Í lok árs 2020

Það er við hæfi að koma árspistlinum í loftið á síðasta degi ársins á því herrans ári 2020.  Árið sem allir fóru inn í með ákveðinni eftirvæntingu en séri svo öllu á hvolf hjá heimsbyggðinni svo vægt sé til orða tekið. Það þarft ég ekki að tíunda heldur ætla að rekja mig í gegnum árið okkar. 

Janúar var nokkuð tíðindalítill nema kannski fyrir lætin í veðrinu. Ég skrapp til Reykjavíkur í læknaferð og varð veðurteppt í nokkra daga. Ég náði að kenna eitt jóganámskeið og stólajóga áður en ég fór í jógafríið mitt í febrúar.  Sem átti jú að vara í mánuð en varð öllu lengra vegna, þið vitið.  

Við hjónin skelltum okkur snemma í febrúar í tíu daga til Teneriefe og nutum sólar og yls í samvistum Sóla bró, Hafdíar og Petreu. Ég skreið yfir á nýjan tug og það var ljúft að gera það í ylnum með nýjar freknur í andlitinu. Nokkrum dögum eftir að við komum heim var allt að fara í gang vegna Covid, sandstormar hindruðu brottför landans af eyjunni og svo flaug veiran af stað eins og alkunnugt er. Við vorum með smá kvefskít í okkur við heimkomu og var gert að vera heima og halda okkur í fjarlægð frá fólki öryggisins vegna.  

Jósef vann að heiman í nokkrar vikur í vor þegar allt var stokkað upp. Ég gat áfram sinnt minni vinnu á heilsugæslunni með tilheyrandi varúðarráðstöfunum en allt annað lá niðri, jóga og OPJ meðferðirnar mínar. Ég keypti mér samt nýjan nuddbekk fyrir afmælispeninginn, gott að verða svona gamall. Svona rafmagnsbekk sem ég get hækkað og lækkað að vild og það skiptir sköpum fyrir bakið mitt. 

Friðrik flutti heim í vor frá Akureyri og hóf störf hjá Alcoa. Það var ljúft að fá viðbót í húsið og fleiri brækur að þvo. 

Við horfðum á hvernig vel bókað vorið og sumarið í heimagistingunni datt niður í svotil ekki neitt. Fyrirlestrum mínum á Salthússmarkaðnum var aflýst og að sjálfsögðu fór ég heldur enga túra með ferðamenn í rútum. Við vorum bara heima, engar framkvæmdir eða allt málað og sjænað heldur vorum bara einhvern veginn. Baðherbergið var jú tekið í gegn í febrúar og ekki vanþörf á að skipta úr orginal Gústafsbergnum og setja inn nýjan Gústaf ásamt innvolsi. Við réðum menn í það verk. 

Þegar voraði hillti undir bjartari tíma og við skelltum okkur í smá sumarfrí með hryssun aftaní. Vorum í nokkra daga í Reykjavíkinni og hittum nýjasta barnabarnið Árna Berg sem kom í heiminn í júní.  Héldum síðan í útilegu í heila níu daga. Vorum eina helgi í Borgarfirðinum með Helenu og Söru með okkur og Dýrunn kom frá Akureyri og varði helginni með okkur líka. Svo lá leiðin á Snæfellsnesið og þar vorum við næstum ein í heiminum á tjaldstæði rétt við sjóinn þar sem við gistum þrjár nætur. Jökullinn í augnsýn, fyrsta kvöldið en svo ekki söguna meir. Við keyrðum um og chilluðum, nýttum ferðaávísunina í siglingu um Breiðafjörðinn og höfðum það notalegt. Héldum næst á Hvammstanga og gistum tvær nætur á tjaldstæðinu þar. Það var hið huggulegasta og ódýrasta sundlaugin sem við heimsóttum í ferðinni. Keyrðum fyrir Vatnsnesið og skoðuðum Hvítserk og Borgarvirki. Þangað hef ég ekki komið svo ég muni til í það minnsta.

Síðustu tvær næturnar gistum við í Vaglaskógi ásamt bræðrum Jósefs og fleirum úr fjölskyldunni í dandalaveðri. Þá helgi var búið að plana heljarinnar ættarmót með öllum systkinunum hérlendis og erlendis en það riðlaðist vegna veirunnar. 

Í júlí héldum við okkur heima við, það rættist aðeins úr gistimálunum og ég gat tekið einn og einn á bekkinn hjá mér í orkupunktana. Við fengum góða gesti, sinntum líka gistigestunum í kjallaranum. Sumarið var því bara mjög gott.

Um verslunarmannahelgina brugðum við okkur í bæinn með kerruna í eftirdragi, norðurleiðina og tókum stóra dótið hennar Dýrunnar til Reykjavíkur. Hún vann hjá MS á Akureyri fram í ágúst og þá hófst nýr kapituli hjá henni.  Hún hóf nám í HÍ í haust og gerði atlögu við klásusinn í tannlækninum. Það hafðist ekki í fyrstu tilraun en var gífurleg reynsla og við erum svakalega stolt af henni að hafa klárað sig í gegnum alla önnina og prófatíðina við þessar skrýtnu og lýjandi aðstæður.

Friðrik hóf nám í fjarnámi í HR í Byggingariðnfræði. Hann var kominn suður fyrir fyrstu lotu þegar allt var að herðast á nýjan leik. Önnin var því sannkölluð fjarnámsönn. Hann sinnir náminu vel ásamt fullri vinnu í álverinu og stóð sig mjög vel alla önnina og í prófunum.  Það er ekki gefið að allir nái að pluma sig við þessar aðstæður og því erum við mjög stolt af börnunum okkar og seiglunni og aganum sem þau hafa sýnt í gegnum þetta.

Við fórum í smá sumarfrí í Reykjavíkina í byrjun sept, aðallega til að sjá litla manninn og hitta fjölluna okkar í bænum. Ég náði einu jóganámskeiði í september og færði mig líka yfir á netmiðlana og hélt Jóga Nidra slökunarnámskeið á netinu í sept. Það var gaman. 

Um mánaðrmótin sept okt náðum við Hvalnessystur að hittast í okkar árlegu helgi, nú í Skagafirðinum og það var mjög dýrmætt í öllu veirufárinu. Fórum að öllu með gát og krossuðum fingur að ekki þurfti að afbóka þá endurnærandi og sálarbætandi samveru. 

Í október var ég í leyfi frá vinnunni og fór í langþráða endurhæfingu á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Gigtin hefur ekki bætt lasakað vinnuþrekið síðustu ár og ég var komin í hálfgerðan vítahring með hreyfinguna og farið að halla ansi líka á andlegu hliðina. Ég rétt slapp inn og var svo heppin að geta klárað vikurnar fjórar. Aðstæður voru skrýtnar og þá vorum við að venjast því að ganga um með grímurnar alla daga og dvalargestir voru töluvert færri því fækka þurfti í húsinu og því færri innritanir en venjulega. Ég elskaði að vera þarna og þurfa ekki að hugsa um neitt nema sjálfa mig og aldrei að spá hvað ætti nú að vera í matinn heldur mætti samviskusamlega í allar máltíðir og naut vel.  Fékk góða þjálfun og þó gigtin hafi lítt lagast eða vinnuþrekið aukist við dvölina þá komst ég af stað með hreyfinguna eftir að heim var komið. Ég fæ oft að heyra "þú ert svo dugleg að hreyfa þig og....." en staðreyndin er sú að ég hef svo langt frá því verið dugleg að hreyfa mig síðustu ár, þrjú, fjögur eða svo vegna aukinna verkja eftir hreyfingu. Núna vinn ég í því að passa mig í að fara styttra og af minna offorsi, já æfa mig í að sníða mér stakk eftir vexti.  Ég vinn í hálfu starfi hjá HSA og rétt slefa það ásamt því að taka einn og einn á bekkinn í orkupunktna og jógast með fólkinu mínu þegar færi gefst. Sú staðreynd að starfsþrekið er ekki á uppleið hefur dregið sálartetrið niður og það er erfitt að horfast í augu við að geta ekki unnið af krafti við það sem maður hefur áhuga á eða dregið meiri björg í bú. En ég held ótrauð áfram í minni endalausu endurhæfingu á líkama og sál því ég nenni ekki að leggjast í kör.

Í nóvember prófaði ég að halda jógnámskeið á netinu - Jóga með Sollu og nái í þokkalegan hóp. Vá, það var gaman og örgandi maður lifandi að opinbera sig fyrir framan myndavélina. Ég komst fljótt að því að síminn minn var nú aðeins of minnislítill fyrir svona myndbandsupptökur svo ég skellti tímunum þá live inn á hópinn. Það var ekki síður skemmtilegt. Míkrófónninn sem ég pantaði frá Amazon í ofboði og kom á góðum tíma miðað við Covid reyndist ekki eins góð lausn og vonir stóðu til en víðlinsan koma að góðum notum. Planið er að safna fyrir síma með meira minni á nýju ári. Þetta er miðill sem er búinn að opna á meiri möguleika, ekki síst hjá okkur sem búum langtíburtistan.

Haustið og byrjun vetrar hefur verið mjög rólegt hjá okkur, engin nýlunda og við erum jú bæði svo miklir introvertar að þó við drögum úr félagslegu samneyti við fólk þá erum við sjálfum okkur nóg á svo margan hátt. Við söknum þess helst að hafa ekki getað skroppið meira suður og hitt litla pjakk, stelpurnar og fjölskyldu ásamt Dýrunni.  Við gætum vel að okkur því við flokkumst jú bæði undir áhættuhópinn og yrðum mögulega ekki beisin að fá í okkur vænan skammt af veirunni. Jósef hefur unnið á skrifstofunni frá því opnað var á það í sumar en meirihluti skrifstofufólksins sem vinnurm með honum hjá Rubix vinnur heima. Við höfum alveg getað hitt okkar nánustu fjölskyldu hér á Stf því Austurlandið hefur til allarar guðs lukku verið að mestu veirufrítt. 

Það fæddust tvo börn í Sunnuhvols fjölskylduna á árinu, Hildur dóttir Sóla bró og Emil eignaðist Brynhildi Sól í júní og Arnar sonur Sigurjóns og Constance einguðust Valeriu Sif í lok ágúst. Litlir gleðigjafar og þetta er fyrsta árið í þrjú ár sem við jörðum ekki einhvern í okkar nánasta hring í fjölskyldunni, 2017 lést mamma, 2018 Stína mágkona og 2019 Rikki mágur. Það var komið mál að linni og frekar leiðinlegt þegar maður er kominn í æfingu við að skipuleggja eða aðstoða fólk við að skipuleggja jarðarfarir ofan á allt annað.

Í lok árs er ég þakklát fyrir að hafa fengið að lifa enn eitt ár, það er ekki sjálfgefið (svo ég tali nú ekki um að vera komin á sextugsaldurinn). Ég er þakklát fyrir að fólkið mitt hefur að mestu sloppið við veiruna og að við höfum ekki misst neinn í valinn af hennar völdum. Ég finn til með öllum þeim sem eiga um sárt að binda á þessum tíma og ekki síst fólkinu á Seyðisfirði og þær hörmungar sem það fór í gegnum korter í jól og eru enn ekki búnar.

Árið var í mínum augum ekki ömurlegt þó áskoranir þess hafi verið af öðrum toga en allir áttu von á.  Ég tek á móti nýju ári með hækkandi sól með von í brjósti og bjartsýni í huga. Sendi ykkur öllum rafrænt knús og hlakka til þegar við getum knúsast almennilega <3 

GLEÐILEGT NÝTT ÁR !!!


2019 hjá genginu í Hólalandi 18

Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.  Á tímamótum sem þessum er gott að minna sig á að horfa fram á við og þakka það sem liðið er. 

Árið 2019 var heilt yfir gott ár en einkenndist líka af erfiðleikum og erfiðum kveðjustundum í Sunnuhvolsfjölskyldunni.

 Í upphafi árs kvöddum við Stínu mágkonu hinstu kveðju og í nóvember fylgdum við Rikka mági síðasta spölinn.  Hvoru tveggja eftir stutta glímu við krabba kerlingu.  Þegar skarð er hoggið og maður upplifir systkini sín og fjölskyldu takast á við nýja tilveru þegar makinn er farinn, fyllir það mann ákveðnum vanmætti en minnir enn frekar á hvað það er mikilvægt að njóta allra þeirra stunda sem manni hlotnast. Einnig að fjölga samverustundum með þeim sem okkur þykir vænst um. 

Þá skal skautað yfir hluta af gleðistundum ársins og því sem lagt var í reynslu og viskubrunninn. 

Í janúar skellti ég mér til Svíþjóðar í heimsókn til vinkonu minnar og kenndi einn Foam flex tíma og svo námskeið fyrir kennara. Það var svakalega skemmtilegt og nokkuð stórt skref út fyrir þægindarammann. 

Í febrúar skellti ég mér af stað í ótrúlega áhugavert ferðalag og byrjaði að læra svokallaða Orkupunktajöfnun. Það fól í sér fjórar helgar frá lokum febrúar til loka nóvember með tilheyrandi æfingum þess á milli. Flestir vinir og vandamenn í nánasta hring eru sultu slakir og vel orkujafnaðir enda var kellan ákveðin í að æfa sig vel og mikið. 

Í mars bar það helst til tíðinda að við hjónakornin skelltum okkur til Reykjavíkur, drifum Sjonna bróður með og fórum á tónleika með meistara Megasi, já eða tónlistarfólki sem flutti lögin hans. Hann var eitthvað slappur og kom aðeins fram í lok tónleikanna. 

Ég skellti mér á mínar fyrstu Kærleiksdaga á Breiðdalsvík í lok apríl, tók nuddbekkinn með og nokkrir fengu sér Regndropameðferð. Það var góð dvöl og góð hleðsla á orkutankinn og gleðina í hjartanu. 

Í lok maí útskrifaðist Friðrik sem húsasmiður frá Verkmenntaskólanum á  Akureyri og rúllaði sveinsprófinu upp stuttu síðar. Við dvöldum fyrir norðan í nokkra daga og áttum góðan útskriftardag og kvöld með kappanum og fjölskyldu.  

Í júní var næsta útskrift. Þá útskrifaðist Dýrunn úr M.A. af Náttúrufræðibraut. Guðmundur kærastinn hennar útskrifaðist einnig af Félagsfræðibraut.  Við dvöldum á Akureyri í bústað í viku af þessu tilefni, snæddum með unga fólkinu og foreldrum Guðmundar á útskriftarkvöldinu og héldum systkinunum sameiginlega útskriftarveislu með fjölskyldu og góðum vinum daginn eftir. 

Það er svo ótrúlegt að börnin manns séu komin á þann stað sem maður sjálfur var á fyrir ekki svo löngu.... í huganum í það minnsta. Svo ekki sé talað um stoltið sem foreldri þegar áfanga er náð.  Friðrik og DýrunnDýrunn og Guðmundur

 

 

 

 

 

 

 

Þau dvelja bæði á Akureyri. Friðrik vinnur áfram hjá fyrirtækinu sem hann tók samninginn hjá og unir hag sínum vel. Dýrunn býr hjá Guðmundi og tengdaforeldrum. Vinnur hjá MS og er að hugsa sinn gang varðandi áframhaldandi nám næsta haust. 

Ég fékk skemmtilegt verkefni í júlí og ágúst við að kenna jóga hjá fyrirtæki sem kallast The Ashram og dvaldi með fjóra hópa, viku í senn innst í Breiðdal í heilsudvöl.  Þar kenndi ég nokkra svokallaða Yin jóga- og Restorative jógatíma, á ensku að sjálfsögðu. Það var stórt skref út fyrir rammann. 

Ég hélt einnig nokkra fyrirlestra á Salthússmarkaðnum fyrir erlenda ferðamenn sem sigla hringinn í kringum landið og fræðast um land og þjóð í stoppunum sínum.  Áframhald verður á þeim fyrirlestrum og er það þá fjórða sumarið sem þetta verkefni er í gangi.  

Við hjónakornin skelltum okkur í eina útilegu og fórum stutt skrepp í bústaðinn sömuleiðis. Alltaf með fyrirheitin um að fara oftar og dvelja lengur næsta skipti. 

Í ágúst fórum við í bæinn og ég, Dýrunn og Guðmundur fórum á tónleikana með Ed Sheeran.  Á mánudegi þar á eftir lögðum við land undir fót með Friðriki og Dýrunni í útskriftar og afmælisferð. Flogið var til Boston og við dvöldum þar tæpa þrjá daga áður en við héldum áfram til Tampa í Flórída. Þar vorum við í vikutíma í notalegu húsi í þægilegu hverfi.  Hitinn var hrikalega góður fyrir íslenska kroppa, reyndar grétu himnarnir töluvert yfir komu okkar en það var ljúft að slaka á við sundlaugarbakkann engu að síður og kæla sig af og til.  Hápunktur þeirrar ferðar voru tónleikar með Queen 18. ágúst á tvítugs afmælisdegi Friðriks.  Það var góð skemmtun. 

Í lok september keyrðum við hjónakornin alla leið vestur á Drangsnes og dvöldum þar á Kærleiksdögum með góðum hóp af alls konar heilurum. Nuddbekkurinn með í för og nokkrir teknir á bekkinn, núna líka í OPJ og smá nudd með.  Skvísan skellti sér líka á netnámskeið í svæðameðferð í sumar á milli æfinga, vinnu, afleysingar og gæd túra. 

Í október fór ég til Húsavíkur með Hvalnesstystrunum góðu og við dvöldum þar yfir helgi. Hittum ekki Brosnan þó hann hafi ákveðið að dvelja þar sömu helgi og við en nutum dvalarinnar eins og okkur einum er lagið.

Upp úr miðjum okt dvöldum við hjónakornin á Sigló hotel í þrjár nætur. Árshátíð Rubix var haldin þar þetta árið og við framlengdum dvöl til að nýta gjafakort sem Jósef átti. Á meðan hömuðust smiðir á húsinu okkar og skelltu upp einu þaki á nokkrum dögum. Það er verulega ljúft að sá höfuðverkur sé að mestu leyti frá og enginn þarf að fara á taugum þegar það kemur krapahríð. 

Í nóvember stóð ég fyrir því að haldið var nuddnámskeið hér á Stöðvarfiði. Tvær helgar, sú fyrri í upphafi mánaðar og sú síðari í lok mánaðar.  Klassískt vöðvanudd er það kallað og nú getur kellan nuddað fólk eftir óskum með Orkupunktunum. Þetta var eiginlega ögrun ársins því ég hef jú lengi vel tekist á við vefjagigtina með tilheyrandi alls konar og talið mér trú um að ég geti ekki nuddað.  Ég get það svo sannarlega EN þarf að sníða mér stakk eftir vexti og tek ekki marga á bekkinn í viku hverri. Áfram vinn ég hjá HSA, nú í 50% prósentum og dunda við jóga með því yfir vetrartímann og ýmislegt annað eins og upp er talið hér að ofan yfir sumarið. Hef einnig haldið nokkrar kakó hugleiðslustundir.

Jósef vinnur áfram á sama stað, með nýju nafni, Brammer breyttist í Rubix. Hann breyttist ekki en fékk reyndar í sig varahlut í sumar þegar settur var í hann bjargráður sem á að kikka inn ef hjartað fer á yfirsnúning. 

Í desember skelltum við okkur í aðventuferð í byrjun mánaðar til Akureyrar því við vorum líka ekki viss um hvort við færum norður um áramót og langt síðan við höfðum átt góða stund með fjölskyldu Jósefs á Akureyri. Svo leið aðventan með töluverðum söng, bæði æfingar fyrir aðventukvöld og jól. Svo slæddust jarðarfarir með líka en hér hafa verið hoggin full mörg skörð í litla samfélagið síðustu árin. Vonum að nú sé mál að linni.

Krakkarnir komu heim í jólafrí og það er náttúrulega allra best. Þau komust rétt áður en fjöllunum var lokað vegna slæms veður og náðu vikudvöl áður en þau héldu norður á nýjan leik. Við eltum og fórum norður daginn fyrir gamlársdag og vörðum áramótunum með Byggóenginu.  

Nú er nýja árið að hefjast og við komin heim á nýjan leik. Ýmislegt framundan og mesta tilhlökkunin er yfir komu þriðja barnabarnsins snemma í júní hjá Höllu og Árna og yfir krílinu hjá Hildi frænku sem áætlað er að fæðist í lok júní. Einnig að komast í sól og hita í febrúar um það leyti sem húsfrúin hoppar yfir á nýjan tug, já og ýmslegt fleira. 

Það er gott á tímamótum sem þessum að skerpa á markmiðunum og ekki síður gaman að líta yfir farinn veg og sjá að það gerðist svo margt skemmtilegt á árinu og margt að sjálfsögðu sem ekki er tíundað í þessum pistli. Ég óska öllum vinum og vandamönnum og samferðafólki öllu gleðilegt nýs árs og vonandi hittumst við sem oftast á nýju ári. 

 

 

 


Jólakveðja úr Hólalandinu árið 2018

Á öðrum sunnudegi í aðventu er við hæfi að setjast niður með tebollann í morgunsárið og pára nokkrar línur um árið 2018. 

Það má með sanni segja að árið 2018 hafi verið ferðaárið mikla, eða útlandaárið mikla og ljómandi að hefja pistilinn á því mikla fjöri.

Í lok mars fór fjölskyldan saman til Bandaríkjanna. Við hófum ferðina í New York og dvöldum á hóteli á Manhattan svo auðvelt var að komast í allt það sem áætlað var að skoða í þessari ferð. Fyrst á dagskrá var sýningin School of rock á Broadway sem stóð alveg undir væntingum. Við nutum útsýnisins úr The Empire State building, skoðuðum Ground Zero og röltum um fjármálahverfið og sigldum hring og sáum frelsistyttuna. Eitthvað var jú verslað.  Þessa þrjá daga var kuldinn svo bítandi að við ferðuðumst mest með hop on off strætisvagninum sem við vorum með miða í. Þar fræddumst við töluvert og sáum ýmislegt. Frá New York flugum við til Atlanta, tókum bílaleigubíl þar og keyrðum til Mobile Alabama. Leiðin hafði lítið breyst frá því við Jósef keyrðum þarna árið 2005.  Þar dvöldum við í nokkra daga í góðu yfirlæti hjá Stjána bróður Jósefs og fjölskyldu. Við renndum yfir til New Orleans og dvöldum þar yfir nótt. Þar upplifðum við tónlistarlífið á Bourbon street og í Franska hverfinu almennt. Að öðru leyti vorum við í rólegheitum þá daga sem við dvöldum hjá Stjána. Hitinn var dásamlegur fyrir Íslendinginn og rakastigið passlegt.  Solla og Friðrik skelltu sér á tattoo stofu í nágrenninu og fengu sér tattoo hjá honum Magnusson sem er af sænskum ættum.  Á heimleið fórum við aftur til Atlanta, dvöldum tvær nætur þar áður en haldið var til NY og svo þaðan beint til Íslands.

Í byrjun júní fóru Solla og Dýrunn í sólina til Spánar og sóluðu sig þar í níu daga. Flogið til Barcelona og keyrt þaðan til Salou. Þar var lífið ljúft og ekkert stress. Lítið gert nema slaka á. 

Í júní lögðu þeir feðgar heldur betur land undir fót og brugðu sér til Rússlands. Það var heljarinnar ferðalag og þeir dvöldu fyrst í Volgograd og svo í Rostov og sáu tvo leiki með íslenska liðinu. Tóku rútu á milli borga sem tók tímann sinn vegna vegabréfaeftirlits, einfaldra vega og rútu sem var "Rúta ársins" 1993 og mátti víst muna sinn fífil fegurri.  Þeir voru alsælir með þessa ferð. 

Í september fór Jósef með tipphópnum sínum til Englands og sá þar tvo fótboltaleiki. Fékk sér einn bjór, eða tvo...

Frikki skellti sér með vinum sínum til Amsterdam um verslunarmannahelgina hvar þeir skoðuðu hámenningu borgarinnar í nokkra daga og steikjandi hita.

Í nóvember fór Solla með sínum heittelskuðu Hvalnessystrum til Edinborgar. Það var góð ferð í alla staði og mikið hlegið og vitleysast. 

Nú punktinn yfir I-ið settum við Jósef í byrjun nóvember. Þá flugum við til Sevilla frá Akureyri. Tveir bræður Jósefs voru í þeirri ferð ásamt eiginkonum og eitt par í viðbót.  Þegar við komum á hótelið tóku Ella (systir Jósefs) og Hafliði maður hennar á móti okkur.  Meirihluti hópsins hafði ekki hugmynd um það svo það kom skemmtilega á óvart.  Í Sevilla áttum við hlýja og góða daga og fórum í dagsferð til Ronda sem var heilmikil upplifun. 

Innanlands var planið að ferðast um í eina viku í júlí og við hófum það ferðalag í Höfðavík og dvöldum tvær nætur í brakandi blíðu. Héldum svo áfram með Sóla og Hafdísi í Eyjafjörðinn og gistum eina nótt á tjaldstæðinu í Hauganesi. Prófuðum pottana í fjörunni og snæddum á fiskveitingastaðnum. Þá var veðurspáin okkur ekki hliðholl og ferðalagið varð ekki lengra. Hryssan var skilin eftir á Akureyri og fékk smá yfirhalningu þar en við héldum heim. Hún var svo selflutt til Dalvíkur og beið okkar þar þegar við mættum á Fiskidagshelgina seinnipart föstudags. Þar áttum við góða helgi með góðu fólki. 

Solla skipti um gír og kvaddi skólann eftir tæplega tuttugu ára samveru. Hóf störf í apríl að hluta til og svo í 60% í júní hjá HSA (Heilbrigðisstofnun Austurlands) sem ritari á heilsugæslunni á Stf. Fásk og eftir þörfum í afleysingum á svæðinu. Það eru töluverð viðbrigði en kennsluorkan var uppurin hjá kellunni og ekki um margt að velja á Stf atvinnusvæðinu.  

Hún hélt tíu fyrirlestra fyrir hópa á Salthússmarkaðnum um íslensku suðkindina, ullina og handverkið okkar og skellti sér í einn gæd túr hjá Tanna Travel. 

Jósef vinnur enn hjá Brammer og unir hag sínum vel þar. Finnst lítið tiltökumál að taka rútu kl 6:35 hvern virkan dag. Hann nýtir tímann til að hlusta á þætti sem hann sækir á netið. 

Solla er enn í jóganu og kennir eitt og eitt námskeið. Hún hefur haldið nokkrar svokallaðar Kakóhugleiðslustundir sem hafa mælst vel fyrir á svæðinu. Hyggst hún efla þær og styrkja á nýju ári ásamt námskeiðum og slökunarstundum. 

Af börnunum sem eru næstum ekki börn lengur er það að frétta að Friðrik er á samningi í húsasmíðinni á Akureyri og stefnir á að ljúka sveinsprófi næsta vor.  Dýrunn er á þriðja ári í MA og lýkur stúdentsprófi í vor.  Þau una hag sínum mjög mjög vel fyrir norðan. Það verður því tvöfalt útskriftarstuð hjá fjöllunni næsta vor. 

Bæjarhátíðin Stöð í Stöð var haldin hér í júlí og þá var heilmikið fjör.  Við fengum góða gesti og það var líf og fjör í Hólalandinu. 

Dýrunn og Gummi (kærastinn hennar) voru hjá okkur í sumar. Hún vann á veitingastaðnum Sumarlínu á Fáskrúðsfirði og Gummi í bæjarvinnunni.  Það var gott að hafa þau heima.

Við hýsum enn ferðalanga yfir sumartímann og það hefur ekki verið neitt lát á því.  

Framkvæmdir voru ekki ýkja miklar þetta sumarið. Þakefni var pantað og prýðir nú lóðina okkar þar til smiður fæst í verkið og tíðin verður stabílli. Bílskúrshurðin er í pöntun og þá þarf gamla "antík" hurðin að víkja fyrir nýrri.  Ýmis verk eru á planinu þegar þak og hurð verða komin og eins og góður maður sagði eitt sinn "Þær eru margar raunir húseigandans". 

Þegar 2. sunnudagur í aðventu er runninn upp er jólaundirbúningur á hæfilegu róli. Bóndinn er að setja saman kommóðu fyrir frúna sem á að leysa skenkinn í borðstofunni af. Jólakort verða á rafrænu formi og bakstur í lágmarki. Uppáhalds sortir barnanna verða bakaðar þegar þau koma heim í jólafrí rétt fyrir jólin.  Veikindi í stórfjölskyldunni Sollu megin setja mark á undirbúninginn og minnir okkur enn og aftur á hvað það er mikilvægt að hlúa að hvert öðru alltaf hreint og njóta alls þess tíma sem við höfum í þessu lífi. 

Læt það verða lokaorðin og við sendum öllum kærar jóla og nýárskveðjur og þökkum fyrir árið og allt gamalt og gott.

Ást og friður til ykkar allra 


Árið 2017 í stuttu máli.

Yfirleitt hefur pistill þessi verið ritaður í upphafi aðventu en gleymdist alveg þetta árið og èg hafði fullan hug á að sleppa honum alveg. En þar sem pistill og þessir þankar eru ljómandi góð heimild ákvað èg að láta slag standa.

Èg sit því á gamlársdag í orlofsíbúð á Akureyri og pikka á blessaðan simann. Það verður þá kannski minna orðskrúð fyrir vikið. 

Árið 2017 var heilt yfir gott ár og skilar okkur í ágætis ásigkomulagi yfir á nýtt ár. Í janúar skellti undirrituð sèr til London í fyrsta sinn með samstarfsfólki úr skólanum. Við fórum á Bett ráðstefnuna sem var áhugaverð í alla staði. 

Jósef skreið yfir á nýjan tug í apríl og af því tilefni hèldum við lítið fjölskylduteiti. Við skelltum okkur til Reading í lok þess mánaðar með kirkjukórnum og áttum góða daga þar. 

Í maí dró til tíðinda. Mamma hafði veikst í apríl en náði sèr aðeins á strik. Svo kom bakslag í byrjun maí og fljótt ljóst að hún myndi ekki hafa það af. Við skiptumst á að sitja hjá henni og spiluðum fyrir hana uppáhalds lögin hennar síðustu dagana. Hún sofnaði friðsamlega að morgni 14.maí,sama dag og tengdamamma tveimur árum áður og á afmælisdegi Auðar frænku sem var hennar stoð og stytta í gegnum lífið. Þetta tók á og allt var í rólegum gír fram á vorið. 

Á vordögum fór Jósef í fjögurra vikna endurhæfingu á Reykjalundi og var duglegur að ganga og hjóla í sumar..... 

Sumarið var rólegt og notalegt. Við fórum í tvær útilegur og í smá skrepp í Fögruhlíðina. Gistingin var vel sótt og fólk frá öllum heimshornum sem gisti í kjallaranum. Undirrituð fèkk það skemmtilega verkefni í hendurnar að flytja nokkra fræðslufyrirlestra um íslensku sauðkindina, ullina og handverkið okkar fyrir hópa af ákveðnu skemmtiferðaskipi á Salthúsmarkaðnum. Það var mjög skemmtilegt og á því verður framhald sumarið 2018. Hún skellti sèr einnig nokkrar ferðir með hópa í rútum um austfirðina. 

Þetta var fyrsta sumarið sem Friðrik var ekki heima. Hann vann á Akureyri hjá byggingafyrirtæki og á vöktum á veitingastað. Hann bjó hjá Begga bróður Jósefs og fjölskyldu. Á haustdögum fór hann að leigja með vini sínum, kominn á samning í húsasmíði og kokkar aðeins með. Hann kíkti aðeins austur í helgarfríum. 

Dýrunn lauk sínu fyrsta ári í MA og stóð sig vel. Hún vann í Loðnuvinnslunni á Fásk. Henni bauðst að hjálpa forsetanum að flytja ræðu á setningarhátíð Unglingalandsmótsins á Egilsstöðum. Hún leysti það verkefni vel af hendi. Hún er nú á öðru ári og það er meira en nóg að gera í skóla og privatlífinu. 

Edda dóttir Begga og Dóru var hjá okkur í sumar og vann hjá þeim Brekkusystrum. Það gekk vel og hún fílaði sig vel hjá þeim skellibjöllum. 

Halla og fjölskylda flutti til Íslands í sumar og við höfum þá tækifæri til að hitta þau oftar  

Haustið var tíðindalítið en nóg að gera. Við erum enn að læra það að vera tvö í kotinu.

 Við hjónakornin syngjum enn í kórnum okkar og sinnum ákveðnum fèlagsmàlum líkt og áður. Við höfum haldið okkur á sömu vinnustöðunum og allt í góðum farvegi. 

Jógakennslan hefur verið á rólegum nótum í vetur og hefur frúin meira unnið í eigin heilsuuppbyggingu. 

Þeir feðgar skelltu sèr til Liverpool í byrjun desember ásamt góðum ferðsfèlögum og fylgdust með leik Liverpool og Everton. Það var góð ferð þó veðurguðir hafi reynt að hindra för á útleið. 

Jólunum vörðum við heima með krökkunum og áramótunum verður fagnað á Akureyri  

Þá er brunnurinn ausinn og þumlarnir verða hvíldinni fegnir eftir þetta pár á símann. 

Bestu óskir um gæfuríkt og heilsusamlegt ár 2018. 


Á aðventu á því herrans ári 2016

Þegar þriðji sunnudagur í aðventu nálgast hratt er við hæfi að setjast niður og pára niður eitthvað af því markverðasta sem gerðist þetta ár. 

Ég horfi framhjá því að ég sleppti jólapistlinum í fyrra, ekki að það ár hafi verið tíðindalaust, nei, ég var bara löt. Eftir á að hyggja er þetta heilmikil heimild og gaman að fletta til baka og skoða hvað við höfum verið að brasa þó bloggiðni mín sé í dvala á milli jóalpistla.  

Í ár sendum við jólakortin rafrænt nema til örfárra aðila á besta aldri. Fjölskyldan ætlar að skella sér til Þýskalands og því er undirbúningur fyrir jól í algjöru lágmarki hér heima við.

Snúum okkur að árinu 2016. Þegar árið gekk í garð höfðum við ákveðið að fara í framkvæmdir í kjallaranum hjá okkur og græja herbergin tvö og rýmið niðri sem gistiheimili fyrir ferðamenn, innlenda og erlenda. Vinann hófst í desember 2015 þegar byrjað var að skipta um rafmagn á neðri hæðinni enda allt í þeim pakka komið hressilega til ára sinna. 

Farið var í könnunarleiðangur til Reykjavíkur í janúar og ýmislegt skoðað sem áhugavert væri að fjárfesta í fyrir framkvæmdirnar.  Svo fórum við smátt og smátt að hefjast handa. Skráðum okkur í apríl og bókanir byrjuðu að detta inn. Já, við ætluðum að opna 15. maí.  Síðustu vikurnar eru svona nett í móðu því þá var endaspretturinn í hámarki. Það var pússað og málað, fingur krossaðir yfir því að sturtan, svo klósettið yrði klárt í tíma og þar fram eftir götunum.  Málningin rétt náði að þorna á hurðunum þegar fyrstu gestir mættu á svæðið. 

Fyrstu gestir voru frá Frakklandi. Indælt par sem við buðum í kjöt og grænmetissúpu. Þau voru alsæl og sögðu að þetta væri það albesta herbergi sem þau hefðu gist í í ferðinni sinni. Svo tikkaði þetta inn og í júlí og ágúst voru varla nætur sem ekki var gist í kjallaranum. Ég sá um að græja herbergin að mestu og Jósef um skráningarvinnuna t.d. frá hvaða löndum gestirnir væru og ég hugsa að hann bæti bílnúmerum og lit inn næsta sumar til að athuga hvort sú ótrúlega staða komi upp að einhver bíll komi tvisvar til okkar, spennandi. 

Áhugsamir geta flett upp Holaland 18 á ónefndri síðu sem byrjar á A og endar á b. 

Jósef er hjá Brammer og unir hag sínum vel þar. Leggur af stað fyrir allar aldir í rútuna. Í sumar fékk hann stundum far hjá spúsu sinni í og úr vinnu því hún fékk sér aukavinnu hjá Tanna Travel á Eskifirði.  

Sú vinna tengdist að mestu verkefninu Fly Europe sem Tanni vann með Discover The World að beinu flugi til Egilsstaða í sumar. Kellan sá um bókanir Íslands megin frá og var fulltrúi fyrirtækisins flesta þá daga sem flogið var í Egilsstaði. Skemmtilegt og góð tilbreyting.  Í verkefninu Meet the locals á vegum Tanna fór ég í nokkrar bæjargöngur á Stöðvarfirði, í jógagöngur, bæði með viðskiptavini og breska blaðamenn sem hingað koma áhugasamir til að skoða afþreyingarmöguleika á Austurlandi. Á síðunni tannitravel.is er hægt að skoða ýmsa afþreyingarmöguleika hér fyrir austan. Jógagöngur er líka hægt að bóka á tinna-adventure.is.  Allt fæðist þetta mjög hægt og rólega en þó vöxtur frá ári til árs. 

Friðrik kom heim í maí eftir sinn fyrsta vetur í Verkmenntaskólanum á Akureyri og vann hjá Fjarðabyggð og Landatanga við hin ýmsu verk ásamt því að slá hjá grannanum okkar. Hann fjárfesti í bíl af Subaru gerð og tók bílprófið í september. Það var mikil gleði að fá það frelsi og hann hefur komið eina ferð austur á kagganum eftir það. Honum gengur vel í náminu og stefnir á að fara á samning fyrir norðan næsta vor. 

Dýrunn sem ætti að vera í 10. bekk sótti um að komast í það sem kallað er Krílabekkur eða Hraðbrauð í MA. Margir góðir nemendur sóttu þar um og þegar símtalið kom þar sem mér var tjáð að það kæmust ekki allir inn var ég hrædd um að hún fengi synjun en nei, henni var boðið að hefja nám beint í fyrsta bekk.  Hún er núna við það að ljúka sinni fyrstu önn þar, líður vel og finnur sig vel í skólanum. Gengur vel í náminu þó stærðfræðin sé aðeins að hrella hana svona fyrst um sinn. Hún vann hjá Brekkusystrum í sumar og afgreiddi ferðamenn og eldaði handa þeim. Hún hljóp undir bagga með okkur í kjallaranum og æfði og keppti með Fjarðabyggð. 

Í byrjun júní skellti ég mér ásamt systrum mínum til Finnlands í heimsókn til Hilmars systursonar míns sem hefur búið þar í nokkur ár. Það var mjög skemmtileg ferð og við keyrðum aðeins um í kringum Oulu þar sem hann býr og heimsóttum skólasystur Sólrúnar í Nykarleby og gistum þar eina nótt. 

Sökum anna vegna vinnu og bindingu vegna gistingarinnar fórum við lítið í ferðalög. Við fórum til Akureyrar um verslunarmannahelgina og gistum í bílastæðinu hjá Begga bróður Jósefs í fellihýsinu. Það var útilega sumarsins. 

Þvottavélin fékk heilabilun á versta tíma í miðri vertíð og við brunuðum í Egilsstaði og sóttum nýja því það var enginn tími til að bíða eftir nýjum heila. Ef hann finnst næsta sumar þurfum við að hafa tvær vélar. Það væri líka næs að hafa góðan þurrk :). 

Við Jósef skelltum okkur í smá frí upp úr miðjum september til Spánar og Frakklands til að hlaða batteríin. Það var mjög skemmtileg ferð. Við vorum í viku á resorti sem heitir Giverola í nágrenni bæjar sem heitir Tossa de mar. Við dvöldum þar árið 2008 með góðum vinum og það er hægt að lesa um það einhvers staðar á þessari síðu. Við keyrðum þaðan til Frakklands og völdum okkur borgina Montpellier, gistum þar í íbúð og skoðuðum ýmislegt í nágrenninu. Aðallega höfðum við það náðugt og ekkert of mikið planað. 

Bæjarhátíðin Stöð í stöð var haldin hér í júlí og þá var fjölmenni í Hólalandinu. Þá helgi tókum við frá fyrir okkar fólk. Það var heilmikil dagskrá og svaka skemmtilegt ball með Buffinu. Það allra skemmtilegasta sem ég hef farið á lengi lengi. 

Við fengum litlu Þýskalandsfjölskylduna okkar í stutta heimsókn í júlí og það var ofsalega gaman. 

Á haustmánuðum flugu börnin svo úr hreiðrinu og þá var tómlegt í kotinu, eiginlega hálf asnalegt fyrst.  Svo venst þetta. Ég er enn í skólanum í 65% og í "skemmtilegri" kjarabaráttu þessa dagana, með verkefni frá Tanna til að vinna í smátt og smátt og jóga með uppáhalds jógakellunum mínum. 

Jósef er í stjórn hjá yngri flokkum Fjarðabyggðar og stjórn UÍA og ég áfram hjá Krabbameinsfélaginu og Rauða krossinum ásamt því að sitja í barnaverndinni hér í sveitarfélaginu. 

Við vorum kosin í hjónaballsnefnd, þá fjórðu sem við störfum í eftir að við kynntumst á hjónaballi 1997. Í fjöldamörg ár hefur það verið haldið á milli jóla og nýárs en alltaf verið rætt um að færa það til. Við gerðum það og héldum heljarinnar ball og skemmtun í byrjun nóvember ásamt góðu fólki í Sköpunarmiðstöðinni, nánar tiltekið í gamla frystiklefanum í frystihúsinu fyrrverandi. 

Fyrstu gestir á nýju ári mæta strax í mars og við búumst við góðu og skemmtilegu sumri. Næsta sumar verð ég meira heima við því þetta er ansi drjúg vinna og það tók gigtarskrokkinn í að vinna það á hlaupum. 

Í ágúst yngdi Jósef upp um tólf ár eða svo en þá keyptum við okkur glænýjan bíl. Sá gamli var farinn að detta í drjúgan kostnað á köflum, vantaði meiri hæð og fjórhjóladrif. Tivoli frá Sangyoung varð fyrir valinu, nettur og lipur og hentar okkur ljómandi vel. 

Við syngjum enn í kórnum okkar og því miður höfum við verið í of góði æfingu í jarðarfararsöng. Hér á Stöðvarfirði voru fjögur dauðsföll á um tveimur mánuðum, allt ótímabært og mikill skellur fyrir litla samfélagið okkar. Það tók verulega á. Næsta ár ætlar kórinn í ferðalag til Englands og mér skilst að sumir séu farnir að skipuleggja það að fara á leik. 

Ég fer til Englands í janúar með samstarfsfólki mínu í skólanum á svokallaða Bett ráðstefnu. Allir skella sér og það verður væntanlega mjög skemmtilegt. 

Talandi um utanlandsferðir, þá er ein handan við hornið....

Eins og ég talaði um í upphafi þá förum við til Þýskalands eftir rúma viku og verjum jólunum hjá Höllu, Árna og stelpunum. Það er mikil tilhlökkun á báða bóga. Unglingarnir eru alsælir yfir því hvað evran er hagstæð og mér skilst að sumir ætli að fata sig vel upp. 

Það sem ég hef hér talið upp er brot af því besta. Ýmislegt hefur að sjálfsögðu gleymst en það sem mest er um vert að við erum við fína heilsu og hlökkum til að takast á við nýtt ár. 

Öllum vinum og ættingjum nær og fjær sendum við bestu óskir um gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár. Vonandi hittum við ykkur flest á nýju ári.. það er alveg kominn tími til í mörgum tilfellum... 


Hvenær deyjum við út ?

 

Um helgina áttum við hjónin skemmtilega helgi með kirkjukórnum okkar og kirkjukórnum á Djúpavogi.  

Síðasta vetur æfðum við sitt í hvoru lagi og saman messu sem ákveðið var að flytja á haustdögum ásamt nokkrum lögum frá hvorum kór þar sem messan er svolítið stutt. 

Í vikunni voru æfingar tvö kvöld og svo sameiginlega á laugardag með Djúpavogskórnum og þrumuðum svo yfir sveitungum okkar, fyrst  á Djúpavogi og brunuðum svo yfir á Stöðvarfjörð þar sem við héldum seinni tónleikana.  Með okkur voru nokkrir frábærir tónlistarmenn sem spiluðu á ýmis hljóðfæri.  Þetta var ótrúlega skemmtilegt og barasta þokkaleg mæting. 

Þegar ég sat á bekknum og hlustaði á Djúpavogskórinn og svo eftir að við höfðum sungið kom enn og aftur upp hugsunin "hvenær deyjum við út"?

Þegar ég flutti austur fyrir átján árum byrjaði ég í kirkju- og Samkórnum. Meðan börnin voru lítil var ég minna með en kom aftur af krafti inn í kirkjukórinn fyrir nokkrum árum þegar við fengum nýjan stjórnanda sem svo sannarlega er búinn að gera góða hluti með okkur. 

Þegar ég kom austur var ég tuttugu og sjö ára og var yngst í kórnum.... núna átján árum síðar er ég enn yngst, stjórnandinn er reyndar ööörlítið yngri.  Það var heldur enginn á mínum aldri í kórnum á Djúpavogi í gær.  

Ég trúi því ekki að þeir sem fæddir eru eftir 1970 hafi ekki gaman af að syngja og þegar ég googla hvort það sé hollt að syngja fær ég rúmar 48 þúsund síður sem styðja það. Við erum alltaf að spá í hvað er hollt og hvað ekki. 

Snýst þetta kannski um bindinguna? Þetta er jú binding, einu sinni í viku og svo nokkra sunnudaga á ári.  Sumir vilja ekki syngja eitthvað trúarlegt og ég skil og virði það. Minn maður trúir ekki en syngur samt með því hann hefur gaman af því að syngja, þó hann sé oft eini haninn í kvennahópnum. Hér úti á landi er kórstarfið sjálfboðastarf þar sem kirkjurnar hafa ekki bolmagn til að greiða söngfólkinu. Ég set það ekki fyrir mig því það er meira gefandi en svo að einhverjar krónur skipti máli í því samhengi. 

Ég veit svosem ekki hver ástæðan er en það þarf ekki mikinn vísindamann til að sjá að eftir nokkur ár deyja kórarnir út ef það verður aldrei nýliðun.  Það er kannski spurning um að fara að velja lög á disk til að láta spila yfir sér þegar kalið kemur. 

 


Jólaferð, fyrsti áfangi

Fyrir ferðalagið hafði frúin nokkrar áhyggjur af veðrinu. Hver lægðin á fætur annarri hafði rennt sér yfir landið með tilheyrandi roki, snjókomu og ófærð. Einhverra hluta vegna var það skaplegt við suðurströndina daginn sem við keyrðum suður og þegar við flugum út. 

Ferðalagið Stf-Kef tók netta tólf tíma sökum hálku, rúmlega klukkutími fór í snatt í Reykjavík en mikið var gott að komast til Sóla og Hafdísar þar sem okkar biðu vellistingar að sjálfsögðu.

Flugið út var tíðindalítið og við lentum á áætlun í Berlin. Glænýr Skódi beið okkar í bílastæðinu hjá bílaleigunni og flutti okkur hratt og örugglega til Schneeberg. Mikið var nú gaman að sjá fólkið þar, litlu manneskjurnar sem hafa stækkað töluvert síðan í sumar og foreldrana líka að sjálfsögðu.

Dagur 1. Þá var farið í fyrsta verslunarleiðangur til Chemnitz og það sem helst dró til tíðinda í þeirri ferð var þegar Sollan sló inn rangt pin númer við afgreiðslukassann í ódýru íþróttabúiðnni og fór í baklás. Það varð smá panik, kortið hans Jósefs virkaði ekki þar sem bílaleigan hafði tekið ansi háa tryggingu á kortið en ég fékk minnið að lokum. Hálf pínlegt samt. Daman á kassanum var mjög almennileg og hjálpleg. 

Í miðbæ Chemnitz var týpískur jólamarkaður og við röltum það aðeins í gegn. Þetta var helsta afrek dagsins.

Dagur 2. Þá skelltum við okkur yfir landamærin til Tékklands í bæ sem heitir Karlovy vary. Það er ekki nema um 1 1/2 klst keyrsla yfir fjöllin, samt niður dali og upp úr þeim aftur og aftur og yfir fjallið í 1020m hæð. Það er skíðabær en enginn snjór nema smá föl. Mesti snjór sem við höfum séð í þessari ferð. 

Við fundum bílastæðið sem við vorum búin að finna á googlinu og lögðum þar. Röltum svo um miðbæinn í tæpa þrjá tíma með viðkomu í verslunum og tveimur veitingastöðum. Slepptum kristalsbúðum þar sem hann er ekki á áhugasviði okkar en svakalega mikið af fallegum kristalsvörum þarna. Þetta er mikill spa bær og það væri ekki dónalegt að vera þarna um stund og láta dekra við sig. Úrvalið í H&M var óspennandi og Lindex ekkert spes. 

Dagur 3. Já enn var verslað. Nú var stelpuferð hjá stóru stelpunum þremur sem fóru um tíuleytið af stað til Dresden með það að megin markmiði að fara í Primark, vúvú.  Fyrst þurfti að hlaða á kolvetnin og við fórum á Vapiano sem er einn af okkar uppáhalds og við heimsóttum líka í Chemnitz. Góð kolvetnahleðsla. 

Í Primark vörðum við um tveimur tímum jaja og fundum ýmislegt fallegt, misstum samt ekki neitt, ja ekki mikið.  Eftir Primark fannst okkur allt annað dýrt og lítið verslað eftir þá búð. 

Dagur 4. Þetta fer að verða nokkuð einhæft. Í dag var verslað en nú voru það herramennirnir og stelpurnar aðeins. Loksins skelltum við okkur á göngu, hina dagana höfum við farið snemma út og verið komin heim í myrkri og þá er ekki spennandi að ganga úti. Chemnitz Center var viðkomustaðurinn sem eru verslanir en gengið úti á milli búðanna. Það er ekki gott í kulda því það er svalt úti og svo skelfilega heitt inni. KFC var visiterað fyrir Frikka og alsæll verslaði hann sér slatta af fötum. 

Jólaísinn var gerður um kvöldið, daim ís með smá Baileys lögg. Þorláksmessa tekur á móti okkur með 7 gráðum, auðri jörð og vindi hér í Schneeberg. Í dag ætlum við að jólast, pakka inn pökkunum, setja saman piparkökuhús og skreyta, já kannski hlusta á jólakveðjurnar á ruv. Versla svo rest af því sem vantar fyrir jóladagana. Engin afsökun fyrir að fara ekki á göngu. 

Tvær teknar í Karlovy vary, má segja að Jósef sé hallandi engill, hún séri rétt en svo fór hún svona í innsetningu :) Hallið höfði. 

Stór, stærri, stærstur Jósef engill

 


Aðventupistill 2014

IMG_2892 Þá er blessuð aðventan gengið í garð og desember byrjaður. Aðventan byrjaði með látum og hamagangi og skók landið með roki og fjúkandi trampólínum. Við sluppum að mestu hér þó við fengjum nokkrar sýnishorna hviður. 

Jólabréfið árlega er eingöngu rafrænt þetta árið nema til nokkrurra útvalinna sem ekki eru tengdir netinu góða. 

 Þá er komið að því að líta yfir árið 2014. 

Hjá Fjölskyldunni í Hólalandi 18 hófst nýja árið á Akureyri hvar við dvöldum hjá fjölskyldu okkar þar.  Það er orðin nokkurs konar hefð að verja áramótunum á þeim slóðum. 

Við tókumst á við nýtt ár með fögrum fyrirheitum, þau voru ekki skrifuð niður svo við vitum ekki alveg hvort það náðist að efna heitin. 

Allir hafa verið við nokkuð góða heilsu, Jósef hefur hagað sér vel í hjartastandinu og gigtin mín skárri en oft áður. Nokkrir vaxtaverkir hafa hrjáð unglingana en það líður hjá.

Friðrik er vaxinn báðum foreldrum sínum yfir höfuð og Dýrunn nálgast móður sína í hæð. Þau stunda námið sitt af mis miklu kappi eins og gengur og gerist og íþróttir og tónlistariðkun er að mestu á sínum stað.

Frikki tók pásu í fótboltanum í sumar því skrokkurinn þoldi ekki þennan vaxtarhraða og hann hvíldi. Hann byrjaði aftur í haust og það hefur gengið nokkuð skammlaust með hjálp sjúkraþjálfara sem kenndi honum að vinna með líkamsbeitinguna.

Hann vann í bæjarvinnunni í sumar og er duglegur og ábyrgur til verka. Sló garð nágrannans og fékk fyrir það aur og fékk nokkrar vaktir hjá pabba sínum við landanir. Hann er í 10. bekk og ljóst að næsta vetur yfirgefur hann foreldrahús og þá er að sjá hversu gott veganesið er sem við höfum gefið honum. Tónlistin er honum í blóð borin og hann spilar á gítar og bassa jöfnum höndum (sterkastur á gítarinn), bætti trommum við í vetur en verkfall tónlistarkennara setti óhjákvæmilega strik í reikninginn. 

Dýrunn stundaði fótboltann af kappi í sumar og þvældist um með liðinu sínu. Hún er komin í 4. flokk og spilar sem bakvörður. Það hefur eflt hana og styrkt og aukið ákveðnina hjá henni. Reynir stundum á en hún veit að mótlætið styrkir hana. Því miður var ekki píanókennari á svæðinu sem gat kennt henni á haustönninni en það stendur vonandi til bóta um áramótin. Hún er að vinna í tónfræðinni og stefnir á að klára grunnprófið fyrir vorið. Þar er hún búin með spiliríið. Hún var hundfúl yfir því að hafa ekki vinnu en tók að sér verkefni á heimilinu gegn gjaldi sem móðirin var dauðfegin að fá pásu frá. Hún sér um að brjóta saman og ganga frá þvottinum.

Hún er alltaf að sauma og brasa eitthvað og í nóvember tók hún þátt ásamt tveimur vinkonum sínum í Stíl sem er hönnunarkeppni á Samaust. Þær komust ekki á verðlaunapall en lærðu mikið af þessari vinnu sem var ansi mikil og tók á taugarnar á köflum. Hún er í fermingarfræðslu og fermist 3. maí 2015. Við tökum reyndar forskot á sæluna og höldum veisluna hennar 2. því ekki mátti víst ferma hér á öðrum en rauðum dögum. Sú saga kemst ekki fyrir í þessum pistli. 

Jósef vinnur baki brotnu hjá Tandrabergi og unir sér sjaldan hvíldar. Tekur sér fá og stutt frí og einu skiptin sem næst að koma honum í frí er þegar við yfirgefum landið. Það gerðum við einmitt um páskana.  Flugum til Berlin og keyrðum þaðan til Hamburg, dvöldum hjá vinafólki í þrjá daga og skoðuðum okkur um. Vorum um páskana hjá Höllu, Árna og Helenu og bumbubúa í Schneeberg. Tveimur dögum eftir heimkomuna kom svo Sara Marín í heiminn. Við hittum hana í fyrsta sinn í júní og það var yndælis stund. Ferðasagan er hér neðar í blogginu. 

Jósef gerði aðra atlögu við að kára að mála húsið. Það tókst ekki í fyrra og ekki heldur í ár því annir í vinnu voru svo miklar þegar málningarfærið gafst. Núna er húsið eins og flekkóttur gíraffi en við létum laga tröppurnar og smíða forláta handrið þar á, létum líka jarðvegsskipta í bílastæðinu. Næsta ár eru svalirnar á dagskrá og hugsanlega endurnýjun á stóra stofuglugganum. Já spurning um bílskúrshurðina, pabbi heitinn hefði sagt að það væri hægt að ríða fylfullri meri í gegnum rifurnar á henni. Ástandið á henni er frekar dapurt.  Kisa heldur þó músunum frá og við finnum þær í mis heilu lagi á svölunum okkar. 

Ég hef haldið mínu striki í kennslu og jóga og bætti einni aukabúgrein við og lærði að verða Foam flex kennari í lok síðasta vetrar. Síðan þá hef ég kennt mannskapnum líka að rúlla og nudda líkamann frá toppi til táar. 

Nokkuð fleiri jurtir voru tíndar í sumar heldur en síðasta sumar og ég komst upp á eitt fjall, það var ekkert slor, Sandfell í Fáskrúðsfirði. Gekk samt um hlíðarnar í mínum fallega Stöðvarfirði og naut náttúrunnar. Sauðabólstindurinn er á dagskrá á hverju ári og hann verður vonandi enn á sínum stað næsta ár. 

Ég reyndi örlítið fyrir mér sem leiðsögumaður og starfaði hjá fyrirtæki á Eskifirði sem heitir Tanni travel í verkefninu Meet the locals. Boðið var upp á þorpsgöngur með leiðsögn og í listaumhverfinu okkar hér á Stöðvarfirði var yfirskriftin "The heart of art and craft". Þrír hópar bókuðu sig og ég fór með tvo þeirra og það var skemmtilegt og gefandi verkefni. Þetta er vettvangur sem ég hef áhuga á að kynna mér nánar.  

Við fórum aðeins í tvær útilegur með hryssuna (fellihýsið), aðra í Egilsstaði á Sumarhátíð þar sem Dýrunn keppti i frjálsum og svo í Ásbyrgi með hluta af Akureyrarfjölskyldunni. Að sjálfsögðu stefnum við á að nota hana meira næsta ár eins og alltaf. 

Margt fleira gerðist markvert sem of langt væri að tína til. Við skiptum um bíl á vormánuðum og Súbbi gamli fékk nýja eigendur með haustinu. Við yngdum upp alveg um þrjú ár og það munar ótrúlega miklu. Það er reyndar ekki vetrarkaggi svo við krossum fingur að veður verði áfram milt og snjólétt.

Núna er tilhlökkun í algeymingi því við ætlum að fljúga af landi brott þann 18. desember og verja jólunum líkt og páskunum í Schneeberg hjá litlu fjölskyldunni okkar þar. Það er tilhlökkun á báða bóga og það verður gaman að fá að kynnast litlu manneskjunni og leika við Helenu Emmu.

Við sendum vinum og ættingjum um víða veröld innilegar jólakveðjur með ósk um gæfuríkt komandi ár 

Solla og co. í Hólalandi 18 


Ilmandi húsráð

Þegar rökkrið færist enn meira yfir og dagarnir styttast verða kertin allsráðandi hér í Hólalandinu. Ég er einstaklega hrifin af ilmkertum og leyfi þeim að loga lon og don og fylla heimilið dásemdar ilmi. Vanillan er yfirleitt ráðandi en þegar nær dregur aðventu verður hún örlítið kryddaðri, epli, kanill og allt því tengt. 

Ég er fallin fyrir ilm-vötnunum frá Pier með bambus stráunum og eitt slíkt prýðir holið og sá dásemdarilmur berst um miðrýmið, mediterriean lavender. Ég fann svipað í Rúmfó með vanillu og það gerir alveg sama gagn, örlítið ódýrara. Það prýðir holið í kjallaranum. 

Ég hef lengi haft það fyrir sið að setja reglulega nokkra lavender dropa í ryksugupokann áður en ég ryksuga (ekki alveg í hvert skipti samt því þetta endist smá) og þá eltir ilmurinn mig meðan ég þeystist um í heimilisræktinni yfir fermetrana mína sem eru nú nokkrir. 

Dýrunn Pinterest grúskari kenndi mér enn eitt dásemdar ráð, að setja nokkra dropa af olíu innan í hólkinn á klósettrúllunni. Ég ákvað að klára upp gamla olíu í skúffunni sem enn ilmar vel og nú ilmar bossinn af jóla eplalykt við hverja skeiningu. Það er nokkuð ljúft. 

Fyrir hvern jógatíma úða ég yfir rýmið lavender ilmkjarnaolíu í vatni, stelpurnar fyllast strax slökunarvímu þegar þær koma í rýmið enda er lyktin mjög mild og ljúf. Svo er spurt "Verður þetta ekki rólegur tími".

Þetta er líka hægt að gera heima, úða í gardínurnar eða aðeins yfir koddana eða sængurnar ef maður vill aðeins fríska upp á andrúmsloftið. 

Að sjálfsögðu á ég líka fleiri en einn brennara sem ég nota reglulega líka. 

Ég skúra með Enjo og ég smelli nokkrum dropum af góðri ilmkjarnaolíu í vatnið svo það kemur smá ilmur þegar ég úða á gólfið eða þá fleti sem ég er að þrífa í hvert skipti. 

Að lokum er það þvottavélin. Fyrir margt löngu hætti ég allri notkun mýkingarefna og hef nýverið tekið upp á því að setja smá dropa af lavender eða Tea tree ilmkjarnaolíum í mýkingarefnishólfið. Það kemur ferskur ilmur af þvottinum (ég nota ilmefnalaust þvottaefni) og það er ljúft. Samt hangir lyktin ekki í honum. 

Það er mjög gott að við skulum ekki glíma við ofnæmi fyrir þessari ilmflóru minni en þó þetta hljómi eins og heimilið sé þrungið alls kyns lykt og ilmi þá er þetta ekki allt brúkað í einu. Allt er gott í hófi og svona hreinar olíur eru líka fljótar að gufa upp, gleðja andann þann tíma meðan þær eru í loftinu. 

 

 

 


Hnútur í maga og sorg í hjarta fyrirfram

Í allan gærdag og fram á nótt hef ég setið hugsi með nokkra sorg í hjarta fyrirfram eftir að starfsfólk skóla og svo foreldrar skóla og nemendur voru boðaðir með stuttum fyrirvara á fund með bæjarstjóra og fræðslustjóra. Klukkan fimm í morgun var svefninn rofinn og enn var ótti og sorg í hjarta, fyrirfram. 

Ég óttast það sem allir óttast og við höfum óttast síðan við urðum hluti af Fjarðabyggð. Hve lengi fáum við að halda skólastarfinu hér og bjóða fáu börnunum okkar upp á það að geta sótt skólann sinn í sínu umhverfi og öryggi?  Við vitum að það er dýrt að reka svona litla einingu og það er jú verið að rembast við að greiða niður skuldir sveitarfélagsins á x mörgum árum, fylla í gatið sem fyrst því það lítur vel út.  Það er gott að búa í Fjarðabyggð tönglast þeir á sem batteríinu stjórna og hingað til hef ég alls ekki kvartað þó ég hafi ákveðnar skoðanir á ýmsu.  

Í þessu samfélagi sem nú telur innan við tvöhundruð hræður og hefur minnkað í fjölda um ca einn þriðja síðan Samherji kippti aðal atvinnumöguleikanum burt úr bæjarfélaginu er skólinn hjartað í samfélaginu.  Þetta er stærsti vinnustaðurinn, þar er hlúð að grunninum okkar og tengslin hvað mest við það sem gerist hér. Stórt og gott hjarta þó það sé ekki stórt í sniðum. Þangað eru allir velkomnir og er samkomustaður fólks við ýmis tækifæri. 

Við erum samfélag, manneskjur sem höfum valið að vera hér áfram þrátt fyrir að ýmislegt hafi breyst síðustu tíu ár. Við hjónin fórum á hausinn með búðina m.a. þegar fólk fór að keyra í Bónus, Samherji fór, svo lokaði pósthúsið, bankinn eftir það, læknisþjónusta sem var nokkuð örugg tvisvar í viku er varla hægt að kalla þjónustu lengur og við erum heppinn ef við sjáum lækni á vappi hér.  

Mest alla þjónustu sækjum við því lengra til, mest á Reyðarfjörð eða í Egilsstaði með tilheyrandi kostnaði í tíma og peningum. Við sættum okkur við það. 

Samt erum við samfélag og ótrúlega margt skemmtilegt og jákvætt í gangi sem þeir sem vettlingi geta valdið taka þátt í. Starfsemi Rauða krossinns er öflug, Jaspis félag fólks 50 plús hefur reglulega starfsemi, lista og menningalíf er magnað og hefur verið ákveðin sérstaða hjá okkur. Við rekur Salthúsmarkaðinn yfir sumartímann og hingað er mikið flæði ferðamanna sem koma flestir til að sjá Steinasafnið. Á Brekkunni fáum við allar helstu nauðsynjar og bestu pizzurnar þó víða væri leitað, við erum virkir þátttakendur í Dögum myrkurs, haldin eru spilakvöld vikulega yfir vetrartímann....... áfram mætti telja heilmikið upp og í skólanum slær hjartað.

Við erum stolt af litla samfélaginu okkar og þakklát fyrir að vera hluti af því.  

Það er ekki gott að búa með ótta í hjartanu fyrir framtíð þessa litla samfélags, verður skólahald með óbreyttu sniði næsta ár, verður skorið niður, held ég vinnunni minni ??? Erum við bara tölur á Exelskjali? Það óttast ég mest.   Ef svo er segi ég, skammist ykkar. 

Vonandi kemur ekki til þess að ég birti hugrenningar mínar en ef grunur minn reynist réttur skelli ég honum hér inn þegar líður á daginn.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband