Sjómannadagur
Sunnudagur, 1. júní 2008
Allt í einu áttaði ég mig á því að það er komið rúmt ár frá því að ég opnaði bloggsíðuna mína. Já mikið líður tíminn hratt. Pistil sjómannadagsins í fyrra tileinkaði ég karli föður mínum og geri það enn í dag. Hugurinn reikar óneitanlega alltaf til hans dagana fyrir sjómannadag og á deginum sjálfum. Í minningu hans skírði ég Dýrunni mína á sjómannadegi.
Það er ósköp gott að fletta upp í minningunum því þær eru svo ljúfar. Glettnin og húmorinn og æðruleysið. Í dagsins önn koma oft upp skemmtileg minningabrot þar sem tilsvörin hans eða eitthvað uppátæki koma við sögu.
Eitt sinn var hann að ganga hjá gamla kaupfélaginu og systurnar Dandý og Helga voru í bíl þar hjá. Eitthvað stuð var á dömunum eins og nærri má geta og önnur galaði út um gluggann til pabba "Komdu nú hérna og kysstu mig". Ekki leist sömu dömu á blikuna þegar hann gerði sig líklegan til að taka þessu góða tilboði.
Þegar ég keypti mína fyrstu þvottavél í Raftækjaverslun Íslands voru mamma og pabbi með í för. Ungur afgreiðslumaður afgreiddi okkur og var líklega að selja sína fyrstu þvottavél, ja í það minnsta var hann ekki orðinn öruggur í því sem hann var að gera. Pabbi sá þarna forláta pönnu sem hann ætlaði að kaupa en að sjálfsögðu eins og honum var lagið spurði vesalings afgreiðslumanninn sem var nógu mikið á tauginni hvort hann fengi pönnuna ekki í kaupbæti fyrst við værum að versla svona stóran hlut. Hann átti engin orð greyið.
En ég þakka honum í huganum fyrir að hafa hvatt eða eiginlega rekið mig á hjónaball á Stöðvarfirði sama ár og þvottavélin var keypt ´97. Ég kom heim um jólin og stóð á heilmiklum tímamótum. Hafði lítið komið austur nema í smá helgarskrepp og fann að ég var einhvern veginn að tapa tengslunum við þetta litla samfélag (auðvitað ekki fjölskylduna mína). Mig langaði ekkert á hjónaballið og ætlaði bara að vera heima og hafa það notalegt með bók og Mackintosh við hönd. Þetta voru síðustu jólin hans pabba og krabbinn búinn að banka upp á án þess að við vissum það þá og hann var ekki í ballstuði. Þegar ég sagðist ekki ætla að fara, rétti hann mér aðgangseyrinn að mat og balli og sagði "ég vil að þú farir fyrir mig og mömmu þína". Ég fór á mat og ball og þegar kom að kokkinum skellti ég mér að sjálfsögðu í dansinn. Þegar tónlistin hætti stóð fyrir framan mig náungi sem ég vissi að var nýfluttur á Stöðvarfjörð og vann á skrifstofu hreppsins. Dansinn var við hæfi, tangó og þeir sem þekkja Jósef vita að hann er ekki mikill dansmaður, svo það var stigið á tær vinstri hægri en þessi skrykkjótti dans kom þó ekki í veg fyrir að við hefðum áhuga á að kynnast nánar.
Framhaldið vitið þið að mestu og ég flutti austur í ágúst árið eftir nokkrum dögum eftir að pabbi blessaður kvaddi þessa jarðvist.
Fáninn verður dreginn að hún í minningu hans, hátíðarhöld fara framhjá okkur þetta árið því nota á þurrkinn í garðvinnu þar sem við leggjum í víking í lok vikunnar. Við skreppum eflaust inn í kirkjugarð í kaffi hjá karli og fáum okkur hundasúrur, hann á alltaf nóg af þeim.
Hann situr eflaust hjá okkur og segir einhverja brandara, eflaust að rifna úr monti yfir þriðja langafabarninu.
Hafið það eins og þið viljið
Athugasemdir
Já, maður hugsar ávalt til baka á þessum degi.Ég gleymi ekki þegar ég fékk að fara með honum í mína fyrstu sjóferð sem var línutúr á danska Heimi. það er ógleymanlegt.
Sigurjón Snær. (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 12:21
Margar eru minningarnar frá þessum degi...sorg og gleði !
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 1.6.2008 kl. 12:27
Ég á bara fallegar og góðar minningar um tengdapabba,alltaf kátur og hress og mikið fyrir sína nánustu,aldrei bar skugga á okkar samveru.Arnar Snær minnist oft á afa,það væri gott að geta leitað til hans því þeir eru báðir vélstjórar,afi vissi svörinn.
Minningin um um elsku tengdapabba lifir alla tíð.
Kristín Jóhannesdóttir
Kristín (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 12:44
Já minningar um góðan og traustan vin lifa.
Þóra Björk (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 21:54
Já, hugurinn hvarflaði víða í gær á sjómannadegi þótt lítið minnti á þann dag hér. Stöku fáni blakti hér og þar og sólin brosti sínu blíðasta. Ég fór að hugsa um forláta báta sam pabbi smíðaði handa okkur Sigurjóni úr gömlum olíudunkum. Þeir voru hinar flottustu fleytur og vorum með þá í bandi og sigldum frá litlu bryggjunni. Minn var blámálaður og hét Birna, örugglega SU eitthvað.
Sólrún (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 11:43
Og minn hét Lúðvík
Sigurjón. (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 12:32
Solla, skemmtileg minningabrot hjá þér.
Áslaug (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 18:09
Ansi skemmtilegt blogg hjá þér Solla beib..
Takk fyrir innlitið og jújú ég vissi svosem að jógað var búið, alveg merkilegt að það koma alltaf eitthvað upp á í lokin sem varð þess valdandi að ég gleymdi hreinlega stund og stað, fékk gesti, átti afmæli og guð má vita hvað.. .. Mundi þó 1 sinni að láta vita af mér.. hehhe En ég mæti sko galvösk til þín í haust og byrja að sjálfsögðu á því að borga eins og síðast.. Það er nú í lagi að borga og mæta svo ekki.. eða hvað.. ;) hahhha En Anna Heiða er enn í sæluvímu.. :O
Eigðiði frábært frí framundan í sólinni símalaus.. sjáumst hressar síðar..
Kveðja, Dreifbýlistúttan í Nafla Alheimsins..
Dreifbýlistúttan (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 19:30
Já stórmerkilegur karll hann karl faðir minn og synd að hann skyldi vera kallaður svo fljótt frá okkur. Mér skilst nú að hann hafi nóg fyrir stafni, er í massa útgerð á himinhöfunum (örugglega með félögunum á Heimi) en gefur sér samt tíma til að mæta á ættarsamkomur. Ég fór til miðils haustið eftir að við Jósef giftum okkur og þá mætti hann og sagði að hann hefði mætt í brúðkaupið og slatti af öðrum gestum, þetta hefði verið hálfgert ættarmót Hann hefur látið vita af sér við fleiri samkomur t.d. þegar ættarmótið var hér í hittifyrra. Þá dreymdi Sigurjón hann og hann sagði að hann kæmi á mótið, ætlaði ekki að vera í Grenimel heldur ætluðu þeir bræður að vera á tjaldstæðinu hjá hinu fólkinu.... vildu vera það sem stuðið væri greinilega.
Jóhanna, allt kemur í ljós varðandi haustið. Stöddinn er í algjörum forgang og mér sýnist kominn töluverður áhugi fyrir byrjendanámskeiði sem myndi bætast við framhaldsnámskeiðið. Hitt kemur í ljós hvort það eru tímar sem henta ofl. Líka gott að hafa fleiri nemendur hehe. Ég læt vita af mér ekki spurning.
Solveig Friðriksdóttir, 4.6.2008 kl. 11:22
Þegar ég lærið að beita var pabbi þinn líka að beita í sama skúr og ég held að hann hafi skemmt sér vel yfir mér og mínum tilburðum við beitninguna. Ég á bara semmtilega minningar frá þessum tíma og pabbi þinn hló oft mikið af mér á þessum tíma. Bara góðar og skemmtilegar minningar.... já hann pabbi þinn var góður maður.
Jóhanna þ (IP-tala skráð) 6.6.2008 kl. 12:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.