- Átta ára skvísan-
Föstudagur, 20. febrúar 2009
Vá tíminn líður hratt, komin heil átta ár frá því Dýrunn kom í heiminn á ljóshraða og munaði minnstu að við þyrftum að parkera við bensínstöð og Jósef tæki á móti. Það slapp og ljósan hennar hafði á orði að einhvern tíman yrði fart á henni þessari. En daman hefur alla tíð verið með eindæmum róleg og yndisleg í alla staði, fullorðinsleg og skemmtilegur pælari.
Það er búið að plana partýið fyrir vinina og á morgun hittist fjölskyldan yfir sjávarréttaþema frúarinnar. Við sláum okkar afmælum saman því það er svo stutt á milli hjá okkur. Hér er skvísan á þorrablóti skólans nú á dögunum. Nú bíður hún eftir að snjórinn komi aftur svo hún geti prufukeyrt skíðin sem fjölskyldan á Akureyri sló saman í handa henni.
Þó lítt hafi farið fyrir bloggfærslum upp á síðkastið höfum við það ljómandi fínt. Veikindafrí Jósefs styttist í annan endann og hann er að byggja sig upp smátt og smátt.
Hjá mér eru annir í skólanum og Herbalife, þar hefur ekkert dalað og frábært að sjá hvað fólk verður tilbúnara að hugsa um heilsuna sína þegar kreppir að, sem betur fer er fólk orðið meðvitaðra um holla lífshætti bæði fyrir líkama og sál. Jógað kenni ég með kerlunum mínum og það er mjög gefandi á allan hátt.
Í janúar opnaði svo "Ræktin" okkar á loftinu í íþróttahúsinu og það er frábært að hafa þann möguleika að geta farið og trimmað og styrkt líkamann þegar veður eru válynd og færð ekki alltaf skemmtileg til gönguferða.
Jæja, ekki bakar afmæliskakan sig sjálf svo mikið er víst ..........
Njótið helgarinnar !
Athugasemdir
Til hamingju með dömuna
Jóhanna Guðný (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 09:53
Til hamingju með snúlluna
Afmæliskveðjur frá Vinaminni
Þóra Björk Nik. (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 13:21
Skilaðu kærri afmæliskveðju frá Sigga sæta og vinum hans í Skipholtinu
Halldóra Ósk (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 17:21
Takk Þóra og Jóhanna. Aftur til lukku með þína dömu Jóhanna
Halldóra, ég skila kveðjunni frá Sigga sæta og co. Henni þykir það örugglega ekki leiðinlegt.
Solveig Friðriksdóttir, 22.2.2009 kl. 13:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.