Speki dagsins
Miðvikudagur, 6. júní 2007
Kemur úr lítilli blárri bók sem heitir "The treasury of quotes" eftir Bryan Tracy og ég ætla að leyfa þeim að standa á ensku.
"Obstacles are what you see when you take your eyes of your goals".
"Any great achievement is preceded by many difficulties and many lessons; great achivements are not possible without them"
Og eitt varðandi velgengnina...
"Success comes in cans, not in cant´s"
Og þar sem ég er minn eign herra í dag og er að skipuleggja tíma minn er þetta gott...
" You are always free to choose what you do first, what you do second, and what you do not do at all".
" Time management is really personal management, life management and management of yourself".
Hafið það gott !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
"Þetta er lífið...."
Þriðjudagur, 5. júní 2007
.... sagði Dýrunn nokkrum sinnum á þessum fallega sólardegi. Ég hóf daginn með jógakennslu en þessa dagana býð ég upp á jóga klukkan 6:30 á þrið og fim morgnum á leikskólanum. Námskeiðinu í íþróttahúsinu lýkur á morgun og hinir tímarnir eru fyrir morgunhana. Það var bara einn morgunhani eða kannski hæna sem mætti í morgun, hún Rósa frænka og hún var í sæluvímu eftir tímann. Hún er að koma sér aftur í form eftir að hafa átt hann Emil krúsídúllu fyrir 1 1/2 mánuði. Næst ætlar hún að drífa mömmu sína með. Að byrja daginn á þessum nótum er alveg yndislegt og þar get ég tekið undir frasann hennar Dýrunnar "Þetta er lífið". Hún kom með þennan frasa þegar við vorum að renna úr hlaði frá mömmu eftir hádegi. Ég skilaði til hennar litla orfinu sem ég fékk lánað og krakkarnir biðu í bílnum með rúðurnar niðri því sólin skein og það var mjög heitt í bílnum. Þegar ég kom út hallaði Dýrunn sér út og sagði dreymin á svip þessa gullnu setningu "þetta er lífið". Það þarf ekki mikið til að gleðja smáfólkið. Um hálf þrjú gengum við mæðgur af stað í sund, hittum Friðrik á leiðinni og biðum á balanum meðan hann hljóp heim og sótti sunddótið. Ég æfði höfuðstöðuna og náði að halda henni alveg svolitla stund, æðislegt að gera hana svona úti en ég hef lítið æft hana og er enn að vinna upp styrk til að halda henni.
Við dóluðum okkur tvo tíma í sundi og það var yndislegt. Potturinn var það heitur að ég var eins og jójó upp úr og á bekkinn til að sóla mig. Skellti mér svo í laugina og flaut á stóru flotdýnunni í sólinni. Dýrunn var á hinni dýnunni og svo kallaði hún þessa gullnu setningu "mamma, þetta er lífið". Ég var henni hjartanlega sammála og vona að þeir verði sem flestir í sumar dagarnir þar sem við njótum lífsins svona fram í fingurgóma.
Í kvöld renni ég til Breiðdalsvíkur með nokkrar stelpur úr heilsuhópnum mínum og við ætlum að sameinast með hópnum þeirra Helgu og Svandísar og borða eitthvað hollt og gott.
Já þetta er lífið, njótið þess !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Svartskeggur sjóræningi eða....."
Laugardagur, 2. júní 2007
Hann er svolítið skuggalegur þessi nágungi með sitt svarta hár og skegg. Þessi mynd af pabba gæti hafa verið tekin einhvern tíman þegar ég var nýskriðin í heiminn. Í öllu falli hafa skötuhjúin verið flutt í Sunnuhvol því hann situr við litla svarta vegginn í stofunni sem ég man eftir. Sjómannadagurinn var hátíðisdagur hjá pápa gamla og aldrei gleymdist að flagga. Allt frá blautu barnsbeini stundaði hann sjómennsku og var held ég um 12 ára gamall þegar hann var farinn að sjá sér farborða með henni. Í dag myndi það heita barnaþrælkun en þá áttu menn ekki annarra kosta völ. Svo tók við farsæl útgerð með félögunum í Varðarútgerðinni. Ekki var hún hugsuð sem stórgróða verkefni heldur vildu þessir dugnaðarkappar tryggja vinnu í byggðarlaginu sínu. Þeir gengu í öll störf sjálfir og þó þeir væru í vélstjórastöðu eða skipstjórastöðu þá greiddu þeir sér hásetahlut meðan þeir voru að byggja sig upp. Þegar þeir voru hættir í útgerðarbrasinu bjó hann til heimsins besta harðfisk í mörg ár og þegar frystihúsinu "hentaði" ekki lengur að framleiða harðfisk, keypti hann sér trillu og þeir æskuvinirnir á sitt hvorri trillunni pabbi og Kjartan réru á miðin á þar sem þeir veiddu forðum sína fyrstu fiska, fóru fyrstir á miðin, gáfust ekki upp þó ekkert gæfist og komu síðastir í land með góðan afla, pabbi stundum með Kjartan í togi. Sama þrautseigjan þar. Pabbi var svo tæknivæddur að vera með síma og hringdi alltaf heim í hádeginu til að láta vita af sér. Þegar því símtali lauk hringdi mamma í Vinaminni til að láta Þóru vita hver staðan væri.
Þær eru ekki fáar minningar um hann pabba blessaðan. Ég var örverpið eða gólfsópið eins og hann kallaði mig stundum, fædd á fertugs afmælisdaginn hans og á milli okkar var sterkur strengur. Það sem ég var búin að þvælast með honum, út og suður og ekki skildu skólasystur mínar hvernig ég nennti alla mína skólagöngu að þvælast með honum út á Kambanes að sækja Einar, eldsnemma á morgnana en mér fannst það frábært, bara að vera nálægt honum nú og svo þurfti líka að opna nokkuð hlið á leiðinni.
Mér fannst því frekar kaldhæðnislegt að hann skyldi fá úrskurðinn um krabbameinið akkúrat á afmælisdaginn okkar því við vorum stundum að grínast með að það yrði fjör þegar við yrðum 100. Það náðist nú ekki en síðustu metrana fór hann á sömu róseminni og kvartaði aldrei. Tveimur til þremur dögum áður en hann dó sagðist hann ekki nenna að liggja svona lengur og langaði að fara að gera eitthvað af viti og þegar ég sagði honum að ég ætlaði að flytja austur á Stödda og færi eftir viku sagði hann "ætli ég verið ekki kominn heim á undan". Þar hafði hann rétt fyrir sér og vissi blessaður að þessu væri að ljúka þó við værum ekki farin að trúa því sjálf.
Nú eru liðin hátt í níu ár frá því þessi frábæri karl féll frá og gott að ylja sér við minningarnar. Friðrik og Dýrunn eru stundum ósátt yfir því að hafa aldrei kynnst afa sínum en þá er hægt að segja einhverja grallarasögu af honum og leiðinn gleymist fljótt. Annan eins prakkara hef ég ekki fyrir hitt á minni lífsleið. Sama hver hann fór, alltaf var stutt í eitthvað grín og glens. Hann fór nú vel með það og hafði ekki hátt blessaður. Það sem hann var búinn að gantast með kerlurnar í harðfiskinum og alltaf trúði Marta gamla öllu sem Frissi sagði. "Frissi minn...." Svona byrjuðu allar setningar hennar þegar hún talaði við pabba.
Á milli hans og Einars heitins á Kambanesi myndaðist sérstök vinátta enda keyrði pabbi Einar í skólann alla grunnskólagöngu hans hér og þegar hann dó keyrði pabbi hann síðasta spölinn inn í kirkjugarð. Ég var í skóla í Reykjavík og þegar ég um kvöldið talaði við pabba sagði hann, "við fórum nú saman síðasta spölinn, honum fannst ég keyra heldur hægt !". Einar var alltaf að mana hann upp í að keyra hraðar.
Á morgun dreg ég upp fánann minn í tilefni sjómannadagsins og í minningu um sjómanninn pabba minn. Þó hátíðarhöld hér á Stöðvarfirði heyri sögunni til eins og útgerðin að mestu leyti er sjómannadagurinn alltaf sjómannadagur og alltaf hægt að finna sér eitthvað til afþreyingar. Í dag sigldum við krakkarnir með Ljósafellinu á Fáskrúðsfirði og á morgun ætlum við að skoða hátíðarhöld á Eskifirði. Tímarnir breytast og sem betur fer getum við aðlagast breyttum aðstæðum.
Nú væri gaman að fá í athugasemdir eins og eina stutta grallarasögu frá þeim sem villast hér inn og þekktu þann gamla.
Megið þið eiga góðan sjómannadag á morgun !
P.S. Sigurjón, er þetta skyrtan sem pabbi er í í draumunum þínum, hehe
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
"Gullkorn barnanna"
Fimmtudagur, 31. maí 2007
Nú er ég í tiltekt á vinnuborðinu mínu og það má eiginlega líkja þessu við fornleifauppgröft. Ég fann nokkra gullmola úr sérkennslufórum mínum sem mig langar að leyfa ykkur að njóta. Þetta er í tengslum við orðskýringar og er engan veginn rekjanlegt til viðkomandi.
Engill - Engill flýgur í loftinu og leggst á skýin þegar hann er þreyttur.
Ull - í gamla daga var gamalt fólk að kemba ull.
Kella - Kella er kona
Ausa - Ausan getur náð kjötsúpunni upp úr pottinum.
Eyja - Eyjurnar eru sumar fyrir sjóræningja og þar geta verið leynistaðir með kistum með peningum, silfri og demöntum.
Sjón - Það er gaman að hafa sjón, svo ég geti nú séð.
Saga - Hér er saga um mann sem var alltaf að saga tré.
Mátti til með að deila þessu með ykkur ! Haldið áfram að eiga góðan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Meiri speki
Fimmtudagur, 31. maí 2007
Hér kemur smá speki sem mér þykir mjög góð og er frá einum af mínum uppáhalds personal development kennara Jim Rohn. Hann vinnur mikið með Herbalife fólkinu og hefur fylgt Herbalife dreifingaraðilum frá því fyrirtækið var stofnað fyrir 27 árum síðan og hjálpað því að styrkja sig í sínu starfi.
Ég hef tvisvar hlustað á hann á sviði, fyrst í Atlanta fyrir tveimur árum og svo í Aþenu í fyrra og krafturinn og góðmennskan sem fylgir honum og því sem hann gefur til okkar er dásamlegt. Því er ekki hægt að lýsa með orðum en í fyrra endaði hans session á að hann bað alla um að haldast í hendur og í huganum að fylgja hvert öðru heim og senda hvert öðru fallegar hugsanir. Síðan var spiluð falleg tónlist og straumarnir sem fóru um þessi mörg þúsund sem voru í höllinni voru ótrúlegir, maður grét og hló til skiptis.
Já ólýsanlegt en ég fæ dásamlegan hroll niður bakið þegar ég hugsa til baka og gott að geta sótt þessa tilfinningu úr reynslubankanum.
En að speki dagsins. Það skiptir máli hverju við beinum athyglinni að daglega og þetta segir allt sem segja þarf:
"Don't spend most of your time on the voices that don't count. Tune out the shallow voices so that you will have more time to tune in the valuable ones." Jim Rohn
Eigið góða dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Smá andleysi...
Þriðjudagur, 29. maí 2007
Já það hefur eiginlega hálfgert andleysi herjað á mig síðustu daga en ég hristi það væntanlega af mér sem allra allra fyrst. Ég er enn ekki komin með heildar útlit á síðunni minni og ætla að prófa þetta um sinn. Mér þótti hitt of dökkt einhvern veginn, en ég kem ekki skoðanakönnuninni inn sama hvað ég stilli og breyti. Kannski tekst það á endanum :)
Fjölskyldan eyddi hvítasunnuhelginni Norður í landi í vetrarríkinu þar. Reyndar hlýnaði strax á laugardeginum og það var nokkuð hlýtt á sunnudag. Við duttum í sama letigírinn og oft áður á þessum slóðum en á ekki líka að slappa af þegar maður er í fríi ??
Ég kenndi samt einn jógatíma og safnaði í sarpinn og er núna búin að kenna helminginn af því sem ég á að kenna fram í október. Ég notaði tvær svilkonur mínar sem fórnarlömb og fékk meira að segja heilt jógasetur sem heitir Yoga lundur og vinkona Dóru svilkonu minnar rekur. Hún kom og var með okkur líka. Það var dásamlegt og ýtti enn meira undir þá löngun að hafa eitthvað kósí rými til að kenna jógað mitt, eitthvað sem ég get sett minn persónuleika í, ekki stóran kaldan íþróttasal.
Einhvern tíman eignast ég minn jógalund er ég viss um.
Nú styttist í skólalok og það er nóg að gera í pappírsvinnu, einkunnagjöf, skráningu og tiltekt. Það er ótrúlegt hvað það safnast mikill pappír á einum vetri já eða níu vetrum því ég ætla að taka mér pásu og er því í allsherjar tiltekt... Það er skrýtin tilhugsun og nú þarf ég að taka á honum stóra mínum og skapa mér sterkari starfsgrundvöll ein og sjálf.
Krakkarnir eru orðin leið og vilja komast út í vorið og er það vel skiljanlegt. Dýrunn mín á núna 2 daga eftir á leikskólanum og er að verða stór skutla blessunin.
Læt smá speki fylgja í lokin: Fylltu garð þinn af ávöxtum og þá mun hann óma af fuglasöng.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heilræði
Miðvikudagur, 23. maí 2007
Þar sem ég er mikið fyrir heilræði og spakmæli af ýmsu tagi er eitt gott hér....
"Gerðu það sem þú ætlar að gera, þegar þú ætlar að gera það, hvort sem þig langar til þess eða ekki"
Ég nýti mér þetta óspart oft með góðum árangri því ég á það til að fresta hlutunum eða slökkva á klukkunni og kúra hálftímanum lengur þó ég hafi ætlað mér eitthvað verkefni í morgunsárið.
Í gærkvöld flutti ég erindi um slökun og hugleiðslu á aðalfundi Krabbameinsfélags Austfjarða. Það mættu tólf á fundinn og ég held ég hafi flutt pistilinn minn skammlaust, var ekkert of stressuð og nokkuð skýrmælt hehe. Svo slökuðu allir á í ca 5 mín undir leiddri slökun áður en fundi var slitið og tekið til við ástarpungana hennar Distu, ostaköku, heitan rétt og flatbrauð. Pungarnir slóu svo í gegn að sumar fengu nesti með í poka heim. Dista er algjör pungameistari. Hún bakaði handa Hvalnessystrum fyrir hittinginn okkar um daginn og þeir runnu ljúflega niður".
Í framhaldinu bauðst mér verkefni tengt félaginu í lok sumars og er tengt jóganu. Félagið hefur boðið fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum að dvelja eina helgi í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum í lok sumars. Þetta er helgi með áherslu á slökun og spennandi verkefni að takast á við fyrir nýjan jógakennara.
Venlig hilsen og passið ykkur að brenna ekki í sólinni í dag..... P.S. Ég hef þrusu gott rakakrem til sölu úr NouriFusion línunni frá Herbalife með sólar og veðravörn upp á 15, gjörsamlega frábært. Kíkið á eða pantið prufur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
"Hreinsunarátak"
Mánudagur, 21. maí 2007
Ég sá þennan fríða og vel merkta hóp áðan út um stofugluggann og stökk út með myndavélina. Þetta eru leikskólabörnin á Stöðvarfirði ásamt Söru og Ingu að tína rusl af Balanum. Það er hreinsunarátak í gangi í Fjarðabyggð og þau láta ekki sitt eftir liggja.
Ég á elsta og stærsta ungann í hópnum sem lýkur sinni leikskólagöngu eftir um það bil sjö daga. Það verður skrýtið en hún er svo tilbúin að byrja í skólanum og sátt og getur alltaf skottast yfir Balann í heimsókn ef fráhvarfseinkennin verða mikil.
Við hreinsuðum aðeins til í garðinum í gær, Dýrunn týndi drasl í poka og ég reytti frá hluta af limgerðinu. Þetta gerist hægt og rólega því skrokkurinn fer í skrall við þessi átök. Ég er því búin að ákveða að vinna ákveðinn tíma á dag og hafa verkefnin smá og mörg. Það tekur mig kannski sumarið að komast hringinn en hvað um það :) Ætlunin var að fjarlægja stóru öspina sem skyggir orðið mikið á svefnherbergisálmuna og innri hluta stofunnar í gær en maðurinn á kranabílnum lét ekki sjá sig, kannski var það einhvern annan sunnudag sem hann ætlaði að koma yfir, hver veit.
Á laugardag fórum við á fjölskylduhátíð hjá Eimskip. Hún var svipuð og í fyrra, svæði við afgreiðsluna á Eskifirði girt af með gámum og þar voru þrír hoppukastalar og nóg að borða og drekka. Við vorum því ekki mjög svöng þegar við komum í heitu réttina hennar Stínu mágkonu en gátum nú samt gert þeim góð skil hehe.
Morgungönguna fór ég inn að verkstæði og prófaði að skokka á milli stika, tók síðan góða slökun á eftir og svo kraftimikinn sjeik með ávaxtablöndu nammi namm. Ég hef lítið getað hlaupið síðustu ár vegna verkja hér og þar og vesenis. Á síðasta ári tók ég þátt í styrktarhlaupi í Aþenu fyrir fjölskyldusjóð Herbalife. Ég gat hlaupið rúman helming óæfð (gat varla gengið í tvo daga á eftir en það er önnur saga) og ákvað að næst skyldi ég hlaupa allt hlaupið. Nú það styttist í hlaupið, það verður í endaðan júlí í Köln og mín ekki byrjuð að hlaupa. Jú ég byrjaði í morgun. Ég keypti mér nefnilega svokallaða MBT skó í vetur og hef verið að æfa mig að ganga á þeim. Þeir eru æðislegir og núna skal skokka Þið sem leið eigið á síðuna mína megið minna mig á hvernig gengur reglulega.
Annað kvöld held ég stuttan fyrilestur á aðalfundi Krabbameinsfélags Austurlands um slökun og hugleiðslu sem lið í heilsurækt. Spennandi viðfangsefni og gaman að sjá hvernig tekst til.
Óska ykkur velfarnaðar inn í vikuna........
Speki dagsins: " Þegar allir eru niðursokknir í að hamra járnin á meðan þau eru heit, er mikilvægt að þú ruglist ekki í ríminu og hamrir örugglega þitt en ekki eitthvað annað"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Sól í sinni"
Föstudagur, 18. maí 2007
Í morgun hafa eflaust einhverjir rekið nefið gegnum gardínurnar og blótað í hljóði eða upphátt. Snjóföl niður í miðjar hlíðar, slydda, rok og allt ómögulegt, OG ÞAÐ ER MIÐUR MAÍ ! Dagurinn jafnvel ónýtur hjá sumum og örugglega allt ómögulegt um helgina. Allt veðrinu að kenna.
Þetta kemur mér alltaf til að brosa því fyrir mér er veður bara veður og eitthvað sem ég get engu breytt um. Ég valdi mér að búa á landinu þar sem allra veðra er von og valdi að vera sátt við veðrið. Mér þykir rok og slydda í maí ekkert spennandi og ég elska hlýja og sólríka daga og mild vor og sumarkvöld en ég er í jafn góðu skapi í dag og á sólardegi því ég vel það. Í dag vel ég að hafa sól í sinni.
Mergurinn málsins er að það er enginn annar en ÉG sem stjórna viðbrögðum mínum við, veðrinu, ömurlegum bílstjórum, pirrandi samstarfsmanni, börnum sem sífellt nuða "mamma mamma má ég..." o.s.frv. Þetta hefur gleymst að kenna einhvers staðar í ferlinu ansi víða og ég hugsa að við á klakanum kalda séum hátt á heimsmetaskalanum hvað tuð og pirring varðar, en það er bara mín skoðun.
Læt þetta duga í bili og dreg fram dúnúlpuna, trefilinn, húfuna og vettlingana og anda að mér fullt af fersku lofti á göngunni í vinnuna. Eigið frábæran föstudag og lítið heilræði í lokin:
" Besta uppeldið er að ala sjálfan sig upp og vera svo góð fyrirmynd"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gjótuganga !
Sunnudagur, 13. maí 2007
Í morgun lögðum ég og krakkarnir land undir fót og skelltum okkur upp gjótuna fyrir utan Lönd. Okkar á milli hefur hún alltaf verið kölluð "gilið" síðan við Friðrik afrekuðum að klífa það í maí fyrir tveimur árum. Jósef skutlaði okkur á upphafsstað og svo hófst gangan. Friðrik að sjálfsögðu í fararbroddi, næst Dýrunn og mamman rak lestina öryggisins vegna ef einhver skyldi missa fótana. Leiðin er brött en ferðin sóttist fljótt og vel. Við settumst þegar komið var á
toppinn og dáðumst að útsýninu, það var fyrsta nestisstopp.
Já ekki er útsýnið dónalegt. Þegar nestistíma var lokið var
atkvæðagreiðsla, hvort við skyldum halda niður brúnirnar og niður á veg eða fara lengri leiðina heim, ungviðið valdi lengri leiðina. Friðrik var áfram foringi ferðarinnar og fílaði það vel og það mátti enginn fara framúr honum. Hjá vörðu einni sem hér sést fann Friðrik forláta prik sem var hans göngustafur og leiðarvísir þar sem eftir lifði ferðar.
Áfram hélt gangan og hjá Rjúpnabotnunum var mikið spekúlerað í rjúpnaskítnum og hvað álfarnir í klettunum myndu eiginlega hafa fyrir stafni.
Loks fórum við að nálgast byggð og þá var fólki farið að kólna því það var einhver vindbelgingur á móti okkur. Friðrik tók miðið á þrjá staura þar sem síðasti stoppustaður skyldi verða. Nú fékk Dýrunn að leiða hópinn og þá rak fyrrverandi forystusauður svo hressilega á eftir henni að þetta endaði í einum spretti. Rétt hjá staurunum var stigi yfir girðinguna. Móðirin gat sagt börnum sínum söguna af því þegar hún ásamt starfsmönnum Stöðvarhrepps setti þennan stiga upp fyrir x mörgum árum síðan. Í síðasta stoppinu var leynivopnið dregið fram, Nóa kropp til að gefa kraft síðustu metrana. Friðrik þáði eina kúlu svo við mæðgur urðum kampakátar og gæddum okkur saman á rest. Nú voru skilyrðin að enginn leiddi hópinn en hver skyldi hafa tekið af skarið, ójú, kemur engum á óvart, Friðrik blessaður.
Í heildina tók gangan 1 1/2 tíma og er ég mjög stolt af ungunum mínum sem örkuðu þetta alveg möglunarlaust. Nú er bara að finna aðra góða leið til að arka á góðum degi.
Kveðjur til ykkar allra !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)