Fín vekjaraklukka !
Föstudagur, 12. desember 2008
Skórinn úti í glugga er fín vekjaraklukka á þessu heimili. Tíu mínútur fyrir sjö í morgun voru allir komnir á fætur og búið að kíkja í skóinn og allir sáttir við sitt. Sá eldri veit hver sér um gjafirnar en Dýrunn er enn með fulla trú og skrifar bréf á hverju kvöldi, væntanlega fram að jólum. Hver sveinki svarar og þakkar fyrir með skelfilegri rithönd. Allar þessar ritsmíðar eru vel geymdar og síðar verður hægt að ylja sér við minningarnar sem þær geyma.
Hér fara líka allir í háttinn á skikkanlegum tíma, reyndar er góð rútína á því á skólatíma, engin tölva eftir sex og í háttinn á þeim tíma að menn séu úthvíldir því ég hef þann metnað að börnin mín geti sinnt vinnunni sinni í skólanum án þess að vera gapandi og geispandi eða geðvond af einskærri þreytu. Friðrik má velja sér einn fótboltaleik í vikunni að horfa á eftir kvöldmat og hann gengst við því.
Eitt af því sem mér þykir vanta í samfélag nútímans er að börnum séu sett mörk eða eins og sálfræðikennarinn minn orðaði um árið í þroskasálfræðinni "Börn þurfa ást og aga". Þetta er mér mjög hugleikið og ég á óskaplega erfitt að verða æðrulaus yfir því hvað börnin eiga erfitt með að fara eftir reglum, sýna samhug og eiga eðlileg samskipti, alltaf keppni og sífelldir árekstrar. Sorglegt í alla staði. Börnin endurspegla það umhverfi sem þau eru í og því er sjaldan of oft kveðið., "aðgát skal höfð í nærveru sálar", muna það að börn endurspegla það sem fram fer á heimilunum í orðum og gjörðum, þau sem alast upp við neikvæðni eru neikvæð, þau sem heyra talað um annað fólk á neikvæðum nótum gera það líka og oftar en ekki mistúlka eða túlka á eigin hátt.
Ekki eru allir foreldrar á þessum nótum sem betur fer og ýmsir sem ég þekki sem hafa lausnamiðaða hugsun, hjálpa börnunum að hugsa stórt og hjálpa þeim að efla draumana sína, kenna börnum sínum að þau beri ábyrgð á eigin vellíðan og það sem þau sendi frá sér fái þau til baka, jákvætt eða neikvætt. Þeir foreldrar vita líka að það er skratti erfitt að sá jákvæðu fræjunum í neikvæðu samfélagi en gefast ekki upp og halda áfram og áfram því þeir vita hver ávöxturinn er. Ég tek ofan af fyrir ykkur kæru vinir þið vitið hver þið eruð með þessum lestri.
Það var mikið passað upp á að við heyrðum ekki ef rædd voru fullorðinsmál sem við ekki skildum og sem betur fer ólst ég ekki upp við öfund í garð náungans, eða að sífellt væri verið að kenna öðrum um hitt og þetta sem miður fór, heldur að vera sátt við mig og það sem ég stend fyrir. Stundum þegar einhver var í heimsókn hjá mömmu og ég mátti ekki heyra eitthvað sagði mamma "Litlar könnur hafa stór eyru" og þá féll umræðan niður eða ég mátti gjöra svo vel að fara út að leika mér eða upp að leika og réði engu um það.
Þá er ég aðeins búin að pústa, það er gott, en að öðrum dægurmálum.
Kisa er svoddan ólíkindatól. Nú hafði ég talið hana af en hafði heyrt af kisu á hennar gömlu slóðum, var búin að panta dýraeftirlitsmann frá Fjarðabyggð til að fanga í búr og útvega mér annað til að fara með hana í Breiðdalinn til að fara í "sveitina" langt í burtu. Um kvöldmatarleytið var vælt fyrir utan, mjáááá´, "Bíðið við" sagði Jósef, "ég heyrði örugglega mjálm", svo stökk hann inn í forstofu og opnaði dyrnar og þar beið Sóla, nuddaði sér utan um fæturna á honum og leitaði svo að matardiskunum. Allt fór á hvolf og hún fékk dýrindis máltíð og hver fjölskyldumeðlimur var nuddaður vel um fæturna svo vel þakkaði hún fyrir sig. Hmmmmmm, þar með var kerlan komin í klípu eina ferðina enn og enn og aftur bakkar hún og leyfir þessari snúllu að bræða sig með keleríinu og fögrum loforðum um að gera þetta aldrei aftur.
Ég fer þó með myndir á vettvang þar sem talið er að hún hafi verið að guða á glugga og ef það endurtekur sig þá verð ég að taka á honum stóra mínum og standa við stóru orðin, því miður því ég vil ekki að fólk geti ekki opnað glugga vegna kattarins míns. Ég bý svo vel að búa hátt uppi og get opnað flesta glugga án slíkra heimsókna, hina opna ég ekki því þá birtist fress sem mig langar ekkert að fá í heimsókn.
Í gær fengum við óvænta sendingu frá vinum okkar í Þýskalandi sem voru að hugsa til okkar í kreppunni eins og þau orðuðu. Hún kom mér til að vökna um augu og þau eiga margfaldar þakkir skildar.
Aðventutónleikarnir í kirkjunni verða í kvöld og krakkarnir syngja þar að sjálfsögðu. Fricco eins og hann kallar sjálfan sig þessa dagana er að eigin mati að verða of stór til að syngja í þessum hóp en allir taka þátt og munar um hverja röddina. Smá vottur af gelgju og uppreisn í aðsigi.
Á morgun verða jólatónleikar tónlistarskólans og ég hlakka mikið til. Ég er svo ánægð og stolt af því hvað þeim gengur vel með að spila og bíð spennt að sjá. Dýrunn er að spila á sínum fyrstu tónleikum og það er svakaleg upplifun og mikil tilhlökkun hjá henni. Friðrik spilar með hljómsveit í fyrsta sinn, fallegt verk og gaman væri að sjá einhverja fjölskyldumeðlimi á tónleikunum á morgun.
Jæja elskurnar mínar, hafið það eins og þið viljið og farið snemma í háttinn..... annars verður skórinn kannski tómur
Athugasemdir
Frábær pistill systa og mörg orð í tíma töluð. Ég man þá tíð þegar við Sigurjón vorum að reyna að vera ósýnileg í eldhúsinu í Skuld, þegar konur komu í heimsókn til mömmu. En oftast vorum við nú minnt á að það væri miklu hollara að vera úti í góða veðrinu að leika okkur.
Við Emil ætlum að mæta á tónleikana á morgun og hlusta á alla snillingana.
Sólrún (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 13:23
Góður pistill hjá þér og tek ég undir þetta. Það er slæmt hvað jólasveinninn er alltaf jafn slæmur til handarinnar þegar hann er að færa birtu og yl í hvert hús,kannski bara svona loppinn,alltaf hálf kalt úti um aðventunætur.
Sigurjón Snær (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 00:39
Mjög góður pistill og mættu margir taka þetta til greina.
Áslaug (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 13:47
Já karlgreyið. Í morgun var mikið spáð í rithöndina og þótti hún heldur groddaleg. Ekki nóg með að Dýrunn væri búin að skrifa bréf heldur var búið að útbúa miða sem Giljagaur gat skrifað sitt svar á. Hann kemst ekki undan því greyið.
Solveig Friðriksdóttir, 13.12.2008 kl. 16:04
Rithönd jólasveinanna lagast víst lítið með árunum. Ég fékk nefnilega einu sinni skammarbréf í skóinn þegar ég var lítil (það er svo langt síðan að það var, að jólasveinarnir voru ekki farnir að gefa skemmdar kartöflur í skóinn þá). En ég man að ég var svo hneyksluð á því hvað jólasveininn skrifaði ferlega ílla. Sigurjón bróðir var samt ekki sammála mér.
Áslaug (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 11:21
Já sú saga var sögð oftar en einu sinni í minni barnæsku. Ég veit ekki hvort rithöndin hefur skánað hehehe
Solveig Friðriksdóttir, 14.12.2008 kl. 16:05
Frábær pistill
Jóhanna (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 20:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.