Krúsilíus og hitabylgja

Sóli og Friðrik 005Hann Sólmundur litli er alveg að verða mánaðar gamall, vantar bara fjóra daga upp á. Hann verður mannalegri (kattarlegri) með hverjum degi og bröltir um svolítið titrandi göngulagi og kannar umhverfið.

Kisa blessunin passar hann mjög vel, leist ekkert á að vera með hann í kassa í stofunni og flutti hann niður, á bak við hornsófann og þar hafa þau verið síðustu vikur. Hann var auðvitað farinn að fara út af handklæðinu í horninu og það stressaði kerluna eitthvað svo hún færði hann upp og undir rúmið okkar. Þar fær hún nú bara að vera hluta úr degi en á kvöldin eru þau í kassa í stofunni og svo rokkar hún reglulega með hann upp og niður. Hún er farin að ná betra taki á honum greyinu og hann búinn að læra að slappa af þegar þau fara á rúntinn. Fyrst gargaði hann eins og stunginn grís þegar hún hóf hann á loft með klaufalegum tilburðum en núna er hann eins og dauður þegar hún fer á stjá. Við héldum í gær að hún væri að verða breima og hún er eitthvað skrýtin, úff úff. Við ætlum að fara með hana í aðgerð og láta taka hana úr sambandi því ég vil ekki halda áfram að gefa henni pilluna (sem getur gleymst eins og dæmin sanna). Hún er róleg í dag og hefur ekkert vælt svo ég vona að þetta sé að rjátlast af henni.  En Sóli litli fékk kvef og var með stíflað nef í fyrrakvöld og ég vissi ekki að kettir gætu kvefast. Hann fékk að anda að sér gufu af heitu vatni og þá gat hann aðeins andað með nefinu. Hann lá á öxlinni á "ömmu" sinni og frussaði á hana þegar hann reyndi með herkjum að anda með nefinu blessaður.

Veðrið er svolítið magnað þessa dagana, dagarnir byrja á hellirigningu, svo rífur hann af sér og þá brestur á með brakandi blíðu. Í dag um tvöleytið var 23 stiga hiti. Það er vestanátt og þess vegna er vindurinn svona heitur og notalegur.

Við Friðrik erum búin að safta 5 lítra af berjasaft sem er komin í frysti í 1/2 líters flöskum. Við ætlum að vera svo heilsusamleg í vetur. Við ætlum jafnvel að freista þess að moka upp fleiri berjum um helgina og safta aðeins meira. Þvílík gomma af berjum. Ég er samt nokkuð róleg yfir þessu öllu og tíni bara í smá sultu og slurka til að frysta í sjeikinn.

Nammibindindið hófst að kveldi 2. september og það hefur gengið vel. Þegar maður er búinn að taka staðfasta ákvörðun verður framkvæmdin ekki svo erfið. Ég er búin að bræða þetta með mér lengi en nú er átakið byrjað.  Ég byrjaði líka að kenna jóga í vikunni, hér og á Breiðdalsvík og það gengur vel, mjög gaman að kenna á byrjendanámskeiði því það er svo krefjandi. Hitt vissulega krefjandi líka og skrokknum mínum finnst það, ég er með strengi á mjög mörgum stöðum.

Í kvöld verð ég gestur á glamúr og hattakvöldi hjá Uppsalakonum á Fáskrúðsfirði og fræði þær um svolítið spennandi, má ekkert segja því þær vita ekkert hvað ég ætla að gera. Ég á nú ekki einhvern glamúrklæðnað en ætla að fara í glamúrsokkarbuxur við gallapilsið mitt og skella á mig glamúrsjalinu mínu, læt það duga. Ég má ekki skyggja á þær Grin

Um helgina er stefnt á að mála og mála ef spár um þurrk og ekki of mikinn vind ganga eftir. Kominn tími til að klára sem mest.   

Njótið helgarinnar í botn .................... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Solla. Gangi þér vel með allt sammen.  Fer í jóga til Maggýjar minnar í næstu viku, finnst þetta samt æði rólegt hahahaha en Maggý ætlar að koma mér til að finnast þetta æði.

Fjóla Þorsteins (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 16:50

2 Smámynd: Solveig Friðriksdóttir

Flott hjá þér að prófa jógað. það er að sjálfsögðu undir þér komið hvernig þér líkar en frábært að opna á fleiri möguleika. Margir sem stunda jóga fara líka í ræktina og púla þar og líka nauðsynlegt að stunda einhverja rækt sem byggir upp þol. Í jóganu fáum við styrk líkamlega og andlega og úr því hef ég fengið þá vaxtarmótun sem ég hef verið sáttust við. Svo er þetta allt svo frábært að hver velur það sem honum hentar og honum líður best með.

Solveig Friðriksdóttir, 8.9.2007 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband