Vetur í nánd ...
Sunnudagur, 16. september 2007
Alltaf kemur það jafn flatt upp á mann þegar haustið og veturinn gerir innreið sína. Síðustu daga hafa fjöllin verið grá niður í miðjar hlíðar, "Kári" blæs eins og hann getur, ég kveiki á ofnunum og hækka á öðrum til að fá yl í húsið og allt eftir því. Svo brýst blessuð sólin fram og ég fer ofnahringinn aftur því þó hún sé lágt á lofti þá hitar hún vel inn um stóru gluggana mína. Ég lækka því á nokkrum ofnum og slekk á sumum Gaman að þessu.
Nú á sunnudegi slaka ég á eftir annasama vikurest. Ég fór á Djúpavog á fimmtudag á trúnaðarmannanámskeið, keyrði heim á leið seinnipartinn og kenndi jóga á Breiðdalsvík, komst heim áður en varað var við að fólk væri á ferð í Berufirði. Á föstudag var Haustþing kennara og þá var aftur brunað á Djúpavog. Þar dvöldum við allan daginn. Setningu seinkaði því flug lá niðri á fimmtudeginum og fyrirlesarar komust ekki á réttum tíma. Skipti ekki máli því þá náði fólk meiri tíma í spjall. Ég fór á mjög skemmtilegan fyrirlestur um heimspeki með börnum og við vorum leidd í gegnum eina heimspekistund. Svakalega spennandi viðfangsefni. Eitthvað sem ég vildi sjá meira í skólastarfinu og gera mig hæfari í varðandi mín börn því við erum allt of mikið að gefa þeim svörin í stað þess að hvetja þau til að hugsa sjálfstætt og finna leiðirnar, með hvatningu og að á þau sé hlustað.
Þetta var líklega eitt fámennasta þing sem ég hef setið því í einhverjum skólum er óánægja með hitt og þetta og dittinn og dattinn. Það verður eflaust tekið til endurskoðunar af stjórninni. Við létum það ekki á okkur fá, leigðum herbergi þegar aðalfundurinn var búinn og sjænuðum okkur áður en kvöldverðurinn hófst. Borðhaldið var virkilega skemmtilegt, mjög létt yfir mannskapnum og allir lögðu sitt af mörkum til að gera það sem best. Maturinn var skelfilega góður, ég féll gjörsamlega fyrir sjávarréttasalati og kjötið barasta varð gjörsamlega að víkja, þó ég hafi smakkað og þótt gott.
Við fórum heim eftir borðhald og ég var komin heim undir miðnætti. Í gær var svo fyrri hluti leiðbeinendanámskeiðsins í stafgöngu sem ég fór á á Reyðarfirði. Jóna Hildur frá ÍSÍ fór með okkur í undirstöðuatriðin. Við æfðum tækniatriðin að sjálfsögðu úti, vorum myndaðar fyrst og í lokin og ótrúlegur munur. Þetta var ofsalega gaman og ég hlakka til að spreyta mig á að ná tækninni betur og kenna hana líka því við kennum lágmark tíu tíma áður en við hittumst aftur í nóvember og ljúkum námskeiðinu. Ég finn aðeins fyrir skrokknum í dag enda er verið að taka á öðrum vöðvum en vanalega. Fyrir mig verður þetta góð viðbót með jóganu.
Sólmundur litli er í kassaþjálfun þessa dagana, svæði hans hefur verið takmarkað svo það sé auðveldara að fylgjast með þegar hann byrjar að klóra úti á miðju gólfi eða horni. Stundum skrönglast hann sjáflur að kassanum en hittir ekki alveg greyið. Hann verður athafnasamari með hverjum degi og er alveg gjörsamlega yndislegur. Það er eitthvað við ungviðið hvort sem það eru menn eða dýr sem bræða í manni hjartað. Það er gott.
Fótboltakapparnir láta veðrið og kuldann ekki á sig fá og strákarnir búnir að sparka niðri á velli drjúga stund í dag. Þar skipti aldurinn ekki máli og Friðrik og Eyþór voru þeir yngstu (í þriðja bekk) og þeir elstu á menntaskólaaldri. Ekki leiðinlegt að fá að spila með svona stórum strákum. Þessi völlur er frábær og hefur aukið heilmikið útiveru þessara patta. Sumir kvarta yfir svörtu gúmmíkornunum sem hellast úr skónum og fylla forstofur og leynast hér og þar um húsið. Iss, flestir eiga ryksugur og þau sogast vel upp í þær.
Speki dagsins kemur aftur úr bókinni "Þú ert það sem þú hugsar" sem er komin í annað sæti yfir söluhæstu bækur hjá Pennanaum og Eymundsson.
Inngangsorð 3. kafla um sjálfstraust.
"Hugrekki felst í því að framkvæma eitthvað
sem þú óttast að gera. Ekkert hugrekki getur
orðið til án ótta". - Eddie Rickenbacker, flugmaður
Hafið það eins og þið viljið ......
Athugasemdir
Hæ frænka
Frábært að detta svona inná bloggið þitt - gaman að lesa um allt það sem þú ert að gera - frábært
Vildi óska að ég kæmist í nokkra daga á Stöddan - kannski..... Gunna frænka í Hafnarfirði
Guðrún Þorkelsdóttir (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 21:26
Takk fyrir falleg orð á síðuni minni.Já það er svo gaman að spá í svona hluti og þetta sem kemur úr bókini núna er eitt af þessu sem allir ættu að hugsa vandlega um. Já allir eiga nú ryksugur í dag.Og svo gaman að börnin okkar séu úti að leika sér.
Jóhanna Guðný (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 09:19
Gaman að lesa bloggið þitt Solla mín. Svörtu kornin hemm hemm hef ryksugað þau í nokkur ár, glöð með að sonur minn stundi vel knöttinn en mér hefur eki hingað til þótt vænt um kornin svörtu. Vinn í því að taka þau í sátt. Gunna! Það er spölur síðan við drullumölluðum á steininum við skólann.
Fjóla Þorsteins (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 10:19
Frétti af þér á Reyðarfirði :-) Maður er með sambönd alls staðar...
Svörtu kornin eru merki um athafnasemi og það er bara skemmtilegt. Mér finnst alveg frábært að það skuli vera kominn fótbolti á Balann aftur og notaleg tilhugsun að aftur ómi köllin úr húsunum þegar verið er að fá börnin inn í kvöldmat. Ég heyri alveg mömmu kalla úr Heiðmörkinni... Halla! Matur! Þá tók maður á rás á furðulegu fótboltaskónum með neón-rauðu röndunum sem fengust í "Kuffélaginu" og voru löngu orðnir takkalausir af mikilli notkun :-) Fór svo gjarnan aftur út á Bala og spilaði fram í myrkur.
Hallan (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 10:47
Minnist þess líka er mamma kallaði út um eldhúsgluggann Fjóla ! Maaaattuuurrrr ! og einnig eru mér köll Kristeyjar nágranakonu til margra ára minnisstæð,...........VAAAAAAAAAAAAALLLLLLLLLLLLLLLIIIIIII !
Fjóla (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 15:42
Já Halla, vonandi verður myndbandið af Sunnuhvolsstikinu ekki sýnt á árshátíð ÍSÍ, það skánaði aðeins þegar leið á (stikið) þó ég næði Travolta ekki alveg hehe. En ég er búin að fá mér alvöru stafi og göngujakka ég var svo skelfilega lummó í dúnúlpunni, þó hún sé fín á sinn hátt.
Ég man helst eftir þegar grannkona mín núverandi kallaði HÁTT OG SKÝRT úti á palli "Jóóóhaaannnn Péééétuuuur, þaaaaað eer kominnnn maaaatur. Osfrv. svo glumdi um allan miðbæinn.
Annars verður Balasjarminn geymdur í minningunni og yndislegt að það sé aftur komið líf á Balann.
Solveig Friðriksdóttir, 17.9.2007 kl. 16:18
Ja Guðný Kristjáns átti fáein köll af tröppunum. Balasjarminn verður ætíð með manni. Frábært að sparkvöllur nútímans skuli vera komin á Balann.
Fjóla (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 16:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.