Nóg um að vera !
Mánudagur, 22. ágúst 2011
Hér á bæ er sjaldan mikil lognmolla þó við séum dugleg í að slaka á þegar við erum heimavið. Friðrik fór norður í land með 4. flokks strákum um helgina til að spila á Akureyri. Það var heilmikið ferðalag. Þeir fóru með A liðinu til Ólafsfjarðar, þaðan á Krókinn og gistu þar, eftir leiki A liðsins héldu þeir til Akureyrar og kepptu þar. Þeir töpuðu reyndar leiknum en reynslan var góð. Mömmunni þótti skrýtið að senda hann einan norður í land en hann er orðinn svo stór og þetta er það sem koma skal hjá þessum gaurum og eflir þá og styrkir.
Dýrunn keppti í úrslitum á Hnátumóti KSÍ á Norðfirði og við hokruðum þar í rigningu framan af. Sem betur fer var ekki mikill vindur með svo okkur varð ekki kalt. Enginn er verri þótt hann vökni. Dýrunn hefur tekið miklum framförum eftir Pæjumót, núna var hún á hægri kanti og átti nokkur góð færi,sólaði upp kantinn og munaði minnstu að hún kæmi boltanum í netið nokkrum sinnum. Leikirnir þrír töpuðust að vísu en það gleymist fljótt og eftir að hafa mýkt stirða vöðva í lauginni á Neskaupstað vorum við eins og ný, eða næstum því.
Um næstu helgi verður nóg á döfinni. Frikki keppir til úrslita á Íslandsmótinu á Eskifirði. Í fyrra þurfti hann til Reykjavíkur en núna er það B1 liðið sem þarf að leggja land undir fót.
Ég ætla hins vegar að dvelja á Eiðum. Ég er í stjórn Krabbameinsfélags Austfjarða og nú er komið að árlegri dvöl fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur eða þá sem lokið hafa meðferð. Ég hef aðeins komið að þessu, verið með jógafræðslu og í fyrra dvaldi ég lungan úr laugardeginum og var með smá jóga og slökun. Þetta er mjög gefandi samvera. Núna ætla ég að hjálpa við undirbúning á föstudag og yfir helgina,verð með einhverja slökun og kannski æfingar, fer heim á laugardag til að kveðja góðan samferðamann, Kjartan Guðjónsson. Fer aftur í Hérað á laugardag til að vera með í dansinum um kvöldið og næ svo vonandi leik hjá Frikka á Eskifirði á heimleiðinni á sunnudag (með smá krók).
Sem sagt, nóg um að vera eins og endranær...
Athugasemdir
Já það er sko nóg að gera hjá ykkur
Áslaug (IP-tala skráð) 22.8.2011 kl. 14:14
Gaman að þessu. Indælt að geta fylgst með sínum nánustu í hressilegu bloggi:)
Sjonni. (IP-tala skráð) 23.8.2011 kl. 10:38
Gott að vita hverjir reka inn nefið.
Solveig Friðriksdóttir, 26.8.2011 kl. 09:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.