Nokkrar myndir frá Grænnípu
Fimmtudagur, 30. maí 2013
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vortónleikar
Fimmtudagur, 30. maí 2013
Á dögunum voru vortónleikar tónlistarskólans hér í bæ. Þar voru ungarnir okkar Jósefs í fararbroddi að venju. Hæfileikarík og flott. Friðrik kom fram í mörgum atriðum að venju og Dýrunn spilaði þrjú flott verk á píanóið. Myndböndin taka því miður of mikið pláss svo myndir verða að duga. Lítið sést nú af andliti Dýrunnar minnar en einbeitingin þeim mun meiri.
Aldeilis dýrmætt að hafa þetta veganesti með í för.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hnjáhlífarnar prófaðar eða hnéhlífarnar...
Sunnudagur, 26. maí 2013
I dag prufukeyrði ég hlífarnar sem ég keypti í Sportsdirect og gekk upp á Grænnípu ásamt Dýrunni og Shek, kínverska skiptinemanum sem er hér á Stf. og fer brátt til síns heima í Hong Kong.
Ég keypti stærð medium og var hrædd um að þær væru of stórar þar sem ég er með Sunnuhvols spóaleggina. Þær mega bara ekki þrengri. Ég hafði smá áhyggjur af því að þær stoppuðu blóðflæði niður í fætur. En þær svínvirkuðu, ójá og ég fann ekki neitt fyrir verkjum í hnjánum, þó er slóðinn töluvert brattur á köflum.
Þetta var flott sem fyrsta ganga vorsins. Ætlunin var að "klífa" Hrafnahnjúka en það var of drungalegt þarna sunnanmegin um helgina. Ég ætla samt yfir þá áður ég leiði mína fyrstu göngu sem fararstjóri með Göngufélagi Suðurfjarða 6. júní n.k. Það styttist í það :).
Vikan hefur annars einkennst af baráttu púkanna, ég fór af stað með öll fögru fyrirheitin en svo var þeim sópað undir teppið. Ég hef nýja viku með enn fegurri fyrirheitum og hlakka til að sjá hvernig fer fyrir þeim.
Góða viku
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Norðurlandið visiterað
Þriðjudagur, 21. maí 2013
Já það er ekki nóg að þeysast um Suðurlandið án þess að bæta Norðurlandinu við. Tilefnið að sjálfsögðu enn ein fermingin.
Við komum seint á föstudagskvöldi og dvöldum í Byggó hjá tengdó. Dóra svilkona sá um að við nærðumst vel og við snæddum dýrindis pizzur hjá henni á laugardagskvöld auk þess að horfa á Eurovision. Á sunnudag brunuðum við um snævi þaktar sveitir til Siglufjarðar í fermingu hjá Daníel syni Ásdísar og Odda. Þar voru kræsingar ekki af verri endanum og gaman að hitta frændfólkið og aðra.
Á heimleið yfir fjöllin annan í hvítasunnu var mikill munur á snjóalögum á fjöllum heldur en tveimur dögum fyrr, sérstaklega norðan megin, eitthvað hafði verið kaldara á Möðrudalsöræfum og Jökuldalsheiði.
Nú síðustu tvær sæluhelgar hafa valdið því að fókusinn í "ævilanga" sykurfráhaldinu fór veg allrar veraldar. Ég held að einhver hafi skotið skynsemispúkann sem situr á vinstri öxlinni. Ég hef hafið leit að honum og styrki og efli viljastyrkinn. Vaknaði snemma í dag og gerði jóga í morgunsárið, stirð sem ég er á morgnana, það er bara fyndið. Það skilar sér inn í daginn og ég hef þá trú að ég finni góða púkann og hann styðji mig og styrki í fjörinu og hjálpi mér að minnka óþægindin í skrokksa.
Nú styttist skólastarfið hressilega í annan endann. Námsmatsvika hjá krökkunum þessa vikuna og fram í næstu. Þá byrja stunurnar því það er svo óendanlega erfitt að læra fyrir próf, ómæ ómæ. Í gær var stunið og grátið yfir tónfræðinni og eitthvað verður það þegar fer að líða á vikuna. En það þarf að halda þeim við efnið og halda gaurnum frá Playstation 3. Hún hefur skelfilegt aðdráttarafl og eldum við grátt silfur saman ég og hún. Síðan taka vordagar við og svo er þetta að verða búið ææ.
Krakkarnir eru á sundnámskeiði þessa dagana. Sundlaugin er svo sallafín enda hefur Oddur nostrað við hana í allan vetur. Ég hef smellt mér í pottinn þrisvar og það er dejligt.
Kerlan datt svei mér þá örlítið í prjónagírinn og allt stefnir í að peysan hans Friðriks verði tilbúin í vikunni með rennilás og alles. Klára að ganga frá endum og þvo í dag væntanlega. Hann er ekki sá þolinmóðasti og hefur verið við það að örmagnast í þessari bið. Ekki skrýtið því ég byrjaði á henni í október. En ég læt ekki þar við sitja og um helgina fitjaði ég upp á bleiku peysunni handa Dýrunni. Lopinn var keyptur í fyrrasumar, já já, þvílíkur gangur. En ég prjónaði eina ermi takk fyrir á Akureyri, ákvað að byrja á ermunum í þetta sinn því þær eru svolítill dragbítur á mig í þessu peysuprjóni. Hlakka til að sjá útkomun því hún er jú, aðeins öðruvísi.
Nú læt ég þetta gott heita og einbeiti mér að því að horfa á Súlurnar mínar elskulegu. Þær taka breytingum dag frá degi. Ég hef tekið myndir af þeim sl. tvo þriðjudaga og það er mikill munur á milli vikna. Snjórinn hopar hratt og aðeins farin að sjást græn slikja. Síðustu dagar hafa verið yndislegir, mildir og góðir. Hrafnahnjúkurinn er að verða snjólaus svo ég get farið að glíma við hann blessaðan og meta hvernig hnén standa sig. Álftafellið skal hringgengið þetta árið, þó það taki marga daga, nei ég segi bara svona.
Yfir og út .....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Brá mér af bæ og þá grænkaði grasið
Þriðjudagur, 14. maí 2013
Þegar við renndum inn fyrir borgarmörkin á föstudagskvöld var eitt það fyrsta sem við tókum eftir hvað gróðurinn er lengra á veg kominn þar en hér heima. Það eru engin ný sannindi. Hins vegar þegar við komum heim eftir fjögurra daga fjarveru og að mér skilst einhverjar rigningar hér austan megin þá blasi við iðagrænn garður. Jósef hafði á orði að það þyrfti að fara að slá og ég sem er ekki búin að setja áburðinn á ennþá.
Dvölin í höfuðborginni var ljúf. Við höfðum aðsetur á Lambastaðabrautinni góðu. Við tókum tvöföldu vindsængina með og við gömlu ætluðum að sofa í stofu/elhúsinu svo börnin vöknuðu ekki við bröltið í okkur á morgnana. Þess gerðist ekki þörf því ungarnir risu út rekkju á svipuðum tíma og foreldrarnir. Eftir fyrstu nótt á vindsænginni skipti Jósef við Dýrunni og hún svaf hjá mér þær tvær síðari. Svolítill munur á brölti og ef hún hefði verið þyngri hefði ég skoppað eins og skopparakringla hálfa nóttina.
Við afrekuðum margt og mikið. Fórum í agalega fáar heimsóknir og það verður bara að hafa það. Ég hlóð Herbalifebatteríin mín á laugardeginum með Hildi minni bestustu og það var ljúft. Gaman að hitta gamla refi og sjá óendanlega mikið af nýjum andlitum. Sjá allt það fólk sem hefur bætt heilsu sína og líðan með breyttri næringu, fá súper fræðslu frá fyrrum ólympíumfara Samönthu Clayton og svo líka frá öðrum kappa Burton að nafni.
Jósef, Dýrunn og Friðrik fóru í Smáralindina á meðan. Þar púffaði Frikki frammi á göngunum meðan Dýrunn leitaði að því sem efst var á óskalistanum. Hún fann ekki alveg allt blessunin en var samt sæl með sitt.
Seinnipart laugardags brunuðum við svo á Selfoss í fermingarveislu hjá Jónínu Jóa og Þórönnu. Það var megin tilgangur ferðarinnar. Þar svignuðu borð undan kræsingunum og þar sátum við góða stund og átum vel og lengi. Fermingarstúlkan var sæl með sitt og saman voru þau mynduð fjögur; Jónína, Friðrik, Eyþór og Magnea, fermingarárgangurinn eins og við kölluðum þau alltaf sem náðu því miður ekki að fermast saman.
Sunnudagurinn hófst með sundferð og nú prófuðum við sundlaugina á Álftanesi. Mjög fín og notaleg og gaman að prófa öldulaugina. Þar fær búningsaðstaðan topp einkunn, þvílíkt rými og þægilegt að þurfa ekki að hliðra sér fyrir einum eða neinum eða rekast utan í bera bossa. Svo fékk ég fullt af freknum því sólin skein blítt, reyndar ekki í búningsklefanum.
Eftir það útréttuðum við aðeins. Snæddum hádegisverð í Ikea og keyptum okkur nýtt matarstell ásamt fleiru, fórum í Sportsdirect og Rúmfó. Langþráðar myrkvunargardínur voru keyptar fyrir glugga krakkanna. Dýrunn greyið vaknar lon og don í hitabaði þegar sólin skín enda snýr annar glugginn hennar í austur.
Sóli og Hafdís elduðu dýrindis læri og við vörðum sunnudagskvöldinu með þeim í Keflavíkinni.
Svo var brunað heim, í blíðu framan af en svo þykknaði upp og dropar duttu fyrir alvöru í lóninu og það sem eftir var. Ég hafði nýja koddann minn undir botninum og það er líklega málið. Ég var ekki eins stirð eftir setuna þegar heim var komið og á suðurleið.
Við komum við í Kambi og hittum Jón í fyrsta sinn. Ég fékk titilinn langamma því Ríkharður tók feil þegar ég hringdi til að athuga hvort þau væru heima. Þegar hann var búinn að átta sig á að ég væri nú ekki langamma þá breyttist það í amma. Það er góður titill. Þau voru svo spennt og sýndu okkur allt sitt og að sjálfsögðu litla bróður. Jónína var búin að perla handa stóru frændsystkinunum sínum og gaf þeim með stolti. Henni finnst ekkert smá flott að eiga svona stóra frænku og frænda.
Áður en heim var brunað nærðum við okkur við Voginn. Hammari var það heillin, já sá fyrsti í ferðinni. Hann rann ljúflega niður.
Heima er vissulega best og Sóla tók á móti okkur og vissi hvorki hvort hún ætti að vera úti eða inni. Þannig er það iðulega þegar við höfum verið fjarverandi og hún ein heima.
Vorverkin í garðinum verða vonandi unnin á næstu dögum ehemm... Það gengur eitthvað hægt í þeim geira, hálfklipptir runnar og þar fram eftir götunum. Tölum ekki meira um það eins og Kjartan Vilbergs sagi stundum.
Yfir og út inn í vorið...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ó blessuð vertu sumarsól
Fimmtudagur, 2. maí 2013
Það má með sanni segja að vetrar, vor og jafnvel sumarsól hafi skinið á okkur síðustu vikur með litlum hléum.
Í lok Einarsvöku í Heydalakirkju á sumardaginn fyrsta sungum við í lokin "Ó blessuð vertu sumarsól". Einhvern tíman lærði ég þetta í skóla en er orðin mjög ryðguð, sérstaklega í miðjunni. Ég mæmaði því og elti og las í örvæntingu af vörum Daníels kórstjóra. Frekar pínlegt standandi fyrir framan kirkjugesti. Þá einsetti ég mér að vera búin að læra textann fyrir sumardaginn fyrsta á næsta ári.
Á þriðjudag fór ég á tónleika hér í kirkjunni með karlakórnum Drífanda. Mjög skemmtilegir tónleikar og ég fæ nettan hroll þegar tuttugu og eitthvað karlar blasta upp á hæstu nótum. Hvað haldið þið að hafi verið gert í lokin ?? Jú allir stóðu upp og sungu "Ó blessuð vertu sumarsól". Ég hefði betur lært textann strax. Ég held samt að fleiri hafi verið ryðgaðir, mér sýndust sumir kórfélagar hreyfa varirnar ekki alltaf í takt við textann.
En talandi um að læra texta. Sumum í okkar kór gengur alltaf illa að læra texta utanbókar og eru þar af leiðandi mjög bundnir við möppurnar þegar sungið er. Allt annað að sjá og heyra í kór þegar kórinn er möppulaus og menn horfa á stjórnandann og hann getur þá stjórnað kórnum. Þeir voru mis möppulausir þarna hjá Drífanda en elstu karlarnir héldu á sínum möppum og opnuðu þær aldrei. Frábært.
Þegar ég fór með Selkórnum til Ítalíu um árið þurftum við að læra allt prógrammið utanbókar, á íslensku, latínu og ítölsku. Ótrúlega strembið og kallaði á heilmikla heimavinnu en mikið var gaman að syngja á öllum þeim stöðum sem við sungum á.
Yfir og út með sumarsól og söng í hjarta þó hitamælirinn sýni eitthvað annað en vorhita.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Orð eru álög
Þriðjudagur, 30. apríl 2013
Blóm langana þinna opnast og draumar þínir verða að veruleika í fyllingu tímans. Þannig endaði spekin á spilinu sem ég dró á visir.is. Einhverra hluta vegna fæ éga alltaf spil full af peningum og velsæld, ást og alles. Það er nú betra en að sýna stöðuna á einkabankanum. Kannski eru ekki önnur spil í bunkanum og auðvitað vil ég bara góð spil.
Í gær tók ég smá til og fann bók grafna í "ekki henda alveg strax" bunkanum í eldhúsinu. Ég var búin að steingleyma að ég væri með hana að láni hjá bókasafninu og settist niður að lesa. Þetta er bókin Orð eru álög eftir Sigríði Klingenberg. Stuttir hnitmiðaðir kaflar um lífið og tilveruna og ótrúlega góð til að stilla hugann á jákvæðar brautir.
Stundum fer hugurinn aðeins út af sporinu, þegar verkir og óþægindi, magnleysi og einbeitingarskortur gera sitt besta til að hafa yfirhöndina. En þegar ég næri hugann með svona fallegum orðum og skyndibita fyrir sálina næ ég að snúa hugsanahjólinu mínu áfram, er jákvæð og bjartsýn á ný. Þannig er ég sem betur fer meirihlutann af öllu mínum dögum.
Er snjór úti ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Slökunarpokar
Mánudagur, 22. apríl 2013
Fyrir 2-3 þremur árum fór ég í jóga á Akureyri sem er ekki í frásögur færandi. Þá fékk ég svo dásamlegan lítinn poka yfir andlitið í slökuninni og það var þvílíkt þægilegt. Síðan þá hef ég haft á bak við eyrað að sauma svona poka og þökk sé Sólrúnu skellti ég mér af stað. Það er oft silki eða satín í svona pokum og ég er auðvitað búin að koma öllum satínslæðum í Rauða krossinn svo ég komst aldrei af stað. Sólrún gaf okkur mæðgum smá silkibúta og við máluðum listilega með silkilitunum frá mömmu. Dýrunn hefur hug á að nota sína í augnleppana sem hún er að sauma og ég náði að sauma fimm poka úr þessu silki. Þetta er eitthvað sem ég get dundað við, passlega stutt seta við saumavélina og allt.
Í pokunum eru hörfræ og lavender. Í hörfræjunum er góð olía og lavender er auðvitað þekkt fyrir slakandi eiginleika sína. Að liggja með svona poka yfir augunum og slaka á lokar fyrir allt sjónrænt áreiti og við náum miklu betri slökun.
Ég ætla að framleiða meira og athuga hvort einhverjir hafa áhuga á að fjárfesta í slíkum pokum. Hér er sýnishorn af fyrstu þremur pokunum. Þið finnið ekki ilminn af Lavender en hann fer með mann ég veit ekki hvert..... á einhvern góðan stað í það minnsta. Ég hef hug á að selja þá fyrst í stað á 1500 kr. og hugsa að það dekki kostnað og nokkrar krónur í vinnulaun. Það er hægt að leggja inn pantanir og ef ég sendi í pósti þá greiðir viðtakandi sendingarkostnað. Ohm Shanti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ný vika...
Mánudagur, 22. apríl 2013
Mér finnst alltaf svo gott að hefja nýja viku. Þó helgarnar séu yndislegar dett ég frekar í fókus þegar vinnuvikan skellur á. Ólíkt flestum þá elska ég mánudaga. Mánudagar eru heimadagar þar sem orkan mín nær ekki fullum hæðum og 100% vinna hefur verið langt undan sjóndeildarhrings síðustu tólf ár, þá raðast stundaskráin á þann hátt að ég hef einn heimadag. Þennan dag nota ég til að vinna upp ýmislegt sem dankast hefur á heimilinu og nýt þess að stúdera nýjar áherslur í jóganu og fleira. Fyrri hluti dags er minn tími, þá get ég áorkað heilmiklu og þar sem ég vinn fyrri hluta dags í skólanum er oft lítið púður eftir þegar líða tekur á daginn. Þannig er það bara og verkin bíða, ég hef komist að því og þvotturinn bíður líka.
En að öðru. Í gær brösuðumst við krakkarnir aðeins í garðinum. Við Frikki klipptum hluta af limgerðinu og ljóst að rest af limgerðinu hér fyrir ofan verður klippt í áföngum. Ég á erfitt með að klippa svona uppfyrir mig og Friðrik náði því ekki alveg. Dýrunn rakaði sinu og tíndi saman greinar. Eftir okkur lá svo stærðarinnar haugur af greinum og sinu. Súkkulaði á Kaffi Söxu voru vinnulaunin.
Ég ligg nú ekki á hnjánum og reiti frá þessu blessaða limgerði. Það er bara frjálslegt að neðan. Brátt ber ég áburð á lóðina og fer að huga að grænmetiskassanum. Í ár ætla ég að koma í hann einhverju grænmeti. Í fyrra settum við kartöflur í hann og það kom ljómandi vel út. Í ár er planið að stinga upp smá beð hér fyrir ofan hús. Frikki verður minn sérlegi aðstoðarmaður í því verki.
Einnig er planið að fá einhvern sem getur fellt fánastöngina svo það sé hægt að pússa hana og mála. Hún er ekkert venjuleg hún er svo stór og há. Ég hef ekki getað flaggað síðan Helena Emma fæddist þegar við Dýrunn útbjuggum fána sem á stóð TIL HAMINGJU AFI, drógum hann upp á einu bandi eins og sauðir og síðan hefur bandið verið uppi. Framkvæmdasemi bóndans úti við nær stutt og bandið er enn uppi. Nú langar mig að geta flaggað stóra fánanum mínum enn á ný t.d. 17. júní. Kannski smá bjartsýni en ég vil frekar vera bjarstýn en svartsýn.
Sumarið pússlast smátt og smátt. Við ætlum að taka okkur viku frí í júní og vera á Akureyri. Gamla settið ætlar að fagna tíu ára brúðkaupsafmæli með því að fara á tónleika í Hofi. The best of Jethro Tull. Ég hlakka mikið til. Stjáni bróðir Jósefs verður á svæðinu ásamt dóttur sinni og Dýrunn hlakkar mikið til að hafa tækifæri til að kynnast frænku sinni frá Ameríku. Mig langar að ganga á Súlur ef það er ekki of mikill snjór enn í fjöllunum þarna fyrir Norðan.
Jæja, ég var búin að lofa heimilinu að fá krafta mína næstu tímana og það er ekki eftir neinu að bíða. Ryk, þvottur og sjæning.
Eigið góða viku þið fjórir sem rekist hér inn ca. vikulega
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fjarðaálsmót og átpælingar :)
Mánudagur, 15. apríl 2013
Frikki keppti á 4. flokks Fjarðaálsmótinu um helgina. Við Dýrunn horfðum á fyrsta leik á laugardag og brunuðum svo heim því skvísan átti bókað far með rútu í Héraðið á svokallað TTT mót í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum. Eftir fyrsta dag, tvo sigra og eitt tap var kúturinn frekar stífur og stirður, heitt bað og iljanudd sló aðeins á og kappinn stakk sér snemma undir sæng.
Þeir feðgar lögðu síðan af stað í býtið morguninn eftir og ég leyfði mér að vera löt og sleppa fyrsta leik. Við Gurra fórum svo undir hádegi og náðum næstu tveimur leikjum hjá köppunum okkar. Ekki riðu þeir feitum hesti frá þessari keppni, náðu þriðja sæti og voru hreinlega ekki betri en það. Samt sáttir.
Við Gurra vorum síðan á þrif vakt í skólanum og ásamt nokkrum fótboltapöbbum komum við skólanum á Rfj. í þokkalegt stand eftir gistingu helgarinnar. Það gekk fljótt og vel.
Nú líða tvær helgar þar til Dýrunn keppir á sama móti og alveg eins líklegt að Frikki verði beðinn um að keppa með 3. flokki um helgina en þá er engin vakt hjá mér
Dýrunn var mjög ánægð með TTT mótið. Hún og Kolbrún gistu með stelpunum frá Breiðdalsvík. Þær ná vel saman. Það var ýmislegt brallað og Dýrunn talaði frá því hún kom heim og þar til ég sagði henni að drífa sig í að bursta tennurnar og í háttinn.
Það er eins og við manninn mælt að þegar ég eyk hreyfinguna örlítið þá eykst matarlystin. Það er mjög rökrétt enda er komin meiri brennsla í kerfið. Sykurfráhaldið hefur gengið mjög vel og ég hef að mestu sneitt frá brauðinu með hvíta hveitinu. Er svona að finna minn meðalveg í þeim málum. En þegar ég dreg úr sykurneyslu þá langar mig í eitthvað salt. Ég lét það barasta eftir mér og keypti mér smá snakkerí á föstudaginn, naut þess í botn, alsæl.
Nýi DVD einkaþjálfarinn hefur hafið störf og þar eru æfingar sem koma mér mjög vel. Þær eru góðar fyrir ýmsa litla vöðva sem ég þarf að styrkja, í öxlum og mjöðmum og tekur ekki langan tíma. Frábær blanda með jóganu. Í morgun gekk ég út á Byrgisnes og gerði svo æfingar. Mjöðmin kvartar þegar ég fer á göngu, ég stytti gönguna svo ég sé ekki farin að finna mikið til þegar göngu lýkur. Hægri öxlin er að skána og ég stefni á að gera hana enn betri. Þegar loftihitinn hækkar smelli ég mér á hjólið, ef Friðrik tímir að lána mér hjólið sitt. Planið var að kaupa hjól með vorinu en það er ekki alveg á fjárhagsáætlun svona fljótt eftir fermingu.
Það er líka gott að hvílast og nú ætla ég að daðra aðeins við hana Camillu mína Läckberg áður en ég tek til við þvottinn og vefjubakstur
Tvöfaldur jógatími seinnipartinn, júhú.....
Yfir og út ....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)