Góður dagur í Prag, kræklóttir vegir og lítil þorp

Í gær lögðum við enn meira land undir fót (dekk) og smelltum okkur til Tékklands.  Áfangastaðurinn var Prag.  Við fórum lengri leiðina eftir hraðbrautinni því þá sluppum við við kræklóttar beygjur og sveigjur yfir fjöllin.  Naví kerlingin er eitthvað undarlega stillt fyrir okkar smekk því hún reynir í sífellu að koma okkur inn á sveitavegina.  Við náðum nú að halda okkur á hraðbrautinni að mestu en svo létum við undan henni og fórum of snemma út af, sem þýddi rúnt um sveitir og bæi þar til við komum yfir landamærin á ansi eyðilegum stað.  

Þegar þarna var komið þurfti frúin að pissa.  Við komum að bensínstöð sem gaf góð fyrirheit um klósett og einhverja hressingu en þegar inn var komið fékk ég þau svör að klósettið væri bilað. Náunginn var frekar krípí og vildi svo sannarlega ekki þjónusta okkur, punktur. Ég þakkaði fyrir á kjarnyrtri íslensku að við myndum þá ekki kaupa hressingu af honum og kvaddi.

Áfram héldum við og komum að einhverjum landamæramarkaði hvar menn selja alls konar dót og drasl. Þar var klósettmerki og nú var þetta orðið vel aðkallandi og við Frikki stukkum út. Ónei, þetta voru hin eyðilegustu klósett sem ég hef séð og ekki verið pissað í þau lengi, eða í það minnsta ekki sturtað niður. Allt meira og minna brotið og ekki verið hirt um neitt lengi lengi.

Áfram var haldið og ég var næstum því komin að því að stoppa út í kanti og pissa úti í skógi en spennti grindarbotnsvöðvana og brátt komum við í smábæ með þokkalegri bensínstöð. Þar gat ég fengið að pissa bakatil og maður, það var ljúft.

Við komum til Prag um hádegisbil og mjökuðumst í mjög miklum rólegheitum í gegnum miðbæjarumferðina að bílastæðahúsinu sem við vorum búin að velja. Tókum eina vitlausa beygju og það kallaði á meiri rúnt í rólegheitunum.  

Staðsetningin var frábær, stutt labb að Karlsbrúnni og í miðjuna. Við byrjuðum á því að leysa út nokkrar evrur yfir í tékkneskar krónur og snæddum síðan á notalegum veitingastað mitt í allri mannmergðinni. Það virðast allir hafa tekið þá ákvörðun að fara til Prag yfir páskahelgin því mannfjöldinn var gífurlegur. Reyndar er alltaf margt fólk í miðbæ Prag.  

Eftir matinn röltum við um og kíktum á klukkuna frægu sem spilar á klukkutíma fresti og allir safnast saman til að horfa á. Ekkert voðalega tilkomumikið en er aðdráttarafl fyrir ferðamenn og vasaþjófa. Okkar vasar tæmdust ekki enda vel haldið um budduna.

Við enduðum miðbæjarröltið á Karlsbrúnni. Þar er mikið mannlíf og margir að selja ýmis konar glingur og dót. Við snertum styttur sem veita ævarandi velgengni og hlustuðum á djassaða tónlistarmenn.

Næst tók við klukkutíma akstur þá 18 km sem voru til Pövlu og Zdenek. Við virtum fyrir okkur borgina og ræddum að dagsferð sé í allra minnsta lagi því svo margt er að skoða og njóta í þessari fallegu borg.  

Hjá Pövlu og Zdenek biðu okkar velgjörðir sem við náðum alveg að gera ágætis skil þrátt fyrir að hafa borðað pizzuna þremur tímum fyrr.  Við sátum úti á pallinum með útsýni yfir fallega garðinn þeirra og það var notalegt meðan sólin skein. Við ræddum saman á þýsku og ensku við þau heiðursshjón.

Við fórum aðra leið heim og styttri í tíma og kílómetrum.  Núna tókum við annan pól í hæðina og stylltum navíið á Tékkneskan bæ sem lá við þann þjóðveg sem við vildum keyra. Síðan var kúrsinn tekinn á Chemnitz og svo stilltum við navíið á Aue. Aðeins of snemma því hún beindi okkur strax af veginum inn á sveitaveg. Við slepptum fyrsta afleggjara sem lá í gegnum skóg en beygðum svo eins og sauðir næst þegar hún gaf okkur merki. Þá tók við keyrsla upp og niður hæðir í gegnum vegi sem eru jú tvíbreiðir en þvílíkt mjóir, með tré í kantinum og þar má keyra á 100km hraða. Það er nógu skelfilegt að keyra þetta í björtu hvað þá í myrkri, ómæ god. Ég held að það sé far í gólfinu farþegamegin eftir bremsutilraunir mínar. Þarna hafa örugglega margir farið yfir móðuna miklu. 

Ekki nóg með að við keyrðum í gegnum hvern skóginn á fætur öðrum, þá tók alltaf við eitthvað þorp, óspennandi og eyðileg svona í myrkrinu og allt einhvern veginn eins. Frú Naví ætlaði að láta okkur beygja þar sem ekki var hægt að beyja og stundum var búið að loka þeim vegum sem hún benti á  og þá bættist við vegalengdina. Þessir rúmlegu 40 km sem við keyrðum á þessum vegum voru svakalega langir. Þegar inn í Aue kom leist okkur ekki á blikuna því þar var nýlokið leik Aue og Dinamo Dresden. Bærinn var undirlagður af drasli og gomma af lögreglubílum út um allt að koma síðustu bullunum í burtu.  Þetta eru víst svakalegir leikir því þarna er mikill rígur á milli. Áhorfendur eru sendir frá Dresden til Aue  í lélegum lestum á staðinn því allt er eyðilagt svo mikill er atgangurinn.

Mikið vorum við glöð að renna í hlað hér í Dorfstrasse eftir tveggja og hálfs tíma keyrslu með taugarndar þandar síðasta klukkutímann.

Þjóðverjar taka föstudaginn langa af mikilli alvöru (annað en í Tékklandi) og allt er lokað. Við ætlum því að halda okkur í rólegheitum í dag. Líklega kemst ég nú í göngutúrinn minn loksins því það virðist ætla að stytta upp og snjókoman er búin í bili, engin afsökun lengur.  Við erum jú upp í fjöllum hér.

Litla skottið er ánægt að hafa svona margt fólk í kringum sig og það eru kaffiboð hægri vinstri. Það er gaman að fá að snúllast aðeins með hana. Hún er mjög hrifin af Frikka og Dýrunni og alveg sátt við gamla settið.  

Yfir og út þar til næst.... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband