Kleinurnar hennar mömmu....
Föstudagur, 8. júní 2007
...voru alltaf í Mackintosh dalli inni í skáp og alltaf hægt að ná sér í bita. Ég var ekki há í loftinu þegar ég fór að keppast við að snúa uppá kleinurnar. Það þurfti að hafa hraðar hendur því mamma var eins og raketta í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur þegar hún var upp á sitt besta og kleinubaksturinn gekk hratt og örugglega fyrir sig. Svo voru kleinurnar hennar mömmu náttúrulega heimsins bestu kleinur hehe.
Ástæðan fyrir þessum kleinupælingum er sú að í morgun langaði mig allt í einu að steikja kleinur. Ég hef einu sinni gert það í búskapartíð okkar Jósefs og þær voru ekki góðar. En kleinur skyldi ég baka og það í dag. Friðrik og Eyþór skutluðust niður í Brekku að kaupa hveiti og við Dýrunn fundum uppskrift. Svo stóð hún þessi elska á stól við bekkinn og snéri upp á ekki lítið ánægð með sjálfa sig meðan móðirin steikti. Útkoman var þetta líka góð, reyndar í öllum stærðum og gerðum, stuttar og langar, feitar og mjóar, beinar og bognar. Þær brögðuðust líka bara eins og kleinurnar hennar mömmu. Ég notaði aðeins hollari feiti, ekki eitthvað sem stífnar uppi í gómnum með kaldri mjólk heldur mjúka feiti. Og þó kleinur séu nú ekki það hollasta kannski þá er nú í góðu lagi að leyfa sér smá af og til og þær eru í það minnsta ekki fullar af einhverjum -E- rotvarnar og svoleiðis efnum og meira segja með slurk af spelti, sem sagt meinhollar. Mamma fékk að sjálfsögðu sendingu í poka og var himinlifandi og þótti þær góðar.
Krakkarnir fóru því uppþembdir af kleinum á fótboltaæfinguna á Fáskrúðsfirði en vona að það sjatni fljótt. En tengt fótbolta. Það er byrjað að grafa fyrir sparkvellinum og hann verður á Balanum, neðarlega vinstra megin frá mér séð (úr stofuglugganum). Hann á að vera tilbúinn snemma í júlí og vonandi að blessuð börnin nýti sér það, reki trýnin upp úr lyklaborðinu eða Playstation fjarstýringunni og drífi sig út.
Helgin verður í rólegum gír, ég var svona að spá í að ganga með Göngufélaginu yfir Stöðvarskarð á morgun en er ekki búin að ráðstafa ungunum svo ég veit ekki hvað verður því Jósef þurfti suður í dag í eitthvað fyrirtækjapartý og kemur ekki heim fyrr en á morgun. Spái hvað ég geri með það.
Sendi ykkur allra bestu kleinukveðjur inn í helgina...
Athugasemdir
Það var ekki verið að láta mig vita af þessu kleinuteiti.
Sigurjón Friðriksson (IP-tala skráð) 11.6.2007 kl. 00:51
Sparkvöllur á Balanum? Ja, þú segir mér fréttir! Vona sannarlega að hann verði betur nýttur heldur en sparkvellirnir hér í kringum okkur í höfuðborginni þar sem ekki sést sála á kreiki þrátt fyrir fólksmergðina. Bestu kveðjur, Halla K.
Hallan (IP-tala skráð) 11.6.2007 kl. 10:45
Sigurjón minn, ég hélt að þú myndir renna á lyktina kæri bróðir.
Já Halla ég vona að hann nýtist vel. Ég geri mitt besta með að vekja áhuga hjá mínu fólki (smáfólkinu) og hendist með þau til Fásk. á fótboltaæfingar eftir hádegið.
Solveig Friðriksdóttir, 11.6.2007 kl. 11:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.