Krúsilíus og hitabylgja
Föstudagur, 7. september 2007
Hann Sólmundur litli er alveg að verða mánaðar gamall, vantar bara fjóra daga upp á. Hann verður mannalegri (kattarlegri) með hverjum degi og bröltir um svolítið titrandi göngulagi og kannar umhverfið.
Kisa blessunin passar hann mjög vel, leist ekkert á að vera með hann í kassa í stofunni og flutti hann niður, á bak við hornsófann og þar hafa þau verið síðustu vikur. Hann var auðvitað farinn að fara út af handklæðinu í horninu og það stressaði kerluna eitthvað svo hún færði hann upp og undir rúmið okkar. Þar fær hún nú bara að vera hluta úr degi en á kvöldin eru þau í kassa í stofunni og svo rokkar hún reglulega með hann upp og niður. Hún er farin að ná betra taki á honum greyinu og hann búinn að læra að slappa af þegar þau fara á rúntinn. Fyrst gargaði hann eins og stunginn grís þegar hún hóf hann á loft með klaufalegum tilburðum en núna er hann eins og dauður þegar hún fer á stjá. Við héldum í gær að hún væri að verða breima og hún er eitthvað skrýtin, úff úff. Við ætlum að fara með hana í aðgerð og láta taka hana úr sambandi því ég vil ekki halda áfram að gefa henni pilluna (sem getur gleymst eins og dæmin sanna). Hún er róleg í dag og hefur ekkert vælt svo ég vona að þetta sé að rjátlast af henni. En Sóli litli fékk kvef og var með stíflað nef í fyrrakvöld og ég vissi ekki að kettir gætu kvefast. Hann fékk að anda að sér gufu af heitu vatni og þá gat hann aðeins andað með nefinu. Hann lá á öxlinni á "ömmu" sinni og frussaði á hana þegar hann reyndi með herkjum að anda með nefinu blessaður.
Veðrið er svolítið magnað þessa dagana, dagarnir byrja á hellirigningu, svo rífur hann af sér og þá brestur á með brakandi blíðu. Í dag um tvöleytið var 23 stiga hiti. Það er vestanátt og þess vegna er vindurinn svona heitur og notalegur.
Við Friðrik erum búin að safta 5 lítra af berjasaft sem er komin í frysti í 1/2 líters flöskum. Við ætlum að vera svo heilsusamleg í vetur. Við ætlum jafnvel að freista þess að moka upp fleiri berjum um helgina og safta aðeins meira. Þvílík gomma af berjum. Ég er samt nokkuð róleg yfir þessu öllu og tíni bara í smá sultu og slurka til að frysta í sjeikinn.
Nammibindindið hófst að kveldi 2. september og það hefur gengið vel. Þegar maður er búinn að taka staðfasta ákvörðun verður framkvæmdin ekki svo erfið. Ég er búin að bræða þetta með mér lengi en nú er átakið byrjað. Ég byrjaði líka að kenna jóga í vikunni, hér og á Breiðdalsvík og það gengur vel, mjög gaman að kenna á byrjendanámskeiði því það er svo krefjandi. Hitt vissulega krefjandi líka og skrokknum mínum finnst það, ég er með strengi á mjög mörgum stöðum.
Í kvöld verð ég gestur á glamúr og hattakvöldi hjá Uppsalakonum á Fáskrúðsfirði og fræði þær um svolítið spennandi, má ekkert segja því þær vita ekkert hvað ég ætla að gera. Ég á nú ekki einhvern glamúrklæðnað en ætla að fara í glamúrsokkarbuxur við gallapilsið mitt og skella á mig glamúrsjalinu mínu, læt það duga. Ég má ekki skyggja á þær
Um helgina er stefnt á að mála og mála ef spár um þurrk og ekki of mikinn vind ganga eftir. Kominn tími til að klára sem mest.
Njótið helgarinnar í botn ....................
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
- 75 ára afmæli og fleira -
Mánudagur, 3. september 2007
Jæja nú hef ég verið óvenju löt hér við lyklaborðið upp á síðkastið. Það hefur samt alveg verið frá nógu að segja en ég ekki fundið hjá mér löngun til að skrifa.
Um þarsíðustu helgi var ég með jógafræðslu, einfaldar æfingar og slökun á Eiðum þar sem Krabbameinsfélag Austulands/Austfjarða (er ekki alveg viss með heitið) bauð upp á helgardvöl fyrir krabbameinssjúka í Kirkjumiðstöðinni. Það var notalegt að koma á gamlar slóðir, ég fór reyndar ekki niður að Alþýðuskólanum fyrrverandi en þótti notalegt að sjá að skiltið við afleggjarann stendur enn. Þetta var notaleg stund og við slökuðum heilmikið á.
Það hefur lítið gerst í húsamálum síðan þarsíðustu helgi. Bóndinn er nú oftast hreinlega þreyttur eftir vinnudaginn og ekki fundið kraftinn í að skella sér í gírinn. Síðasta helgi fór svo í afmælisstúss og Jósef var á golfmóti hjá Eimskip á laugardeginum.
Á laugardagskvöld var hið árlega Ljósakvöld í Steinasafninu og þar safnast Stöðfirðingar og nágrannar saman og eiga góða stund meðan rökkrið færist yfir. Garðurinn er tendraður hundruð kertaljósa og stemninginn er ólýsanleg þegar dimmt er orðið. Fólkið hennar Petru bauð upp á veitingar og svo var spilað á nikku og dansað og sungið. Þetta er orðinn árviss viðburður og alltaf jafn yndislegt. Ég var hálf löt að drífa mig af stað því það var hrollur í mér eftir útiveru dagsins. Ég fór fyrst með Gurru og stelpunum í berjamó í tvo tíma í blíðunni og við sátum í aðalbláberjahrúgu og tíndum. Svo fór ég með krakkaskara niður á bryggu að veiða. Þau voru fimm og mikill veiðihugur í mannskapnum. Það vildi ekki betur til en það fór að hvessa þegar við vorum nýbyrjuð og við ekki klædd fyrir næðinginn. Við skreiddumst því heim og urðum að játa okkur sigruð án þess að veiða bröndu.
Í gær var hápunktur helgarinnar en þá héldum við upp á 75 ára afmælið hennar mömmu. Hún ætlaði ekki að hafa neitt tilstand svo við ákváðum að bjóða henni í óvissuferð. Við fórum í Héraðið og tókum Fljótdalshringinn. Komum við á Skriðuklaustri og borðuðum af hádegishlaðborðinu þar. Nammi namm, alveg þess virði að rúnta þangað bara til að fara á hlaðborðið. Síðan kláruðum við hringinn og enduðum í Fögruhlíð og þar tók restin af fjölskyldunni á móti okkur með kræsingarnar sem við vorum búin að útbúa. Svo týndust að gestir en við létum nánustu vini og vandamenn vita af partýinu. Í heildina vorum við um 50 talsins og aldrei verið svo margir samankomnir í hlíðinni fögru en það rúmaðist ótrúlega vel. Veðrið lék við okkur svo það var líka hægt að sitja úti, annars hefði verið svolítið þröngt. Aldursbilið á milli þess yngsta og elsta (Emil og Lauga) voru rúm 90 ár þannig að sjá má að þetta var fjölbreyttur hópur. Mamma kom alveg af fjöllum og hafði ekki grunað neitt. Þetta var auðvitað búinn að vera heilmikill feluleikur og pukur og við alltaf að passa að missa ekki neitt upp úr okkur varðandi helgina. Ég læt hér fylgja mynd af mömmu og Áslaugu en þær eru svo sælar á svip því þær voru nýbúnar að metta sig af hlaðborðinu.
Fyrir 25 árum hélt mamma upp á fimmtugs afmælið sitt í Fögruhlíð og þá mættu nokkrir góðir gestir. Nokkrir af þeim hafa kvatt þetta líf en miðið við draumfarir Sigurjóns og Sólrúnar vikuna fyrir afmælið teljum við líklegt að þeir gestir hafi mætt aftur í afmæli og verið þar að boða komu sína.
Nú eru að hefjast jóganámskeið hjá mér. Ég byrja með harðkjarnann minn hér í dag og byrja með 8 stunda byrjendanámskeið í Breiðdalnum á morgun. Það er gott að koma sér í gírinn og núna er ég að klára upp í kennslukvótann í jóganáminu mínu sem lýkur í byrjun október á Hellnum á Snæfellsnesi.
Læt þetta duga í bili.......
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
"Hvenær förum við eiginlega að læra ?"
Sunnudagur, 26. ágúst 2007
Sagði Dýrunn í hádeginu á föstudag á sínum þriðja skóladegi. Ég byrjaði að útskýra að meðan veðrið væri svona gott væri tíminn notaður til að njóta náttúrunnar og þau myndu læra heilmikið á því. "Já en mamma, hvenær förum við eiginlega að læra í bókunum og stafi og svoleiðis". Ég sagði að það kæmi í næstu viku. Hún sat fyrir framan mjólkurfernu og segir svo, "mamma á ég að lesa fyrir þig ljóð" og byrjaði að lesa utan á fernuna:
Hvað er að vera ég?
Ég vildi að ég væri jafn góð og Aron í sundi.
Ég vildi að ég væri jafn góð og Jóhann í skrift.
Ég vildi að ég væri jafn góð og Lea í fótbolta.
Ég vildi að ég væri jafn góð og Kristín í stærðfræði.
Ég vildi að ég væri jafn góð og Ingibjörg í marki.
Ég vildi að ég væri jafn góð og Ísak á klarinett.
Ég vildi að ég væri jafn góð og Lárus að hlaupa.
Ég vildi að ég væri jafn góð og Þórdís að teikna.
En ef svo væri, væri ég ekki ég sjálf...
Þetta las hún án þess af tafsa þessi elska. Alveg skil ég að hana langi að fara að læra í námsbókunum og læra stafi og svoleiðis. Vonandi helst áhuginn sem allra lengst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Afmæli, skólaganga og pússl...
Fimmtudagur, 23. ágúst 2007
Friðrik hélt upp á átta ára afmælið sitt á þriðjudaginn fyrir vinina en fjölskyldan kom daginn fyrir sjálfan stóra daginn. Nú tekur við smá bið þar til hann fer að undirbúa jólin, alltaf nokkrum skrefum á undan sér en ég reyni hvað ég get til að halda honum í núinu og kenna honum að njóta dagsins í dag og auðvitað að hugsa fram á við. Eitthvað er hann hugsi þar sem hann starir á afmælisorminn (kakan) sinn, eflaust að skipuleggja eitthvað. Að venju var heilmikið fjör og í lokin öttu afmælisgestir kappi í Sing star og var það hin mesta skemmtun. Nú er gaurinn að spá og spekúlera hvað á að gera við afmælispeninginn, er nú ekki alveg sáttur við að leggja hluta fyrir á einhverja bankabók.
Dýrunn hóf skólagöngu sína í gær og gekk sú byrjun ljómandi vel. Þau fengu bækur og spjall og skoðuðu skólann. Hún er í stofu með Friðrik því 1.-3. bekk er kennt saman. Þar eru alls tíu krakkar og níu af þeim börn kennara eða starfsfólks. Það gæti orðið stuð þegar bankið byrjar á kennarastofunni, "Get ég fengið að tala við mömmu". Þetta er eitt af því sem ræða þarf sérstaklega á hverju hausti og tekst mis vel til eins og gengur. Hér sjáið þið Dýrunni, Mána og Kolbrúnu, fríður en fámennur hópur og það er það sem við sjáum í þróuninni okkar því miður. Þar sem unga fólkið kemur ekki aftur og engin nýliðun verður fæðast ekki mörg börn. Það er bara einn og einn móhíkani eins og ég sem komu heim og það var af því ég var að elta ástina, var á góðri leið með að festa mínar rætur í höfuðborginni. Ég var í stærsta bekk sem verið hefur í Grunnskólanum ever og við vorum 14 stykki, næst stærsti bekkur taldi 12 og þar var Sóli bróðir. Þetta verður seint slegið.
Dýrunn var svolítið lítil í sér í hádeginu og sagðist ekki vilja vera í skóla, það væri leiðinlegt að læra. Ég hef litlar áhyggjur af því, hún er nefnilega kýrskír eins og foreldrarnir og ekki þarf mikla stafainnlögn þar sem hún les það sem hún þarf daman og er dugleg og samviskusöm.
Ég ætlaði að skella inn myndum af litla "barnabarninu" en þær voru allar á hreyfingu. Kisa passar hann vel og verður voða stressuð þegar einhver er að knúsa Sóla litla. Lýsing Dýrunnar hefur aðeins breyst og í fyrradag sagði hún "Hann er ekki lengur eins og rotta, hann er eins og lítil feit rotta". Eins og gefur að skilja fær hann næga næringu þar sem hann á engin systkin.
Ég pússla og pússla (aldrei viss hvort það er eitt eða tvö s) þessa dagana, heimilishaldinu, lestur á jógaheimspeki og ástundun, stundaskránni í skólanum, hvar og hvenær ég ætla að kenna jóga, herbal fundi og skóla og þar fram eftir götunum. Það smellur einn og einn "kubbur" á réttan stað smátt og smátt.
Um helgina verð ég með fræðslu um slökun, einfaldar æfingar og slökun á Eiðum þar sem krabbameinssjúkir og aðstandendur koma saman og hafa það notalegt. Það er spennandi verkefni.
Á döfinni er 75 ára afmæli mömmu og þar sem hún vill ekki vera með neitt umstang erum við systkinin að spá og spekúlegra hvernig við getum gert henni daginn ánægjulegan. Nánar um það síðar...
Haldið áfram að týna ber Með vinstri eða hægri....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vinstri eða hægri...
Mánudagur, 20. ágúst 2007
Hvort tínir þú ber með vinstri eða hægri ?? Góð spurning. Fer það ekki eftir því hvort fólk er örvhent eða rétthent? Maður hefði nú haldið það. Við systurnar höfum komist að því að annað hvort er þessu öfugt farið eða við stórmerkilegar. Ég örvhenta manneskjan tíni með hægri og Sólrún sú rétthenta tínir með vinstri. Við ræddum þetta í gær þegar við hittumst í smá berjamó. Hún hafði skellt sér í heilsubótargöngu sem endaði utan vegar í bláberjatínslu og við Dýrunn skruppum inn með Vallám í leit að bláberjum og hittum Sólrúnu.
Dýrunn var með lítinn dall sem hún fyllti fljótt og var stolt af. Ég var með lítersbox sem ég náði að fylla áður en Dýrunn var búin að tapa þolinmæðinni því hún vildi fara heim þegar hennar box var orðið fullt. Við fengum sem sagt bláber með rjóma í eftirmat nammi namm. Ég hef lítið farið í berjamó það sem af er síðsumri og er ekki þessi kona sem fer hamförum í að sulta og safta, ástæðan, hér á bæ er fólk lítið fyrir sultur og saftir og engin ástæða til að láta það skemmast og eyða plássi í nú þegar of litlum ísskáp. Ég hins vegar fæ mér smá slurk af bláberjum og frysti í litlum skömmtum til að láta út í sjeikinn minn á morgnana. Best þykja mér þau samt alltaf nýtínd. Dýrunn fann þetta fallega laufblað í haustlitunum og vildi endilega láta mynda það, fallegt ekki satt?
Þó haustið sé yndislegur tími kemur alltaf smá tregi í kerluna þegar dimma fer á kvöldin og björtu sumarnæturnar fara í frí þar til að ári. Þessi tregi varir rétt meðan ég er að komast inn í haustið sem mér finnst fallegur og góður tími á sinn hátt. Nú hef ég ástæðu til að setja upp kósíljós á kvöldin og kerti út í glugga.
Friðrik varð átta ára á laugardaginn og við vorum með fjölskylduafmæli á föstudagskvöld. Planið var að hafa barnaafmælið á laugardag en færðum það þar til á morgun því margir vinirnir voru ekki heima. Fórum þó í eitt afmæli því í fyrra fékk Friðrik litla frænku í afmælisgjöf og við fórum á Djúpavog í eins árs afmælið hennar Jónínu seinnipart laugardags.
Hér á bæ ríkir sannkallað Sing Star æði eftir að móðirin festi kaup á einu slíku setti. Krakkarnir syngja af miklum móð, eru nú ekki orðin læs á enskuna en fljót að pikka laglínurnar upp og rústa foreldrunum eins og ekkert sé. Ekki spillir að Friðrik er búinn að fá tvo Sing Star diska í amælisgjöf svo það er hægt að syngja lög frá öllum tímabilum. Það er ótrúlega fyndið að heyra í þeim humma og nana í gegnum lögin og grípa svo einn og einn frasa. Mjög góð dægrastytting fyrir unga sem aldna.
Sparkvöllurinn okkar er alveg að verða tilbúinn og ég hélt á föstudaginn að ég væri að verða eitthvað rugluð. Um morguninn stóð bíll við völlinn fullur af þökum til að fegra í kring. Ég var lítið að spá í það og var heima eftir hádegið að undirbúa afmælið. Seinnipartinn varð mér litið út og þá var verið að leggja lokahöndina á þökulagninguna og búið að gróðursetja líka fullt af trjám fyrir ofan völlinn. Þarna voru Dagga og Veraldarvinir á ferð sem hafa sko aldeilis ekki slegið slöku við í fegrunaraðgerðum síðustu daga. Mér fannst þetta svo frábært að ég smellti af einni mynd.... Ef þið klikkið á hana sjáið þið hana stærri og þá sjást Veraldarvinirnir við þökulagninguna. Núna hamast Ævar í að klára mörkin og þá er hann tilbúinn (völlurinn). Menn bíða spenntir hér á bæ því það er heldur ónýtt að sparka og elta svo boltann út um víðan völl.
Eins og þið sjáið skartaði fjörðurinn sínu fegursta og að mínum dómi hefur það verið einkennandi fyrir þetta sumar. Það hefur ekki verið mikill lofthiti, töluvert sólskin og miklar stillur, óvenju miklar og það finnst mér alveg æðislegt. En ekki ber öllum saman um ágæti þessa sumars eins og gengur og gaman að ræða þessi mál við fólk, sumir dásama það en öðrum finnst það bara ekki hafa verið neitt spennandi en þar sem við erum öll svo ólík höfum við misjafnar skilgreiningar á því hvað sé gott sumar.
Ég er samt ekki búin að fara á Steðjann eða Sauðabólstindinn... en sumarið er ekki búið og í morgun skelltum við hjónakornin okkur á morgungöngu klukkan sex takk fyrir. Ekki mjög langt svona í fyrstu atrennu en nóg til þess að svitinn var farinn að renna af bóndanum og ég fékk góðan hita í kroppinn. Planið er að halda sig við morgungöngur til að fegra sig og megra hehe Gott að hafa þetta skjalfest og þá er hægt að halda manni við efnið og spyrja "hvernig gengur með morgungöngurnar?" Namminu verður líka hent um mánaðarmót og nú er ég að undirbúa mig fyrir að klára jóganámið og er að iðka upp í þá tíma sem mér voru ætlaðir í æfingatímabilinu. Þá er gott að fara í léttara fæði ekki vandamálið þar sem sjeikinn er máltíð 1 og 2 að deginum og oft milli mála líka.
Farið út að tína ber og segið mér svo hvort þið tínið með hægri eða vinstri...... Venlig hilsen
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Stórtónleikar, Króksmót og fjölgun á heimilinu...
Þriðjudagur, 14. ágúst 2007
Já það hefur svo sannarlega verið nóg á dagskránni síðustu daga hjá familíunni. Á fimmtudagskvöld fórum við á Stórtónleika í íþróttahúsinu hér á Stöðvarfirði. Þeir voru haldnir til að styrkja Guðgeir Fannar og fjölskyldu hans til farar til Boston þar sem Guðgeir þarf að fara í hjartaaðgerð. Á tónleikunum stigu á stokk hver listamaðurinn á fætur öðrum og allir höfðu sinn sjarma. Allir gáfu þeir vinnu sína og höfðu margir hverjir komið langt að. K.K. og félagar enduðu geimið og þar var mætt einvala lið frábærra tónlistarmanna. Ég sat þarna með tárin í augunum í lokin, hrærð yfir þessu öllu saman og með þá von í brjósti að þetta gangi vel hjá þeim þarna úti. Mér finnst ég eiga töluvert mikið í honum Gugga því við höfum fylgst að í skólanum frá því hann var í öðrum bekk, utan tvo vetur meðan ég var í barnsburðarleyfi. Búin að sjá þennan baráttujaxl berjast áfram og vaxa og þroskast. Aldrei gefist upp og alltaf nóg að spjalla um fótbolta eða heimsmálin, stundum gleymdust námsbækurnar í spjallinu en það er önnur saga.
Ég tek ofan fyrir ykkur sem stóðuð að tónleikunum, Björgvin Val og vinum Gugga hér á Stf. Húrra fyrir ykkur, þið megið vera stoltir af góðu framtaki.
Á föstudag brunaði fjölskyldan norður á bóginn. Núna með teppi og hlýjan fatnað í töskunum. Leiðin lá á Króksmótið á Sauðárkróki. Tekið var stopp á Akureyri, fundin skólataska handa Dýrunni og þær tvær skildar eftir hjá Begga og Dóru því hún gat ekki hugsað sér að fara á fótboltamót, minnug þess að bíða í belgningnum á Húsasmiðjumótinu fyrr í sumar og þetta átti að vera í tvo daga.
Það var mikill spenningur í mínum manni. Við fengum gistingu hjá skólasystur minni og vinkonu frá því ég var á Króknum og þar gekk elsta barnið úr rúmi fyrir okkur hjónakornin. Ástarþakkir Anna og Siddi Friðrik ætlaði sér að gista í skólanum sem og hann gerði. Það gekk allt saman vel.
Á laugardegi keppti liðið hans, Fjarðabyggð 3 leiki en hann var í 7flokki b riðli. Þeir unnu fyrstu tvo leikina en töpuðu þeim þriðja. Á sunnudag voru leikirnir tveir og sá fyrri var jafntefli og þeir töpuðu seinni leiknum. Það var mikið hrópað og stunið á hliðarlínunni þegar náðist ekki að nýta dauðafæri leikjarins. Þeir voru að sjálfsögðu miklu betri hehe. Svo kepptu þeir til úrslita og náðu fimmta sæti í sínum flokki, þriðja sæti í riðlinum. Friðrik náði meira að segja að setja eitt mark og var að vonum mjög glaður. Honum hefur farið mikið fram frá því hann hóf fótboltaiðkun sína í sumar og vonandi að það haldist áfram.
Mótið var í alla staði mjög fínt, allt þrælskipulagt og gekk eins og smurt þrátt fyrir um 1100 þátttakendur og töluverðan slatta af foreldrum líka. Á laugardagskvöld var kvöldvaka og þar fór Björgvin Franz á kostum. Veðrið var frekar svalt, suddi á laugardag en nokkur kyrrt en vindur og sólskin á sunnudag svo maður var þokkalega vindbarinn eftir helgina og var í dúnúlpunni með húfu og lopavettlingana alla helgina. En hér sést liðið eftir lokaleikinn.
Meðan á síðasta leiknum stóð fengum við þær upplýsingar að kisa væri farin af stað í fæðingu. Áslaug sys. var á fæðingarvaktinni. Hún eignaðist tvo en annar var eitthvað ekki í lagi og dó fljótt. Við flýttum okkur því heim á leið strax eftir mótið, tókum samt smá stopp á Akureyri og lögðum okkur í klukkutíma. Við vorum komin heim upp úr miðnætti. Þar tók nýbakaða móðirin á móti okkur þreytt eftir fæðinguna. Sá stutti er mjög sprækur og verður örugglega efnilegur í gardínunum og öllu þegar fram líða stundir. Hún er samt svolítið að leita að hinum og er ekki alveg að fatta þetta. Hún er frekar stygg greyið þegar barnahávaði er annars vegar og þar sem húsið er nú oft fullt af börnum fá þau að dvelja niðri í holi svo hún fari ekki á taugum. Við erum nokkuð viss um að þetta sé strákur og Friðrik og Dýrunn fengu að gefa honum nafn. Þau voru ekki í vandræðum, Sólmundur skyldi hann heita og má stóri frændi í Keflavík vera stoltur af að fá svona flottan nafna, grábröndóttan í hvítum sokkum. Hérna sjáið þið þau mæðginin.
Hún vildi fyrst bara vera í sófanum en þar sem Sóli litli er farinn að brölta mikið létum við kassann í sófann með réttu handklæði og öllu saman. Ekki leist henni vel á það og tók þann stutta og fór með hann undir hjónarúm. Dýrunn skreið undir rúm og sótti kettlinginn og þá kom kisa á eftir. Hún sætti sig við kassann þegar við vorum búin að færa þau niður og er þar í rólegheitum blessunin. Hún hefur ekki kippt sér mikið upp við heimsóknir smáfólksins sem kemur reglulega niður til að spjalla og skoða Sóla litla. Það birtast örugglega fleiri myndir af félaganum þegar hann verður búinn að opna augun og lítur ekki alveg eins út og rotta (eins og Dýrunn segir).
En nú er frúin að koma sér í vinnugírinn, hvað er nú það?? Fer á námskeið á morgun og hinn og svo fer undirbúningurinn að hefjast. Ég er líka að plana jóganámskeið og skipuleggja Herbavinnuna svo það er nóg um að vera á næstunni.
Sendi haustkveðjur... burr það er nefnilega farið að kólna aðeins.
Bloggar | Breytt 17.8.2007 kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Málað í blíðunni
Þriðjudagur, 7. ágúst 2007
Nú tekur Hólaland 18 heilmiklum breytingum þessa dagana, bóndinn er sem sagt byrjaður að mála. Það voru að sjálfsögðu heilmiklar vangaveltur varðandi litaval og hjónin ekki alltaf sammála. Um tíma leit út fyrir að verkið félli niður þar sem ekki hefði tekist að velja lit. Nei ég er nú að ýkja aðeins en við vorum nokkuð sammála um að skipta rauða litnum (við gluggana) út fyrir grænum (samruni Herba og Framsóknar hehe) . Jósef kom með prufur sem áttu að fara við gluggana og við þakskeggið og neðri hluta hússinns, en Oh my god, það kom allt öðru vísi út en á spjaldinu og Sollan sagði nei takk. Báðir voru of skærir og sá hvíti of hvítur. Þá ákváðum við að hafa bara tvo liti, grænt og marmarahvítt einhvernveginn. Jósef kom aftur með prufur og enn var græni liturinn Oh my god, alveg ómögulegur. Ég sat yfir litaspjöldunum enn eitt kvöldið og valdi þriðja litinn og viti menn hann féll í kramið. Verkið er á því stigi að það er búið að bletta mest allt og komin ein umferð á innri, efri og ytri hliðina og sá græni kemur í lokin. Hérna sjáið þið hann við verkið.
Jósef var bullsveittur í blíðunni í gær að mála og ég held svei mér þá að þetta hafi verið einn allra besti dagur sumarsins. Annars er erfitt að meta það því það eru svo margir yndislegir dagar sem þetta blessaða sumar hefur boðið okkur. Það er sama blíðan í dag en Jósef er búinn í fríinu í bili svo hann tekur syrpur á kvöldin eftir því sem veður leyfir.
Við vorum heima um Verslunarmannahelgina og höfðum það mjög náðugt svo náðugt að ég er eiginlega búin að fá nóg af aðgerðarleysi og letilífi hehe. Við fengum gesti á föstudag sem gistu eina nótt á yfirferð sinni um Austur og Norðurland og það var mjög gaman. Og þar sem sundlaugin okkar var ekki opin þessa dýrðardaga sökum manneklu fórum við í sund á Breiðdalsvík, fengum súpu og brauð hjá Helgu og Ingólfi og enduðum á Kaffi Margrét í kakó og kökum. Nammi namm...
Meðan bóndinn málaði í gær hafði ég ekki samvisku í að liggja í leti lengur og fékk hekkklippurnar lánaðar hjá Sjonna bró. Ég réðst á runnana og þar var af nógu að taka. Vöðvabólgan leyfði ekki að ég færi allan hringinn svo ég klára það í dag en þetta var til þess að ég druslaðist á dýnuna og gerði jógaæfingar til að liðka mig og vaknaði óvenju snemma í morgun og skellti mér á dýnuna. Ég er alveg svakalega stirð þessa dagana en það stendur til bóta. Nú styttist í að ég byrji með tíma í íþróttahúsinu og svo er ég að horfa til Reyðarfjarðar líka. Þá liðkast nú skrokkurinn fljótt. Þegar Dýrunn sá runnann sagði hún "Vá, þetta er alveg eins og í Over the hedge" og fyrir foreldra sem hafa séð þá mynd getið þið ímyndað ykkur hvað runnarnir voru flottir hehe.
Leiðin liggur norður um næstu helgi og er Friðrik að fara að keppa á Króksmótinu. Það er nú líkast til mikill spenningur og tók kappinn sig til og lét klippa sig um daginn alveg stutt. Vinur hans kom stuttklipptur heim eftir sumardvöl fyrir sunnan og honum leist miklu betur á að hafa svona stutt. Ó þetta gladdi móðurina mikið því á hverjum degi var ströggl og barátta við að greiða lubbann og það var ekki alveg skilningur á að þó menn séu að safna þá þarf samt að snyrta hárið mjög reglulega o.s.frv. Það besta er að þetta var hans ákvörðun
Sendi ykkur sólarkveðjur inn í daginn.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Kölnarferð, taka tvö...
Sunnudagur, 5. ágúst 2007
Heil og sæl... það er mjög gaman þegar maður er kominn inn í miðjan pistil og tölvan tekur upp á því að endurræsa sig í miðju kafi. Ég var sem sagt langt komin með Kölnarferðasöguna mína og ekki búin að vista og því er það taka tvö og nú skal vistað reglulega.
Ég flaug sem sagt út til Þýskalands 26. júlí sl. og lenti í Frankfurt í blíðskaparveðri. Við tók rútuferð með Herbahópinn og hún tók um þrjá tíma. Það hafði gleymst að gera ráð fyrir nestis og pissustoppi svo sumir voru orðinir svangir og pissuþurfi þegar á áfangastað kom. Ég var í góðum málum og las Arnald á leiðinni, hlustaði á tónlist, dottaði og horfði á fallegt landslagið sem þaut framhjá.
Köln tók á móti okkur með allra besta móti og ferðin á hótelið okkar gekk eins og í sögu. Þetta var mjög fínt hótel í hjarta borgarinna og nokkurra mínútna gangur hvort sem var í göngugöturnar eða að dómkirkjunni. Við vorum sjö saman á þessu hóteli og héldum hópinn mest ásamt því að hitta fleiri úr fjölskyldunni okkar. Ég var ein á herbergi og þótti þótti það skrýtið til að byrja með en fannst það brátt alveg yndislegt, gat haft dótið mitt þar sem mér hentaði, farið í sturtuna þegar mér hentaði og allt eftir því Við ákváðum að slaka okkur aðeins áður en við færum að skoða borgina og skola af okkur mesta ferðarykið. Ég ætlaði að láta verðmæti mín í öryggishólfið sem átti að vera svo einfalt og þægilegt en þá var það bilað. Ég fékk sendan viðgerðarmann sem vissi ekkert í sinn haus og festi lykilinn í skápnum í öllu brasinu. Hann bauð mér nýtt herbergi en ég var búin að koma öllu mínu dóti inn í skáp nennti því ekki og þá reyndi hann aðeins betur og náði lyklinum. Hann sagði að klukkan átta næsta morgun kæmi viðgerðarmaður. Ég hafði ekki planað að sofa út svo ég sætti mig við það.
Við borðuðum á ítölskum útiveitingastað við Rínarfljótið og má segja að það hafi verið upphafið af ítölsku þema ferðarinnar hehe. Þarna erum við Halldóra Skúla sem er uppupp-
uppupplínan mín en við hittum þau hjónin á leiðinni niður í bæ og borðuðum með þeim. Að sjálfsögðu fengum við góðan mat og drykki með. Á eftir röltum við um miðbæinn. Köln er ekki svo stór og mjög notaleg. Við skoðuðum verslunargöturnar og röltum svo hver til síns heima. Áætlað var að taka föstudaginn snemma og hittast í morgunverði upp úr níu. Ég daðraði aðeins við Arnald (var að lesa KOnungsbók) áður en ég fór í háttinn og setti á mig maska og fótakremið góða og enginn kvartaði yfir mentol lyktinni hehe. Ég komst líka að því að öryggishólfið virkaði.
Morguninn eftir vaknaði ég um áttaleytið, gerði jógaæfingar í hálftíma eða svo og ætlaði svo að skella mér í sturtu og var að stíga inn í klefann. Þá var bankað á dyrnar og þar var viðgerðarmaðurinn kominn, eiginlega voru þeir tveir. Ég sagði kokhraust að hólfið virkaði, ég væri búin að prófa nokkrum sinnum og allt væri í góðu lagi. "Prófaðu aftur" sagði annar og ég gerði það, allt í góðu. Þeir fóru því blessaðir og ég í sturtuna. Þegar ég var búin að sjæna mig og var að ganga frá dótinu mínu í hólfið þá var það allt í einu hætt að virka... Ég var því svolítið skömmustuleg þegar ég sagði í lobbýinu að það væri eiginlega bilað ennþá.
Jæja, morgunverðurinn var flottur maður lifandi en þar sem Herbalife er minn morgunverður fékk ég mér safa út í sjeikinn og slatta af ferskum ávöxtum. Þarna var hlaðborð af alls konar kræsingum og tvö risastór læri með einhverju reyktu kjöti, brauð og alls kyns álegg. Við vorum langt komin í morgunverðinum þegar sambýlingar okkar af hótelinu mættu og þær vissu að þar sem herbergin okkar voru á einhverju tilboði þá var morgunverður ekki innifalinn. Óboy, hann kostaði 18 evrur og ég með minn safa og ávexti. Ég fór þá eina umferð enn og fékk mér meiri melónur því reyktar pylsur og brauðmeti fer ekki í minn maga svona snemma dags. Við nenntum nú ekki að svekkja okkur á þessu og þetta var einn af bröndurunum sem flugu það sem eftir var ferðar en morgunmaturinn var framvegis tekinn uppi á herbergi í safa sem kostaði innan við evru.
Núna skelltum við okkur í skráninguna. Tókum lest yfir Rín upp á ráðstefnusvæðið sem var þarna rétt hjá. Það voru aðeins 18.500 manns á ráðstefnunni svo það voru svolítið margir að skrá sig. Við stóðum í röð í rúma tvo tíma áður en við gátum skráð okkur og eftir það var brunað í snarl í bænum.
Við höfðum föstudaginn alveg lausan svo við þvældumst í bænum, skoðuðum í búðir og versluðum eitthvað, við náðum rétt í endann á útsölum en annars er ekkert ódýrt að versla þarna. Veðrið var fínt og ljómandi hlýtt. Hver um sig slakaði á seinnipartinn og skolaði af sér. Ég tók smá stund með Arnaldi og fótakreminu og náði nokkrum spennandi köflum áður en við hittumst í lobbýinu. Við vorum fimm sem ætluðum að borða saman þetta kvöld og ákváðum að leita ekki langt yfir skammt, fórum yfir götuna á næsta ítalska veitingastað. Við gleymdum eiginlega að skoða matseðilinn og vorum sest og búin að panta drykki þegar við komumst að því að þetta var mjög fansy staður og dýr eftir því. Forréttirnir voru á við aðalrétti á öðrum stöðum. Við gerðum gott úr því og þegar við höfðum fengið þýðingu á illskiljanlegum matseðli pöntuðum við okkur forrétt. Menn voru mis ánægðir með útkomuna, ég fékk smásmokkfisk á salatbeði og það var alveg ágætt enda er ég mjög umburðarlynd gagnvart framandi réttum. Hvítvínið var ljómandi gott og þegar upp var staðið var fínt að hafa bara borðað léttmeti. Við sátum úti á verönd smá stund áður en hver fór í sitt herbergi. Sumir fóru reyndar í partý en ég ætlaði mér að taka þátt í fjölskylduhlaupi Herbalife daginn eftir svo ég vildi hvíldina.
Það var ræs klukkan sex og ég hitti Þuríði niðri í lobbýi hálf sjö. Svo örkuðum við af stað. Ekki var veðrið skemmtilegt því það rigndi og þokan lá yfir öllu. Við þurftum að taka eina lest og fundum stöðina skammlaust. Við eigum það báðar sameiginlegt að vera ekki með mjög virkan áttavita og tókum lestina í vitlausa átt til að byrja með, áttuðum okkur á fyrstu stöð og snérum við. Upphitunin var byrjuð en vegna rigninar var startað 20 mín yfir sjö í stað hálf átta.
Þarna erum við skvísurnar rétt fyrir startið með Herbalife og Dómkirkjuna í baksýn. Ég náði að slá persónulegt með og ég skokkaði alla leið (5 km) utan tröppurnar upp á aðra brúna sem við hlupum yfir. Ég var svo aum í mjöðminni þá en það jafnaðist við að ganga tröppurnar. Ég tók nú ekki tímann en ef ég kem mér í betra hlaupaform þá geri ég það kannski næst.
Nú svo var spretturinn heim og nú vorum við svolítið áttaviltar á lestarstöðinni og vissum ekkert í hvaða átt hótelið var, kortið orðið blautt og illlæsilegt og við í miklum spreng að komast á klósettið í stærri og minni verk. Þar sem ég er nú slarkfær í þýskunni spurði ég til vegar og við komumst heim. Þá var það skyndisturta og svo lestin upp í ráðstefnuhöll. Það mátti ekki tæpara standa því við gengum að sætunum okkar þegar Tina Turner hljómaði en Simply the best er upphafslag á öllum Herbalife viðburðum um allan heim. Ísland var í VIP sætum sem þýddi að við vorum á besta stað og þurftum ekki að berjast um sæti. Ég sat alveg fremst fyrsta daginn og það var mjög gaman. Ég stóð reyndar í smá basli með stóra fánann minn en var orðin nokkuð lunkin með hann seinni daginn hehe. Þarna fékk litla Ísland heilmikla viðurkenningu frá forstjóra fyrirtækisins og fleirum svo það var stolt hjarta sem barðist um hjá manni.
Þetta er bara gaman og mikil vítamínsprauta. Eftir ráðstefnuna hittumst við á hóteli rétt hjá og fengum okkur smá drykk meðan mesta þvagan var að minnka hjá lestunum, fórum heim á hótel og á ítalskan veitingastað nr. þrjú Hann var rosa fínn, frábær matur, góð þjónusta og mikið hlegið. Arnaldur fór með mér í rúmið að venju fyrst ég hafði ekki Jósef og nú var spennan farin að magnast.
Annan ráðstefnudaginn vorum við grand á því og tókum leigubíl því það rigndi svo mikið. Þessi dagur var ekki síðri og að fá þjálfun frá sjálfum Jim Rohn er ómetanlegt. Það var hlegið og grátið þann daginn og mikið glósað.
Síðasta daginn borðaði stórfjölskyldan saman þ.e. HM grúbban svokallaða með Halldóru og Maríus í fararbroddi og nú var það þýskur staður rétt við dómkirkjuna. Þar fengum við þýskan mat sem var allt í lagi en persónulega hef ég aldrei verið fyrir þýska matargerð, sorrý en það var mikið fjör á mannskapnum og í lokin skelltum við okkur á írskan pöbb og hlustuðum á misgóða karókí söngvara.
Á mánudag þvældumst við í bænum og kíktum í búðir, héldum síðan heim á leið. Nú lá leiðin í rútunni til Einthoven svo ég get sagst hafa komið til Hollands, alltaf að bæta löndum á listann. Við lentum heima rétt undir miðnætti. Ég kúrði hjá Sóla og Hafdísi, tók svo flugið heim seinnipart þriðjudags og á Egilsstaðaflugvelli beið fjölskyldan eftir mér en þau dvöldu á Akureyri meðan ég var í útlöndunum. Núna er mikil pressa frá smáfólkinu að fá að fara með á næstu ráðstefnu sem verður í Barcelona og Friðrik vill fá að taka þátt í 5K hlaupinu eins og Jökull vinur hans frá Eskifirði. Hver veit nema við getum leyft okkur það á næsta ári.
Segi þetta gott í bili og læt inn sólarlagið á flugvellinum í Einthoven.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
-Mosfell í blíðunni-
Mánudagur, 23. júlí 2007



Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Áfram með klukkið...
Föstudagur, 20. júlí 2007
Þetta er eiginlega framhald af fyrri færslu því í klukkinu felst að sá sem er klukkaður á að skrifa 8 staðhæfingar um sjálfan sig. Hér koma þær:
Solla
Yngsta dóttir Sollu og Frissa, örverpið eða gólfsópið eins og pabbi sagði.
Er glaðlynd og ljós yfirlitum.
Gift Jósef og á með honum börnin Friðrik og Dýrunni, fékk Höllu með í bónus :)
Flutti á heimaslóðirnar fyrir níu árum
Ferðast gjarnan og þykir gaman að elda (og borða) góðan mat
Hef áhuga á hreyfingu og hollum lífsháttum og stunda jóga mér til ánægju og heilsubótar
Er stoltur Herbalife dreifingaraðili
Starfa við kennslu: sérkennslu í skólanu, jógakennari og kenni fólki í Herbalinu
.... hvað eru komin 8 atriði og ég var rétt að byrja. Hallhildur, Helga og Fjóla lesið pistilinn hér fyrir neðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)