Pistillinn 2013

Jæja, þá er komið að því enn eitt árið að jólapistillinn úr Hólalandi fæðist. Kominn annar sunnudagur í aðventu og ekki seinna vænna að pára eitthvað á blað.

Árið 2013 leið hratt og örugglega eins og flest ár og ekki höfum við þurft að kvarta undan aðgerðarleysi.

Í ár byrjar upptalningin á börnunum.

Frumburður okkar hjóna hann Friðrik fermdist í lok mars. Hann mætti samviskusamlega í messur allan veturinn og lærði kverið sitt samviskusamlega. Síðan mætti halda að hann hafi verið útskrifaður úr kirkjunni því ekki höfum við að náð honum þangað aftur eftir ferminguna.  Hann hefur misskilið þetta eitthvað. Veislan var haldin á Kaffi Söxu (Kaupfélagshúsinu fyrrverandi) og til okkar mætti góður hópur vina og vandamanna. Þetta var hin indælasta stund og allir sáttir og glaðir með daginn. Hann stundar áfram fótboltann og ferðaðist um víðan völl í sumar með liðinu sínu. Frjálsu íþróttirnar fengu því miður ekkert pláss þetta sumarið því annir í vinnu og fótbolta hindruðu þá iðkun. Hann vann í vinnuskólanum og stundaði hana mjög vel og fannst sú vinna skemmtileg.  Tónlistarnámið hefur sinn sess og þar rúllar hann verkefnunum upp með annarri.   Hann kepptist við að stækka og tók fram úr móður sinni á árinu og er núna komin í um 180 sentimetrana. Frikki er enn sem komið er meðfærilegur unglingur og hefur ákveðnar skoðanir á hlutunum og endalaust gaman að rökræða við hann. Ekki vantar framtíðarpælingarnar og þær eru skemmtilegar og síbreytilegar á köflum. 

Dýrunn Elín kepptist líka við að stækka en er ekki alveg jafn hrifin af allri þessari sprettu og bróðir hennar og vill ekki verða mjög hávaxin. Úff, það þarf ekki að líta nema í kringum okkur foreldrana til að sjá að hún hefur nú genin til þessað verða svolítið löng.  Hún er ekki enn búin að ná móður sinni en það gæti gerst á næsta ári.  Hún stundaði fótboltann á árinu og líkt og Frikki ferðaðist hún um víðan völl með liðinu sínu og núna mest í rútu án foreldranna. Móðirin var nú fararstjóri í nokkrum ferðum, ekki alveg til í að sleppa hendinni af skvísunni. Hún æfði líka frjálsar og keppti á Sumarhátíð og Unglingalandsmótinu. Hún stundar píanónámið á fullu, fékk nýjan kennara í haust, Öldu Rut frænku sína og þeirra samvinna er mjög góð.  Hún rúllar náminu upp í skólanum og í hinum umdeildu samræmdu prófum skveraði hún sér í eina 10 og eina 9,5.  Hún dundar mikið og á árinu saumaði hún fullt af flíkum á sjálfa sig, gerði fullt af mistökum sem hún var til í að læra af þegar mesti pirringurinn var runninn af henni :). Hún seldi sniðugar svefngrímur á Salthúsmarkaðnum í sumar og á jólamarkaðnum seldi hún pakkaskraut sem hún föndraði sjálf. Falleg að utan sem innan og yndislegur karakter. 

Þá snúum við okkur að bóndanum.  Hann fékk gjafakort í flug frá spúsu sinni í jólagjöf og flug til Þýskalands var bókað snemma í febrúar til að heimsækja Höllu, Árna og Helenu Emmu. Frúin var hálf spæld að fá ekki að fara með en það er víst ekki allt hægt. Hann flaug út á mánudegi og á fimmtudagsmorgni kom símtalið frá Höllu sem tjáði að hann hefði smellt sér í eina hjartaþræðingu þá um morguninn takk fyrir. Frúin fékk því Þýskalandsferðina, var komin út seinnipart laugardags og dvaldi með kauða þar til heimferðarleyfi fékkst.  Heim héldum við eftir aðra þræðingu og karlinn að sjálfsögðu beint í veikindafrí.  Þó aðstæður væru nú ekki þær skemmtilegustu þá var gott að geta verið með Höllu og Árna og litlu snúllu þessa daga og kynnast henni nánar, fara á handboltaleik hjá Árna þar sem ég galaði manna hæst þegar hann skoraði og þulurinn kallaði "Árni Sigtryggsson" í hátalarkerfið og njóta þess að vera VIP og fá góðan mat og drykk.  Bóndinn ætlaði reyndar á þennan leik og fleiri en þannig fór það. 

Hann smellti sér fljótt í vinnu en fékk að taka því rólega en er núna aftur kominn á fullt. Kann ekkert annað þessi kall.   

Kerlan hefur verið á svipuðu róli og önnur ár, sinnir skólastarfinu, kennir jóga og nærir sig með Herba og öðrum hollum mat. Sinnir einnig nefndarstörfum víða.  Gigtar"skrattinn" fór reyndar upp úr öllum hæðum undir vor og fram á haust og ætlaði að sliga kerlu á tíma. En svo fann hún lyf sem hefur gjörbreytt skrokksa og gefið nýja orku, styrk og minnkað verki um 95% og hefur ekki leiðinlegar aukaverkanir. Það er nýtt líf að vera ekki sífellt að berjast í gegnum dagana heldur eru þeir hver öðrum skemmtilegri.  Hún ræktaði jarðarber og grænmeti í sumar og fullt af arfa. Hann var þá bara notaður í salatið. Einnig voru tíndar jurtir sem nýttar eru í te og búin til ein heilsustyrkjandi tinktúra.  Fjallgöngur voru frekar fáar því skrokksi var ekki í stuði en með hækkandi sól verður litið meira til fjallanna og markmið síðustu ára tækluð :)

Í lífinu takast jú á gleði og sorgir og í júlí kvöddum við Friðrik pabba Jósefs hinstu kveðju. Sú stund var falleg með nánustu fjölskyldu og um kvöldið kom stórfjölskyldan saman í Byggó og söng saman helstu lögin hans Friðriks.  

Ferðalög með hryssuna (fellihýsið) voru frekar fá. Við dvöldum í Höfðavík eina dásemdar helgi með tveimur bræðrum Jósefs og fjölskyldum.  Sváfum í fellihýsinu á Akureyri í kringum jarðarförina og smelltum okkur á Storm Unglingalandsmót þar sem við vorum vindbarin með meiru eftir þá annars góðu dvöl. Dýrunn keppti í frjálsum og Frikki í fótbolta.   

Ýmislegt fleira hefur á dagana drifið sem allt of langt væri að telja upp. Mest um vert er að í dag erum við heilsuhraust og lundin létt. Samveran á aðventu er notaleg, ekkert jólastress, enn spenningur hjá ungdómnum fyrir jólunum og langur listi skrifaður með jólagjafahugmyndum. Hólalandið orðið jólalegt með ljósum í glugga og endalaus kósíheit meðkertaljósum.  

Sendum vinum og ættingjum nær og fjær okkar innilegustu jóla og nýárskveðjur.

Solla, Jósef, Friðrik og Dýrunn

 

 DSC_7889


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband