Betrumbætt kryddbrauð með bananaívafi.
Mánudagur, 11. nóvember 2013
Hér er nýjasta útgáfan af kryddbrauðinu sem ég var að baka í massavís um helgina fyrir árshátíðarkaffið. Ég bætti inn heilhveiti, í upphaflegu uppskriftinni voru 2 bollar af sykri, ég set banana í staðinn, egg og smá olíu til að mýkja og það hefaðist líka enn betur. Að öðru leyti nota ég gömlu uppskriftina.
2 bollar hveiti
1 bolli heilhveiti
3 bollar haframjöl
1 bolli sykur
2 bananar
1 egg
1 msk olía
3 tsk kanill
2,5 tsk natron
1 tsk lyftiduft
2 tsk kakó
1 tsk negull
1 tsk engifer
ca 2 bollar mjólk (passa að deigið sé ekki of stíft eða of lint)
Bakað í tveimur löngum formum við 180° í 40 mín.
Þetta er árshátíðarútgáfan en þegar ég kem til með að gera hana fyrir heimilið læt ég spelt í staðinn fyrir hveitið og jafnvel meira heilhveiti - einnig set ég púðursykur fyrir þann hvíta. Að öðru leyti held ég mér við þessa nýju útfærslu. Speltið fer betur í magann minn en það hvíta og ég er alltaf að vinna í að kúpla hvíta sykrinum sem mest út.
Þegar bananarnir eru farnir að gulna og mýkjast vill þá enginn hér á bæ. Ég skelli þeim í frystinn og baka svo úr þeim við gott tækifæri. Núna var svo sannarlega gott tækifæri enda átti ég nóg í þessi átta brauð sem ég gerði og mig grunar að fleiri leynist innar í frystinum. Ég set þá beint í frystinn því þeir eru í svo góðum umbúðum frá náttúrunnar hendi. Þeir eru fljótir að þiðna og verða mjög mjúkir. Ég klippi efst á bananann og kreisti innihaldið út eða það rennur eiginlega út. Ótrúlega einfalt.
Yfir og út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skáldað í eldhúsinu.. eða kannski skapað.
Sunnudagur, 10. nóvember 2013
Ég er víst ekki skáld því samkvæmt Wikipedia er skáld sá sem yrkir ljóð, einnig um leikritahöfunda en sjaldnar um rithöfunda.
Þegar ég elda eða baka þá skálda ég yfirleitt töluvert, það er dass af hinu og þessu og þó ég sé með uppskrift skrifaða fyrir framan mig dassa ég meira, sleppi og bæti við. Samt er ég víst ekki skáld.
Í þessum skrifuðu orðum er kryddbrauð í ofninum sem ég var að skálda. Reyndar út frá annarri uppskrift en með nýjum áherslum. Ég átti svo mikið af bönunum í frysti og ég bætti þeim inn í stað annars bollans af sykri sem upp var gefið í upphaflegu uppskriftinni. Heilhveiti bætti ég á móti hveitinu og brúnkökukryddi á móti kanil, negul, engifer og kakó. Fyrsta holl lofar góðu og í næsta holl bætti ég einu eggi við og smá olíu, aðeins til að mýkja eða ég tel mér trú um að það mýki. Ég bíð eftir þeirri útgáfu áður en ég hendi í næsta skammt.
Tilraunadýrin mín vera gestir á árshátíð Stöðvarfjarðarskóla n.k. fimmtudag og ég svífst einskis í að bjóða upp á skáldaðar tilraunaútgáfur af kryddbrauðinu.
Kannski flokkast þetta allt undir sköpun, það er jú eitt af vinsælum orðum í dag, alls konar sköpun út og suður sem er frábært því mér finnst fátt meira áhugavert en skapandi fólk á hvaða sviði sem er. Það hugsar yfirleitt út fyrir rammann og oft víðsýnt og skemmtilegt.
Kannski er ég bara kona á fimmtugsaldri sem hefur gaman af því að gera tilraunir í eldhúsinu. Nei, ég við halda mig við sköpunina.
Njótið dagsins hvort sem hann er í skáldskap, sköpun eða bara einhverju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að drífa sig úr hversdagsleikanum.
Fimmtudagur, 31. október 2013
Um síðustu helgi var vetrarfrí í skólanum og ákváðum við að smella okkur í sumarbústað af því tilefni.
Mættum í Einarsstaði seinnipart föstudags og yfirgáfum slotið nokkrar mínútur í tólf á mánudag. Að hafa afnot af heitum potti er algjör sæla og hann var gjörnýttur. Að meðaltali farið tvisvar á dag af flestum fjölskyldumeðlimum.
Á planinu var aðeins eitt atriði. Að fara á tónleika í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardagskvöld með Dröngum. Þar var fullt út úr dyrum og Drangamenn þöndu hljóðfærin og raddböndin og lögðu allt í það með góðum árangri. Nú nýt ég þess að hlusta á diskinn og finna fílinginn aftur.
Hvíldin frá internetinu var mjög góð og engin fráhvarfseinkenni, ég gat farið á netið í símanum en símasambandið var svo afspyrnu lélegt að það tolldi ekkert inni. Við spiluðum, átum gúmmulaði, spiluðum meira, fengum okkur göngu og slöppuðum fyrst og fremst af. Það var auðvitað tilgangurinn og við stóðum alveg við það. Eini gallinn voru springdýnurnar í rúmunum sem aðeins eru farnar að slappast og bakið sem er líka farið að slappast líka var ekki alveg að höndla það.
Það þarf ekki langt í burt né mikið prógramm til að endurhlaða batteríin og skerpa hugann fyrir komandi vikur. Ég held ég komist langt á þessari hleðslu.
Yfir og út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ekki dauð úr öllum æðum..
Fimmtudagur, 10. október 2013
Mikið lifandi skelfing er langt síðan ég smellti mér hér inn. Svo langt að fyrst setti ég inn lykilorð heimabankans en komst að sjálfsögðu ekki langt á því.
Ég lofa að sjálfsögðu bót og betrun og er að bíða eftir því að andinn komi yfir mig. Langt frá því að það hafi ekkert gerst, hver vika og mánuður er full af viðburðum og ýmsum skemmtilegheitum.
Sí jú leiter.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jarðarför, tinktúrur, bláber og fókus.
Miðvikudagur, 31. júlí 2013
Svaka titill á pistli dagsins. Þar sem ég hef lítið setið við skriftir ákvað ég að pakka öllu saman í sama pistilinn.
Ég byrja á jarðarförinni. Við kvöddum Friðrik tengdapabba hinstu kveðju 19.júlí. Ella og Stjáni komu þann 18 frá Noregi og Alabama. Kistulagningin var um morguninn og útförin eftir hádegi. Kistan var umlukin íslenska fánanum og krans frá barnabörnunum í fánalitunum stóð við hliðina. Fallegt og látlaust. Fyrir athöfn voru spiluð lög þeirra Jónasar og Jóns Múla Árnasona og þar má segja að það hafi mest kallað fram tárin. Þetta eru lögin sem við sungum í Byggópartíum og með sérstakri áherslu síðustu ár þegar sá gamli kom heim í partý. Lady fish and chpis var síðast á dagskrá fyrir inngöngulagið og þá sugu margir upp í nefið. Inngöngulagið var King of the road og það lá við að menn dilluðu sér í sætunum.
Söngurinn hjá Hymnodiu var fallegur en það eru meðlimir í kór Akureyrarkirkju, tveir í hverri rödd og útkoman var falleg. Ég var mest upptekin af því að hlusta á Tvær stjörnur og skældi óvenju lítið. Þau sungu útsetningu sem við sungum í kórnum hér og hún er ofur falleg. Þegar maður syngur í kór þá hlustar maður ósjálfrátt eftir röddinni sinni og fylgir henni eftir í þeim lögum sem maður kann. Nú legg ég augun aftur fyrir moldun reynist mér alltaf erfitt og þá komu flestu tárin.
Internationalen var hressandi útspil og fremstu kistuberarnir voru svo snöggir að þau rykktu kistunni upp áður en Jósef og Ella sem voru við höfðagaflinn voru búin að finna stöngina undir fánanum. Það kom fát á minn mann og við grínuðumst með það á eftir að það hefði verið gott að sá gamli var langur annars hefði heyrst dynkur þegar hann hefði rekist í höfðagaflinn. Já það er alltaf stutt í grínið hjá Byggóliðinu og í erfidrykkjunni var Beggi svo glaður því honum fannst þetta svo skemmtileg jarðarför. Átti auðvitað við hvað allt hefði tekist vel og sérstaklega vel valin söngatriði (hjá okkur Jósef). Um kvöldið var svo partý að Byggósið og skálað ítrekað fyrir þeim gamla, Jónas og Jón Múli sungnir og ýmislegt fleira úr Byggósöngbókinni.
Þá er það tinktúran.
Síðustu vikur hefur maríustakkur legið í vodkalegi og verið hristur annan hvern dag í því skyni að búa til heilsusamlega tinktúru. Nú er tinktúran klár og komin á krukku. Svo fæ ég mér slurk af og til og verð örugglega svaka heilbrigð af því . Maður finnur sér ýmsar ástæður til að staupa sig. Ég tíndi ekki alveg eins margar jurtir í sumar og ég ætlaði mér en samt meira en í fyrra og það er framför. Ég sætti mig við það. Veikindin í júní settu mig svolítið út af laginu og ég datt svo úr formi að það hálfa væri hellingur. Það er allt á hægri uppleið.
Ég skellti mér hér uppfyrir byggð í morgun og baksaði lafmóð eftir stígnum sem liggur upp í vatnsból og í átt að Smalaþúfunni góðu. Ég ætlaði bara stutt og hef ákveðið að fara frekar þessa leið heldur en ganga götuna því þetta tekur svo í lærin og lungun. Ég var eins og mæðuveik rolla svo lélegt er úthaldið. Þess má þó geta að ég slæ auðvitað ekki af hraðanum frá því þegar ég er í betra formi. En ég fór auðvitað að skoða berin og þau lofa góðu jedúddamía, það verða sko svartar og bláar brekkur eftir svona tvær vikur. Það er alveg hægt að finna fín ber og ég tíndi mér smá í poka sem ég var með í vasanum, skellti beint í frost og þau fara í hádegissjeikinn.
Þar erum við komin að fókusnum. Nú þegar þolið fer og allt linast upp þá er auðvelta að detta í eitthvað tröstespis eins og danskurinn segir. Mér var farið að blöskra sykurátið á mér og flöffý bumba og tölurnar á vigtinni svo það var ekkert annað í boði en snúa þróuninni við. Nú er búið að mæla og vigta og fá tvær skvísur með í fókus næstu átta vikurnar í það minnsta. Á degi tvö hafa mis gómsætir drykkir verið bruggaðir í úthreinsunarskyni og ég hef held ég fullreynt að rauðrófur henta mér ekki. En appelsínusafi (ferskur úr appelsínunni), engifer, hvítlaukur, sítrónusafi, cayenne pipar og ólífuolía er hinn allra besti drykkur, svakalega hressandi. Nú er jurtate komið á brúsann og harkan sex á fullt . Herbinn er mér við hlið og hjálpar mér að halda fókus og gefa mér súper góða næringu í réttum hlutföllum.
Landsmót á Höfn á morgun um Verslunarmannahelgina og það verður stuð og vonandi ekki mjög blautt.
Yfir og út
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allt á réttu róli...
Mánudagur, 8. júlí 2013
Jæja, nú er kvefið á undanhaldi að mestu leyti. Börnin fengu sinn skammt en hjartakarlinn hefur sloppið sem betur fer. Í dag gerði ég loksins sólarhyllinguna í jóganu og gekk upp á Byrgisneshæð þegar rigningunni slotaði. Ég fer rólega af stað að sjálfsögðu og hlusta á líkamann. Núna er smá skveringarplan í gangi því hreyfingarleysi veikindanna hafa hlaðið einhverju ósækilegu utan á vömbina á kerlu. Í gær þegar ég mátaði jarðarfararjakkann var hann örlítið þrengri en æskilegt er.
Tengdapabbi kvaddi þessa tilvist aðfararnótt 5. júlí eftir stutt veikindi. Það var gott að hann fékk að fara blessaður því lífsneistinn var orðinn lítill. Við fórum norður um helgina og hittum fólkið okkar og lögðum drög að jarðarförinni. Stjáni í Ameríku og Ella í Noregi fá ekki flug fyrr en í fyrsta lagi 18. júlí og koma þá og annað hvort verður jarðað föstudaginn 19. eða strax eftir þá helgi.
Við vorum upphaflega á leið á Símamót og brottför áætluð þann 17. en í staðinn tjöldum við í bílastæðinu hjá tengdó og sofum þar dagana sem við verðum fyrir norðan. Snæfellsnes verður líka geymt, við ætluðum að visitera það í framhaldi af Símamóti. Það fer ekkert
Kórfólkinu (okkur Jósef) var falið að setja saman söngskrána og þá kom sér vel að tengdamamma hendir engu, við höfðum úr nógu að moða við að finna sálmana. Við settum saman lög og sálma sem okkur taldist til að hefði hugnast tengdapabba sem var söngmaður og söng lengi í kirkjukór. Það held ég að Sollan fari að skæla þegar Maístjarnan verður sungin og svo Tvær stjörnur eftir Megas en hann var hrifinn af textum Megasar og Maístjarnan var honum hugleikin. Við erum ekki búin að ákveða með forspilið, pælingin var að spila King of the road sem var í miklu uppáhaldi og það skýrist í vikunni hvort það hentar. Útspilið verður að sjálfsöðu Internationalen enda sá gamli harður kommúnisti og vel við hæfi að hann fari síðasta spölinn undir því undirspili.
Þessa vikuna verð ég á Salthúsmarkaðnum mán-fim. og um helgina brunum við Dýrunn í Egilsstaði á Sumarhátíð ÚÍA. Við ætlum að koma heim eftir keppni til að ná smá broti af Pólar hátíðinni og Maður er manns gaman. Jurtate komið í brúsa, prjónarnir í poka, búið að taka fram föðurlandið og lopapeysuna og þá er ég klár í fjörið á markaðnum.
Yfir og út í bili......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvítlaukur, engifer, sítrónur og jurtir af ýmsum gerðum.
Miðvikudagur, 3. júlí 2013
Já það hefur töluvert verið bruggað í Hólalandinu síðustu vikuna. Ýmsir göróttir drykkir innbyrtir í því skyni að losa um þetta bévaða kvef. Setið yfir gufu með myntu og eucalyptus, hrísgrjónapokinn hitaður trekk í trekk og lagður á ennið og þar fram eftir götunum. Æðruleysisbænin nokkrum sinnum.
Ég heimsótti doksa á mánudaginn og ég virðist ekki vera með streptókokka sem er gott og við ákváðum í sameiningu að bíða með sýklalyf, ef ég yrði ekki orðin nægilega góð á fimmtudag þá myndum við spá í það. Í gær var ég fín fram að hádegi, ég virðist samt ekki mega kíkja inn á Salthúsmarkaðinn, þá fer ég að hósta og hugsa með hryllingi til næstu viku þar sem ég er skráð í fjóra daga burrrrrrr. Eftir hádegi fór að halla verulega undan fæti og ég lá og dormaði í bólinu og sófanum framundir sex. Þá skrönglaðist ég á fætur og lagði skyr á borðið, sauð hrísgrjón, steikti HVÍTLAUK og nokkur spínatlauf úr garðinum og bjó til gómsætan rétt (held ég, mig vantar enn hluta af lyktar og bragðskyni). Var sæmileg um kvöldið en samt lægð yfir andlega hlutanum - það er stundum svoleiðis. Sullaði saman hvítlauk og olíu og lét standa í hálftíma, vætti bómull með olíunni og tróð í eyrun á mér og Dýrunni. Við höfum báðar verið með kláða og óþægindi í eyrunum. Ég held það hafi virkað. Svo sauð ég saman engifer, hvítlauk og hunang. Það varð sterkur mjöður og Frikki gafst upp á sínum því hann var allt of sterkur. Ég staupa mig á honum jafnt og þétt í dag.
Nú fara jurtirnar í hitabrúsann og ég þamba þær líka yfir daginn. Planið er að taka því rólega, kannski afreka ég að ganga frá þvottafjallinu, ég hef nú náð að þvo allt jafn óðum þrátt fyrir vesældóminn :) :) og taka fisk úr frosti í kvöldmatinn. Á morgun er lengri dagur og ég þarf að eiga inneign. Dýrunn ætlar að prófa að fara á sundæfingu á Fásk. svo fer hún á fótboltaæfingu og ég ætla að versla á meðan. Við fáum góða gesti um helgina og þá er nú betra að eiga eitthvað í gogginn handa þeim.
Ég stefni líka á að komast upp í gil og athuga hvort það sé ekki komið blóðberg þar. Mig fer að vanta í kvefblönduna mína .
Yfir og út - atsjú.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nala kisa
Sunnudagur, 30. júní 2013
Í þarsíðasta pistli lofaði ég mynd af Nölu litlu. Við gættum hennar fyrir Begga og Dóru í vikutíma í júní. Hún var bara nýkomin til þeirra þegar við mættum á svæðið og var fljót að aðlagast nýju heimilisfólki. Hún braggaðist mjög hratt og örugglega og eftir vikuna vorum við öll útrispuð eftir tilraunir hennar til að klifra upp eftir berum leggjum okkar.
Þegar fjölskyldan kom heim var fljótlega farið með hana í örmerkingu, klærnar klipptar - hún er af skógakattarkyni og fær mjög beittar klær (sem við fengum að kynnast) og það er eitthvað sem þarf að gera reglulega.
Það verður gaman að sjá hana þegar við komum næst norður seinnipartinn í júlí.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sumarkvef
Laugardagur, 29. júní 2013
Ég státa mig iðulega af því að fá ekki kvef og pestir almennt. Mest því ég ákveð að ég fái ekki kvef og pestir og svo næri ég skrokkinn með andoxurum sem berjast á svona veirum. Svo gerist það stundum að helstu jaxlarnir falla í valinn og þannig er staðan hér á bæ núna.
Hósti, hor, hálsbólga, stíflað nef og lítill svefn er aðalsmerki mitt þessa dagana. Ég er samt ekkert veik, bara slöpp . Ég viðurkenni samt að ég var veik á miðvikudag og fimmtudag og hálfpartinn líka í gær.
Þessa elsku sótti ég alla leið til Akureyrar. Já fyrir tveimur vikum fór ég að finna fyrir smá hori í nös þegar ég var með Dýrunni í fótboltaferðinni. Áfram var það bara hor í nös og um síðustu helgi fórum við í útilegu í Höfðavík. Þá fór bragðskynið eitthvað að dofna á föstudagskvöldinu. Það kom nú að hluta þegar ég smelli í mig koníak snafsi. Ég var ekkert slöpp, bara smá kvefuð. Lyktarskynið hefur ekki mætt að fullu aftur.
Ég var búin að skrá mig á Salthúsmarkaðinn og var þar í mínu ullardressi (því það er kalt þar) í tvo daga. Ég fann á þriðjudag að ég var eitthvað undarlegri en vant var og sleppti því að fara í göngu með Göngufélaginu í Breiðdalnum um kvöldið. Á miðvikudag var kerlan fallin.
Síðan þá hef ég drukkið reiðinnar býsn af heitu te, og kanill, engifer og sítrónur eru uppistaðan í drykkjarvörum mínum og ég er á hægum batavegi. Ég hósta og spýti hor vinstri hægri (í klósettið), svitna eins og mér sé borgað fyrir það en finn ekki lyktina, kostur fyrir mig.
Ég fór á sjálfsögðu á netið og fann jógaæfingar sem geta létt á þunganum í hausnum. Þær náði ég að gera í gær og það létti á. Ég geri því annan skammt í dag, kannski tvo . Ég er að klikkast á því að komast ekki í góðan göngutúr eða geta gert almennilegt jóga
Mitt í þessu stuði hafa staðið yfir gluggísetningar með tilheyrandi ryki, sagi og ógeði. Á milli slökunarstunda hefur tuskan verið á lofti, ryksugan munduð og að sjálfsögðu þvær þvotturinn sig ekki sjálfur heldur né hleypur sængurverið af og á sængurnar af sjálfu sér. Einnig hafa nokkrar pönnukökur verið steiktar en Dýrunn mín elskuleg gerði vöfflur og hefur verið mér afar hjálpleg.
Svo hneykslaðist ég á því í vetur þegar ég las dagbók frá móður minni síðan ég var lítil þar sem hún sagðist vera lasin en hún skrönglaðist samt úr bælinu í hádeginu og fyrir kvöldmat til að elda handa heimilisfólkinu. Ég er kannski ekkert skárri - en common, það er ekki hægt að liggja í bælinu endalaust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Smá frí...
Þriðjudagur, 18. júní 2013
Já það má segja að ég hafi tekið frí á fleiri en einum vettvangi upp á síðkastið. Það var svo notalegt í fríinu okkar á Akureyri að ég gleymdi að blogga þó talvan væri með í för.
Við lögðum í hann upp úr hádegi 7. júní þegar Friðrik hafði lokið vinnu í vinnuskólanum eins og það heitir í dag, ég segi reyndar alltaf bæjarvinnan af gömlum vana. Eins og vanalega brunuðum við beint í bæinn, engin óþarfa stopp nema rétt til að pissa á Mývatni þar sem ég tók sprettinn til að ná á settið á undan kerlunum í rútunni sem var að leggja upp að á svipuðum tíma og við. Ég var á undan.
Okkur hafði boðist að passa hús Begga bróður (Jósefs) og litla dýrið sem þau voru nýbúin að fá sér. Það var mjög notalegt.
Upp úr hálf átta vorum við svo komin í Hof til að hlýða á tónleika með Ian Anderson og hljómsveit spila "best of Jethro Tull". Það voru þrusu tónleikar en ég komst að því að ég hafði ekki hlustað á margar plötur því þeir spiluðu mörg lög sem ég kannaðist ekkert við . Ian gamli er ótrúlegur, hoppar um sviðið og blæs ekki úr nös þó hann taki þvílíku sólóin á þverflautuna. Hann er aðeins farinn að tapa tónsviðinu í söngnum en einhvern veginn horfði maður framhjá því. Egill Ólafsson kom og söng í einu lagi og ungur fiðluleikari spilaði líka sem ég man ekki hvað heitir. Þeir tóku Brúðkaupsvísur Þursaflokksins svo snilldarlega að það var hrollur upp og niður hryggsúluna hvað eftir annað. Enduðu svo með svaka látum og þá var Egill og unga fiðluskvísan líka með. Magnað.
Eftir tónleikana smelltum við okkur á Götubarinn og fengum okkur tvo drykki og skáluðum fyrir árunum okkar tíu í hjónabandi en við vorum þarna komin yfir á 8. júní sem er brúðkaupsdagurinn okkar. Við hittum góða Austfirðinga sem voru á tónleikunum og áttum góða stund með þeim. Vorum samt komin heim á skikkanlegum tíma.
Síðan tóku við blíðu, sælu og sólardagar. Planið hafði verið að fara út í Hrísey en einhvern veginn datt það út af kortinu. Við höfðum það mjög náðugt, sóluðum okkur og fórum í nokkra göngutúra í Kjarnaskógi.
Jósef og Frikki yfirgáfu okkur á miðvikudegi en við mæðgur héldum áfram að slaka á. Ég var nokkuð dugleg að gera jóga á morgnana og stundun seinnipartinn líka og fór í einn dásamlegan jógatíma hjá einum uppáhalds kennaranum mínum á Akureyri.
Stjáni bróðir Jósefs og dóttir hans sem búa í Alabama komu um svipað leyti og við norður og þær frænkur og nöfnur, Dýrunn og Hanna Dýrunn náðu að kynnast. Ella systir kom sömuleiðis í stutt stopp frá Noregi og það náðist að halda einn fjölskylduhitting og sá gamli kom heim af hjúkrunarheimilinu smá stund.
Við Dýrunn skelltum okkur í siglingu með Ambassador hvalaskoðunarskipinu og Stjáni og Hanna Dýrunn skelltu sér með. Við sáum tvo Hnúfubaka og annar þeirra var nokkuð nálægt og sýndi sig oft en hinn var frekar feiminn og kafaði bara. Þetta var mjög gaman og veðrið yndislegt.
Á laugardeginum kvöddum við norðanfólkið og hittum liðið hennar Dýrunnar sem kom með rútu frá Reyðarfirði þann morgun. Leiðin lá á Krókinn og mér finnst ég alltaf svolítið vera að koma heim þegar ég kem þangað. Fyrra liðið náði jafntefli eftir hörku leik en Dýrunnar lið tapaði 4-2 eftir álíka hörkuleik sem hefði getað farið okkur í hag ef markið hefði verið á réttum stað þegar skotið var.
Við snæddum pizzur á Kaffi Krók og héldum svo til Akueyrar og gistum í Hamri, Þórsheimilinu. Tvö drengjalið voru með í för og þeir kepptu fyrir hádegi og svo var brunað af stað til Húsavíkur. Þar kepptu stelpurnar tvo leiki og náðu sigri í þeim báðum. Dýrunn sem yfirleitt spilar vörn var sett á kantinn í lok leiks og hún átti snilldar hlaup með boltann upp kantinn, skaut svo í von og óvon og boltinn endaði snilldarlega í netinu. Hún var svo hissa að hún vissi ekki hvað hún átti að gera en ég lyftist nokkra sentimetra frá jörðu þar sem ég sat í brekkunni þegar ég fagnaði.
Heim komumst við svo seint og um síðir. Rútan var þvílíkt skrapatól og komst varla upp brekkurnar en við komumst á leiðarenda fyrir rest.
Nú ætti eiginlega að taka við tiltekt og sollis en ég er að spá í að geyma hana aðeins. Hún hefur aldrei hlaupið frá mér. Í næsta pistli segi ég frá krílinu sem við pössuðum í Beggahúsi og birti myndir.
Yfir og út
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)