"Spakmæli"
Föstudagur, 11. maí 2007
" Fólk eyðir ótrúlegum peningum í að bæta útlit sitt, þótt ekkert geri það fallegra en eitt ókeypis bros"
Þetta hef ég hugfast þegar ég fer að spá í frekari fegrunaraðgerðir eftir ófarirnar með vaxið um daginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Spennan var í hámarki...
Föstudagur, 11. maí 2007
Þegar hvert umslagið af öðru var dregið fram með snilldar tilþrifum og fljótt ljóst að Balkanlönd og co yrðu þau 10 lönd sem kæmust áfram í Eurovision. "Þetta er óréttlátt" og "Þetta er ömurlegt" hljómaði hjá smáfólkinu á heimilinu þegar ljóst var að við kæmumst ekki áfram, fullorðna fólkið hélt ró sinni enda veit það að ekkert er öruggt í þessum efnum. Síðustu vikur hefur spennan magnast, Friðrik er mjög mikill áhugamaður um Eurovision, reyndar nær áhuginn ekki mikið út fyrir Ísland eða það lag sem vinnur hverju sinni. Í hittifyrra var það Wig Wam og var tappinn svo heppinn að fá disk með hljómsveitinni sendan frá Noregi áritaðan privat til hans frá söngvaranum. Engu að síður féllu þeir ljótt í skuggan þegar Lordi kom, sá og sigraði í fyrra og diskurinn þeirra búinn að vera á reply þetta árið.
Ég var mjög stolt af flutningi okkar manns og fannst þetta að sjálfsögðu flottasta lagið. Ég var ekki búin að heyra neitt annað lag svo þau runnu framhjá hvert af öðru, ósköp keimlík að því mér fannst. Eitthvað lokuðust augnlokin af og til og ég sá það í upprifjuninni að ég hafði dottað yfir nokkur lög. Eitt lag heillaði mig þó og það var frá Ungverjalandi minnir mig og komst áfram. Ég er því búin að finna mér fulltrúa til að halda með á laugardaginn og sama með Friðrik þrátt fyrir vonsvikin er hann búinn að finna annað lag sem honum finnst flott og hann ætlar að kjósa. Menn skipta oft um skoðun þegar þeir eru alveg að verða átta. Móðirin var líka búin að reyna að útskýra eftir fremst megni að líkurnar á að við kæmumst áfram væru ekki miklar og það hefur vonandi skilað sér því svekkelsið eftir á var ekki óbærilegt.
"Ég fékk svona hroll í iljarnar" sagði Dýrunn eftir að Eiríkur hafði sungið enda sat hún alveg stjörf meðal lagði hljómaði á hæstu stillingu í varpinu. Hún var alveg að springa í umslögunum og var svo alveg búin á því á eftir en fór sátt að sofa.
Ég hlakka til að horfa á laugardagskvöld þó ég sé ekki búin að stúdera lögin. Fyrir mér er þetta hin notalegasta fjölskyldusamkoma. Það er alltaf partý hjá okkur..... í þeirri merkingu að við Jósef og krakkarnir gerum okkur glaðan dag og mamma gamla kemur og horfir með okkur. Við erum saman að undirbúna og ákveða hvað við ætlum að maula og þetta er eina kvöld ársins sem það má borða kvöldmatinn í stofunni og það er ekki lítið gaman.
Bið að heilsa inn í helgina....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Danmerkurferðin
Miðvikudagur, 9. maí 2007
Heil og sæl.
Þá er ég komin aftur á klakann eftir dásemdar helgi í einu orði sagt. Við stöllurnar lögðum af stað frá Brv. seinnipart fimmtudags og innrituðum okkur á "hótelið" í Keflavík (hjá upplínunni okkar Friðgeir og Ragnheiði) rétt upp úr miðnætti. Við náðum smá kríu og fórum í loftið upp úr sjö.
Danmörk tók á móti okkur björt og brosandi. Við sóluðum okkur fyrir utan flugstöðvarbygginguna meðan Friðgeir og Ragnheiður sóttu bílaleigubílinn og svo var brunað í átt að Árósum. Við fórum landleiðina og keyrðum yfir
Stórabeltisbrúna sem er þokkalegt mannvirki.
Útsýnið á leiðinni var nú ekki mjög stórbrotið enda ekki furða þar sem þetta blessaða land er ansi flatt en ég var heilluð yfir gulu ökrunum sem teygðu sig vítt og breytt meðfram vegunum. Ég var búin að sjá þetta fyrirbæri úr lofti og spáði mikið í hvað þetta væri eiginlega.
Seinnipartinn vorum við komin til Árósa. Við vorum á SAS hóteli í miðbænum sem var mjög fínt. Nú tók við slökun og sturtur. Við kerlurnar vorum þrjár saman svo það var skellt upp einum bedda. Um kvöldið var síðan svokölluð íslensk HOM kynning sem er kynning á viðskiptatækifæri Herbalife. Þar voru dreifingaraðilar og gestir þeirra sem búa á svæðinu. Hún var skemmtileg að vanda.
Laugardagurinn var aðal dagurinn. Þá var STS skóli (successive training scool) og Summer spectacular. Fyrst voru allir í sama sal og farið í gegnum ýmis grunnatriði, síðan var salnum skipt upp og Ísl. og Danirnir sem höfðu náð ákveðnum skilyrðum fengu mega þjálfun meðan óbreyttir héldu áfram á STS skólanum. Þetta var hreint út sagt frábært og styrkti mig privat og persónulega á allan hátt. Þarna skiptust á sviði Íslendingar og Danir hver öðrum ótrúlegri. Það féllu margir gullmolarnir og það var mikið hlegið og glósað maður lifandi.
Um kvöldið snæddum við öll saman og það var ekki slor. Heljarinnar hlaðborð af alls kyns dönsku gúmmulaði. Eftir matinn var sungið og dansað, sumir héldu svo áfram fram á nótt en aðrir og þ.á.m. við fengum okkur gönguferð eftir Strikinu í Árósum og kíktum á lífið.
Við tókum daginn snemma morguninn eftir, tókum ferju frá Árósum og yfir sundið. Þetta var algjör spíttferja og ferðin tók innan við klukkutíma, rosalega þægilegt. Eina sem skyggði á var þokan svo við sáum ekki mikið.
Köben beið spennt eftir okkur og við vorum svo heppin að þetta var fysti sunnudagur í mánuðnum og því voru búðirnar á Strikinu opnar. Við byrjuðum á smá snæðingi til að hafa orku í búðunum og veðrið lék við okkur eins og sjá má.
Svo straujuðum við Strikið en samt var Visa kortið ekki mikið straujað, við vorum svo nægjusamar að pokarnir tóku ekki einu sinni í undir það síðasta.
Að sjálfsögðu settumst við hjá Nýhöfninni sem iðaði af mannlífi og við Svandís fengum okkur en öl. Skál !!
Við sleiktum svo sólina á Ráðhústorginu seinnipartinn áður en við fórum í flugið. Það gekk allt vel þrátt fyrir að við þyrftum að hætta við lendingu vegna umferðar á vellinum og fengum útsýnisflug yfir Suðurnesin, a ekki það mest spennandi hjá minni en ég lifði það af.
Við fengum aftur gistingu hjá Friðgeir og Ragnheiði og lögðum okkur í rúma þrjá tíma og keyrðum af stað um fjögurleytið frá Keflavík. Úff það var erfitt að vakna og ég var voða þreytt alla leiðina. Helga og Svandís sáu um aksturinn og við vorum komnar á Breiðdalsvík um hádegisbil.
Ég náði smá lúr svo ég var held ég ekki neitt voða tuskuleg í jóganu en mikið skelfing var gott að halla sér í rúminu eftir Supervisorfundinn á netinu um ellefuleytið.
Þrátt fyrir að svona ferðalög séu strembin þá er þetta svo sannarlega þess virði. Þetta þéttir fólki betur saman, maður kynnist nýju fólki og styrkir tengslin við aðra. Nú styttist í næstu ferð, á Extravaganza í Köln í júli og um að gera að bretta upp ermarnar
Venlig hilsen
Bloggar | Breytt 18.5.2007 kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lagt í víking
Fimmtudagur, 3. maí 2007
Nú leggjum við skutlurnar í hann seinnipartinn, suður á land, höllum okkur aðeins í Keflavík og þegar flestir verða nýmættir til vinnu í fyrramálið (fös) verðum við nýflognar yfir Austurlandið. Vorið í Köben tekur síðan á móti okkur í allri sinni dýrð.
Dagskráin tekur strax við á föstudagskvöld og þá sjáum við hvernir Danir frændur vorir vinna viðskiptin sín. Spennandi.
Ég byrjaði með jóganámskeiðin í gær og það gekk ljómandi. Kenndi í fyrsta skipti á ævinni tvo tíma í röð og það var ekkert mál. Skellti mér svo í göngu upp á Landabrúnir með heilsuhópnum mínum og það var yndislegt, alveg logn og útsýni út um allan fjörð.
Það er heldur betur búið að plana hvaða fjöll á að heimsækja í sumar og fyrst ber að nefna Mosfell, Steðja og Sauðabólstind. Sökum þess hver ódugleg ég hef verið í þessum geira ætla ég ekki að lofa meiru upp í ermina á mér. Við mæðginin ætlum að fara gilið hjá ytri Löndum og rifja upp þegar við fórum það fyrir tveimur árum þegar Friðrik var sex ára. Spurning hvort kappinn er enn jafn sprækur og þá og áhugavert að mæla tímann hver langt líður á milli sígildu spurningarinnar "Hvenær fáum við okkur nestið"
Hafið það gott um helgina í blíðunni.....og Köben ferðasagan fer í loftið eftir helgina
Bloggar | Breytt 18.5.2007 kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jóga !
Miðvikudagur, 2. maí 2007
Í dag fer ég af stað með að því er mér finnst fyrstu alvöru jóganámskeiðin. Ég er í jógakennaranámi hjá Guðjóni Bergmann og núna er æfingartímabil þar sem við kennum ákveðinn fjölda af jógatímum og iðkum sjálf ákveðinn fjölda áður en við ljúkum námskeiðinu í október.
Ég var ekki viss um hvort fólk myndi skrá sig á námskeið svona á vorin og hef líka alltaf verið rög við að auglýsa þar sem var ekki búin að mennta mig en ég hef verið með hóp hér á Stöddanum í 3 ár ca. Núna auglýsti ég í Dagskránni og fékk viðbrögð sem ég er sátt við. Byrjendanámskeiðið er töluvert fámennara en framhaldsnámskeiði en það kemur ekki að sök og ég get þá bara kennt þeim betur enda að stíga fyrsta skrefið með byrjendur. Það er enn hægt að skrá sig
Eigið góðan dag !
Om shanti (friður)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju með daginn !
Þriðjudagur, 1. maí 2007
Þvílíkt dásemdar veður á þessum dýrðarinnar drottins degi eins og mamma segir stundum. Ég fylltist svo miklum eldmóði í sólskininu að ég reif allt illgresið úr einu blómabeðinu og gerði það nokkuð huggulegt fyrir sumarið. Þessi eldmóður kom aldrei yfir mig í fyrra svo þetta var tvöfalt magn.
Ég má til með að skella inn einu góðu spakmæli meðan ég bíð eftir að prentarinn ljúki sér af við að prenta vöru og verðlista sem ég ætla að afhenda í dag. Ég veit að þetta er frídagur verkamanna en varla er ætlast til að maður liggi í rúminu hehe.
Fullkomin viska er í þessu fólgin:
Í visku - að gera það sem rétt er.
Í réttlæti - að iðka hið sama í leynum og fyrir allra augum.
Í skapfestu - að flýja ekki hættuna en takast á við hana.
Í hófsemd - að hafa stjórn á löngunum og lifa án öfga.
Plató
Megið þið eiga yndislegan dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nú er talið niður...
Mánudagur, 30. apríl 2007
"Mamma, þið eruð bara aldrei heima" sagði Dýrunn mín sex ára gömul um daginn. Ég viðurkenni að við hjónin höfum mikið verið á faraldsfæti að undanförnu og þá fjarri okkar dýrmætustu gimsteinum. Allt er það þó í því skyni gert að efla okkur svo við getum veitt fjölskyldunni okkar betra líf Þegar fram líða stundir. Ég í jóganáminu og í Herbalifevinnu. Stundirnar sem við eigum saman eru sem betur fer nægar og góðar svo ég fór ekki að vesenast með neitt samviskubit. Ekki einu sinni þó ég hafi ekki verið heima síðustu fjórar helgar eða guð má vita hvað og sé á leiðinni til Danaveldis eftir fjóra daga.
Já Danmörk, here I come . Ég er á leiðinni til Árósa á svokallaða Activa Supervisorþjálfun og tek með mér tvo demanta úr undirlínunni minni, Helgu Hrönn og Svandísi. Allar höfum við verið að vinna að því að ná skilyrðum á þjálfunina og fáum að launum flug og gistingu í boði Herbalife. Frábært hreint út sagt. Við tökum bíl ásamt Friðgeiri og Ragnheiði og keyrum frá Köben til Arósa á föstudeginum. Þar verður þjálfun um kvöldið. Á laugardegi er svokallaður STS skóli (successive training seminar) og þar verðum við rúmlega 100 Íslendingar ásamt Dönunum. Við fáum sérstaka þjálfun með leiðtogum Danmerkur sem er á svkalegu flugi. Um kvöldið verður veisla og fun fun fun. Það er svo mikið svoleiðis í Herbalife, ég held að það sé varla til skemmtilegra vinnuumhverfi eða félagsskapur og í Herbalife, svei mér þá ( að Hvalnessystrum ólöstuðum hehe). Á sunnudegi er planið að taka daginn snemma, keyra til Köben og þreifa aðeins á Strikinu. Svo fljúgum við heim seint og um síðir og við skvísurnar brunum væntanlega heim um miðja nótt.
Spennandi ekki satt ??
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Dýrtíðin heldur áfram....
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Já núna á sunnudagskvöldi hefur damana aldeils þurft að punga út vegna píuæfinganna. Á föstudag þegar fyrri pistill var ritaður fékk ég lyf við ofnæmisviðbrögðunum. Ég hélt að sjálfsögðu að útbrot og allt þvíumlíkt væru í hámarki en það var nú ekki svo gott. Ég var í bústað á Einarsstöðum með Hvalnessystrum saumaklúbbnum mínum um helgina og við vorum þrjár sem gistum aðfaranótt laugardags. Ég taldi að ég myndi vakna alheil og gæti farið í góða göngutúrinn sem við "systurnar" ætluðum í en útbrotin höfðu aukist og voru algjörlega í hámarki seinnipart sunnudags þegar ég leitaði aftur á náðir læknavísindanna og ég látin taka steratöflur til að brjóta þetta á bak aftur. Oh my god, ég er ekki búin að fá reikninginn en ég er nokkuð viss um að þessar aðgerðir verði ekki á listanum næst þegar ég ákveð að skvera af mér einhverjum líkamshárum.
Helgin með Hvalnessystrum var dásamleg fyrir utan útbrotin. Ég slakaði á heima hjá Rósu beib meðan hinar systur fóru í gönguferð á gamlar slóðir út á Eiðum. Um kvöldið borðuðum við dásamlegan kjúkling og Nigellu brownies sem Dóra kom með mmmmmmmmmmmmm, þvílík bomba gasalega góð og það var mikið stunið þegar henni var rennt niður. Við spiluðum Trivial og skiptum í tvö lið, Vengisfrænkurnar á móti mér, Ragnheiði og Höllu. Þær eru nú ekki alveg í lagi elskurnar og það þurfti að taka nokkuð hláturhlé milli spurninga. Við sigruðum og það var smá kurr í hinu liðinu þar sem Rósa taldi þær ekki hafa fengið sanngjarna meðferð við mat á ákveðnu svari. Stelpurnar skelltu sér í kvöldgöngu meðan ég kældi útbrotin og kláraði að lesa fyrstu umferð á The seven human needs. Þegar við vorum búnar að skila bústaðnum skildu leiðir og við héldum hver í sína áttina.
Seinniparturinn hefur farið í kælingar á útbrotum auk þess að stappa stálinu í Friðrik sem kom mjög svo skelkaður inn eftir "árekstur" við geitung eða hunangsflugu, útskýringarnar voru ekki nákvæmar í sjokkinu. Hann hefur haldið sig inni við og ætlar ekkert meira út í sumar held ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dýrt að vera pía....
Föstudagur, 27. apríl 2007
Þá er skvísan loksins komin úr skápnum og ætlar að láta ljós sitt skína í bloggheiminum. Lengi hefur bloggáhuginn blundað í mér en aldrei hef ég einhvern veginn nennt að drífa mig af stað. Nú er ég komin af stað.
En að titlinum, það er dýrt að vera pía. Í vorverkunum ákvað skvísan að skvera nokkrum hárum af leggjunum svo hún yrði boðleg í nýju gallastuttbuxunum (n.b. hárin varla sjást á þessari ljósku svo þetta er nú algjört pjatt). Einhvern tíman hafði ég keypt vax og ákvað að prófa það, skveraði hárunum af ekkert mál og skellti undir hendurnar líka. Glöggir lesendur og skvísur sem hafa notað svona tæki vita að það eru varnaðarleiðbeiningar á umbúðunum og það á að athuga hvort einhver ofnæmisviðbrögð geti komið fram.
Hmmm, ég virti það sem sagt ekki og sit nú viku síðar, gjörsamlega logandi í handarkrikunum og neðst á leggjunum. Ég bý víst líka á Stöðvarfirði og það eru ekki öll lyf til í apótekinu svo ég bíð logandi þar til seinnipartinn þegar ég fer í Egs. á Hvalnessystramót. Ég fékk bráðabirðareddingu í dag og áhrifin eru minnkandi. Ég þarf sennilega ekkert í Ríkið, verð líklega ljómandi afslöppuð þegar ég verð búin að taka ofnæmistöflu í kvöld enda ekki vön slíku og þvílíku.
Já það er dýrt að vera pía................. en oftast alveg ljómandi skemmtilegt og alveg þess virði.
Góða helgi !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)