Vinstri eða hægri...
Mánudagur, 20. ágúst 2007
Hvort tínir þú ber með vinstri eða hægri ?? Góð spurning. Fer það ekki eftir því hvort fólk er örvhent eða rétthent? Maður hefði nú haldið það. Við systurnar höfum komist að því að annað hvort er þessu öfugt farið eða við stórmerkilegar. Ég örvhenta manneskjan tíni með hægri og Sólrún sú rétthenta tínir með vinstri. Við ræddum þetta í gær þegar við hittumst í smá berjamó. Hún hafði skellt sér í heilsubótargöngu sem endaði utan vegar í bláberjatínslu og við Dýrunn skruppum inn með Vallám í leit að bláberjum og hittum Sólrúnu.
Dýrunn var með lítinn dall sem hún fyllti fljótt og var stolt af. Ég var með lítersbox sem ég náði að fylla áður en Dýrunn var búin að tapa þolinmæðinni því hún vildi fara heim þegar hennar box var orðið fullt. Við fengum sem sagt bláber með rjóma í eftirmat nammi namm. Ég hef lítið farið í berjamó það sem af er síðsumri og er ekki þessi kona sem fer hamförum í að sulta og safta, ástæðan, hér á bæ er fólk lítið fyrir sultur og saftir og engin ástæða til að láta það skemmast og eyða plássi í nú þegar of litlum ísskáp. Ég hins vegar fæ mér smá slurk af bláberjum og frysti í litlum skömmtum til að láta út í sjeikinn minn á morgnana. Best þykja mér þau samt alltaf nýtínd. Dýrunn fann þetta fallega laufblað í haustlitunum og vildi endilega láta mynda það, fallegt ekki satt?
Þó haustið sé yndislegur tími kemur alltaf smá tregi í kerluna þegar dimma fer á kvöldin og björtu sumarnæturnar fara í frí þar til að ári. Þessi tregi varir rétt meðan ég er að komast inn í haustið sem mér finnst fallegur og góður tími á sinn hátt. Nú hef ég ástæðu til að setja upp kósíljós á kvöldin og kerti út í glugga.
Friðrik varð átta ára á laugardaginn og við vorum með fjölskylduafmæli á föstudagskvöld. Planið var að hafa barnaafmælið á laugardag en færðum það þar til á morgun því margir vinirnir voru ekki heima. Fórum þó í eitt afmæli því í fyrra fékk Friðrik litla frænku í afmælisgjöf og við fórum á Djúpavog í eins árs afmælið hennar Jónínu seinnipart laugardags.
Hér á bæ ríkir sannkallað Sing Star æði eftir að móðirin festi kaup á einu slíku setti. Krakkarnir syngja af miklum móð, eru nú ekki orðin læs á enskuna en fljót að pikka laglínurnar upp og rústa foreldrunum eins og ekkert sé. Ekki spillir að Friðrik er búinn að fá tvo Sing Star diska í amælisgjöf svo það er hægt að syngja lög frá öllum tímabilum. Það er ótrúlega fyndið að heyra í þeim humma og nana í gegnum lögin og grípa svo einn og einn frasa. Mjög góð dægrastytting fyrir unga sem aldna.
Sparkvöllurinn okkar er alveg að verða tilbúinn og ég hélt á föstudaginn að ég væri að verða eitthvað rugluð. Um morguninn stóð bíll við völlinn fullur af þökum til að fegra í kring. Ég var lítið að spá í það og var heima eftir hádegið að undirbúa afmælið. Seinnipartinn varð mér litið út og þá var verið að leggja lokahöndina á þökulagninguna og búið að gróðursetja líka fullt af trjám fyrir ofan völlinn. Þarna voru Dagga og Veraldarvinir á ferð sem hafa sko aldeilis ekki slegið slöku við í fegrunaraðgerðum síðustu daga. Mér fannst þetta svo frábært að ég smellti af einni mynd.... Ef þið klikkið á hana sjáið þið hana stærri og þá sjást Veraldarvinirnir við þökulagninguna. Núna hamast Ævar í að klára mörkin og þá er hann tilbúinn (völlurinn). Menn bíða spenntir hér á bæ því það er heldur ónýtt að sparka og elta svo boltann út um víðan völl.
Eins og þið sjáið skartaði fjörðurinn sínu fegursta og að mínum dómi hefur það verið einkennandi fyrir þetta sumar. Það hefur ekki verið mikill lofthiti, töluvert sólskin og miklar stillur, óvenju miklar og það finnst mér alveg æðislegt. En ekki ber öllum saman um ágæti þessa sumars eins og gengur og gaman að ræða þessi mál við fólk, sumir dásama það en öðrum finnst það bara ekki hafa verið neitt spennandi en þar sem við erum öll svo ólík höfum við misjafnar skilgreiningar á því hvað sé gott sumar.
Ég er samt ekki búin að fara á Steðjann eða Sauðabólstindinn... en sumarið er ekki búið og í morgun skelltum við hjónakornin okkur á morgungöngu klukkan sex takk fyrir. Ekki mjög langt svona í fyrstu atrennu en nóg til þess að svitinn var farinn að renna af bóndanum og ég fékk góðan hita í kroppinn. Planið er að halda sig við morgungöngur til að fegra sig og megra hehe Gott að hafa þetta skjalfest og þá er hægt að halda manni við efnið og spyrja "hvernig gengur með morgungöngurnar?" Namminu verður líka hent um mánaðarmót og nú er ég að undirbúa mig fyrir að klára jóganámið og er að iðka upp í þá tíma sem mér voru ætlaðir í æfingatímabilinu. Þá er gott að fara í léttara fæði ekki vandamálið þar sem sjeikinn er máltíð 1 og 2 að deginum og oft milli mála líka.
Farið út að tína ber og segið mér svo hvort þið tínið með hægri eða vinstri...... Venlig hilsen
Athugasemdir
Hæhæ Solla mín..
Ég sá að þú kommentaðir á síðunni minni og ég ákvað að gera slíkt hið sama hjá þér. Ég kíkti að vísu hérna inn í gær en var of þreytt til að lesa. En gerði það núna og ég verð að segja að ég var að pæla í þessu með berin líka um daginn þegar við mæðgurnar skelltum okkur í berjamó.
En þar sem ég er örvhennt eins og þú þá tíni ég líka oftast með hægri, en svo nota ég hina þegar sú hægri verður þreytt. En þetta flaug einmitt í gegnum hausinn á mér og mér fannst fyndið að byrja að lesa um þetta í færslunni:)
En ég verð dugleg inni á minni síðu í vetur og verð líka bara duglegri að hringja út um allt land til að fylgjast með..
En við heyrumst vonandi fljótt.
Þín frænka: Hildur.
P.S. Bið að heilsa öllum og þú mátt kyssa hann Friðrik frá mér "tilhamingjumeðafmæliðkoss"!
Hildur besta "litla" frænka! (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 22:53
vinstri hér
Sigurjón Friðriksson (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 00:38
Bæði hægri og vinstri.
Áslaug (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 19:17
Já og þú ert rétthentur Sjonni, Áslaug þú ert alltaf jafn fjölhæf, þetta er skondið. Elsku Hildur mín, enn og aftur, góða ferð á Krókinn....
Solveig Friðriksdóttir, 23.8.2007 kl. 13:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.