Gleði gleði
Þriðjudagur, 9. október 2007
Nú er daman orðinn jógakennari. Ég eyddi helginni með samnemendum mínum og kennurum á Hellnum á Snæfellsnesi og þar lukum við 200 stunda jóganámi sem hefur staðið frá því í mars á þessu ári. Þessa fjóra daga lærðum við og kenndum og lærðum enn meira. Yogi Shanti Desai, kennari Guðjóns og kona hans komu frá Bandaríkjunum og hann kenndi okkur þessa fjóra daga. Upplifunin verður ekki sett í orð en þetta var í einu orði sagt yndislegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Fatasund ??
Mánudagur, 1. október 2007
Vinkona mín frá Eskifirði hringdi í mig til að athuga hvort við yrðum heima á sunnudaginn. Já sagði ég en krakkarnir fara í fatasund og ég veit ekki alveg klukkan hvað. Fatasund? hváði hún skiljanlega en í mörg mörg ár hefur það verið til siðs að síðasta opnunardag sundlaugarinnar mega krakkarnir mæta í sund í fötunum. Eftir þessum degi er beðið allt sumarið og það er sannarlega fjör. Súlan býður upp á grillaðar pylsur og það má meira að segja borða ofan í lauginni og í heita pottinum.
Stóru strákarnir reyndu mikið að ná fullorðna fólkinu út í og það tókst að koma Hönnu Björk, Jóna Petra gat skýlt sér bak við Ísar litla og slapp inn í klefa. Sumir af eldri kynslóðinni fóru samt sjálfviljugir og eins og sjá má á myndinni og ég veit að Hafsteinn er einn af þeim sem hvað duglegastur hefur verið að heimsækja laugina í sumar. Með honum í pottinum eru Dýrunn og Kolbrún Björk.
Nú lokar laugin og opnar í maí á næsta ári. Það er alltaf svolítill söknuður en þá er bara að finna aðrar laugar í nágrenninu. Stöðfirðingar mættu nú vera duglegri að nýta sér laugina þessa fáu mánuði meðan hún er opin, skammarlegt hve fáir mæta. Ég var dugleg framan af, svo dalaði það en mikið lifandi skelfing er það slakandi að skella sér í pottinn.
Það er annasöm vika framundan hjá mér. Ég var nú búin að starta stafgöngunámskeiði á þriðjudag en þarf að fresta því fram í næstu viku þar sem ég var búin að ákveða að fara á kynningarfyrirlesturinn sem Guðjón Bergmann heldur á Reyðarfirði á morgun. Ég byrja þá næsta þriðjudag, kem beint úr vélinni eftir lokin á jóganáminu sem verða núna um helgina á Hellnum á Snæfellsnesi Hlakka mikið til. Jóganámskeiðið hér er í fullum gangi og fjögur skipti eftir. Stelpurnar í Breiðdalnum eru búnar með byrjendanámskeiðið og mikill áhugi að halda áfram. Þær geta komið í tímana hér á Stödda og svo auglýsi ég námskeið hér og á Breiðdalsvík upp úr miðjum okt. Frábært.
Eitt flott spakmæli í lokin úr bókinni Hjálpaðu sjálfum þér eftir Louise Hay
"Það er gleði og unaður að sá nýjum fræjum því að ég veit að upp af þeim sprettur ný reynsla".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Grafíksetrið
Laugardagur, 29. september 2007
Í gær opnuðu Sólrún sys. og Rikki mágur stórglæsilegt grafíksetur. Unnið hefur verið við framkvæmdir nótt við dag síðustu daga til að klára verkið. Útkoman er vægast sagt góð. Þau opnuðu sýningu í Gallerýinu og þar hafa líka farið fram breytingar, búið að stækka rýmið svo það bíður upp á marga möguleika. Boðið var upp á léttar veitingar og margir mættu á svæðið.
Hér sjáið þið byggingarsöguna í myndum. Þetta er náttúrulega bara flott. Smellið á myndina og þá sjáið þið hana stærri. Kíkið líka á myndirnar hennar Sólrúnar á linknum hér til vinstri, Sólrún sys.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stafgangan
Laugardagur, 29. september 2007
Þegar ég stóð við íþróttahúsið tíu mínútur í ellefu í morgun og beið eftir að stafgangan byrjaði hugsaði ég, "við verðum að minnsta kosti tvær" því ég vissi 100% að Gurra myndi koma. Skyndilega fór fólk að birtast úr öllum áttum og það mættu 10 manns, níu konur og einn herramaður, algjörlega frábært.
Þegar búið var að stilla stafi og þvíumlíkt útskýrði ég bakgrunninn og hvað stafgangan gerði fyrir líkamann og svo byrjuðum við á grunninum, upphitun, svo sporinu og handasveiflunni. Þær prófuðu að sjálfsögðu Travolta sveifluna og Gurra var svo heilluð af henni og lifði sig svo inn í hana að hún var að spá í að fá sér glimmergalla til að ganga í. Svo gengum við sem leið lá út úr þorpinu og að afleggjaranum upp að Hrafnakambi, í gegnum Nýgræðinginn og enduðum á tjaldstæðinu. Stutt en hressandi ganga enda er tilgangur með kynningu sem þessari að leyfa fólki að finna hvað gangan gerir og svo eru teknar lengri göngur á námskeiðum smátt og smátt. Enduðum með teygjum og Bergtoppi í boði Súlunnar og próteinbari frá mér. Sjö skráðu sig síðan á byrjendanámskeið og hver veit nema það bætist í hópinn.
Hér sjáið þið nokkra göngugarpa og fallegu haustlitina í Nýgræðingnum. Hann skartaði svo sannarlega sínum fallegustu haustlitum.
Á morgun og hinn er lestrardagur því nú undirbýr daman sig undir lokasprettinn í jógakennaranáminu. Ég fer suður á fimmtudag og hitti hópinn á Hellnum á Snæfellsnesi þar sem við eyðum fjórum dögum í nám og jóga og enn meira jóga. Gaman gaman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
"Stafgöngudagurinn"
Fimmtudagur, 27. september 2007
Já hann er á laugardaginn 29. sept. Mæting klukkan 11 við íþróttahúsið í svaka stuði. Á eftir verður boðið upp á hressingu í boði Súlunnar og Sollu. Ef ykkur langar að vita meira um daginn er hægt að smella á www.isi.is og þar er stafgangan á forsíðu.
Svo mæta menn með stafgöngustafi (þá sem menn eiga hvurslags tegundar sem þeir eru) en ekki bókstafi eins og einn gárungur (kvenkyns reyndar) var að pæla í. Það má hafa þá í vasanum en hina í höndunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vantar góða fjölskyldu handa Sóla litla !!!
Mánudagur, 24. september 2007
Góðan daginn á mánudagsmorgni. Já nú fer að líða að því að Sóli litli kettlingurinn okkar verði tveggja mánaða og þar með tilbúinn að eignast nýja fjölskyldu. Ef þið vitið um gott fólk sem langar að eignast kisustrák og er tilbúið að hugsa vel um kisustrákinn látið mig endilega vita. Hann er rosalega duglegur, orðinn kassavanur og duglegur að borða. Hann er líka rosa sætur eins og sést hefur hér á myndum úr fyrri færslum. Setjið þetta á bak við eyrað.
Helginni eyddi ég í Reykjavíkinni, flaug á föstudagsmorgni og lét skoða augun í mér. Þau líta vel út nema það er smá skekkja sem ekki tókst að laga svo ég fer í aðra aðgerð í október. Ég finn aðeins fyrir þessu sérstaklega þegar ég þarf að reyna á augun og þá er stundum eins og þau séu ekki alveg að tala saman.
Þessi augnskoðun var að sjálfsögðu tengd Herba skóla og aðgerðin í okt verður það sömuleiðis. Ég hitti fólkið úr mínum nánasta samstarfshóp á föstudagskvöldið og við lékum okkur svolítið saman Á undan skellti ég mér í jógatíma hjá stelpu sem er með mér í náminu og er með jóga í Sporthúsinu. Það var ótrúlega skondið. Það er oft óþægilegt að koma á nýja staði, rata ekki, vita ekki hvar búningsaðstaðan er og hvað þá salurinn. Mér var bent niður og þar tók á móti mér risastór salur fullur af tækjum og fólki að púla undir dúndrandi tónlist. Þetta þótti mér ólíklegur staður fyrir jóga svo ég fór upp, hún sendi mig aftur niður og þá fann ég sal þar sem eitthvað mega púl var að klárast. Ég stóð þar og beið og horfið á ansi huggulega stráka lyfta lóðum í gríð og erg. Svo þegar mér þótti þetta eitthvað grunsamlegt fór ég upp og hitti Ágústu sem átti að vera með tímann. Tíminn átti að vera þarna niðri því salurinn hennar var upptekinn.
Við fórum því í þennan stóra og svitablauta sal með gjörsamlega ómögulegum dýnum til jógaiðkunar. Þetta var því hálfgerður funk tími því dúndurtónlistin yfirgnæfði rólegu tónlistina sem hún var með, ég nota tónlistina hans Mika þegar ég fer á kraftgöngu en ekki í slökun ótrúlega fyndið. Ég fékk samt heilmikið út úr tímanum en aumingja hinar níu konurnar sem voru allar að koma í fyrsta sinn. Ágústa var í hálfgerðu sjokki greyið.
Herbal skólinn var mikið hleðsla og ég tók ákvörðun að skrá mig á World TEam Dublinarskólann í Nóv. Ég var búin að selja mér þá hugmynd að ég kæmist ekki en svo ætla ég að komast og þá er bara að spýta í Herbal lófana. Ég þarf að spýta tvöfalt því mig dauðlangar að taka Jósef með.
Ég átti svo góða stund með vinkonum mínum úr einum saumaklúbbnum mínum um kvöldið. Mikið spjallað og hlegið.
Nú er vikan að komast á fullt, mánudagssæludagur og ég að fara að lyfta tuskunni á loft, ryksuga og þurrka af áður en ég fer að starfa í Herbalinu og öllu hinu.
Njótið vikunnar.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
- Stafgöngudagurinn 29. sept-
Þriðjudagur, 18. september 2007
Ég hef varla lokið fyrri hluta stafgöngunámskeiðsins þegar ég skelli mér beint út í djúpu laugina. Búin að staðfesta við ÍSÍ að ég taki að mér kynningu á stafgöngu á Stöðvarfirði þann 29. sept á afmælisdegi Sóla bróður og Stjána mágs (smá útúrdúr reyndar).
Nánari auglýsingar birtast síðar. Þetta er sem sagt kynning á stafgöngu, farið í grunnatriði og gengið. Þar sem ég á nú ekki stafasett, er nýbúin að fjárfesta í alvöru stöfum sjálf þá draga menn fram stafina úr geymslunni því þeir eru til víða, dusta af þeim rykið og finna íþróttaskóna og mæta á staðinn. Þarna eru allir byrjendur og allir jafn góðir.
Ég er enn með smá strengi eftir laugardaginn, ekki skrýtið þar sem gangan hreyfir mikið við efri hluta líkamans og það er svæðið sem ég þarf að losa um bólgur og vesen. Það er alltaf vont áður en það fer svo að verða betra.
Venlig hilsen í bili og allir út að ganga með stafina sína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Vetur í nánd ...
Sunnudagur, 16. september 2007
Alltaf kemur það jafn flatt upp á mann þegar haustið og veturinn gerir innreið sína. Síðustu daga hafa fjöllin verið grá niður í miðjar hlíðar, "Kári" blæs eins og hann getur, ég kveiki á ofnunum og hækka á öðrum til að fá yl í húsið og allt eftir því. Svo brýst blessuð sólin fram og ég fer ofnahringinn aftur því þó hún sé lágt á lofti þá hitar hún vel inn um stóru gluggana mína. Ég lækka því á nokkrum ofnum og slekk á sumum Gaman að þessu.
Nú á sunnudegi slaka ég á eftir annasama vikurest. Ég fór á Djúpavog á fimmtudag á trúnaðarmannanámskeið, keyrði heim á leið seinnipartinn og kenndi jóga á Breiðdalsvík, komst heim áður en varað var við að fólk væri á ferð í Berufirði. Á föstudag var Haustþing kennara og þá var aftur brunað á Djúpavog. Þar dvöldum við allan daginn. Setningu seinkaði því flug lá niðri á fimmtudeginum og fyrirlesarar komust ekki á réttum tíma. Skipti ekki máli því þá náði fólk meiri tíma í spjall. Ég fór á mjög skemmtilegan fyrirlestur um heimspeki með börnum og við vorum leidd í gegnum eina heimspekistund. Svakalega spennandi viðfangsefni. Eitthvað sem ég vildi sjá meira í skólastarfinu og gera mig hæfari í varðandi mín börn því við erum allt of mikið að gefa þeim svörin í stað þess að hvetja þau til að hugsa sjálfstætt og finna leiðirnar, með hvatningu og að á þau sé hlustað.
Þetta var líklega eitt fámennasta þing sem ég hef setið því í einhverjum skólum er óánægja með hitt og þetta og dittinn og dattinn. Það verður eflaust tekið til endurskoðunar af stjórninni. Við létum það ekki á okkur fá, leigðum herbergi þegar aðalfundurinn var búinn og sjænuðum okkur áður en kvöldverðurinn hófst. Borðhaldið var virkilega skemmtilegt, mjög létt yfir mannskapnum og allir lögðu sitt af mörkum til að gera það sem best. Maturinn var skelfilega góður, ég féll gjörsamlega fyrir sjávarréttasalati og kjötið barasta varð gjörsamlega að víkja, þó ég hafi smakkað og þótt gott.
Við fórum heim eftir borðhald og ég var komin heim undir miðnætti. Í gær var svo fyrri hluti leiðbeinendanámskeiðsins í stafgöngu sem ég fór á á Reyðarfirði. Jóna Hildur frá ÍSÍ fór með okkur í undirstöðuatriðin. Við æfðum tækniatriðin að sjálfsögðu úti, vorum myndaðar fyrst og í lokin og ótrúlegur munur. Þetta var ofsalega gaman og ég hlakka til að spreyta mig á að ná tækninni betur og kenna hana líka því við kennum lágmark tíu tíma áður en við hittumst aftur í nóvember og ljúkum námskeiðinu. Ég finn aðeins fyrir skrokknum í dag enda er verið að taka á öðrum vöðvum en vanalega. Fyrir mig verður þetta góð viðbót með jóganu.
Sólmundur litli er í kassaþjálfun þessa dagana, svæði hans hefur verið takmarkað svo það sé auðveldara að fylgjast með þegar hann byrjar að klóra úti á miðju gólfi eða horni. Stundum skrönglast hann sjáflur að kassanum en hittir ekki alveg greyið. Hann verður athafnasamari með hverjum degi og er alveg gjörsamlega yndislegur. Það er eitthvað við ungviðið hvort sem það eru menn eða dýr sem bræða í manni hjartað. Það er gott.
Fótboltakapparnir láta veðrið og kuldann ekki á sig fá og strákarnir búnir að sparka niðri á velli drjúga stund í dag. Þar skipti aldurinn ekki máli og Friðrik og Eyþór voru þeir yngstu (í þriðja bekk) og þeir elstu á menntaskólaaldri. Ekki leiðinlegt að fá að spila með svona stórum strákum. Þessi völlur er frábær og hefur aukið heilmikið útiveru þessara patta. Sumir kvarta yfir svörtu gúmmíkornunum sem hellast úr skónum og fylla forstofur og leynast hér og þar um húsið. Iss, flestir eiga ryksugur og þau sogast vel upp í þær.
Speki dagsins kemur aftur úr bókinni "Þú ert það sem þú hugsar" sem er komin í annað sæti yfir söluhæstu bækur hjá Pennanaum og Eymundsson.
Inngangsorð 3. kafla um sjálfstraust.
"Hugrekki felst í því að framkvæma eitthvað
sem þú óttast að gera. Ekkert hugrekki getur
orðið til án ótta". - Eddie Rickenbacker, flugmaður
Hafið það eins og þið viljið ......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
-30 tímar-
Miðvikudagur, 12. september 2007
Jibbí, ég er búin að kenna þá þrjátíu tíma sem mér var ætlað að kenna að lágmarki frá apríl og fram í október í jóganu. Ég kenndi hann á byrjendanámskeiðinu á Breiðdalsvík í gær. Að sjálfsögðu sit ég ekki með hendur í skauti heldur held áfram með námskeiðin mín af fullum krafti. Októbernámskeið er ég farin að plana þ.e. þegar hinum tveimur lýkur og það verður spennandi að sjá hvernig fer.
Nú situr iðkunin í fyrirrúmi þ.e. þau skipti sem mér var ætlað að gera privat og persónulega á þessu tímabili. Gula bókin hans Yogi Shanti Desai fylgir mér hvert sem ég fer og ég hugsa að ég taki mér upplestrarfrí vikuna fyrir lokin á náminu því það er svolítið óþægilegt að vera alltaf að hlaupa í að lesa yfir daginn. Á kvöldin er ég orðin of þreytt til að taka inn mikla heimspeki enda dagurinn langur.
Græni liturinn er kominn á sinn stað, fyrsta umferð og sú seinni skellist á við fyrsta tækifæri.
Framundan eru annasamir dagar, ég verð á trúnaðarmannanámskeiði á morgun, kennaraþingi á föstudag á Djúpavogi og á stafagönguleiðbeinendanámskeiði (svakalega flott orð) á laugardag. Ætli ég taki ekki hvíldardaginn heilagann og slaki á með fjölskyldunni minni.
Enda á snilldar línum af diskinum Eniga Meniga sem ég hlustaði á í ræmur þegar ég var lítil og er uppáhaldsdiskurinn hjá Dýrunni...
"Galdurinn er að geta brosað, geta í hláturböndin tosað, geta hoppað, hlegið, sungið endalaust....."
Ég brosti í hið minnsta þegar við hlustuðum á þetta í gær
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Jósef fór að mála og þá.....
Laugardagur, 8. september 2007
... kom þokan og úði. Verkið mjakast rólega áfram, hægt en örugglega enda vanur málari á ferð. Ég hlakka mikið til þegar græni liturinn verður kominn (sameiginlegt áhugmál hjónanna samofið, þ.e. Herbalife og Framsókn , frúin á það fyrra, vissara að það komi fram). Stefnan er að sá græni birtist á framhliðinni á morgun ef hann hangir þurr og aldeilis tækifæri fyrir fólk úr öðrum hverfum að fara á rúntinn og skoða dýrðina.
Ég var með Uppsalakonunum á Fáskrúðsfirði í gærkvöldi og þær fengu smá tilfinninganámskeið hjá mér. Það er úr efni sem heitir Baujan og ég er að kenna í skólanum um þessar mundir. Að sjálfsögðu er ekki hægt að fara í djúpar pælingar á svo stuttum tíma en þær réttu úr sér og önduðu djúpt í lokin og ef það er það sem fylgir þeim áfram er ég mjög sátt. Ég borðaði með þeim og var með allan tímann. Það var mjög gaman, farið í ýmsa leiki og sprellað. Nefndin hafði lagt mikla vinnu í undirbúning og matargerð og ég get ekki trúað öðru en allar hafi þær verið sáttar. Í lokin fengum við meira að segja flugeldasýningu.
Þar sem ég hef lítið verið að senda inn spakmæli upp á síðkastið ætla ég að gefa ykkur eitt gott. Það er úr bókinni "Þú ert það sem þú hugsar" eftir Guðjón Bergmann jógakennarann minn og byggir á samnefndu námskeiði sem hann er að halda um allt land. Ég er ekki að lesa hana þessa dagana (hljómar vel) því núna er ég að lesa jógaheimspekina hvenær sem færi gefst áður en við ljúkum náminu í byrjun okt. Ég hef gluggað í hana og rifjað ýmislegt upp af námskeiðinu sem við hjónin fórum á í vor.
Fyrirsögn fjórða kafla sem heitir "Hinar sjö mannlegu þarfir":
"Stefndu að framförum ekki fullkomnun... Mundu að alltaf býr ótti að baki fullkomnunaráráttu. Með því að horfast í augu við eigin ótta og gefa þér leyfi til að vera mannlegur geturðu, þótt mótsagnakennt sé, orðið mun ánægðari og framsæknari manneskja. - David Burns, sálfræðingur
Hægt er að nálgast upplýsingar um þessi námskeið á www.gbergmann.is Þar er hægt að skrá sig á póstlista og fá upplýsingar um ýmis námskeið. Austfirðingum til fróðleiks þá kemur námskeiðið aftur austur í október, nú á Reyðarfirði og það verður kynningarfyrirlestur þar fyrir námskeiðið öllum að kostnaðarlausu, þannig að ef menn eru ekki vissir hvort þeir vilja fara er flott að fara á svona fræðslu fyrst.
Ég er ekki á prósentum hehe, mér finnst þetta bara svo skemmtilegt efni og vil koma því sem allra mest áfram til þeirra sem mér þykir vænt um.....
Bloggar | Breytt 10.9.2007 kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)