í lífinu almennt og vera ekki að eyða orkunni í tuð um einskisverða hluti.
Ég viðurkenni vel að ég er latari á fætur virku dagana meðan myrkrið grúfir yfir og þá er það bara svo. Þetta líður hjá, það birtir og pestirnar fjúka þá vonandi út á haf. Þær grassera hressilega í svona vætutíð. Við höfum verið heppin og þau sýnishorn sem okkur hafa verið gefin stoppa stutt, kannski eins dags slappleiki, hámark tveggja. Ég held að ónæmið mitt sé orðið svona sterkt af allri umgengninni við skólabörnin en reyndar ætla ég ekki að fá pestirnar og geri viðeigandi ráðstafanir í næringu og vítamíninntöku.
Hjá mömmu gömlu var C-vítamín allra meina bót. Ef við fengum munnangur tókum við auka C, ef við vorum alltaf að fá blóðnasir, meira C, ef við vorum að fá kvef eða áttum erfitt með að vakna á morgnana, meira C og þar fram eftir götunum. Þetta var auka viðbót við lýsið og ABC-din sem voru fastir liðir við morgunverðarborðið. Ég á alltaf auka C og það læra börnin sem fyrir þeim er haft, ég smelli auka skammti á liðið mitt þegar eitthvað bregður út af vananum hjá þeim.
Yfir og út í rigninguna
Solla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýtt ár.... fjölbreytt verkefni !
Föstudagur, 10. janúar 2014
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Pistillinn 2013
Mánudagur, 9. desember 2013
Jæja, þá er komið að því enn eitt árið að jólapistillinn úr Hólalandi fæðist. Kominn annar sunnudagur í aðventu og ekki seinna vænna að pára eitthvað á blað.
Árið 2013 leið hratt og örugglega eins og flest ár og ekki höfum við þurft að kvarta undan aðgerðarleysi.
Í ár byrjar upptalningin á börnunum.
Frumburður okkar hjóna hann Friðrik fermdist í lok mars. Hann mætti samviskusamlega í messur allan veturinn og lærði kverið sitt samviskusamlega. Síðan mætti halda að hann hafi verið útskrifaður úr kirkjunni því ekki höfum við að náð honum þangað aftur eftir ferminguna. Hann hefur misskilið þetta eitthvað. Veislan var haldin á Kaffi Söxu (Kaupfélagshúsinu fyrrverandi) og til okkar mætti góður hópur vina og vandamanna. Þetta var hin indælasta stund og allir sáttir og glaðir með daginn. Hann stundar áfram fótboltann og ferðaðist um víðan völl í sumar með liðinu sínu. Frjálsu íþróttirnar fengu því miður ekkert pláss þetta sumarið því annir í vinnu og fótbolta hindruðu þá iðkun. Hann vann í vinnuskólanum og stundaði hana mjög vel og fannst sú vinna skemmtileg. Tónlistarnámið hefur sinn sess og þar rúllar hann verkefnunum upp með annarri. Hann kepptist við að stækka og tók fram úr móður sinni á árinu og er núna komin í um 180 sentimetrana. Frikki er enn sem komið er meðfærilegur unglingur og hefur ákveðnar skoðanir á hlutunum og endalaust gaman að rökræða við hann. Ekki vantar framtíðarpælingarnar og þær eru skemmtilegar og síbreytilegar á köflum.
Dýrunn Elín kepptist líka við að stækka en er ekki alveg jafn hrifin af allri þessari sprettu og bróðir hennar og vill ekki verða mjög hávaxin. Úff, það þarf ekki að líta nema í kringum okkur foreldrana til að sjá að hún hefur nú genin til þessað verða svolítið löng. Hún er ekki enn búin að ná móður sinni en það gæti gerst á næsta ári. Hún stundaði fótboltann á árinu og líkt og Frikki ferðaðist hún um víðan völl með liðinu sínu og núna mest í rútu án foreldranna. Móðirin var nú fararstjóri í nokkrum ferðum, ekki alveg til í að sleppa hendinni af skvísunni. Hún æfði líka frjálsar og keppti á Sumarhátíð og Unglingalandsmótinu. Hún stundar píanónámið á fullu, fékk nýjan kennara í haust, Öldu Rut frænku sína og þeirra samvinna er mjög góð. Hún rúllar náminu upp í skólanum og í hinum umdeildu samræmdu prófum skveraði hún sér í eina 10 og eina 9,5. Hún dundar mikið og á árinu saumaði hún fullt af flíkum á sjálfa sig, gerði fullt af mistökum sem hún var til í að læra af þegar mesti pirringurinn var runninn af henni :). Hún seldi sniðugar svefngrímur á Salthúsmarkaðnum í sumar og á jólamarkaðnum seldi hún pakkaskraut sem hún föndraði sjálf. Falleg að utan sem innan og yndislegur karakter.
Þá snúum við okkur að bóndanum. Hann fékk gjafakort í flug frá spúsu sinni í jólagjöf og flug til Þýskalands var bókað snemma í febrúar til að heimsækja Höllu, Árna og Helenu Emmu. Frúin var hálf spæld að fá ekki að fara með en það er víst ekki allt hægt. Hann flaug út á mánudegi og á fimmtudagsmorgni kom símtalið frá Höllu sem tjáði að hann hefði smellt sér í eina hjartaþræðingu þá um morguninn takk fyrir. Frúin fékk því Þýskalandsferðina, var komin út seinnipart laugardags og dvaldi með kauða þar til heimferðarleyfi fékkst. Heim héldum við eftir aðra þræðingu og karlinn að sjálfsögðu beint í veikindafrí. Þó aðstæður væru nú ekki þær skemmtilegustu þá var gott að geta verið með Höllu og Árna og litlu snúllu þessa daga og kynnast henni nánar, fara á handboltaleik hjá Árna þar sem ég galaði manna hæst þegar hann skoraði og þulurinn kallaði "Árni Sigtryggsson" í hátalarkerfið og njóta þess að vera VIP og fá góðan mat og drykk. Bóndinn ætlaði reyndar á þennan leik og fleiri en þannig fór það.
Hann smellti sér fljótt í vinnu en fékk að taka því rólega en er núna aftur kominn á fullt. Kann ekkert annað þessi kall.
Kerlan hefur verið á svipuðu róli og önnur ár, sinnir skólastarfinu, kennir jóga og nærir sig með Herba og öðrum hollum mat. Sinnir einnig nefndarstörfum víða. Gigtar"skrattinn" fór reyndar upp úr öllum hæðum undir vor og fram á haust og ætlaði að sliga kerlu á tíma. En svo fann hún lyf sem hefur gjörbreytt skrokksa og gefið nýja orku, styrk og minnkað verki um 95% og hefur ekki leiðinlegar aukaverkanir. Það er nýtt líf að vera ekki sífellt að berjast í gegnum dagana heldur eru þeir hver öðrum skemmtilegri. Hún ræktaði jarðarber og grænmeti í sumar og fullt af arfa. Hann var þá bara notaður í salatið. Einnig voru tíndar jurtir sem nýttar eru í te og búin til ein heilsustyrkjandi tinktúra. Fjallgöngur voru frekar fáar því skrokksi var ekki í stuði en með hækkandi sól verður litið meira til fjallanna og markmið síðustu ára tækluð :)
Í lífinu takast jú á gleði og sorgir og í júlí kvöddum við Friðrik pabba Jósefs hinstu kveðju. Sú stund var falleg með nánustu fjölskyldu og um kvöldið kom stórfjölskyldan saman í Byggó og söng saman helstu lögin hans Friðriks.
Ferðalög með hryssuna (fellihýsið) voru frekar fá. Við dvöldum í Höfðavík eina dásemdar helgi með tveimur bræðrum Jósefs og fjölskyldum. Sváfum í fellihýsinu á Akureyri í kringum jarðarförina og smelltum okkur á Storm Unglingalandsmót þar sem við vorum vindbarin með meiru eftir þá annars góðu dvöl. Dýrunn keppti í frjálsum og Frikki í fótbolta.
Ýmislegt fleira hefur á dagana drifið sem allt of langt væri að telja upp. Mest um vert er að í dag erum við heilsuhraust og lundin létt. Samveran á aðventu er notaleg, ekkert jólastress, enn spenningur hjá ungdómnum fyrir jólunum og langur listi skrifaður með jólagjafahugmyndum. Hólalandið orðið jólalegt með ljósum í glugga og endalaus kósíheit meðkertaljósum.
Sendum vinum og ættingjum nær og fjær okkar innilegustu jóla og nýárskveðjur.
Solla, Jósef, Friðrik og Dýrunn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ondúleringar
Mánudagur, 25. nóvember 2013
Mér þykir alltaf skemmtilegt að breyta og bæta á heimilinu. Síðustu ár hafa fjárhagsheimildir og orkuheimildir húsráðenda ekki boðið upp á miklar framkvæmdir. Það er þó af og til dútlað eitthvað smá. Í sumar kom nýtt holl af gluggum á ytri hlið hússins, ný hurð niðri og gluggar að framanverðu. Þetta er tekið í áföngum og stefnan sett á tröppur og bílskúrshurð á næsta ári.
Það eru næg verkefni innandyra og sjæning eftir framkvæmdirnar í eldhúsinu í vor og sumar hefur setið á hakanum. Frúin dreif sig þó af stað með sandpappírinn og pússaði eldhúsgluggana, borðstofu- og stóra stofugluggann. Hún fékk smá auka orkuskammt með haustinu og afskaplega stolt af þessu verki, auk þess að gluggarnir voru grunnaðir líka. Um helgina sparslaði Jósef í rifur, pússaði og fór fyrstu umferð með lakkpensilinn á gluggana. Það er enginn smá munur. Það birtir um allan helming. Nú er bið eftir næstu umferð og ég krossa fingur að það gerist fyrir jól, því ég ætla ekki að setja gardínurnar upp fyrr en báðar umferðir eru komnar á. Ég krossa líka fingur yfir því að eldhúsið verði líka málað .... kannski of mikil bjartsýni en hver veit.
Stofuborðið sem við keyptum okkur fyrir brúðkaupspening fyrir tíu árum fékk líka andlitslyftingu og kom heim í gær. Góður maður tók það að sér og pússaði plötuna og lakkaði. Það var orðið eitthvað svo fölt og leiðinlegt. Nú glansar það sem aldrei fyrr og glasamotturnar voru bara teknar úr stássskápnum svo borðið myndi nú ekki láta strax á sjá.
Frúin gerir jólahreingerningar eftir eigin höfði, orku og nennu. Sum árin eru teknir góðir sprettir en önnur ár eru þeir styttri og færri. Alltaf eru jólin jafn dásamleg í alla staði þó tuskan hafi ekki farið upp um alla veggi. Jólagleðin mælist í samveru og notalegheitum, ekki skrúbbi út í öll horn.
Börnin eru farin að kalla eftir bakkelsi, sykurpúkinn er vel virkur hjá þeim blessuðum og ég held mig á mottunni fram að aðventu. Mér finnst nóg um allt gúmmulaðisátið og vil halda því sem mest frá eins og kostur er.
Jólagjafirnar farnar að tínast í hús, netið notað óspart því ekki næst að dekka allt hér á Stf. Samt er margt fallegt til á Brekkunni sem hægt er að gefa.
Yfir og út og njótið væntanlegrar aðventu.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)