Ótrúlegt alltaf hreint

Núna hef ég kennt þrjá tíma af átta tíma jóganámskeiðinu hér og á Breiðdalsvík.  Fullur hópur af áhugasömum nemendum á Breiðdalsvík og þar af nokkrir nýir í jóga og Heitu jóga.  Bara á þessum þremur tímum sé ég ótrúlega styrktarbreytingu á fólki, líkamsstaðan er betri og fólk getur haldið stöðum lengur og jafnvel farið í stöður sem það komst ekki í í fyrsta tíma.

Já þetta er lyginni líkast en svona er jógað. Það vinnur svo með grunnstyrkinn okkar, kjarnann sem styður við hrygginn sem er lykillinn í því að okkur líði vel í líkamanumm, þ.e. að hann sé í góðu standi.

Allar jógaæfingar miða að því á einhvern hátt að styrkja hryggsúluna, losa, teygja og opna. Upphaflega voru stöðurnar hannaðar í því skyni að styrkja hrygginn svo hægt væri að sitja lengi í hugleiðslustöðunni og hugleiða.  Svo áttuðu menn sig á hvað þær eru heilsubætandi og í dag eru sífellt fleiri að opna á hvað jóga gerir okkur gott.

Þessi jógalota var smá ögrun við minn gigtarskrokksa og eftir fyrstu tvo heitu tímana í beit þar sem ég eins og sauður gerði og hélt stöðunum eins og hópurinn þá stífnaði ég alveg upp. Já stundum þekkir maður ekki sín takmörk og kominn í 30 gráður plús þar sem allt er auðveldara þá fer skynsemin stundum út um gluggann.  

Núna hef ég farið í gegnum heila viku og tvo tíma til þ.e. átta tíma og vá já ég finn mun á skrokknum á mér.  Allur að styrkjast enn meira og verða huggulegri.  Vigtin er ekkert að hreyfast niður á við enda er hún ekki mælikvarði á ástand líkamans. Stór spegill og málband segir Ragga nagli og að henda þessum járnhlunk út í hafsauga.  Ég læt hlunkinn ekkert pirra mig og stíg reglulega á hann. Yfirleitt veit ég hvaða niðurstöðu ég fæ en ef hún er að skekkjast þá skerpi ég fókusinn. Gallabuxurnar mínar eru betri mælikvarði á það hvað mér líður vel í eigin skinni. 

Áframhaldandi uppbyggingin er á næstu vikum því mig langar svo að geta farið í nokkrar fjallgöngur í sumar og þarf að byggja mig markvisst upp.  Álagið í febrúar er enn að koma út í skrokknum í formi stífleika og nýrra verkja. Ég ætla að vinna á móti því með reglulegri hreyfingu innan þeirra marka sem ég má.  Ég þekki þau og fer ekkert yfir þau.  

 Nú er ég komin með einkaþjálfara heim í stofu, DVD diska frá mínu flotta fyrirtæki Herbalife og þar er byrjað á byrjuninni og styrkurinn aukinn smátt og smátt. Lofar mjög góðu. 

Lykillinn er jú svo að næra kroppinn vel og passlega oft yfir daginn.  Ég vanda mig meira við það núna og það skilar alltaf meiri vellíðan og árangri.

Yfir og út inn í helgina og hafið það ljómandi fínt.  


Bæbæ sykur .....

Jahá, enn og aftur kveð ég blessaðan sykurinn og eins og alkinn sem ætlar ekki að drekka aftur ætla ég að taka hann út fyrir lífstíð.  Það hefur ekki með neina tískustrauma að gera heldur þá bláköldu staðreynd að þegar ég neyti þess hvíta þá stjórnar hann mínu lífi.  Ef ég ætla að vera sniðug og fá mér bara um helgar, þá verða helgarnar ansi langar, allt í einu komin föstudagur og ég gleymdi að nammidagurinn var bara sl. laugardagur enn ekki öll helgin og vikan þar á eftir.

Ég kveð hvíta hveitið að mestu leyti líka, því saman halda þessir félagar mér í heljargreipum. Lítið mál með hveitið í raun því það er til svo fullt af öðru góðu brauðmeti sem ekki inniheldur hveiti.  

Ég tek þann pól í hæðina að ég sé svona 95% sykur og hveitifrí.  Ég les sem sagt ekki utan á hverja einustu vöru sem ég kaupi og þar sem sykur er í all flestum unnum matvörum og pakkavöru þá er erfitt að komast algjörlega framhjá honum nema með miklum pælingum.  Ég ætla ekki að leggjast í þær núna. Ég fæ mér stundum eitthvað með hrásykri eða púðursykri, það kveikir ekki á skrímslinu. 

Frá sept og fram í miðjan des hélt ég mig á sykur og hveitilausu nótunum og eftir sirka mánuð fór ég að finna áhrifin í skrokknum.  Þegar lifað er í stöðugum verkjum af einhverju tagi munar nokkuð þegar það léttir á einhverju.  Ég vaknaði einn morguninn og fann ekki fyrir stirðleika í öxlunum.  Ég ætlaði svo að klára tímabilið sem átti að verða fram í janúar og halda svo áfram en seldi mér þá hugmynd að það væri allt í lagi að ég fengi mér smá lakkrís........  Þar með var skrímslið vakið og smátt og smátt mjakast þetta hægt í það að verða að sælgæti á hverjum degi, stífleikinn í öxlunum í mesta magni og verkir og óþægindi með mesta móti síðustu vikur.

Er það þess virði að sleppa þessum fjanda. Já það er það.  Nú tek ég einn dag í einu og er ekkert að spá hvað ég ætla að halda þetta lengi út. Það er sennilega meinið, ég tel mér nefnilega trú um það innst inni að hann sé ekkert svo slæmur fyrir mig og að ég hafi stjórnina.  Algengasta hugsanavilla þess sem ekki hefur stjórn á einhverri neyslu tel ég.

 Dag í senn og heitt jóga til að hreinsa út fyrir vorið Smile. Einn liður í vorhreingerningunni. 

Njótið hvers dags.... 

 


Ferming Frikka


Dagurinn rann upp bjartur og fagur. Undirbúningur svo til búinn daginn áður og örlitlar fíniseringar eftir. Um eittleytið hjálpaði Agnes mér í upphlutinn og krækti þar sem hægt var að krækja og nældi þar sem ekki náðist að krækja.  Frikki skellti sér í múnderinguna og var mjög reffilegur í fermingardressinu.  
 
Athöfnin gekk mjög vel, kórinn mannaður 15 söngvurum sem sungu af hjartans list í öllum röddum. Það var dásamlegt að sitja frammi í kirkju og hlusta. Ég held að brosið hafi ekki dottið af mér allan tímann. Drengirnir skiluðu sínu með sóma og voru gífurlega flottir þarna uppi við altarið.  Skírðir saman og fermdir saman, bundnir órjúfanlegum böndum og góðir vinir.  
 
Við rétt brugðum okkur heim og ég skipti um dress því ég hefði verið komin í andnauð í spennitreyju upphlutsins þegar á daginn hefði liðið.  Smellti mér í rauðbleika kjólinn sem ég verslaði í Mannheim fyrir þetta tilefni.
 
Allt var á suðupunkti niðri í Kaffi Söxu og kokkurinn farinn að svitna yfir því að þetta hefðist ekki í tíma. Þá komu ýmsar hendur sem hjálpuðu til, skáru niður grænmeti í salatið, skáru brauðið niður og ýmislegt. Þessar sömu hendur og fleiri til hjálpuðu okkur svo í veislunni svo við gátum notið þess að spjalla við fólk í stað þess að vera sífellt á þönum.
 
Hálf fimm byrjaði fólk að streyma að og brátt var setið við öll borð. Þá hófum við veisluna með því að Jósef og Friðrik spiluðu tvö lög. Friðrik spilaði að sjálfsögðu á nýja gítarinn sem við gáfum honum af þessu tilefni.  
 
Veislan var ljúf, fólk gaf sér tíma til að spjalla við vini og ættingja sem það hafði ekki hitt lengi og enginn þurfti að standa upp til að rýma fyrir fleiri gestum.  Við fengum góðar hendur við frágang og niðurpökkun á afgöngum sem leystar voru út með afgöngum. Við þurfum því ekki að borða þá í marga daga.  
 
Sólmundur og Agnes stigu á stokk um miðja veislu og spiluðu saman nokkur lög, hann á gítar og hún á fiðluna sína. Það var ljúft.  
 
Um kvöldið opnaði fermingardrengurinn gjafirnar sínar með nokkrum nánum fjölskyldumeðlimum.  Úr pökkunum komu góðar og nytsamar gjafir og úr umslögunum hellingur af pening. Hann fékk gítarinn frá okkur og statíf fyrir hann frá Dýrunni.  Einnig fékk hann hnattlíkan lampa, bókina "Stuð vors lands", Tvö ilmvötn, gítareffect, hálsmen, Humör buxur, svefnpoka og langþráðan síma.  Mér þótti nú nóg um hvað sumir voru rausnarlegir í peningagjöfum og svitnaði hálfpartinn yfir öllu saman. Þakklát fyrir hlýhug fólks. 
 
Síðan þá höfum við gert mest lítið. Slappað af og borðað afganga. Sumir eru glaðir yfir því hve mikið gos var eftir en í því liði er ég ekki.
 
Í gær brunuðum við svo í Egilsstaði og leyfðum kappanum að versla sér langþráðan tölvuskjá og þráðlaus heyrnartól með míkrafón. Kannski sjáum við hann ekki meir því síðan þá hefur hann dvalið langdvölum í herbergi sínu. Eitthvað bras er með hljóðið en það finnst örugglega lausn á því.
 
Stór hluti fermingarpeninganna fer á framtíðarreikning og hann getur nýtt það upp í bílprófið eða skóla.
 
Dýrunn er búin að skipuleggja ferminguna sína svo það verður pís of cake að framreiða hana.  Linda Viðars hlakkar líka til og ef aðstæður leyfa verður hún sko örugglega yfirkokkurinn aftur.  
 
Það var yndislegt að fá alla þá austur sem lögðu land undir fót og það var drjúgur slatti Smile vina og ættingja. 
 
Yfir og út.....
 
Eyþór og Friðrik
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 Flottur
 
Sker tertunaFjölskyldan
 

Hamingjan

                                                               

                 

Leiðin til hamingjunnar

                                               

Í flestum tilfellum er fólk á miðjum aldri búið að átta sig á því að hamingjan er ekki fólgin í peningum, eignum, flottum fötum og þvíumlíku.  Já í flestum tilfellum, ekki alveg öllum. 

Suma daga er ég mjög hamingjusöm og hef haft það að markmiði í mörg ár að hugsa á jákvæðum nótum, rækta sjálfa mig og finna og sjá hamingjuna í öllu því smáa og stóra í kringum mig. Að ákveða í upphafi dags að þessi dagur verði góður er gott innlegg inn í daginn og yfirleitt verður sá dagur góður því ég ákvað það. 

Stundum villist ég af brautinni, fer að velta mér upp úr vandamálum og áhyggjum eða verkjum (sem eru daglegt brauð) og þá allt í einu virðist hamingjan víðs fjarri.  Sem betur fer spólast ég upp úr farinu fyrir rest, kasta bullinu aftur fyrir mig og held áfram að rækta það jákvæða og góða.

Mótlætið styrkir ef það beygir okkur ekki og eina leiðin til að takast á við það er með jákvæðu og lausnamiðuðu hugarfari.  Stundum er hugur vefjagigtarkerlunnar ekki alveg til í þá leið, sérstaklega þegar þess hefur verið gætt að gera það sem best er fyrir skrokksa gamla, að borða í hófi og skynsamlega, hreyfa, teygja og liðka og hvílast vel en nýr dagur hefst með verkjum, orkuleysi, einbeitingarskorti og trukkahjólförin eru djúp þann daginn.  Samt tekst nú alltaf að snúa hugarfarinu í rétta átt þó það sveiflist stundum og tíu ára þjálfun hefur skilað sínu. Við höfum verið formlegir ferðafélagar síðan þá, já og komið mis vel saman en þar sem ég veit að þessi ferðafélagi ætlar ekki að yfirgefa mig geri ég það besta til að sættast við hann sátt við lífið og tilveruna.  Vont en það venst er kannski hægt að segja. Eða, það gæti verið verra. Í það minnsta vildi ég að það væri betra og vinn að því hvern dag eftir bestu getu. Ekki ætla ég að leggjast með tærnar upp í loft og væla mig í hel. 

  Miuel Ruis komst vel að orði þegar hann sagði þetta: "Þegar við sjáum hamingjuna í að lifa í augnablikinu, gera það sem við elskum, ástunda þakklæti, vera trú sjálfum okkur, ekki taka hlutina persónulega, tala og umgangast aðra með kærleika, gefa okkur ekki einhverjar ákveðnar forsendur og gera alltaf okkar besta. Munum við líklega upplifa sanna hamingju daglega". 

  

 


Af fermingarundirbúningi

Já þó ég hafi nú hingað til haft gaman af bakstri og eldamennsku þá ákváðum við hjónakorn að fá fagmenn í ákveðinn hluta undirbúningsins, þ.e. eldamennskuna.  Bóndinn lítið fyrir svona verk og skrokksi hjá kerlu ekki í standi í svona stapp.  Gott mál. Ég er líka með fagmann/konu í kransakökugerð og Maja mín kemur með endapunkta. Nú hvað er þá eftir? Sjálf fermingartertan, marengsterta og kransatoppar, jú og snittubrauð.

 Við Dýrunn byrjuðum á toppunum í gær. Dýrunn sá um berin og ég rembdist við að sprauta stífu deiginu í toppa, lá við að ég þyrfti kraftakarl í það. Ekki hentaði alveg að baka þá á blæstri og þeir urðu misbakaðir, svo ég skellti á undir og yfirhita og þá fór bara ein plata í ofninn.  Ég gleymdi mér að sjálfsögðu og sú plata varð frekar dökk yfirlitum.  Sú næsta og jafnframt síðasta í þessari umferð var bara skást.  Ég tel mig nú samt geta nýtt svona 2/3 af þessum skammti og það er komið í frost.  Ætla að glíma við annann skammt aftur.  

Nú þá kemur að fermingartertunni.  Svampbotnar eru ekkert mál en þessi sem er á plötunni núna nýbakaður og "fínn" er ósköp framlár greyið og mér sýnist hann pikkfastur við pappírinn. Þá gleðjast börnin því þau taka svona mistökum vel (já það er sjaldan bakkelsi hér á borðum) og mislukkuðu topparnir runnu ofan í mannskapinn í gær. 

Ég ætla því að skunda til Ástu minnar grönnu og fá skothelda uppskrift svo þetta klikki ekki.  Eins gott að hænurnar í Hvammi verpi af fullum krafti á næstunni svo ég hafi nóg af eggjum.

Við erum búin að smakka prufuskammt af fyllingunni í tertuna og jummí, hún verður bragðgóð.

Búið að finna mynd á kökuna, Jósef leitar að humri og ég pússla saman myndum í smá myndashow í tölvunni. Allt á réttu róli.  Ekkert stress og mikið verður gaman að gleðjast með fólkinu sínu þennan flotta dag Wink  


Málhalta hænan....með O-i

Já ég "elska" samstarfsfólk mitt eða réttara sagt samstarfs konur mínar. Eða þannig. 

Í gær var ég í miðri spurningakeppni á Keppnisdögum í skólanum þegar Gurra læddist inn í stofu til mín.  Þegar spurningaliðnum sem við vorum í var lokið segir hún "Þú átt að fara í Landann". "Ha, Landann, af hverju ekki þú?" (Fermingarkrakkarnir voru nýbúnir að vera í tökum hjá þeim og ég tengdi þetta við það).  "Nei, þú átt að fara" sagði hún og ýtti mér fram og tók við keppninni.  

Þegar fram kom, kom upp úr dúrnum að engin af mínum samstarfskonum þorði að svara spurningum Gísla.   Ég lét tilleiðast og sagði honum jafnframt að mér þætti ekkert leiðinlegt að tala en að tala óundirbúið þá væri ég hálf málhölt.

"Þetta verður allt í lagi" sagði hann "og ekkert verra að tala óundiðbúið"  Svo var kameran stillt, allt sett í gang, ég spurð að nafni og hvort það væri með O eða Ó (sem mér þótti gífurlega vænt um) og svo man ég ekki mikið meira.........   Nei, djók, auðvitað man ég meira, efnahagsástandið, kosningar..... ble ble ble en ég vona svo sannarlega að fólk verði mjög upptekið að kvöldi skírdags ef þetta verður í þeim þætti eða að þeir týni upptökunni eða hún skemmist á einhvern hátt.  Því ég málhaltaðist svolítið á köflum, átti erfitt með að klára setningarnar og er alveg einstaklega ómálefnaleg og NEI, ég er ekki búin að gera upp við mig hvað í kýs í næstu kosningum.   Ég er líka ákveðinn fullkomnunarsinni og í allan gærdag fann ég snilldarsvörin við spurningum Gísla. 

En ég get þó huggað mig við það að í mínu fyrsta sjónvarpsviðtali á ævinni var ég  nýklippt og var bara með huggulegasta móti þennan dag. Miklu huggulegri en allar samstarfskonur mínar til samans (Vó hvað ég vona að þær lesi þetta) Kannski verður mér bara boðin vinna í Landanum CoolPabbi vildi alltaf að ég yrði sjónvarpsþula. Sennilega svo hann gæti séð litluna sína oftar þegar hún var í Reykjavíkinni.  

 


Í spennitreyju......

Fyrir nokkru ákvað ég að skarta íslenska búningnum sem ég "erfði" frá mömmu í fermingunni hans Friðriks.  Ég hef einu sinni brúkað hann og man hvað mér var létt að komast úr honum árið 1990 þegar ég vígði hann sem nýstúdent. Úff og púff.  

Mér fannst ég feit í þá daga (já ótrúlegt) en þar sem ég er í dag svo hoj og slank í eigin augum hvaflaði það ekki að mér að þetta yrði mikið problem.  Ég hef mátað pilsið og það er svona mis þröngt en sleppur alveg með lagni.  Í morgun ætlaði ég að taka allan pakkann á þetta og fara í vestið líka.  Jahá, pilsið sleppur en eitthvað fyllti barmurinn og efri maginn (eins og mamma kallar hann) aðeins of mikið út í allt saman.  Ég náði nú að þræða hann saman að framan og reyrði barminn niður en náði ekki að krækja honum saman neðst, þarna yfir efri magann.  

Þegar þarna var komið sögu ákvað ég að glíma ekki við að renna vestinu á pilsið enda var ég farin að svitna af áreynslu.

Næst var það svuntan. Að sjálfsögðu er hún ekki bundin heldur fest með tölu og ég held svei mér þá að hún hafi hlaupið í skápnum í öll þessi ár sem hún hefur verið í geymslu. Það getur ekki annað verið.  Ég tróð henni í strenginn til að festa hana og tók til við belið. Til allrar guðs lukku er það úr teygju svo það komst utan um allt klúðrið án nokkurra vandræða.

Þetta leit bara nokkuð út þó ýmislegt væri fiffað og ekkert almennilega fest - allar þessar fleirihundruð og fjörutíu krækjur út og suður svo allt hangi nú vel saman og rennilásar.  Ég var mjög ánægð með útkomuna og ætla að sjálfsögðu að skarta honum.

Þá var punkturinn yfir I-ið, sjálf skotthúfan með eldgamla silfurhólkinum. Ég skartaði henni ekki þegar ég útskrifaðist heldur stúdentshúfunni.  Já, nei - hún fær ekki að vera með því ég breytist í þvílíka lummu að það hálfa væri nóg. Ég er frekar höfuðsmá og ekki með þykkan hárlubba og ég er eins og kjáni þegar ég er komin með húfuna.  Ég legg ekki meira á ykkur og hún verður heima. 

En þessa sentimetra sem upp á vantar ætla ég ekki að fá hjá saumakonu eða með einhverjum reddingum hér og þar heldur að taka á honum stóra mínum og skvera eins og 2-4 sm af efri vömbinni, kannski smá af þeirri neðri.  Hún hefur nefnilega verið að síga upp á við í kæruleysinu sem ég hef leyft mér síðustu vikur.  Til þess þarf fókus, skipulag inn í daginn, Herbann sterkan inn, drekka vel, borða vel af ávöxtum og drjúgan skammt af grænmeti með hádegis eða kvöldmatnum. Ekkert mál, bara skemmtileg áskorun.

  Mæling í fyrramálið - ég ætla ekki að setja inn myndir LoL  Það verða bara fermingarmyndirnar þegar þar að kemur.

Ég er samt komin með kjól fyrir veisluna sjálfa, skipti eftir messuna svo ég geti náð upp súrefnismettuninni....

 Yfir og út  


Heilræði

Meðan nemendur mínir í upplýsingatækni vinna verkefnin sín grufla ég stundum í hinum og þessum bókum á bókasafninu. Í dag talaði til mín bókin Orð eru álög sem valkyrjan Sigríður Klingenberg skrifaði.  Hún fer á náttborðið (ásamt öllum hinum sem þar eru).  Ég rakst á tvö heilræði sem ég staldraði við og verða mér til umhugsunar. Hér eru þau:

Ég börnin mín elska og þau eru mín fræ

og með þeim ég græt, brosi og hlæ.

Þau hjarta mitt fylla

huga minn stilla

og hugga er mér líður illa.

Ég vil við hlið þeirra standa

hjálpa þeim við allan vanda.

Svo á endanum verði þeirra mat

að mamma gerði það besta sem hún gat.  

 Hér er næsta:

Hver dagur án gleði er dagstund svo föl

hver dagur með sorg er hjartanu kvöl.

En sorgin hún minnir á gleðinnar hlýju

er sorginni eyðir hefst gleðin að nýju.

En stundum er sorgin svo erfið og bitur

og sá eini kraftur sem eftir situr.

Þá kærleikann verður þú að þiggja

og lífsgöngu þína á honum byggja.

Þú verður líka að hafa trúna

að hamingjan sé hjá þér núna.

 

Yfir og út Heart 


Þegar fjaðrirnar fá vængi....

Jæja góðan dag.  

 Ég bauð meiri aðgang að blogginu mínu þessa dagana með það fyrir augum að fólk fengi fréttir af stöðu mála beint frá okkur.  Nú er svo komið að ég hef fengið fyrirspurnir frá tveimur góðum vinum sem hafa hitt fólk sem hafa fullyrt það fullum fetum að Jósef sé með 50% ónýtt hjarta. Þetta virðist ferðast hratt um Austurland.  

50% virkni er ekki sama og 50% ónýtt. Og hana nú.

Alltaf gott að lesa tvisvar og gæta þess sem menn segja út á við

Áttum ljómandi góðan dag í dag. Jósef skrapp til Heidelberg með Höllu, Árna og Helenu meðan ég hvíldi lúinn mallkút og las áfram í Snjókarlinum.  Arrrrg, ég næ ekki að klára hana og vona að hún verði inni á bókasafninu þegar ég kem heim.    

Fengum okkur svo ljómandi góðan kvöldverð inni í Mannheim á hinum rómaða ítalska veitingastað Vapiano. Ég gat reyndar ekki klárað en fékk afganginn með heim í boxi. LoL

Okkur sýnist vorið ætla að koma á morgun, sennilega um svipað leyti og við göngum um borð í rip off flugið.  

Og munið ..... Aðgát skal höfð í og án nærveru sálar..... 

 


Haltur leiðir blindan....

Já það má með sanni segja að það hafi verið hálf sorgleg sjón sem bar fyrir augu Mannheim búa upp úr hádegi í gær.  Hjónakornin "spræku" skelltu sér yfir ána með Höllu í fermingarfataleiðangur.  Ég hálf svimandi eftir aðra fjöruga klósettnótt og Jósef kvefaður ofan í allt saman. 

Okkur tókst samt að velja föt á gaurinn með dyggri hjálp Höllu sem vægast sagt leist ekki á ástand ferðafélaganna og stýrði innkaupunum eins og herforingi.   En allir sáttir með að hafa klárað þetta frá því á laugardögum er leiðinlegt að fara í verslunarleiðangur þá er svo fjölmennt í bænum.

Þriðja nótt kerlunnar var álíka viðburðarík og þær fyrri og engin ástæða til að fara nánar út í þá sálma. Í andvökum mínum milli klósettferða hlustaði ég eftir lífsmörkum hjartakarlsins og þau voru góð, hann hóstaði reyndar mikið. Ekki truflaði það svefn hans því í morgun hafði hann orð á því hvað hann hefði hóstað óvenu lítið.  

Ég tek því ofur rólega í dag og safna kröftum fyrir flugið á morgun. Ekki hefur orðið mikið úr prjónaskap eins og áætlað var en ég er langt komin með að lesa Snjókarlinn.  Það eru vangaveltur um að taka rúnt til Heidelberg í góða verðrinu en ég læt það ferðalag bíða, því miður.  Jósef hefur gott af því að viðra sig og ganga smávegis. 

 Njótið dagsins Wink 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband