Nýtt ár.... fjölbreytt verkefni !


Á nýju ári finnst mér alltaf gott að taka smá mat á stöðunni.  Þó ég strengi ekki einhver markviss áramótaheit þá skerpi ég á ýmsum atriðum í því eilífðar markmiði sem ég stefni sífellt að; að verða betri manneskja.  Huga betur að næringu kroppsins og sálarinnar.  
 
Reyndar er eitt stórt verkefni sem bíður og það er blessuð skrifstofan mín. Hún ber nafn með rentu þessa dagana "ruslamálaráðuneytið". Ég hefði örugglega getað náð í þokkalega árabótabrennu ef ég hefði safnað öllum pappír saman og kveikt í en það fer í endurvinnsluna og sumt í tætarann.  
 
Þar sem ég er alltaf svo hrifin af sléttum tölum er ég viss um að 2014 verði flott ár, ég verð 44 ára, flott slétt tala og ástæða til að skella kannski bara í partý.  
 
Eitt nýtt verkefni tekur við undir vorið sem ég er spennt að sjá hvernig tekst til og næstu vikur fara í að skipuleggja og spá og spekúlera.  
 
Aðrar hugmyndir að fæðast í kollinum.   
 
Samkvæmt Tarot spá Dóru svilkonu minnar verður engin lognmolla í kringum mig og hvert örlagaspilið kom upp á fætur öðru. Hún var bara farin að svitna yfir öllum þessum viðburðum og breytingum sem spilin gáfu til kynna.  Að sjálfsögu komu líka upp peningar og slatti af þeim. Ekki verra Wink
 
Ef ég tala um markmið þá ætla ég nú að klára jógafræðsluna sem ég hef verið með í bígerð frá því í nóvember.  Ég þarf eiginlega að festa tíma til frumflutnings svo ég klári þetta og láti þetta ekki vera eitt af því sem ég ætla einhvern tíman að gera.  Að sjálfsögðu verða jógasystur mínar hér á Stf. fyrstu hlustendur og það verður gott og gaman að fá að spreyta sig á þeim.   Svo tekur Reyðarfjörður við og Breiðdalsvík.    
 
Jóganámskeiðið hefst á mánudag og það er alltaf tilhlökkun. Ég held að ég hlakki ekki minna til en nemendur mínir. Og námskeiðið Rólegt og notalegt (nokkurs konar stólajóga)  fyrir þá sem komast ekki í jóga en vilja styrkja sig fer í auglýsingu hið fyrsta.  
 
En núna er mál að linni og víst ekki hægt að fresta því óumflýjanlega, að taka niður jólaskrautið...... dúndra upp góðri tónlist og byrja.    
 
Yfir og út  
 
P.S. Þið fáu sem hér rekið inn nefið.  Vinsamlegast EKKI haka við Facebook like flipann neðst á síðunni.  Ég er með síðuna opna núna en vil ekki deila henni áfram á Pétur og Pál.  Takk takk  
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband