Döner, postulínið og rip off

Í gær höfðum við eldamennskuna mjög einfalda. Splæstum í Döner sem er eitt það allra besta sem ég fæ í Þýskalandi og algjört must að fá sér í það minnsta einu sinni í hverri för.  Hann er stútfullur af grænmeti og ekkert of djúsí.  

Við borðuðum frekar seint svo ég var södd fram eftir kvöldi, svaf frekar órólega, var líka að hlusta eftir lífsmörkum hjá bóndanumSmile.  Um þrjúleytið skreiddist ég á settið, ætlaði nú fyrst bara að fá mér vatnssopa.  Sú dvöl lengdist því á kerlunni spratt fram kaldur sviti og mikil ógleði.  Ótrúlegt að hægt sé að svitna svona en vera samt ískaldur.  Þar sat ég í góðan klukkutíma, skalf og gaf fiskunum að borða. Sem betur fer bara Gullfoss útgáfuna.  Skreið svo í bólið og náði að lúra fram á morgun.  Enn eru ónot í mallanum og skrokksi linur og þreyttur og fiskarnir fá meira fæði í dag, það er nokkuð ljóst.  Árni finnur líka fyrir magaverkjum og er slappur, spurning hvort þetta tengist Dönernum góða eða hvað.  Mér varð hugsað til þess að ég hefði átt að vera búin að spritta hendurnar á mér aðeins meira síðustu daga því ég gerði það samviskusamlega við hverja inn og útgöngu á spítalanum. 

Hjartakarlinn er bara hress, smá hósti í honum en við fengum bæði í okkur einhverja hálsbólgu og smá hósta með því í fyrradag.  

En svo bregðast krosstré sem önnur tré og ég býst við að fletið verði mest bælt í dag, með góða bók sér við hönd og reglulegum ferðum á settið. Ónæmiskerfið hjá kerlu hefur eitthvað veiklast við þetta álag og stress. 

Við skoðuðum flug heim í gær og Jósef var agalega ánægður með verðið þar til í ljós kom að þetta var verð fyrir einn.  Þegar ég flaug sl laugardag greiddi ég 80 þús fyrir tvö flug á leið minni til Frankfurt, sunnudagsflugið var beint og hefði kostað 60 þúsund.  Viku síðar kostar rúman 100 þús kall á mann að fljúga sama dag. Já þetta kalla ég rip off. Ég hélt að Flugfélag Íslands myndi toppa allt en hef nú séð og reynt annað.  Þá er gott að vera vel tryggður. 

Yfir og út og enginn Döner í dag Crying 


Búið að útskrifa karlinn...

Jæja, þá er bara búið að útskrifa karlinn.  Hann var svo rogginn að hann hljóp næstum niður tröppurnar á hæðunum tveimur og stikaði upp á aðra hæð hjá Höllu þegar heim var komið eins og ekkert væri. 

Heimför plönuð á sunnudag. Ætlum að koma við á hjartadeildinni og fá fleiri línur lagðar þar, resept og slíkt.  Svo home sweet home.  

Nú tökum við því rólega fram á sunnudag. Teknir verða reglulegir göngutúrar upp og niður tröppurnar og einhver hringur hér í kring.  

Þeir tóku blóðsykurspróf í morgun til að athuga með sykursýki og niðurstaðan var sú að hann er ekki með sykursýki2 en gæti þróað hana með sér því það er einhver dysfunktion í úrvinnslu á sykri.  Það er þá enn frekar staðfest hve þörf er á breyttu  eða fjölbreyttara mataræði.  Hann reddar því með einari.  

Knús yfir hafið  


Vel heppnuð þræðing

Þræðing dagsins í dag gekk ljómandi vel.  Ég hef nú ekki fengið nánari útskýringar á málum en svo virðist sem þeir hafi ekki þurft að brenna neitt en þeir settu aukið álag á hjartað og skoðuðu hvernig það brást við.  Þeir eru svo bjartir eftir þetta að þeir segja að hann megi brátt fara út af spítalanum. Eftir 40 daga þurfi að athuga stöðuna og hvort hann þurfi á gangráð að halda.  Ég fæ nánari útskýringar á þessu á stofugangi í fyrramálið og eins þá hvenær hann verður flugfær.  Þegar við vitum það setjum við okkur í samband við hjartadeildina heima og fáum viðtal til að fara yfir næstu skref, ræða endurhæfingarmálin og þess háttar.  

Hann þurfti að liggja hreyfingarlaus í nokkra klukkutíma eftir aðgerðina og var ekki lengi að hringja bjöllunni þegar tími var kominn til að losa um umbúðir í náranum því honum var svo mikið mál að pissa. Nennti ekki að athafna sig með flöskuna góðu. 

Við fengum okkur síðan göngutúr niður á jarðhæð (tókum samt lyftuna) og karlinn splæsti í afmælisköku handa spúsu sinni. Notaði tækifærið og fékk sér kaffibolla, þeir bjóða nefnilega bara upp á koffínlaust kaffi á deildinni.  

Þetta var fín afmælisgjöf.  Smile 


Lambakjöt frá Hvammi og sjúkraflutningur til Þýskalands.

Í dag var dekrað við karlinn fyrir þræðinguna á morgun.  Hann fékk tvær litlar bollur með litlum rjóma og í kvöld elduðu Halla og Árni lambalærið sem hann kom með út af vænum sauð frá Hvammi.  Hann varð ekki lítið glaður að fá smá skammt af því enda ekkert miðdagskaffi og kvöldkosturinn rýr.  Ekkert saltkjöt og baunir hér í landi á morgun.  

Ég hringdi í Njál og afpantaði nuddtímann á fimmtudag og hann spurði frétta og þá hafði sagan borist til hans á þá leið að hann hefði verið fluttur til Þýskalands á sjúkrahús. Svona skolast sögurnar til.  Við vitum ekki enn hvenær aðgerðin verður framkvæmd, kíkum á hann í fyrramálið og þá fáum við að vita það væntanlega.  Hann ber sig vel og eins og sjá má á myndinni er hann ekki lasaralegur þar sem hann gerir Hvammslærinu góð skil.  Smile 

Góðar kveðjur þar til næst. 

 

2013-02-11 19.15.30


Næstu skref

Jæja, þá erum við búin að hitta lækni sem fór í gegnum næstu skref.  

Læknarnir hafa tekið þá ákvörðun um að þræða karlinn aftur á morgun. Markmiðið er að leita að þeim vef sem veldur óreglunni í hjartslættinum hjá honum og reyna að laga það.Ef það gengur ekki upp þá er gangráður næsta skref.  

Núna fengum við að vita það að í þræðingunni um daginn var settur nýr stoðveggur í æðarnar tvær sem þræddar voru í hinum tveimur aðgerðunum. Þeir voru fallnir saman og þar af leiðandi lokaðist leiðin.  

Staðan er sú að virknin í hjartanu er ekki nema tæplega 50 prósent og spurning hvernig það þróast.   Við fáum væntanlega að vita seinnipartinn klukkan hvað aðgerðin verður framkvæmd, læknirinn taldi að það yrði um ellefuleytið. Ef allt gengur vel fer hann aftur upp á stofuna sína þegar hann hefur jafnað sig.

Krossaðir fingur fram og til baka næstu daga.  

Knús til ykkar kæru vinir. 


Rólegur dagur

Dagurinn hefur verið rólegur og karlinn hinn hressasti.  Samt úthaldslítill. Ég kikkaði til hans í morgun og þá smellti hann sér í sturtu og sjænaði sig aðeins. Eftir hádegi röltum við Halla með Helenu Emmu til hans og henni þótti ekki leiðinlegt að hlaupa eftir göngunum.

Seinnipartinn röltum við skvísurnar í íþróttahöllina sem er líkt og sjúkrahúsið í seilingarfjarlægð. Sú stutta þrammaði alla leið.  Liðið hans Árna spilaði sigurleik við Erlangen og það var gaman. Við skutlurnar vorum VIP gellur, gátum fengið okkur mat og drykk fyrir leik, drykki í hálfleik og mat og drykk eftir leik.  Ef ég hefði tekið Íslendinginn á þetta hefði ég líklega misst af leiknum og verið á fría barnum.  Í seinni hálfleik voru þær mæðgur bak við markið sem þeir skoruðu í því úthald þeirrar stuttu í að sitja var búið.  Hún var því nokkuð þreytt þegar heim var komið og sofnaði fljótt.

VIP skutlan með hvítvínsglas í hálfleik

 

Ótrúlega hressilegur

Ég kíkti á bóndann strax eftir leik og hann var nokkuð hressilegur.  Hann ætlaði auðvitað að sjá þennan leik sem og fótboltaleik í Stuttgart í gær.

Hann hélt að hann væri aftur að fá hita seinnipartinn en það slapp til sem betur fer.  

Á morgun bíðum við spennt eftir því hvað doksarnir segja og krossum fingur og vonum að þeir framkvæmi þessa aðgerð hér úti.

 

Stuðboltinn í heimsókn hjá afa.

 Það þarf að sæta lagi að ná góðri mynd að gullmolanum. Hér er Helena Emma í heimsókninni á spítalanum í dag. Rétt áður en hún smellti sér í einn göngutúrinn eftir göngunum.  

 Yfir og út í dag.  

 


 

 


Þegar tilveran snýst á hvolf

Á fimmtudagsmorgun snérist tilveran hressilega á hvolf.  Í hugleiðslunni minni ákvað ég að þetta yrði enn einn góður dagur.  Þetta var öðruvísi dagur í skólanum því elstu krakkarnir voru fjarverandi. Fyrsta holl hjá mér var því mjög rólegt.  

Ég var því við símann þegar Halla hringdi og tilkynnti mér að pabbi hennar væri kominn á spítala í Ludwigshafen, hefði fengið verk fyrir hjartað og væri kominn í hjartaþræðingu.

Ég fór heim eftir að hafa sagt samstarfsfólki mínu fréttirnar og ætlaði aðeins að skreppa. Ég fór að sjálfsögðu ekki í vinnuna aftur því við tók þvílíkur tilfinningarússíbani að það hálfa hefði verið hellingur. Táradalurinn tæmdur reglulega en alltaf fylltist hann reglulega yfir daginn aftur og tæmdist.  Svo hringingar út og suður, í nánasta slektið, yfirmann í vinnu og nánustu vini.  

Síðan tók biðin við og hún er skelfileg og nagandi og ennþá skelfilegri þegar höf skilja að.  Ég get sagt ykkur að þetta er vont og það venst ekki.  Nú er kominn sunnudagsmorgun og mér finnst eins og eilífð síðan þetta gerðist.  

Ég ákvað um kvöldið að fara út og pantaði mér flug - já eins gott að það var heimild á kortinu segi ég.  Ég flaug suður um hádegisbil á föstudegi og svo út í bítið næsta morgun.  Átti dásemdardvöl hjá Sóla og Hafdísi sem tók mig í ondúleringu svo ég væri ekki alveg eins og draugur til augnanna þarna í Þýskalandinu og hitti Hildi mína og Petreu.  

Laugardagur er einn af fáum dögum þar sem ekki er flogið beint til Frankfurt svo ég smellti mér til Köben og beið þar í tvo og hálfan tíma eftir næsta flugi. Eftir smá ísingarbið komumst við í loftið og ég lenti í Frankfurt rúmlega fimm.  Halla beið eftir mér.  Hún er búin að vera aðgjör klettur fyrir pabba sinn og dugleg að tala fyrir hans hönd. Við brunuðum á Autobananum til Ludwigshafen og rúmum klukkutíma frá lendingu var ég kominn upp á sjúkrahús, með stuttri viðkomu hér hjá Höllu og ÁRna.  

Það var gaman að sjá litlu mús örstutt sem var orðin iðandi í skinninu af hreyfiþörf því öll hennar rútína hefur riðlast sl. tvo daga.  Karlinn var ósköp ánægður að hitta spúsu sína og hún sömuleiðis.  Hann bar sig vel líkt og venjulega en er slappur og kraftlítill, skiljanlega.  

Staðan er sú að við svona síendurtekin áföll minnkar geta hjartans til að vinna vinnuna sína.  Tekin hefur verið ákvörðun um að setja gangráð í hann.  Hann er orðinn sáttur við þá ákvörðun.  Nú stendur málið í pælingum hvort hann verður settur upp hér eða hvort hann fer heim og þá þarf líklega sjúkravél, lækni og alls konar tól og tæki með.  

Alltaf er verið að spá í kostnað og það er jafnvel verið að pæla hvort hægt sé að brenna fyrir eitthvað svo hann geti farið sjálfur í flug heim og svo í aðgerðina þar. Það hugnast mér ekki bara áhættunnar vegna og ekki er freistandi að hugsa til þess ef ekki semst við hjúkrunarfræðinga á næstunni.  

Við eigum eftir að fá almennilegan fund með læknunum og fara yfir málið.  Já þetta er í grófum dráttum staðan eins og hún er núna.  

Í dag er rólegt því það er sunnudagur. Hann hvílir sig áfram og safnar kröftum.  Ég ætla að rölta til hans um níuleytið og stytta honum stundir.  Staðsetning Höllu og Árna gæti ekki verið betri. Þau búa nánast við hliðina á spítalanum og það tekur þrjár mínútur að rölta yfir.  Það er því hægt að skjótast stund og stund og leyfa honum að hvíla sig á milli.  

Árni keppir í dag og ég ætla að skella mér á völlinn með Höllu og Helenu Emmu.  Jósef verður bara að fá mína upplifun í æð og við treystum að guð og gæfan gefi að hann komist sjálfur á leik í náinni framtíð.  

Ég smelli inn færslum eftir því hvað dregur til tíðinda hjá honum.  Já, við ætlum líka að baka bollur. Árni varð ekki lítið glaður þegar ég stakk upp á því og hljóp út á bensínstöð til að kaupa rjóma, hér eru búðir nefnilega lokaðar á sunnudögum. Yfir og út. 


Solla verður BB og í B bakstri þessa dagana

Já bóndinn flaug á vit ævintýranna á mánudag, nánar tiltekið til Þýskalands til að heimsækja Höllu, Árna og Helenu Emmu í Ludwigshafen.  Markmiðið er að kenna þeirri stuttu að tala eitthvað, í það minnsta að hún verði farin að segja afi þegar dvöl hans lýkur.  Það var fyrsta B - ég er sem sagt bóndalaus.

Í gærkvöldi fór ég í nudd til Njáls og ég skildi bílinn eftir hjá Ingólfi sem ætlar að taka gírkassann í sundur, finna varahluti og gera við. Ég verð því bíllaus næstu dagana, líklega þar til bóndinn kemur heim. Frábært tækifæri til að ganga það sem ég þarf að fara, nema kannski til Reyðarfjarðar á föstudag. Þar er komið B númer tvö.

Á mánudag verður bolludagur og við foreldrar í ferðahóp ásamt krökkunum bökum rúmlega þúsund bollur sem fara í sölu hér í þorpinu og í hin ýmsu fyrirtæki á svæðinu.  Það verður stuð. Áætlað er að hittast á Brekkunni á laugardag og saman ætlum við að galdra fram þessar fínu bollur. Fáum aðstöðu á Brekkunni frá laugardagskvöldi og fram á mánudagsmorgun. Þvílíkt dásamlegt. Það var B númer þrjú.

 Ég gat næstum því bætt B númer fjögur við því ég var hjá tannsa í gær. Ég var sem betur fer ekki neitt bólgin eftir heimsóknina nema að veskið er ekki lengur bólgið.  

 Skemmtilegt að leika sér að bókstöfunum Smile


Akureyri enn á ný

Já ekki eru liðnir nema nokkrir dagar af janúarmánuði eða þannig og samt höfum við náð tveimur ferðum til Akureyrar þetta árið. Geri aðrir betur.

Ástæða seinni ferðarinnar var að hitta AmeríkuStjána, bróður Jósefs sem býr í Ameríku og kveðja litlu snúllu áður en hún heldur á vit ævintýranna í Þýskalandi með múttu sinni.

Þegar ættingjar erlendis frá koma á klakann er slegið í partý í Byggó og þau partý eru ekki leiðinleg skal ég segja ykkur. Sá samli (Friðrik) kom frá Kristnesi til að taka þátt í gleðinni og allt venslafólkið sem var á svæðinu mætti í geimið.

Fyrst snæddum við lambalæri og þurfti hvorki meira né minna en þrjú stykki fyrir þessa hersveit. Fljótlega eftir mat var hófst tónlistarveislan. Það var sungið og sungið og spilað á hin ýmsu hljóðfæri. Álfrún Hulda spilaði fyrir okkur á víóluna sína við góðar undirtektir og svo tóku Byggóbræður og fleiri við.

Þeir höfðu fyrir því að fá lánað forláta rafmagnspíanó og þar sat Jósef allt kvöldið og spilaði og spilaði. Svo var gripið í gítarana með og inn á milli.

Göróttir drykkir runnu niður í mannskapinn og koníakið fór mis vel í suma. Ég er alveg saklaus og nefni engin nöfn en ýmissa atriða úr þessari gleði verður minnst um ókomna tíð og hlegið að.

Unga kynslóðin skellti sér í bæinn en við hin sátum eftir í notalegheitunum heima. Það er afskaplega gaman að gera sér glaðan dag og ég er mjög ánægð að tilheyra þessari stuðfjölskyldu.

Það er nokkuð ljóst að það verður tekið í einhver hljóðfæri í fermingunni hans Frikka í lok mars og boðið upp á sannkallaða tónlistarveislu, ekki bara kökur og kaffi.

Mikið hlakka ég til þess.


Jólin í kassa á æðruleysinu...

Miðað við talningu á síðunni hafa nokkrir rekið inn nefið og lesið jólapistilinn. Ljómandi fínt.  Rútínan tekin við og jólin við það að vera komin í kassa. Óvenju seint þetta árið en annir hafa hreinlega komið í veg fyrir þær framkvæmdir.  Þá er gott að vera með gott borðstofuborð sem hýsir góssið áður en tími vinnst til að troða því í kassana.  

Planið var að verja áramótum á Akureyri en veðurguðir sáu til þess að við komumst ekki fyrr en á nýársdag.  Við dvöldum alveg fram á sjöunda janúar, kvöddum föðurbróður Jósefs þann dag hinstu kveðju og héldum svo heim í rútínuna.  

Mánudagar eru heimadagarnir mínir og þar sem ég missti hann í ferðalagið heim biðu jólin uppi um stund.  Svo tók við vinna og dótið týnt smátt og smátt af sínum stað.  

Núna um helgina kláruðum við að tæma húsið hennar mömmu.  Sá fornleifauppgröftur hefur staðið með hléum síðan í nóvember.  Þvílíkur léttir maður lifandi EN enn er eftir dót í kössum sem á eftir að fara í gegnum.

Planið var því að vera óvenju dugleg í dag, ruslast í að ganga frá jóladóti fram til tíu, fara þá í skólann og vinna af mér starfsdaginn sem ég mætti ekki á á nýárinu..... En þá var gigtarelskan í stuði og sagði klukkan hálf fimm í morgun; "Nú sefur þú ekki lengur í nótt og átt að finna til hér og þar, já og líka þarna" og þrátt fyrir ýmsar samningaumleitanir tókst það ekki fyrr en rétt undir sjö þegar börnin fóru að bæra á sér.  Ég skreið því aftur upp í um hálf átta með verkjatöflu í mallanum og náði klukkutíma lúr.  

Nú þegar klukkan nálgast tíu fer ég í jóladótið á hægum hraða og lítið verður úr afrekum í skólanum.  Sem sagt einn af þessum dögum sem ég get ekki planað fyrirfram því sú gamla tekur stjórnina.  Þá er það æðruleysið, gera það sem hægt er að gera og svekkjast ekki yfir því sem ekki er hægt að gera.  Gengur stundum vel, stundum ekki.  

Það gæti víst verið verra segja fróðir menn og á maður ekki að vera þakklátur með það sem maður hefur !  

Anyway, yfir og út og hafið það gott í dag.  Síðan fer aftur í læstan ham í lok janúar og þið sem ekki eruð með aðgangsorðið hafið samband og ég gef það upp.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband