" Klukk"
Föstudagur, 20. júlí 2007
Hvergi er maður öruggur. Nú er farið að elta fólk í bloggheiminum og klukka það. Sólrún systir og Alda Rut klukkuðu mig á sínum síðum og ég held leiknum áfram.
En fyrir hvað ætli þetta orð "klukk" standi?? Þar sem ég er nú gift Akureyringi hef ég komist að því að margt hefur verið öðruvísi á Stöðvarfirði í leikjamálum (sem og ýmsu öðru) og í þeirra eltingarleikjum sögðu menn "meðða". Svo skrýtið að ég veit ekki hvernig ég á að skrifa það
Núna í dag leika krakkarnir sér ekki mikið í svona hópleikjum nema í frímínútunum í skólanum helst og þá er stórfiskaleikurinn alltaf vinsæll, lita,dýra og fleiri leikir líka. Þar er klukkað eða "náðér" eins og lög gera ráð fyrir. Mér virðist ýmislegt hafa breyst í þessum leikjum og eðlilegt í tímanna rás en það sem virðist áberandi er hve auðvelt er að koma sér undan því að "verann" með því að svara með þjósti "Ég var í pásu!". Í okkar leikjum voru stundum svæði þar sem menn voru stikkfrí og mátti ekki ná þeim þar en í dag fara börnin í pásu þegar þeim hentar. Það virðist stundum erfitt fyrir börn í dag að sætta sig við reglur og hvernig hlutirnir gangi fyrir sig því allt á að gerast strax og eins og MÉR hentar.
Sem foreldri glími ég við þetta á hverjum degi en ég reyni að gera mitt besta og brátt fer ég að fara yfir ýmis atriði með Dýrunni sem byrjar í skólanum í haust og t.d. að þó einhver nái henni í leik að þá þýði ekki að fara bara í fýlu og hætta í leiknum en það er algeng sjón og ekki bara hjá yngstu stýrunum. Óboy.
En áfram með klukkið. Ég ætla að klukka þrjár kjarnakvensur sem ég veit að eiga leið um síðuna mína af og til. Það eru þær Hallhildur, Helga Antons og Fjóla Þorsteins. Allt miklir hlaupagarpar (í denn að minnsta kosti) og hafa örugglega klukkað marga í gegnum tíðina.
Bestu kveðjur inn í daginn..... klukk- náðér-meðða-
Athugasemdir
Gaman að lesa bloggið þitt Solveig. Þetta eru góðar pælingar og merkilegt já hvað krakkar (á öllum aldri) eiga erfitt með að fylgja reglum. Mér dettur samt alltaf í hug textinn sem Vilhjálmur Vilhjálmsson söng, gleymum ekki staðreyndum því staðreyndin er sú, það vorum ég og þú sem upp þau ólum. Svo satt og rétt. Við viljum í dag afsaka okkur með því að umhverfið hafi svo mikil áhrif en skiptir þá ekki einmitt enn meira máli að fjölskyldan hafi skýrar reglur? Ég er kannski of strangur???
En þú ert skemmtilegur penni eða á að segja skemmtilegt lyklaborð? Og ég er í stykki....
Óðinn Burkni (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 10:26
Ég fór einmitt að fletta til baka og spá í það að við sögðum aldrei "klukk" í skessuleiknum í den heldur sögðum við "náð" og svo "stikk" (var reyndar búin að gleyma því). Og varðandi þetta með reglurnar sem börnin virðast oft eiga svo erfitt með að fara eftir, þá er ég ekki frá því að foreldrar nútímans þurfi að leggja sig jafnvel meira fram í því að aga börnin sín. Nútíminn er eitthvað svo tætingslegur og margt í gangi, margir fjölmiðlar og alls staðar ágengar auglýsingar sem eru sífellt að gefa skilaboð um það hvernig við eigum að haga okkur, hvað við eigum að eiga og hvernig við eigum að líta út.
Sólrún (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 11:55
Heil og sæl bæði tvö. Já ætli það sé ekki bara enn meiri þörf á utanumhald og skýran ramma í dag heldur en þegar við skoppuðum áhyggjulaus um móana, sjónvarpslaus í júlí og fimmtudögum og ekkert að spá í hvort það væri kominn nýr tölvuleikur eða hitt og þetta. Auðvitað eltu menn tískustrauma þá en í dag er framboðið og áreitið svo mikið og ýtt úr öllum áttum að menn vita ekki í hvort fótinn þeir eiga að stíga. Ekki alltaf auðvelt að synda á móti eða vera með báðar fætur fastar á jörðinni og standa á sínu ónei, en fyllilega þess virði.
Solveig Friðriksdóttir, 20.7.2007 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.