Bananabrauð
Mánudagur, 22. október 2007
Dugnaðurinn í konunni á mánudagsmorgni er slíkur að það hálfa væri nóg. Klukkan ekki orðin níu og hún búin að sletta í bakkelsi sem bíður eftir að komast í ofninn. Eins og þetta gerist á hverjum degi, ónei ég er óhemju löt við baksturinn þessa dagana en stundum er ég að vandræðast með banana sem eru orðnir linir og mér sviður að henda. Friðrik kom með uppskrift að bananabrauði sem hann bakaði hjá Hönnu Grétu í heimilisfræðinni og er svakalega einföld. Hún hljóðar svo:
1 bolli sykur
2 egg
2-3 vel þroskaðir bananar
2 bollar hveiti
1 tsk natron
1/2 tsk salt
Sykur, egg og bananar þeytt vel saman. Þurrefnum blandað saman og sett í hræruna. Sett í aflangt kökumót. Bakað við 180°C í ca 1 1/4 klst (160° í blástursofni).
Hljómar vel og ótrúlega einfalt. En þannig er það með mig að ég aðlaga uppskriftir gjarnan að mínum smekk og mín útgáfa er á þessa leið:
1/4 bolli púðursykur
2 msk (ca ég hellti) Agave sýróp
1 bolli gróft spelt
1 bolli fínmalað spelt
2 1/2 banani
2 egg
1/2 tsk salt
Ég er alltaf að vinna í að minnka sykurinn og hvíta hveitið. Speltið þykir mér rosalega fínt og nota núna eingöngu í pizzurnar mínar (sem er eiginlega aðal baksturinn sem fram fer á heimilinu) og allir jafn sáttir á heimilinu þó sumum þyki nú um of á köflum í heilsubröltinu mínu.
Spakmælið sem ég dró úr bunkanum passar heldur betur við vinnuna um helgina: Ég tek EITT skref í einu að markmiðum mínum
Athugasemdir
Gleymdi víst natroninu, það var líka í minni útgáfu.
Solveig Friðriksdóttir, 22.10.2007 kl. 09:05
Girnilegt allt sammen, hver veit nema ég skelli í bakstur.
Fjóla Þorsteins (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 10:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.