- 75 ára afmæli og fleira -
Mánudagur, 3. september 2007
Jæja nú hef ég verið óvenju löt hér við lyklaborðið upp á síðkastið. Það hefur samt alveg verið frá nógu að segja en ég ekki fundið hjá mér löngun til að skrifa.
Um þarsíðustu helgi var ég með jógafræðslu, einfaldar æfingar og slökun á Eiðum þar sem Krabbameinsfélag Austulands/Austfjarða (er ekki alveg viss með heitið) bauð upp á helgardvöl fyrir krabbameinssjúka í Kirkjumiðstöðinni. Það var notalegt að koma á gamlar slóðir, ég fór reyndar ekki niður að Alþýðuskólanum fyrrverandi en þótti notalegt að sjá að skiltið við afleggjarann stendur enn. Þetta var notaleg stund og við slökuðum heilmikið á.
Það hefur lítið gerst í húsamálum síðan þarsíðustu helgi. Bóndinn er nú oftast hreinlega þreyttur eftir vinnudaginn og ekki fundið kraftinn í að skella sér í gírinn. Síðasta helgi fór svo í afmælisstúss og Jósef var á golfmóti hjá Eimskip á laugardeginum.
Á laugardagskvöld var hið árlega Ljósakvöld í Steinasafninu og þar safnast Stöðfirðingar og nágrannar saman og eiga góða stund meðan rökkrið færist yfir. Garðurinn er tendraður hundruð kertaljósa og stemninginn er ólýsanleg þegar dimmt er orðið. Fólkið hennar Petru bauð upp á veitingar og svo var spilað á nikku og dansað og sungið. Þetta er orðinn árviss viðburður og alltaf jafn yndislegt. Ég var hálf löt að drífa mig af stað því það var hrollur í mér eftir útiveru dagsins. Ég fór fyrst með Gurru og stelpunum í berjamó í tvo tíma í blíðunni og við sátum í aðalbláberjahrúgu og tíndum. Svo fór ég með krakkaskara niður á bryggu að veiða. Þau voru fimm og mikill veiðihugur í mannskapnum. Það vildi ekki betur til en það fór að hvessa þegar við vorum nýbyrjuð og við ekki klædd fyrir næðinginn. Við skreiddumst því heim og urðum að játa okkur sigruð án þess að veiða bröndu.
Í gær var hápunktur helgarinnar en þá héldum við upp á 75 ára afmælið hennar mömmu. Hún ætlaði ekki að hafa neitt tilstand svo við ákváðum að bjóða henni í óvissuferð. Við fórum í Héraðið og tókum Fljótdalshringinn. Komum við á Skriðuklaustri og borðuðum af hádegishlaðborðinu þar. Nammi namm, alveg þess virði að rúnta þangað bara til að fara á hlaðborðið. Síðan kláruðum við hringinn og enduðum í Fögruhlíð og þar tók restin af fjölskyldunni á móti okkur með kræsingarnar sem við vorum búin að útbúa. Svo týndust að gestir en við létum nánustu vini og vandamenn vita af partýinu. Í heildina vorum við um 50 talsins og aldrei verið svo margir samankomnir í hlíðinni fögru en það rúmaðist ótrúlega vel. Veðrið lék við okkur svo það var líka hægt að sitja úti, annars hefði verið svolítið þröngt. Aldursbilið á milli þess yngsta og elsta (Emil og Lauga) voru rúm 90 ár þannig að sjá má að þetta var fjölbreyttur hópur. Mamma kom alveg af fjöllum og hafði ekki grunað neitt. Þetta var auðvitað búinn að vera heilmikill feluleikur og pukur og við alltaf að passa að missa ekki neitt upp úr okkur varðandi helgina. Ég læt hér fylgja mynd af mömmu og Áslaugu en þær eru svo sælar á svip því þær voru nýbúnar að metta sig af hlaðborðinu.
Fyrir 25 árum hélt mamma upp á fimmtugs afmælið sitt í Fögruhlíð og þá mættu nokkrir góðir gestir. Nokkrir af þeim hafa kvatt þetta líf en miðið við draumfarir Sigurjóns og Sólrúnar vikuna fyrir afmælið teljum við líklegt að þeir gestir hafi mætt aftur í afmæli og verið þar að boða komu sína.
Nú eru að hefjast jóganámskeið hjá mér. Ég byrja með harðkjarnann minn hér í dag og byrja með 8 stunda byrjendanámskeið í Breiðdalnum á morgun. Það er gott að koma sér í gírinn og núna er ég að klára upp í kennslukvótann í jóganáminu mínu sem lýkur í byrjun október á Hellnum á Snæfellsnesi.
Læt þetta duga í bili.......
Athugasemdir
Innilega til hamingju með mömmu þína. Kysstu hana á vangann frá mér.
Fjóla Þorsteins (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 11:54
Ég geri það. Sá auglýsinguna fyrir námskeiðið þitt í Mogganum, ekkert smá einbeitt kerlan
Solveig Friðriksdóttir, 3.9.2007 kl. 13:14
Hahaha hálf skondin mynd. r samt ekki búin að sjá auglýsinguna en á myndina. Hlakka mikið til.
Fjóla Þorsteins (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 14:44
Takk fyrir síðast, þetta var alveg meiriháttar. Gangi þér vel í jóganu, ég ætti að komast í næstu viku, hlakka til.
Áslaug (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 22:17
Mikið hefði ég viljað vera með ykkur á þessum degi, en hlakka þeim mun meir til að koma í heimsókn, sem ég vona að verði einhvern tíma fyrir jólin.
Sólmundur Friðriksson, 4.9.2007 kl. 19:19
Frétti af fjörinu :-) Til hamingju með mömmu þína!
Kveðja úr Rimanum
Hallan (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 08:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.