Stafganga og strengir

Já maður lifandi töluvert miklir strengir skal ég segja ykkur. Ég kláraði seinni hlutann á leiðbeinandanámskeiðinu í stafgöngu í gær. Fyrri hlutinn var verklegur og okkur kenndar ýmsar æfingar sem við getum notað fyrir framhaldshópa, einfaldar leiðir til að skella upp stöðvaþjálfun nánast hvar sem er og alltaf nýtast stafirnir í æfingarnar, mjög skemmtilegt. Við gengum líka góðan spöl og tókum spretti og ýmis form af þolþjálfun. Þolið var fínt en í dag hafa læðst í mig strengir, aðallega í lærin og vöðva framarlega innanlæris eftir framstigið úr stöðvaþjálfuninni svo það er erfitt að fara niður tröppur, einnig aftan í upphandleggnum eftir eina góða.

Mér finnst samt alltaf gott að fá strengi því þeir segja mér tvennt, ég er ekki alveg í toppformi hehe og að ég hef tekið á. Tounge

Veðrið hér í dag er alveg yndislegt, kalt, logn, sólskin og hvít jörð. Við Friðrik skelltum okkur á stafgöngu í morgun og sá hraði hentað mér því stengirnir leyfðu ekki mikinn kraft. Gott að liðka sig aðeins. Friðrik er ansi liðtækur með stafina og nær nokkuð að ganga með góðri samhæfingu handa og fóta en svo fylgdu með fótskriður og tilheyrandi flug á stöfunum enda meira til gamans fyrir hann að fá að hafa þá.  Nýgræðingurinn skartaði sínu allra fegursta en strípaði hlutinn sem sógræktarfræðingurinn snyrti svo hressilega í vor er ansi dapurlegur, skil ekki alveg fræðin sem liggja þar að baki en ég er ekki skógræktarfræðingur heldur. 

Sólin skein á snjóinn og hann glitraði eins og milljónir kristalla lægju þarna á víð og dreif. Við komum svo heim með frosnar tær og kaldan nebba og héldum áfram með gluggamyndirnar sem er aðal áhugamál barnanna (og móður) þessa dagana. Ég keypti liti til að útbúa gluggamyndir og nú er teiknað og teiknað.

Reyndar er jólagírinn óðum að hellast yfir okkur og ýmislegt farið a planleggja, piparkökuhús og jólakortagerð svo fátt eitt sé nefnt. Búið að taka myndina í jólakortið og hún komin í fjölföldun. Ég hef ekki föndrað jólakortin í fjöldamörg ár hvað þá skrifað í þau, bara pantað tilbúin en núna langaði mig að gera þau sjálf. Það verða engar miklar krúsídúllur og krakkarnir fá sem mest að setja þau saman, einfalt.

Læt þetta gott heita í bili.... kannski kemur eitthvað frá mér fyrir Dublinarferð eða ekki Grin


"Litli bróðir og stóri bróðir"

Bikarar 001Haldið ekki að mín skarti þessum fínu verðlaunabikurum þessa dagana. Sá litli fyrir einstaklingsárangur í liðakeppni í Herbalife hópnum sem ég starfa í og hinn fékk liðið okkar. Reyndar eru þetta farandbikarar og spurning hvort þeir yfirgefa okkur, það fer eftir því hvað við vorum duglegar í okt. ekki er enn búið að reikna saman stigin. 

Ég fægi þá og pússa á hverjum degi og dáist að hehe. Það er gaman að fá viðurkenningu fyrir vel unnin störf og er smá krydd í tilveruna.

Nú styttist í næstu Herba ferð og nú fær bóndinn að koma með. Stefnan er tekin á svokallaðan World Team skóla og að þessu sinni verður hann haldinn í Dublin á Írlandi. Þetta er bara gaman og svakalega fræðandi.

Spil dagsins úr bunkanum hljóðar svo:

HAPPINESS is my partner today-   Ekki slæmur ferðafélagi það.

Megið þið eiga sem bestan þriðjudag Cool


Ný vinnuvika

Ótrúlegt hvað það er gott að komast aftur í rútínu hinnar hefðbundnu vinnuviku. Ég veit það eru ekki allir sama sinnis og þá er kannski spurning hvort það þurfi að breyta um starfsvettvang. 

Helgin okkar var annasöm en mjög skemmtileg. Fjölskyldan kom saman á föstudagskvöld og eins og við gerum þegar við hittumst öll þá leggja allir í púkk, einhver kemur með salatið og brauð, annar með rétt og annar með annan rétt osfrv. nammi namm. Tilefnið var austurferð Sóla og Hafdísar. Þetta var mjög notaleg stund og dýrmætt að geta átt svona gæðastundir saman.

Nú við gjörnýttum gestina og þau pössuðu meðan við skelltum okkur á Höfn og fórum á árshátíð Eimskips. Það var ekki síður skemmtilegt, góður matur, skemmtileg sýning, skemmtilegur félagsskapur og gott ball. Ég dansaði og dansaði og kom bæði blá og marin og blóðrisa heim. Komst að því að á svona samkomum er ekki gott að vera á skóm með lágum hælum því flestar voru á stígvélum með manndrápshælum svo hælarnir á mér fengu að kenna á því.  Ég lét það nú ekki á mig fá og dansaði áfram þar til ballið var búið.

Við gistum og vorum komin heim á Stödda upp úr hádegi.  Fleiri góðir gestir voru á svæðinu Auður og Palli kíktu í kaffi með krakkana, reyndar eru þeir fótboltafrændur Friðrik og Kristján búnir að vera saman alla helgina, á sparkvellinum eða í Fifa'08, ná ótrúlega vel saman og með sama skemmtilega húmorinn svo það var mikið búið að hlæja og vitleysast.

Nú er vinnuvikan mín hafin og ég stend fyrir smá valkvíða í morgunmatnum, hvort á ég að fá mér sjeik í safa eða sojamjólk...... hm, ég vel Cappuccino í sojamjólk með frosnum jarðarberjum. Hlusta svo á góða uppbyggingu meðan ég innbyrði hann og vinn Herbavinnuna :)   Ekki leiðinlegt.

Spilin sem ég dreg mér daglega og læt stundum fylgja með í bloggið festi ég við tölvuskjáinn en þeim fjölgar alltaf því krakkarnir draga alltaf líka sjálf og líma við hliðina á mínum. Höfum það í huga, börnin gera eins og við gerum, ekki alltaf eins og við segjum. Verum því góð fyrirmynd. 

Spil dagsins: By staying FOCUSED I can REACH any goal.

Ég ætla því að vera svakalega einbeitt í dag..........................


Á undan sjálfri mér :)

Hafið þið heyrt af stafgönguleiðbeinandanum sem mætti klukkutíma og snemma til að kenna kerlunum ?

Síðasta þriðjudag ætlaði ég að mæta í stafgönguna á venjulegum tíma eða klukkan hálf sex. Var í rólegheitum í tiltekt og skipulagningu fram eftir degi svo ekki var stress að rugla tímaskynið. Kannski var það snjókoman því það snjóaði og snjóaði og var rosalega fallegt.

Þegar leið á daginn fór að hvessa og skyggnið varð frekar slæmt. Ég dreif mig í gallann og arkaði að íþróttahúsinu og beið þar til klukkan varð "hálf sex" og lagði þá af stað þó enginn væri mættur.

Það kom mér í sjálfu sér ekki á óvart því veðrið var mjög leiðinlegt. Ég út á fótboltavöll, hitaði upp og þrælaðist ekki nema tvo og hálfan hring, þá fór ég Nýgræðinginn og var nett búin á því á eftir því færið var mjög slæmt. Skrapp á bókasafnið að ræða við Maju (sem er í hópnum en ég vissi að kæmist ekki) og meðan ég er þar hringir síminn. Ég svara og er spurð hvort ég ætli að hafa stafgöngu í dag. "Já svara ég hálf hneyksluð, ég er búin að fara". "Nú segir Villa hálf undrandi, er það ekki hálf sex?" "Jú jú" svara ég brosandi yfir því hvað hún væri að átta sig seint, "Já en klukkan er hálf sex núna" segir hún. Oh my god, þá leit ég á klukkuna og áttaði mig á tímaruglinu. Sem betur fer höfðu þær vinkonurnar drifið sig um morguninn því spáin var slæm og ég slapp við að fara aðra ferð, blaut og veðurbarin.

Já ég er stundvís, og samkvæmt mati míns betri helmings, svo stundvís að það jaðrar við óstundvísi en fyrr má nú aldeilis fyrrvera. W00t

Framundan er annasöm helgi, Sóli og Hafdís á Stödda um helgina og fleira gott fólk, fjölskylduveisla af því tilefni og árshátíð hjá okkur hjónakornum á Höfn á laugardag. Ég var hvött til þess í dag að dansa ekki alveg eins hressilega og fyrir tveimur árum þegar rófubeinið mitt laskaðist þegar dansfélagi minn "missti" mig úr höndum sér og ég endaði með rassinn á sviðsómyndinni. Sagan hljómar betur þannig en kannski var eitthvað annað sem ruglaði jafnvægið. Förum ekki nánar út í það. Rófubeinið er orðið fínt. 

 

Gangið hægt um gleðinnar dyr ..... 

 

 


Handbremsan eða ....

Ég rakst á þessa setningu í gær þegar ég var að lesa í bókinni "The Seven Human Needs" eftir Guðjón Bergmann.

Lágt sjálfsmat er líkt og að keyra í gegnum lífið í handbremsu - Maxwell Maltz

 Ég fór að velta þessu fyrir mér og komst að því að ég sjálf var í handbremsu lengi framan af og á sumum sviðum örlar enn á bremsunni en þar er ég að vinna í því að losa hana því það er svo skratti óþægilegt að komast ekki áfram.

Ég held samt að ansi margir séu í handbremsunni, ég held ekki ég veit það því miður og sorglegt að sjá hvað lágt sjálfsmat og trú á eigin getu á ágæti heftir fólk á mörgum sviðum. Sorglegast þykir mér þó hvað mörg börn sem ég þekki eru með lágt sjálfsmat og ber ugg í brjósti til framtíðar þeirra ef þau fá ekki þá uppbyggingu sem þarf til að verða sterkur einstaklingur í krefjandi samfélagi.

Það eru ótal margar leiðir til að losna úr handbremsunni. Mín leið er að lesa sem mest af efni sem byggir upp og sækja mér jákvæðan og uppbyggjandi félagsskap.  Ég  er búin að komast að því að það er ekki nóg að lesa heldur er nauðsynlegt að nýta sér það markvisst, skrifa niður og vinna verkefnin sem lagt er upp með í hvert sinn. Það er ekki alltaf auðvelt en ávinningurinn gífurlegur.

Þeir sem lesa hvetjandi bækur, fara á námskeið eða hlusta á uppbyggjandi efni kannast væntanlega við Sólbrúnkuáhrifin. Mér finnst þetta yndislegt orð en það lýsir þessu rosalega vel. Nú ætla ég að vitna í bls. 20 í bókinni hans Guðjóns "Þú ert það sem þú hugsar":

Ég þekki svokölluð sólbrúnkuáhrif bóka og námskeiða af eigin raun. Fólk er sólbrúnt og sælt í smá stund eftir að lestri eða þátttöku lýkur en áhrifin eru oft fljót að hverfa. 

"Þú ert það sem þú hugsar" er frábær bók til leggja í hann í þeirri viðleitni að losa handbremsuna smátt og smátt.   Ég er eins og áður sagði með hana til sölu á 2990.- og lofa skjótri og góðri afgreiðslu Smile

Í lokin fylgir hér sólarupprásin á Stöðvarfirði eins og hún leit út fyrir 10 mínútum. Njótið dagsins og losið handbremsuna ! Heart

Sólarupprás 30. oktLjósastaurar eru hluti af tilveru okkar og ég sá enga ásæðu til að brasa við að "fótósjoppa" hann í burtu. Svona er útsýnið af svölunum mínum, úteftir.


"Mamma með fjögur augu"

Í gær tókum við mæðgur daginn þokkalega snemma. Lögðum af stað héðan frá Stf. klukkan sex að morgni til Norðfjarðar því Dýrunn átti að fá rör í eyrun og láta taka nefkirtlana.  Allt gekk vel nema hvað, við þurftum að bíða í klukkutíma þar til röðin kom að henni og sú stutta fastandi og var orðin svöng um hálf níu leytið.

Allt breyttist þó þegar hún fékk kæruleysissprautuna í rassinn. Þá varð hún ligeglad og hló mikið. Allt í einu segir hún "Mamma, þú ert með fjögur augu" og stuttu seinna kom "Þú ert með tvö höfuð" og hló svo meira. Hún var líka fljót að sofna og engin hræðsla eftir við þessa fínu sprautu.

Aðgerðin gekk vel og við dvöldum fram eftir degi meðan hún var að jafna sig eftir svæfinguna. Hún var ansi slöpp og hélt engu niðri af því sem hún borðaði. Í dag er hún brött og að dunda sér við hitt og þetta. Hún má ekki fara í skólann í 3 daga og þá er komin helgi og svo tveggja daga vetrarfrí svo hún fær langt frí. Að sjálfsögðu sinnti hún heimanáminu og skrifaði þessa sögu í sögubókina (ekkert lagfærð)

Þegar ég þurti að fara til læknis

Ég þurti að fara til Neskaupstað og fara í nefkjirtatöku og ég þurfti að fá svævi nál í hendina.

Ég gubaði 3 svar

 

Ég náði í tæka tíð í jógað en það hófust tvö námskeið, eitt hér og annað á Breiðdalsvík. Viti menn skráningin var betri í Breiðdalnum og fyrir vikið fá þær mig yfir. Harðjaxlarnir hér mæta aftur og aftur en nokkrar eru á djammi erlendis og fá að slást í hópinn þegar þær koma til baka. Heimturnar úr byrjendanámskeiðinu á Breiðdalsvík á nýtt námskeið eru 60-70% sem er mjög gott, eiginlega frábært, yfirleitt er hlutfallið lægra, reyndar afsannaðist það hér í vor þar sem heimturnar úr byrjendanámskeiðinu voru 0% af Stöðvarfjarðarkonum sem komu á það. Þær sem komu frá Reyðarfirði bíða spenntar eftir að ég auglýsi á þeirra slóðum og það er allt í pælingum og vinnslu. Ég veit um fleiri áhugasamar þar. Þetta er eins og með sjómennina, maður verður að leggja línurnar þar sem fiskurinn er Grin. Asskodi var þetta spekingslegt.

Að öðru, ég hef nú til sölu tvær bækur og geisladisk, eftir Guðjón Bergmann.

Bókina Þú ert það sem þú hugsar  

Bókina Þekktu sjálfan þig - innsýn í jógafræðin -

DVD diskinn YOGA með Guðjóni Bergmann

Bækur og DVD Frábærar bækur og góður diskur fyrir þá sem vilja gera áhrifaríkar æfingar heima. Hafið samband ef það er eitthvað sem ykkur langar í.

 

Dýrunn dró sér spil úr bunkanum í dag og fékk:

Ég STEFNI beint að markmiðum mínum  

Þegar hún var búin að spá í hvað markmið væru skrifaði hún á blað:  Ég þarf að æfa mig meira í : fótbolta og fimleikum og að sgriva og lesa og legja saman og draga frá.

 

Hafið það áfram eins og þið viljið elskurnar Grin


Bananabrauð

Dugnaðurinn í konunni á mánudagsmorgni er slíkur að það hálfa væri nóg. Klukkan ekki orðin níu og hún búin að sletta í bakkelsi sem bíður eftir að komast í ofninn. Eins og þetta gerist á hverjum degi, ónei ég er óhemju löt við baksturinn þessa dagana en stundum er ég að vandræðast með banana sem eru orðnir linir og mér sviður að henda. Friðrik kom með uppskrift að bananabrauði sem hann bakaði hjá Hönnu Grétu í heimilisfræðinni og er svakalega einföld. Hún hljóðar svo:

1 bolli sykur

2 egg

2-3 vel þroskaðir bananar

2 bollar hveiti

1 tsk natron

1/2 tsk salt

Sykur, egg og bananar þeytt vel saman. Þurrefnum blandað saman og sett í hræruna. Sett í aflangt kökumót. Bakað við 180°C í ca 1 1/4 klst (160° í blástursofni).

Hljómar vel og ótrúlega einfalt. En þannig er það með mig að ég aðlaga uppskriftir gjarnan að mínum smekk og mín útgáfa er á þessa leið:

1/4 bolli púðursykur

2 msk (ca ég hellti) Agave sýróp

1 bolli gróft spelt

1 bolli fínmalað spelt

2 1/2 banani

2 egg

1/2 tsk salt 

 

Ég er alltaf að vinna í að minnka sykurinn og hvíta hveitið. Speltið þykir mér rosalega fínt og nota núna eingöngu í pizzurnar mínar (sem er eiginlega aðal baksturinn sem fram fer á heimilinu) og allir jafn sáttir á heimilinu þó sumum þyki nú um of á köflum í heilsubröltinu mínu. Tounge

Spakmælið sem ég dró úr bunkanum passar heldur betur við vinnuna um helgina: Ég tek EITT skref í einu að markmiðum mínum   Smile



Heima er alltaf lang best :)

Já ég er nýkomin heim eftir enn eina helgardvölina á Stór Reykjavíkursvæðinu. Ferðirnar hafa verið óvenju margar upp á síðkastið en það tengist jú því sem kerlan er að bralla. Ég vinn alltaf að því að komast á mánaðarlegan STS skóla Herbalife sem er sú vítamínsprauta sem ég þarf til að peppa mig áfram, svo voru lokin á jóganáminu um daginn  og nú um helgina fór ég í fínstillingu á augunum mínum og tengdi það að sjálfsögðu við Herba skóla. Ég er hagsýn enda ekki annað hægt þegar Flugfélag Íslands er annars vegar með sínum "hagstæðu fargjöldum".  Úff það er annar handleggur og ekki á jákvæðum nótum svo ég sleppi honum.

Eftir aðgerðina í júní var enn smá skekkja sem gerði það að verkum að augun mín töluðu ekki alveg saman og ég átti erfitt með að keyra t.d. í myrkri, þreyttist fljótt og sá ekki alveg nógu vel. Ég fór sem sagt í leiðréttingu á föstudagsmorguninn. Sú aðgerð er mjög svipuð þeirri fyrri nema núna sá ég þegar hann var að skera hornhimnuna af auganu (ekki fyrir viðkvæma, Halla nú lokar þú augunum) en fann að sjálfsögðu ekki fyrir því. Þar sem ég er áhugamanneskja um ýmsa hluti fannst mér þetta spennandi. Aðgerðin sjálf tekur nokkrar sekúntur á hvoru auga, hornhimnan er pensluð á og svo hvílir maður sig í Lazy-boy stól um stund. Alveg væri ég til í að eiga einn slíkan og sitja í við stofugluggann með teið mitt og pæla í lífinu.  Guðrún frænka mín sótti mig og skultaði á minn dvalarstað, hvar ég tók verkjatöflu og hvíldi mig í ca þrjá tíma. Ég náði meira að segja að sofna og var stálslegin þegar ég vaknaði aftur. Sko ég var fljót að jafna mig eftir hina aðgerðina og fór þá á Herba skóla á öðrum degi og partý um kvöldið Tounge en núna á föstudagskvöldið fór ég í pizzu með Sóla, Hildi og Hilmari og svo á World Team og Supervisorskóla hjá hópnum sem ég starfa með í Herbanum og bara  í góðum gír. Skellti dropa og dropa í augun á klukkutíma fresti.  Sat svo STS skóla frá níu til fjögur á laugardag hvergi bangin. Með þrjá dreifingaraðila með mér og það var æði.

Og það sem ég sé vel, maður lifandi. Mér fannst ég nú sjá þokkalega fyrir utan þessa skekkju en ég sé næstum í gegnum holt og hæðir, nei kannski ekki alveg en svona næstum því.

Ég uppskar líka heilmikið sjálfstraust og viðurkenningu, kom meira að segja heim með bikar sem ég fæ að hafa í mánuð, ég er í viðskiptaliði með vinkonum mínum og við fengum stóra bikarinn fyrir sept mánuð og ég einstaklingsbikarinn. Þetta er stigakeppni og ég útskýri hana eingöngu fyrir Herbalife dreifingaraðilum heheGrin Ég skelli mynd á síðuna þegar sá stóri kemur í hús en þar sem við erum þrjár um hann skiptum við mánuðinum á milli okkar. 

Nú skal spýtt í lófana, markmiðin skoðuð og metið hvert daman er að stefna..... þetta er bara gaman. En auðvitað er alltaf gaman þegar vel gengur og það sem er náttúrulega það skemmtilegasta að það er maður sjálfur sem í það fyrsta ákveður að gera hitt og þetta, framkvæmir og uppsker.    

Ég las bókina "Þú ert það sem þú hugsar" um helgina, panta hana eftir helgina hjá Guðjóni svo þið hér fyrir austan getið keypt hana hjá mér, líka bókina "Þekktu sjálfan þig" sem er innsýn í jógaheimspekina og svo DVD jógadiskinn sem Guðjón gaf út fyrir nokkrum árum og hefur nýst mér rosalega vel í heimaástunduninni minni.

Friðrik átti snilldarpunkt á leiðinni upp í Egilsstaði á fimmtudaginn. Hann var að ræða um píanónámið sitt sem hann by the way tekur mjög alvarlega. Svo segir hann "Örvar er oft að fíflast við hina krakkana í píanótímum en ekki hjá mér" "Nú, af hverju ekki" spurðum við. "Sko ég tek þetta alvarlega og ætla að vera fullur í náminu".  Svo skildi hann ekkert í því hvað við urðum kímin á svip. Hann stendur sig rosalega vel og er byrjaður að æfa fyrir jólatónleikana, ég hef því afsökun ef einhver heyrir mig raula snemmbúið jólalag. Reyndar hlakka ég mikið til aðventunnar.

Nú ætla ég að njóta þess að vera heima þangað til ég fer að brasa eitthvað næst...

Minni á jóganámskeiðin hér á Stödda og Breiðdalsvík sem byrja á miðvikudag... skrá sig hið fyrsta.  


Hrakfallabálkur

Litla stóra stelpan mín er stundum algjör hrakfallabálkur. Oftar en ekki hellist niður við matarborðið, eða eitthvað dettur í gólfið (plastglös eingöngu á boðstólum) og síðast í gær féll daman sjálf af stólnum yfir kvöldverðinum niður á gólf svo ekkert sást nema lappirnar (Ekki í fyrsta skipti). Við þrjú þurftum að passa okkur við að halda andlitinu því þetta leit nú frekar skondið út. Þetta var fljótlega toppað þegar hún ætlaði inn í forstofu til að sækja sér blað í skrifstofuna mína en gekk beint á hurðarhúninn og "gleymdi" að hurðin væri lokuð og endaði með sár á vör og lausa framtönn. 

sept 004Nú er framundan að láta rör í eyrun á dömunni þar sem hún er með hellur í eyrum sem hún losnar ekki við, einnig þarf að skrapa af nefkirtlunum. Þetta þykir henni lítið mál og hún sá strax ljósan punkt því læknirinn sagði að síðar þyrfti hún að koma til Akureyrar til að láta mæla heyrnina. Hún elskar að fara til Akureyrar og hitta frændsystkin sín og erfitt að draga hana heim eftir norðanhelgarnar. 

Þarna er hún með Sóla litla sem er fluttur til Akureyrar til frændsystkina og heitir nú Brandur. Hann plumar sig vel og saknar okkar ekkert. Við héldum að kisa mynda ganga grátandi um en hún leitaði aðeins og sætti sig svo við málið, þannig er dýrseðlið.

 

Setningar dagsins úr bunkanum góða : "Jákvætt VIÐHORF  gerir daginn betri"

og "Ég VIRÐI fjölskyldu mína og vini"

 

Njótið dagsins..... 


Blessuð sólin....

...elskar allt og ekki síst rykið og kámið á gluggunum. Mánudagar eru sæludagar hjá mér eins og ég hef áður sagt, þegar börnin eru farin í skólann iðka ég mína hugleiðslu og geri æfingar, sinni heimilisstörfum og vinn í Herbanum mínum. 

Í morgun þreif ég sem sagt rúðurnar í stofunni sem eru engin smá smíði. Ekkert þrekvirki en ég var að prufukeyra nýja örtrefjaklútinn sem ég keypti í Bónus fyrir helgina. Ég er að færa mig yfir í heilsusamlegri þrifaðferðir, hætta að spreyja rúðuúða út um allt hús og nota nú örtrefjarnar við afþurrkun og örtrefjar og vatn til að þrífa. Jú ég nota sápu á gólfin.  Þetta gekk alveg ljómandi vel og ég verð alltaf jafn hissa hvað blessaðar flugurnar skíta mikið á gluggana mína (kannski þríf ég þá of sjaldan hmm).  Ég fór í smá nostalgíu og yfirfór í huganum hvernig ég ætlaði að setja ljós í þennan og þennan glugga á aðventunni.  Ég er líka farin að kaupa jólagjafir, komin með átta held ég, mjög praktískar að vanda hehe.

Um helgina skellti ég mér á hluta af námskeiðinu "Þú ert það sem þú hugsar" á Reyðarfirði. Þar sem ég hef verið á því mátti ég droppa inn og ég skellti mér á laugardeginum. Þetta er stærsta námskeiðið sem hann hefur haldið á landsbyggðinni og það voru rúmlega 30 manns, frábært. Mjög gefandi að vanda en ég náði ekki sunnudeginum því ég hafði náð mér í skrattans hálsbólgu fyrir helgi sem ég hélt að væri yfirstaðin en var bara slöpp í gær.  Ég viðurkenni að ég varð hálf pirruð því ég ætlaði mér að gera svo margt, þess í stað kúrði ég undir teppi til að ná úr mér hrollinum.

Ég er fín í dag og kenni síðasta jógatímann í þessari lotu. Byrja svo aftur í næstu viku með nýtt 12 tíma námskeið og treysti því að menn nýti sér það.  

Áfram heldur stafgangan og í dag er þriðji tíminn hjá kerlunum. Þær eru ofsalega duglegar og ég vona að þær komi til með að nýta sér gönguna áfram.   Þar sem ég stika stórum þá getið þið ímyndað ykkur hvernig ég er þegar ég er líka komin með stafi í hönd. Ég þarf því að hafa mig alla við að hægja á mér og passa að sprengja ekki mannskapinn.  Þetta er mjög gefandi og skemmtilegt.

Ég dró tvö spil úr stokknum góða og í dag komu þessi spil upp:

"Ég hugsa bæði með HJARTA mínu og HUGA"

"Ég TREYSTI mér fullkomlega"

 

Njótið vikunnar ................... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband