Gangan út á Landabrúnir
Mánudagur, 11. júní 2007
Eins og áður sagði var planið að ganga yfir Stöðvarskarðið á laugardagsmorgun en ekki voru veðurguðirnir okkur hliðhollir eða þokuguðinn. Veðrið var mjög milt en þokan hékk niður í miðjar hlíðar. Þar sem við systur vorum komnar í göngugallann og búnar að útbúa nesti ákváðum við að skella okkur í smá göngu út á Landabrúnir. Ingunn Berglind var í sömu stöðu og við og skellti sér með. Þær sjást þarna á efri myndinni.
Við gengum sem sagt upp brúnirnar og töluvert út fyrir Bæjarstaði. Þó brúnirnar láti ekki mikið yfir sér séð frá götunni þá er útsýnið stórfenglengt. Sjóndeildarhringurinn virtist endalaus og himinn og haf runnu í eitt. Við tókum þessu rólega og gæddum okkur á nýbökuðu brauði hjá Sólrúnu áður en við gengum til baka. Ég skelli hér líka með mynd af Söxunni og gaman að sjá hana frá þessu sjónarhorni. Við ætluðum að taka hópmynd en það gekk ekki, vélin mín var að verða rafmagnslaus, Sólrún fann ekki tímstillinguna á sinni vél og Ingunnar vél var á mótþróaskeiðinu og slökkti sífellt á sér þegar hún átti að smella af. Við eigum því bara minninguna af okkur í hjartanu. 

Þetta var ljómandi hressandi ganga og á eftir skellti ég mér í sund með krökkunum til að tryggja að engir strengir myndu herja á kerluna. Þá var hann búinn að rífa af sér og við fengum heilmikið sólskin. Við komum klyfjuð heim því 9. júní bauð síminn frítt í sund og það voru handklæði, sundpokar, sundgleraugu, bolur, inniskór ofl. sem við bárum með okkur heim. Kannski ég drífi mig að borga símareikninginn 

Nú fjörið var ekki búið því nú skelltum við okkur á Reyðarfjörð á opnunarhátíð Alcoa. Það var heilmikið skrall á nokkrum stöðum í bænum og veglegt í alla staði. Leiktæki og tónleikar og ýmsar uppákomur og nóg að eta. Jósef slóst í hópinn um sjöleytið en hann eyddi deginum á Seyðisfirði sem Agent frá Eimskip fyrir skemmtiferðaskip.
Um kvöldið voru stórtónleikar í Fjarðarbyggðarhöllinni á Reyðarfirði þar sem rjóminn af Íslenskum flytjendum fluttu lög við undirleik stórsveitar. Í lokin tók við hluti af Queen sjói Norðfjarðarmanna sem var mjög kraftmikið. Skrallið endaði svo með listflugi (úti) og fallhlífastökki. Það var fínt og vakti mesta lukku þeir tveir sem náðu ekki að lenda innan rammans sem var afmarkaður en sluppu ómeiddir.
Flottu dagur og allir þreyttir og sælir í lok dags. Jósef fór heim með krakkana áður en tónleikum lauk og þegar ég kom heim voru hann og Dýrunn sofandi inni í stofu en Friðrik beið eftir mér.
Í lokin fylgir speki sem gott er að hafa í huga í þessu efnishyggjusamfélagi okkar, eitthvað sem mér verður oft hugleikið en það hljómar svo: "Ríkasti maðurinn er ánægður með það sem hann hefur".
Hafið það sem allra best 

Athugasemdir
Þar sem ég var búin að skrifa tvö komment hjá þér í pistlinum um pabba þinn, þá fékk ég senda sögu sem Maggi sendi mér . Ég fann ekki netfangið þitt þegar ég ætlaði að senda þér hana svo ég skellti henni bara inn hjá mér. Vona að mér sé fyrirgefið. Þu getur tekið hana þaðan ef þú villt og ert að safna sögum af honum. Ég reyndar vísa í pistilinn þinn þar líka.
kv. Þbn
ÞBN (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 11:13
Ekkert mál
Solveig Friðriksdóttir, 12.6.2007 kl. 18:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.