Kölnarferð, taka tvö...

Heil og sæl... það er mjög gaman þegar maður er kominn inn í miðjan pistil og tölvan tekur upp á því að endurræsa sig í miðju kafi. Ég var sem sagt langt komin með Kölnarferðasöguna mína og ekki búin að vista og því er það taka tvö og nú skal vistað reglulega.

Ég flaug sem sagt út til Þýskalands 26. júlí sl. og lenti í Frankfurt í blíðskaparveðri. Við tók rútuferð með Herbahópinn og hún tók um þrjá tíma. Það hafði gleymst að gera ráð fyrir nestis og pissustoppi svo sumir voru orðinir svangir og pissuþurfi þegar á áfangastað kom. Ég var í góðum málum og las Arnald á leiðinni, hlustaði á tónlist, dottaði  og horfði á fallegt landslagið sem þaut framhjá. 

Köln tók á móti okkur með allra besta móti og ferðin á hótelið okkar gekk eins og í sögu. Þetta var mjög fínt hótel í hjarta borgarinna og nokkurra mínútna gangur hvort sem var í göngugöturnar eða að dómkirkjunni. Við vorum sjö saman á þessu hóteli og héldum hópinn mest ásamt því að hitta fleiri úr fjölskyldunni okkar. Ég var ein á herbergi  og þótti þótti það skrýtið til að byrja með en fannst það brátt alveg yndislegt, gat haft dótið mitt þar sem mér hentaði, farið í sturtuna þegar mér hentaði og allt eftir því Grin Við ákváðum að slaka okkur aðeins áður en við færum að skoða borgina og skola af okkur mesta ferðarykið. Ég ætlaði að láta verðmæti mín í öryggishólfið sem átti að vera svo einfalt og þægilegt en þá var það bilað. Ég fékk sendan viðgerðarmann sem vissi ekkert í sinn haus og festi lykilinn í skápnum í öllu brasinu. Hann bauð mér nýtt herbergi en ég var búin að koma öllu mínu dóti inn í skáp nennti því ekki og þá reyndi hann aðeins betur og náði lyklinum. Hann sagði að klukkan átta næsta morgun kæmi viðgerðarmaður. Ég hafði ekki planað að sofa út svo ég sætti mig við það. 

Við borðuðum á ítölskum útiveitingastað við Rínarfljótið og má segja að það hafi verið upphafið af ítölsku þema ferðarinnar hehe.  Þarna erum við Halldóra Skúla sem er uppupp-

uppupplínan mín en við hittum þau hjónin á leiðinni niður í bæ og  borðuðum með þeim.  Að sjálfsögðu fengum við góðan mat og drykki með. Á eftir röltum við um miðbæinn. Köln er ekki svo stór og mjög notaleg. Við skoðuðum verslunargöturnar og röltum svo hver til síns heima. Áætlað var að taka föstudaginn snemma og hittast í morgunverði upp úr níu. Ég daðraði aðeins við Arnald (var að lesa KOnungsbók) áður en ég fór í háttinn og setti á mig maska og fótakremið góða og enginn kvartaði yfir mentol lyktinni hehe. Ég komst líka að því að öryggishólfið virkaði. Smile

Morguninn eftir vaknaði ég um áttaleytið, gerði jógaæfingar  í hálftíma eða svo og ætlaði svo að skella mér í sturtu og var að stíga inn í klefann. Þá var bankað á dyrnar og þar var viðgerðarmaðurinn kominn, eiginlega voru þeir tveir.  Ég sagði kokhraust að hólfið virkaði, ég væri búin að prófa nokkrum sinnum og allt væri í góðu lagi. "Prófaðu aftur" sagði annar og ég gerði það, allt í góðu. Þeir fóru því blessaðir og ég í sturtuna. Þegar ég var búin að sjæna mig og var að ganga frá dótinu mínu í hólfið þá var það allt í einu hætt að virka... Ég var því svolítið skömmustuleg þegar ég sagði í lobbýinu að það væri eiginlega bilað ennþá.

Jæja, morgunverðurinn var flottur maður lifandi en þar sem Herbalife er minn morgunverður fékk ég mér safa út í sjeikinn og slatta af ferskum ávöxtum. Þarna var hlaðborð af alls konar kræsingum og tvö risastór læri með einhverju reyktu kjöti, brauð og alls kyns álegg. Við vorum langt komin í morgunverðinum þegar sambýlingar okkar af hótelinu mættu og þær vissu að þar sem herbergin okkar voru á einhverju tilboði þá var morgunverður ekki innifalinn. Óboy, hann kostaði 18 evrur og ég með minn safa og ávexti. Ég fór þá eina umferð enn og fékk mér meiri melónur því reyktar pylsur og brauðmeti fer ekki í minn maga svona snemma dags. Við nenntum nú ekki að svekkja okkur á þessu og þetta var einn af bröndurunum sem flugu það sem eftir var ferðar en morgunmaturinn var framvegis tekinn uppi á herbergi í safa sem kostaði innan við evru.

Núna skelltum við okkur í skráninguna. Tókum lest yfir Rín upp á ráðstefnusvæðið sem var þarna rétt hjá. Það voru aðeins 18.500 manns á ráðstefnunni svo það voru svolítið margir að skrá sig. Við stóðum í röð í rúma tvo tíma áður en við gátum skráð okkur og eftir það var brunað í snarl í bænum.

Við höfðum föstudaginn alveg lausan svo við þvældumst í bænum, skoðuðum í búðir og versluðum eitthvað, við náðum rétt í endann á útsölum en annars er ekkert ódýrt að versla þarna.  Veðrið var fínt og ljómandi hlýtt. Hver um sig slakaði á seinnipartinn og skolaði af sér. Ég tók smá stund með Arnaldi og fótakreminu og náði nokkrum spennandi köflum áður en við hittumst í lobbýinu. Við vorum fimm sem ætluðum að borða saman þetta kvöld og ákváðum að leita ekki langt yfir skammt, fórum yfir götuna á næsta ítalska veitingastað. Við gleymdum eiginlega að skoða matseðilinn og vorum sest og búin að panta drykki þegar við komumst að því að þetta var mjög fansy staður og dýr eftir því. Forréttirnir voru á við aðalrétti á öðrum stöðum. Við gerðum gott úr því og þegar við höfðum fengið þýðingu á illskiljanlegum matseðli pöntuðum við okkur forrétt. Menn voru mis ánægðir með útkomuna, ég fékk smásmokkfisk á salatbeði og það var alveg ágætt enda er ég mjög umburðarlynd gagnvart framandi réttum. Hvítvínið var ljómandi gott og þegar upp var staðið var fínt að hafa bara borðað léttmeti.  Við sátum úti á verönd smá stund áður en hver fór í sitt herbergi. Sumir fóru reyndar í partý en ég ætlaði mér að taka þátt í fjölskylduhlaupi Herbalife daginn eftir svo  ég vildi hvíldina.

 Það var ræs klukkan sex og ég hitti Þuríði niðri í lobbýi hálf sjö. Svo örkuðum við af stað. Ekki var veðrið skemmtilegt því það rigndi og þokan lá yfir öllu. Við þurftum að taka eina lest og fundum stöðina skammlaust. Við eigum það báðar sameiginlegt að vera ekki með mjög virkan áttavita og tókum lestina í vitlausa átt til að byrja með, áttuðum okkur á fyrstu stöð og snérum við. Upphitunin var byrjuð en vegna rigninar var startað 20 mín yfir sjö í stað hálf átta. Júlí 021

 Þarna erum við skvísurnar rétt fyrir startið með Herbalife og Dómkirkjuna í baksýn. Ég náði að slá persónulegt með og ég skokkaði alla leið (5 km) utan tröppurnar upp á aðra brúna sem við hlupum yfir. Ég var svo aum í mjöðminni þá en það jafnaðist við að ganga tröppurnar. Ég tók nú ekki tímann en ef ég kem mér í betra hlaupaform þá geri ég það kannski næst. 

Nú svo var spretturinn heim og nú vorum við svolítið áttaviltar á lestarstöðinni og vissum ekkert í hvaða átt hótelið var, kortið orðið blautt og illlæsilegt og við í miklum spreng að komast á klósettið í stærri og minni verk.  Þar sem ég er nú slarkfær í þýskunni spurði ég til vegar og við komumst heim.  Þá var það skyndisturta og svo lestin upp í ráðstefnuhöll. Það mátti ekki tæpara standa því við gengum að sætunum okkar þegar Tina Turner hljómaði en Simply the best er upphafslag á öllum Herbalife viðburðum um allan heim. Ísland var í VIP sætum sem þýddi að við vorum á besta stað og þurftum ekki að berjast um sæti. Ég sat alveg fremst fyrsta daginn og það var mjög gaman. Ég stóð reyndar í smá basli með stóra fánann minn en var orðin nokkuð lunkin með hann seinni daginn hehe. Þarna fékk litla Ísland heilmikla viðurkenningu frá forstjóra fyrirtækisins og fleirum svo það var stolt hjarta sem barðist um hjá manni.  

Þetta er bara gaman og mikil vítamínsprauta. Eftir ráðstefnuna hittumst við á hóteli rétt hjá og fengum okkur smá drykk meðan mesta þvagan var að minnka hjá lestunum, fórum heim á hótel og á ítalskan veitingastað nr. þrjú Happy  Hann var rosa fínn, frábær matur, góð þjónusta og mikið hlegið.  Arnaldur fór með mér í rúmið að venju fyrst ég hafði ekki Jósef og nú var spennan farin að magnast.

Annan ráðstefnudaginn vorum við grand á því og tókum leigubíl því það rigndi svo mikið. Þessi dagur var ekki síðri og að fá þjálfun frá sjálfum Jim Rohn er ómetanlegt.  Það var hlegið og grátið þann daginn og mikið glósað.

Síðasta daginn borðaði stórfjölskyldan saman þ.e. HM grúbban svokallaða með Halldóru og Maríus í fararbroddi og nú var það þýskur staður rétt við dómkirkjuna. Þar fengum við þýskan mat sem var allt í lagi en persónulega hef ég aldrei verið fyrir þýska matargerð, sorrý en það var mikið fjör á mannskapnum og í lokin skelltum við okkur á írskan pöbb og hlustuðum á misgóða karókí söngvara.

Á mánudag þvældumst við í bænum og kíktum í búðir, héldum síðan heim á leið. Nú lá leiðin í rútunni til Einthoven svo ég get sagst hafa komið til Hollands, alltaf að bæta löndum á listann. Við lentum heima rétt undir miðnætti. Ég kúrði hjá Sóla og Hafdísi, tók svo flugið heim seinnipart þriðjudags og á Egilsstaðaflugvelli beið fjölskyldan eftir mér en þau dvöldu á Akureyri meðan ég var í útlöndunum. Núna er mikil pressa frá smáfólkinu að fá að fara með á næstu ráðstefnu sem verður í Barcelona og Friðrik vill fá að taka þátt í 5K hlaupinu eins og Jökull vinur hans frá Eskifirði. Hver veit nema við getum leyft okkur það á næsta ári. 

Segi þetta gott í bili og læt inn sólarlagið á flugvellinum í Einthoven. Júlí 095


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stórkostlegt systir.

Sigurjón Snær Friðriksson (IP-tala skráð) 5.8.2007 kl. 14:34

2 identicon

Skemmtileg ferðasaga hjá þér.

Áslaug (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 18:22

3 identicon

Alltaf gaman að lesa bloggið þitt.

Fjóla Þorsteins (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 19:37

4 identicon

Þú tekur þig svaðalega vel út í hlaupagallanum, systir Solla. Við Hvalnessystur megum vera stoltar af þér. Ég væri ekki viðræðuhæf í þrjá daga eftir fimm káemm skokk!!

Hallan (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 20:21

5 Smámynd: Solveig Friðriksdóttir

Halla mín. Að sjálfsögðu sagði ég ekki frá harðsperrunum sem herjuðu á mig næstu daga. Það er langt síðan ég hef fundið fyrir þeim alveg niður í ristar, ég var sem sagt eins og gigtarveik rolla þegar ég var að hafa mig á fætur eftir setu í lengri eða skemmri tíma. En ánægjan yfir afrekinu var sársaukanum yfirsterkari.

Solveig Friðriksdóttir, 7.8.2007 kl. 08:41

6 identicon

Bwahhhaha! Mér líður aðeins betur að lesa þetta, en krafturinn í þér hafði þær afleiðingar að ég dröslaðist út í stafgöngu í hádeginu í dag í stað þess að hanga inni í leti :-) Dugar ekki að láta Laugardalinn alltaf bíða eftir sér!

Hallan (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband