Sundlaug Stöðvarfjarðar...
Mánudagur, 26. maí 2008
...er okkar annað heimili þessa dagana. Dýrunn er enn of ung til að fara ein í sund svo ég skottast með henni á hverjum degi og sleiki sólina, í lauginni, pottinum eða á bekknum ef það er ekki gustur. Þegar sólin fer á bak við ský ætla ég að synda svolítið. Í veðurblíðunni síðustu daga hefur freknum fjölgað svo um munar og ég fer bráðum að verða brún ef þær ná að tengjast allar saman. Þetta er fínn undirbúningur fyrir sólina á Spáni sem við heimsækjum eftir tvær vikur akkúrat.
Greyið garðurinn hefur verið vanræktur svo um munar greyið í blíðunni en það stendur til bóta. Ég er komin með gróðurkassa sem ég á reyndar eftir að púsla saman og gulrótarfræin og radísurnar fara niður áður en við förum út.
Það eru vordagar í skólanum og þið getið fræðst um þá á heimasíðu skólans á www.austurbyggd.is/grunnskoli . Í morgun vorum við í Nýgræðingnum og þar var heldur betur tekið til hendinni, borið í brú, bekki og pall, kurli stráð á drjúgan hluta af göngustígnum, trjábolir bornir úr "skóginum", dauðar greinar hreinsaðar af svæðinu, einnig rusl og birki gróðursett. Engin smá vinna sem fór fram á fjórum tímum. Á morgun förum við til Kárahnjúka í blíðunni og það verður bara gaman. Við förum öll úr skólanum, bæði nemendur og starfsfólk.
Bið að heilsa út í blíðuna
Athugasemdir
Hvernig braggast lerkihríslan góða í Nýgræðingnum? Er enn líf í henni? Maður verður nú að kíkja við í sumar og gefa henni smá tiltal og pepp :-)
Hallan (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 09:34
Heyrðu Hallhildur mín. Einmitt í morgun talaði ég aðeins við hana og tók mynd af henni. Hún hefur braggast ágætlega greyið en ber þess merki að sum árin hafa reynst henni erfiðari en önnur. Ég sendi ykkur systrum myndina
Solveig Friðriksdóttir, 28.5.2008 kl. 13:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.