" Klukk"

Hvergi er maður öruggur. Nú er farið að elta fólk í bloggheiminum og klukka það. Sólrún systir og Alda Rut klukkuðu mig á sínum síðum og ég held leiknum áfram. 

En fyrir hvað ætli þetta orð "klukk" standi?? Þar sem ég er nú gift Akureyringi hef ég komist að því að margt hefur verið öðruvísi á Stöðvarfirði í leikjamálum (sem og ýmsu öðru) og í þeirra eltingarleikjum sögðu menn "meðða". Svo skrýtið að ég veit ekki hvernig ég á að skrifa það Tounge

Núna í dag leika krakkarnir sér ekki mikið í svona hópleikjum nema í frímínútunum í skólanum helst og þá er stórfiskaleikurinn alltaf vinsæll, lita,dýra og fleiri leikir líka. Þar er klukkað eða "náðér" eins og lög gera ráð fyrir.  Mér virðist ýmislegt hafa breyst í þessum leikjum og eðlilegt í tímanna rás en það sem virðist áberandi er hve auðvelt er að koma sér undan því að "verann" með því að svara með þjósti "Ég var í pásu!".  Í okkar leikjum voru stundum svæði þar sem menn voru stikkfrí og mátti ekki ná þeim þar en í dag fara börnin í pásu þegar þeim hentar. Það virðist stundum erfitt fyrir börn í dag að sætta sig við reglur og hvernig hlutirnir gangi fyrir sig því allt á að gerast strax og eins og MÉR hentar.

Sem foreldri glími ég við þetta á hverjum degi en ég reyni að gera mitt besta og brátt fer ég að fara yfir ýmis atriði með Dýrunni sem byrjar í skólanum í haust og t.d. að þó einhver nái henni í leik að þá þýði ekki að fara bara í fýlu og hætta í leiknum en það er algeng sjón og ekki bara hjá yngstu stýrunum.  Óboy.

En áfram með klukkið. Ég ætla að klukka þrjár kjarnakvensur sem ég veit að eiga leið um síðuna mína af og til. Það eru þær Hallhildur, Helga Antons og Fjóla Þorsteins. Allt miklir hlaupagarpar (í denn að minnsta kosti) og hafa örugglega klukkað marga í gegnum tíðina.

Bestu kveðjur inn í daginn.....  klukk- náðér-meðða- LoL


Þú og enginn annar !

Nú styttist í ferðina mína til Köln og eftir viku flýg ég til Rvk. og flýg eldsnemma á fimmtudagsmorgun til Frankfurt. Ég gisti hjá upplínunni minni, Friðgeir og Ragnheiði og verð þeim samferða, ætli ég sitji ekki á milli "mömmu og pabba" hehe.

Ég hlakka mikið til og það er alltaf svo skrýtið þegar svona stutt er í einhvern viðburð að mér finnst það svo óraunverulegt eitthvað. Ég skarta bolnum góða sem merktur er Team Iceland og ég fékk í póstinum í dag. Ég var komin með nettan hnút í magann því ég hélt að bolirnir (ég pantaði tvo til öryggis) hefðu týnst algjörlega. Eitthvað rugluðust þeir í vöruhúsinu og ég fékk sendingu sem átti að fara í Vogana og konan í Vogunum fékk mína sendingu. Við sendum svo hvorri annarri og það má með sanni segja að þar hafi verið sniglapóstur á ferð því það tók hann rúma viku að koma til mín. 

Ég fékk þarna smá "fear of loss" og pantaði til öryggis annan bol sem kom líka í dag svo ég á þrjá hehe. 

 Speki dagsins barst mér frá Jim Rohn í morgun og er eitthvað sem er búið að vera mér hugleikið í allan dag, ekki ný speki í mínum eyrum en ég þarf að minna mig reglulega á hana. Hún hljómar einfaldlega þannig:

"The major thing to your better future is YOU!"

Ef þið viljið fá hvatningu og gott innlegg inn í dagana ykkar getið þið skráð ykkur á www.jimrohn.com

Mér hlotnast sá heiður að sjá hann í þriðja sinn á þjálfuninni núna í Köln og hvað ég hlakka til.

 Hafið það eins og þið viljið .....Grin


Litla aðstoðarkonan mín

Júlí 004Ég er búin að fá frábæran lagerstjóra á Herbalife lagerinn minn. Hún Dýrunn merkir hverja vöru samviskusamlega þegar þær koma úr vöruhúsinu og væri til í að þær væru fleiri. Allir bæklingar eru þrælmerktir af henni og ég hef varla undan að prenta út límmiða með upplýsingum um mig. Þið sjáið hana hér að störfum.

Ég fer kannski að titla mig Solla Fr. og co eða bíð bara þar til hún hefur aldur til að starfa með mér opinberlega. Um tíma var framtíðarplanið hennar að verða Herbalife kona og læknir, ekki slæmt þó í dag séu nú oft árekstrar milli þessara stétta. Samt eru sumir læknar að átta sig á því hvað næringin skiptir miklu máli og úti í heimi er fullt af læknum sem starfa í Herbalinu.

 Júlí 005

 

 Ég lagði reyndar upp með annan pistil í morgunsárið og var búin að skrifa helling sem tapaðist út vegna tengingarörðugleika. Það tengdist nýju augunum og hvað vaninn er sterkur því þremur vikum síðar er ég enn að reyna að ná af mér "gleraugunum" þegar ég hreinsa á mér andlitið á kvöldin, skondið en ekki skrýtið þar sem þau hafa verið hluti af mér frá ellefu ára aldri.

 Það er heilmikil gestahelgi framundan, Beggi bróðir með sína fjölskyldu og Diddi bróðir með sína fjölskyldu, samtals níu manns. Þegar gesti ber að garði fer maður að hugsa í mat, ótrúlegt en menn verða víst að nærast og oft er tækifærið notað þegar stór hluti fjölskyldunnar kemur saman og eldað eitthvað gott. Þetta er heilmikil upplyfting og ekki mikið mál þegar rýmið er nægilegt. Á Leynimelnum var það heilmikið mál að fá næturgesti en hér er meira en nóg rými og það er frábært. 

Það styttist í ferðina mína til Köln á Extravaganza, júhú það verður geggjað. Það eru bara 16 þúsund manns búnir að skrá sig og alveg að verða uppselt. Íslendingarnir verða í VIP sætum svo við þurfum ekkert að bíða í röð og slást um að ná sætum fyrir allan hópinn, dejligt. Það væri kannski ekki vitlaust að dusta rykið af þýskukunnáttunni sinni en ég man nú ákveðin grunnatriði "Ein Bier, bitte" osfrv... hehe, þetta er skemmtiferð  ásamt allri jákvæðu hleðslunni. 

Smá speki í lokin um brosið úr bókinni Vinsældir og áhrif eftir Dale Carnegie

  • Það kostar ekkert en ávinnur mikið. Það auðgar þá sem fá það án þess að svipta þá neinu sem veita það.
  • Það gerist í einni svipan en minningin um það geymist oft ævilangt.
  • Enginn er svo ríkur að hann geti verið án þess og enginn er svo fátækur en verður ríkari fyrir vikið.
  • Það skapar hamingju á heimilum, góðvilja í viðskiptum og er vináttuvottur.
  • Það er þreyttum hvíld, dagsbirta þeim sem dapur er, sólskin þess sorgmædda og vörn í öllu mótlæti.
  • Það verður ekki keypt, ekki betlað eða leigt eða stolið, því að það er engum neins veraldlegs virði, fyrr en hann hefur gefið það öðrum.
  • Og ef einhver afgreiðslumaður skyldi vera svo önnum kafinn í ösinni að hann sé of þreyttur til þess að brosa til þín, viltu þá skilja eitt af þínum brosum eftir?
  • Því enginn þarf eins á brosi að halda og sá sem á ekkert bros eftir til að gefa !

GrinBrostu Grin

 

 


Stór stund

Það er stór stund í lífi hvers gutta að taka þátt í sínu fyrsta fótboltamóti. Friðrik fór að stunda fótboltaæfingar fyrr í sumar og í lok annars námskeiðsins tóku þeir þátt í Húsasmiðjumótinu á Egilsstöðum. Frá upphafi hefur hugurinn stefnt á þetta mót svo þetta var gífurleg upplifun. Sökum fámennis á Stöddanum er ekki hægt að halda úti æfingum hvað þá liði í þeirra flokki svo við nokkrar mæður höfum verið í skutli síðustu vikurnar yfir á Fáskrúðsfjörð. Ekki svo mikið mál, suma daga skutlar maður, þann næsta sækir og er stundum stikkfrír. Móðurinni þótti skrýtið að sonurinn skyldi frá fyrsta degi verða harður Leiknismaður og gamla Súluhjartað hristist örlítið en það eru breyttir tímar og frábært að þeir geti nýtt sér það góða starf sem fer fram hinum megin við fjallið.

Þar sem þeir frændur Friðrik og Eyþór hafa aldrei stundað æfingar eru átta ára jafnaldrarnir sem hafa haft æfingar frá sex ára aldri þeim örlítið fremri, skiljanlega en stundin var jafn stór þrátt fyrir það. Friðrik sem er nokkrum skrefum á undan sjálfum sér alla jafnan varð mjög spenntur þegar það var búið að skrá hann og spurði "Verð ég fyrirliði??". Leikirnir hjá 7. flokk eru nú ekki alveg svo planaðir að það sé sérmerktur fyrirliði.

Nú við lögðum í Héraðið og alveg eins og sauðir ekki alveg nógu vel útbúin og meira að segja á stuttbuxunum (reyndar með síðbuxur til öryggis). Flísteppið eitthvað sem mér láðist alveg að taka með svo maður sat skjálfandi undir jökkum og peysum þessa fimm tíma sem mótið tók. Það er nefnilega ekki alltaf bongóblíða á Egilsstöðum hehe. Vindurinn og kalsinn á köflum hafði nú ekki áhrif á keppnismenn sem gengu hnarreistir í skrúðgöngunni með sínum liðum í upphafi móts. Við Jósef misstum okkur alveg þegar Friðrik strunsaði framhjá því eitthvað hefur hann erft af Sunnuhvolsgöngulaginu og það var eins og Hilmar Örn gengi þarna eftir vellinum. Sækjast sér um líkir hehe. Nú hvað háralagið varðar þá hefði nú getað virst úr fjarlægð að Sommi sjálfur væri þarna á ferðinni en hann var nú örlítið þéttari á velli en stráið mitt og lubbinn þykkri. 

Fyrstu þrjá leikina unnu piltarnir og það var að vonum mikil gleði. Svo fór þreytan að segja til sín og þeir gerðu jafntefli í fjórða leik. Þá fór að þykkna í mínum manni og eftir ófyrirgefanlegt brot á varnarjaxlinum Friðriki í eigin vítateig á síðustu mínútum fimmta leiks sem endaði í einum hrærigraut, einn féll ofan á kappann og að lokum datt hans besti vinur um þvöguna og rak takkana á öðrum fæti hressilega í höfuð Friðriks var honum öllum lokið. Þetta var fyrsti (og eini) tapleikurinn og kappinn ætlaði ekki að spila meira. Nú það tókst að telja í hann kjarkinn aftur og hann spilaði í síðasta leiknum og stóð sig með prýði og þar hlutu þeir jafntefli. 

Þarna fengu allir sömu viðurkenningu hvort sem það voru A eða B lið og pylsuveislu á eftir. Þeir voru nú samt mjög glaðir með að vita að þeir voru í öðru sæti á mótinu. 

Næsta námskeið hefst eftir viku og menn bíða spenntir, skoppa út í tíma og ótíma með boltann til að æfa sig og ekki verra að hann er áritaður af góðum köppum Eið og Ívari Ingimars. Svo er stefnan tekin á Króksmótið í ágúst og hugurinn hjá litla manninum mínum komin á völlinn. Hann spurði mig í gær "mamma, hefur þú komið á Krókinn?" og ég sagði honum stolt að ég hefði verið þar í skóla í tvö ár (fór ekki út í nein smáatriði) "Veistu hvar fótboltavöllurinn er?" kom þá og því gat ég ekki neitað enda búin að taka nokkrar gönguferðirnar þar framhjá, annað hvort á leiðinni í bæinn að útrétta eða seint að kvöldi á leiðinni heim af balli eða barnum Whistling. Ég hef ekki spilað fótbolta á honum enda var áhugasvið mitt á öðrum sviðum. Hlakka mikið til að koma þangað enda er allt of langt síðan síðast, fimm ár held ég, svei mér þá.

Læt fylgja mynd af kappanum með verðlaunapeninginn og Húsasmiðjukönnuna. Kúlan er falin undir hárlubbanum.

Venlig hilsen...

 

Júlí 025

 


Að hafa eitthvað hlutverk...

Það skiptir smáfólkið ekki síður máli en fullorðna að hafa eitthvað hlutverk í lífinu. Það þarf ekki að vera stórvægilegt og að sjálfsögðu miðað að aldri og getu hverju sinni. Ég held því miður að mörg börn þessa lands og heims hafi aldrei fengið neitt hlutverk og það megi að hluta til skýra margt í þeirra fari. Ég tel að hafi maður ekkert hlutverk sé lítill tilgangur í þessu öllu saman eða skipti máli. Hvernig er hægt að ætlast til að unglingar fari að bera ábyrgð á hinu og þessu ef þeir hafa aldrei borið neina ábyrgð fram að því. Það er heilmikið hlutverk fyrir smáfólkið að skreppa niður í sjoppu og kaupa mjólk, að ég tali ekki um eggin sem þarf að passa vel. Þarna hafa menn þá ábyrgð að passa peningana, muna hvað á að kaupa, koma með vöruna óskemmda heim og afganginn. Og þetta er ekki gert til að fá eitthvað launum heldur er ánægjan yfir þessu "stóra" hlutverki yfirsterkari. Samt gleðjast menn yfir því að fá eitthvað smálegt fyrir og ekki þurfa það að vera peningar.

Ég datt í þessar pælingar um helgina þegar við vorum í Fögruhlíð, sumarbústað fjölskyldunnar. Í fyrra byrjuðu krakkarnir á því að moka möl upp úr læknum og bera mölina í göngustíginn og nú skyldi haldið áfram með verkið. Verra var að grasið var sprottið yfir mölina frá því í fyrra svo það þurfti að byrja á byrjunarreit. Strax á föstudag byrjuðu þau á verkinu, með stærðarinnar skóflu og fötu. Verkaskiptingin var þannig að Friðrik mokaði og Dýrunn bar mölina í stíginn. Þar sem hún gat nú ekki borið mikið gekk hann á eftir með eina skóflufylli. Þetta brösuðu þau við góða stund og hvíldu sig þegar þau voru orðin þreytt í bakinu. Næsta dag máttu menn varla vera að því að borða morgunverð því verkið beið og enn var mokað og borið í. Reglulega var hóað í mig og mömmu að koma  að skoða og prófa að ganga stíginn. Nú þau náðu að klára alveg niður að hliði með smá aðstoð frá Jósef undir það síðasta, lækurinn er ekki eins stútfullur af möl og Friðrik náði að losa um stærðar stein fyrir ofan vatnsrörið svo nú rennur úr þeim báðum (þetta þekkja bara nánustu fjölskyldumenn). 

Helgin var samt ekki eitt allsherjar puð, það var farið í sund og út á bát með Guðrúnu Rós og hennar börnum, við fengum silungsveislu í Vatnsskógum og þar var aðal skemmtunin að hoppa á milli heybagga sem nýttir eru sem hoppusvæði fyrir barnabörn Jóns og Laufeyjar. Við reyndum líka að veiða en það gekk ekki alveg svo silungurinn í Vatnsskógum bætti það upp og hvergi bragðast hann eins vel og þar.

Í dag herja strengir á smáfólkið og stífleiki en menn eru ánægðir með að hafa klárað þetta mikilvæga verk og haft þar með eitthvað hlutverk.  

Læt hér fylgja með mynd af vegavinnufólkinu sem lét ekki mývarginn stöðva sig við vinnuna.

Júlí 002

 

 

Heilræði dagsins: Leyfið börnunum að hafa eitthvað hlutverk :)


"Ógleymanlegt fjör"

Fiesta partý 009

 

Þekkið þið þetta fallega fólk??  Um helgina skelltum við okkur nokkur ár aftur í tímann en ég hafði náð skilyrðum í dinner og partý hjá uppuppuppupplínunni minni í Herbalife og þemað var áttundi áratugurinn. 

Ég var ekki lengi að redda dressinu, fékk fínu pallíettublússuna hennar Rósu lánaða, stutt pils frá Gurru og leðurjakka, restina átti ég þ.e. leggings og legghlífarnar síðan ég var fjórtán og hvíta eyrnalokinn í vinstra eyrað (líka síðan ég var fjórtán). Þetta var aðeins erfiðara fyrir Jósef. Fyrir það fyrsta er hann í annarri fatastærð en á þessum tíma og svo hélt hann ekki upp á gömlu dressin. Nú menn bjarga sér bara og hann skellti sér í Hjálpræðisherinn og fann þessar fínu buxur (af einhverri stútungskerlingu held ég) og bol og þá var málinu bjargað.  Þegar ég var búin að mála á hann augabrúnir, maskara, setja eyeliner og kinnalit ásamt sólarpúðri var hann ómótstæðilegur. Ég hef bara aldrei séð hann svona sætan.  Ég fékk heilmikinn fíling við að rifja upp gömlu hárgreiðsluna, var ekki með nógu sítt að aftan reyndar og dró upp bleika varalitinn og kinnalit. Ég mátti ekki mála augun vegna aðgerðarinnar svo ég skartaði þessum fínu sólgleraugum sem ég fann. Nú ekki var skótauið af verri endanum, ég fann glimmer skó sem Rósa á þarna á Lambastaðabrautinni og þeir vöktu mikla lukku.

Í partýinu fengum við voða fínan fordrykk, Egils appelsín í flösku með lakkrísröri, mis sterkt reyndar en svaka góður fílingur. Menn höfðu á orði að lakkrísrörið hefði bragðast öðruvísi í gamla daga en það svínvirkaði. Svo var flottur dinner á eftir með fínum pinnamat og góður fílingur eins og sjá má.

 

Fiesta partý 004 Í upphafi snérist aðal fjörið um að sjá múnderinguna hjá fólki sem var ótrúlega flott. Allir höfðu lagt töluvert á sig til að ná lookinu sem mest og ekki síst meikuppinu, bæði stelpur og strákar. Eftir dinnerinn bættist fleira fólk í hópinn, fólk sem náði skilyrðum í partýið og svo leiðtogar landsins í Herbalife ásamt Tove frá Noregi sem var gestur á S.T.S skólanum fyrr um daginn, alveg hreint frábær kona  sem vert er að taka sér til fyrirmyndar. Hún missti sjónina að mestu þegar hún átti þriðja barnið sitt, er með 3% sjón og gerir það gott í viðskiptunum, enda sagði hún okkur að við hefðum engar afsakanir fyrir að geta ekki hitt og þetta. Sannölluð kjarnakerling.

Með þessu eðalfólki var farið í tyggjókúlúkeppni (hjónakeppni, Jósef vann mig), við öttum kappi í Sing Star og lenti undirrituð í öðru sæti, varð að lúta í lægra haldi fyrir söngkonu mikilli frá Eskifirði. Svo var dansað og sungið og djammað fram á rauða nótt. 

Þetta var alveg óborganlegt og það lá við að maður hefði harðsperrur í maganum daginn eftir því það er langt síðan ég hef hlegið svona mikið.

Á sunnudag keyrðum við sem leið lá til Akureyrar, gistum eina nótt hjá tengdó og komum heim á mánudag. Þar tók Sóla á móti okkur fegins hendi enda búin að vera ein heima í heila viku og hundleið á því. Nú er maður aftur kominn í daglega amstrið, krakkarnir komnir á annað fótboltanámskeið og ég að samhæfa augun og þvo þvott. Bíð eftir að geta farið að gera jógað mitt en ég á að bíða í smá tíma með alla þannig áreynslu.  Það er smá samhæfingarvandi í augunum en það er ekki komin vika síðan ég fór í aðgerðina svo ég er nú ekki að örvænta neitt. Stundum er það nú þannig að allt  á helst að gerast í gær. 

Haldið áfram að njóta sumarsins, hér er loksins komin langþráð væta fyrir gróðurinn..... sjáumst... 


"Ég sé...."

Það var skrýtið að vakna í morgun, líta í kringum sig og sjá allt skýrt og greinilega. Ég skellti mér í langþráða laser sjónlagsaðgerð í gær og draumurinn um að losna við gleraugun orðinn að veruleika. Þetta er ótrúlega einfalt, fór í skoðun á miðvikudag sem var lengsti hlutinn í ferlinu og mætti svo í gær í aðgerðina sjálfa. Þá fékk ég einhverja bragðvonda pillu sem átti að slaka mér og svo byrjaði fjörið. Það tók mjög skamma stund og enginn sársauki nema þegar plásturinn sem límdi upp augun var tekinn, svei mér þá ég held ég þurfi ekki að plokka næstu vikur. Svo fór ég heim með þau fyrirmæli að leggja mig í nokkra klukkutíma. Ég lá í þrjá tíma en ég er ekki vön að sofa á miðjum degi svo ég lá og hugsaði með lokuð augun. Svo bara horfði ég á landsleikinn um kvöldið, reyndar með hléum þar sem ég þurfti að setja dropa í augun.

Ég er ekki alveg komin með fulla skerpu en alveg nóga sem nýtist mér við allt sem ég þarf að gera. Það er aðeins eins og ég sé með smá korn í augunum og ég þarf að vera dugleg að blikka og setja dropa í augun. Svo fer ég í skoðun á eftir til að láta meta árangurinn.

En svona ykkur að segja þá dauðkveið ég fyrir og mest óttaðist ég að fá ekki grænt ljós og geta ekki farið í aðgerðina. Það var ekki nein fyrirstaða og græna ljósið kom. Þá fór ég svolítið  að kvíða fyrir aðgerðinni því það er nú skrýtið að láta fikta í augunum á sér. Þá fór ég að hugsa um spekina frá honum Dale Carnigie í bókinni Lífsgleði njóttu þar sem hann talar um að sigrast á áhyggjunum áður en þær sigra mann og þar á maður að meta líkurnar á því að þetta sem maður óttast verði að veruleika.  Ég fór að spá .... innan við 1-2 % fá einhverja fylgikvilla að aðgerð lokinni og sagði við sjálfa mig að það væru verulega litlar líkur að ég yrði ein af þeim hehe. Ég var því nokkuð róleg og tók líka nokkrar slakandi öndunaræfingar úr jóganu og það svínvirkar alltaf.  Þegar ég var að bíða eftir aðgerðinni kom fram stelpa sem var nýbúinn og hún settist í næsta Lazy boy og sagði "Þetta er ekkert mál", þá fór síðasti litli hnúturinn.

Og nú fara gleraugun á Þjóðminjasafnið eða í pokann með gleraugunum sem ég hef átt í gegnum tíðina. Þau eru samt ótrúlega fá miðað við að ég hef borið þau á nefinu frá ellefu ára aldri því ég hef nýtt  vel og lengi hvert það par sem ég hef átt, það eru t.d.fimm ár síðan ég fékk mér þessi sem ég tók af mér í gær. Það er gaman að skoða safnið og meta tískustraumana. Þau eru af öllum stærðum og gerðum og nokkuð stór á köflum, mér þóttu fermingargleraugun stór maður lifandi, þau huldu næstum allt andlitið en svo komu dökku plastumgjarðirnar og þau voru Huge, en voru hátískugleraugu á sínum tíma frábært. 

Að öðru leyti hefur fjölskyldan það ljómandi fínt í fríinu og allt í rólegheitum. Við höfum verið dugleg í sundlaugunum en ég má ekki fara núna með augun mín næstu vikur. Dýrunn tók reyndar í sig smá hitapest og missti af sundlaugarferð í gær. Jósef fer með krakkana á fjölskylduhátíð hjá Eimskip á laugardag, ég á STS skóla og svo skella hjónin sér á 80tís partý um kvöldið, Jósef fór í Hjálpræðisherinn og keypti sér nett hallærisleg föt fyrir partýið.  Á sunnudag keyrum við Norður til Akureyrar, gistum eina nótt og svo brunum við heim.

Hafið það gott um helgina.......

 


Hvetjandi speki

Litla bláa bókin frá Bryan Tracy er ótrúlega mögnuð. Í dag snýst spekin um þekkingu eða menntun. Ég held spakmælunum á enskunni því ég er hrædd um að tapa neistanum ef ég skelli þeim yfir á ástkæra ylhýra. 

" The great breakthrough in your life comes when you realize that you can learn anything you need to learn to accomplish any goal that you set for yourself. This means there are no limits on what you can be, have or do". 

" Learn something new. Try something different. Convince yourself that you have no limits".

" Be að lifelong student. The more you learn, the more you earn and the more self-confidence you will have. 

 

Þá er bara að skella sér af stað og stúdera eitthvað spennandi.  Ég ætla að stúdera Dale Carnegie næstu dagana og lesa Vinsældir og áhrif í fjölskyldufríinu. Ég flyt fyrirlestur úr hluta af henni 3. júlí og ekki seinna vænna að byrja að undirbúa sig.

 Planið er líka að sóla sig og slappa af í sundlauginni seinnipartinn. 

 Njótið dagsins !


Gangan út á Landabrúnir

Ganga út á Brúnir 001
 
 
 
 
 
Eins og áður sagði var planið að ganga yfir Stöðvarskarðið á laugardagsmorgun en ekki voru veðurguðirnir okkur hliðhollir eða þokuguðinn. Veðrið var mjög milt en þokan hékk niður í miðjar hlíðar. Þar sem við systur vorum komnar í göngugallann og búnar að útbúa nesti ákváðum við að skella okkur í smá göngu út á Landabrúnir. Ingunn Berglind var í sömu stöðu og við og skellti sér með. Þær sjást þarna á efri myndinni.
Við gengum sem sagt upp brúnirnar og töluvert út fyrir Bæjarstaði. Þó brúnirnar láti ekki mikið yfir sér séð frá götunni þá er útsýnið stórfenglengt. Sjóndeildarhringurinn virtist endalaus og himinn og haf runnu í eitt.  Við tókum þessu rólega og gæddum okkur á nýbökuðu brauði hjá Sólrúnu áður en við gengum til baka. Ég skelli hér líka með mynd af Söxunni og gaman að sjá hana frá þessu sjónarhorni. Við ætluðum að taka hópmynd en það gekk ekki, vélin mín var að verða rafmagnslaus, Sólrún fann ekki tímstillinguna á sinni vél og Ingunnar vél var á mótþróaskeiðinu og slökkti sífellt á sér þegar hún átti að smella af. Við eigum því bara minninguna af okkur í hjartanu. Grin
 
Ganga út á Brúnir 003
 
Þetta var ljómandi hressandi ganga og á eftir skellti ég mér í sund með krökkunum til að tryggja að engir strengir myndu herja á kerluna. Þá var hann búinn að rífa af sér og við fengum heilmikið sólskin. Við komum klyfjuð heim því 9. júní bauð síminn frítt í sund og það voru handklæði, sundpokar, sundgleraugu, bolur, inniskór ofl. sem við bárum með okkur heim. Kannski ég drífi mig að borga símareikninginn Whistling
 
Nú fjörið var ekki búið því nú skelltum við okkur á Reyðarfjörð á opnunarhátíð Alcoa. Það var heilmikið skrall á nokkrum stöðum í bænum og veglegt í alla staði. Leiktæki og tónleikar og ýmsar uppákomur og nóg að eta. Jósef slóst í hópinn um sjöleytið en hann eyddi deginum á Seyðisfirði sem Agent frá Eimskip fyrir skemmtiferðaskip.
Um kvöldið voru stórtónleikar í Fjarðarbyggðarhöllinni á Reyðarfirði þar sem rjóminn af Íslenskum flytjendum fluttu lög við undirleik stórsveitar. Í lokin tók við hluti af Queen sjói Norðfjarðarmanna sem var mjög kraftmikið.  Skrallið endaði svo með listflugi (úti) og fallhlífastökki. Það var fínt og vakti mesta lukku þeir tveir sem náðu ekki að lenda innan rammans sem var afmarkaður en sluppu ómeiddir.  
 
Flottu dagur og allir þreyttir og sælir í lok dags. Jósef fór heim með krakkana áður en tónleikum lauk og þegar ég kom heim voru hann og Dýrunn sofandi inni í stofu en Friðrik beið eftir mér.
 
Í lokin fylgir speki sem gott er að hafa í huga í þessu efnishyggjusamfélagi okkar, eitthvað sem mér verður oft hugleikið en það hljómar svo: "Ríkasti maðurinn er ánægður með það sem hann hefur".  
 
Hafið það sem allra best Heart

Kleinurnar hennar mömmu....

...voru alltaf í Mackintosh dalli inni í skáp og alltaf hægt að ná sér í bita. Ég var ekki há í loftinu þegar ég fór að keppast við að snúa uppá kleinurnar. Það þurfti að hafa hraðar hendur því mamma var eins og raketta í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur þegar hún var upp á sitt besta og kleinubaksturinn gekk hratt og örugglega fyrir sig. Svo voru kleinurnar hennar mömmu náttúrulega heimsins bestu kleinur hehe. 

Ástæðan fyrir þessum kleinupælingum er sú að í morgun langaði mig allt í einu að steikja kleinur. Ég hef einu sinni gert það í búskapartíð okkar Jósefs og þær voru ekki góðar. En kleinur skyldi ég baka og það í dag. Friðrik og Eyþór skutluðust niður í Brekku að kaupa hveiti og við Dýrunn fundum uppskrift. Svo stóð hún þessi elska á stól við bekkinn og snéri upp á ekki lítið ánægð með sjálfa sig meðan móðirin steikti. Útkoman var þetta líka góð, reyndar í öllum stærðum og gerðum, stuttar og langar, feitar og mjóar, beinar og bognar. Þær brögðuðust líka bara eins og kleinurnar hennar mömmu. Ég notaði aðeins hollari feiti, ekki eitthvað sem stífnar uppi í gómnum með kaldri mjólk heldur mjúka feiti. Og þó kleinur séu nú ekki það hollasta kannski þá er nú í góðu lagi að leyfa sér smá af og til og þær eru í það minnsta ekki fullar af einhverjum -E- rotvarnar og svoleiðis efnum og meira segja með slurk af spelti, sem sagt meinhollar. Mamma fékk að sjálfsögðu sendingu í poka og var himinlifandi og þótti þær góðar.

Krakkarnir fóru því uppþembdir af kleinum á fótboltaæfinguna á Fáskrúðsfirði  en vona að það sjatni fljótt. En tengt fótbolta. Það er byrjað að grafa fyrir sparkvellinum og hann verður á Balanum, neðarlega vinstra megin frá mér séð (úr stofuglugganum). Hann á að vera tilbúinn snemma í júlí og vonandi að blessuð börnin nýti sér það, reki trýnin upp úr lyklaborðinu eða Playstation fjarstýringunni og drífi sig út. 

Helgin verður í rólegum gír, ég var svona að spá í að ganga með Göngufélaginu yfir Stöðvarskarð á morgun en er ekki búin að ráðstafa ungunum svo ég veit ekki hvað verður því Jósef þurfti suður í dag í eitthvað fyrirtækjapartý og kemur ekki heim fyrr en á morgun.  Spái hvað ég geri með það.

Sendi ykkur allra bestu kleinukveðjur inn í helgina...  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband