Nýtt hlutverk !
Mánudagur, 25. júlí 2011
Þann 19. júlí fæddist í fjölskylduna lítil myndarleg prinsessa. Þar með varð Jósef afi og ég sjálf amma á ská :). Ætla nú að vera alveg bein samt. Síðustu daga fyrir fæðingu höfðum við beðið full eftirvæntingar. Sl. laugardag brunuðum við til Akureyrar til að vera viðstödd skírnina. Veðrið var með allra besta móti, sól og blíða og fallegur dagur til að fá fallegt nafn. Helena Emma heitir hún, í höfuðið á Helenu ömmu sinni og Emma út í loftið. Falleg nöfn og hún var mjög sátt við sitt, rétt kvartaði þegar vatninu var ausið á hana en svo var hún vær og góð það sem eftir var.
Þarna eru Halla og Árni með hana nýskírða. Þegar presturinn var að óska þeim til hamingju hallaði Halla sér yfir kertið og kveikti í hárinu á sér . Það varð uppi fótur og fit en til allrar lukku varð enginn skaði af því, bara smá sviðalykt og eitthvað sem alltaf verður minnst.
Allir hafa verið spenntir að fá að máta og halda á dúllunni. Ég hef þó haldið mig til hlés því ég fékk kvef í öllu listastússinu í síðustu viku (nánar að því síðar) og vildi ekki vera of nánin henni. Ég prófaði samt smá og passaði að anda ekki mikið á hana.
Afinn er nú ekki lítið montinn og þarna spreytir hann sig og rifjar upp taktana. Var svolítið óöruggur fyrst en svo kom þetta eins og hann hefði aldrei gert annað. Dýrunn prófaði líka að sitja með hana í skírninni en Friðrik ákvað að bíða þar til í gær þegar færra fólk var umhverfis og sat með hana góða stund þegar við heimsóttum þau á spítalann. Núna erum við virkilega farin að hlakka til
að heimsækja þau í Þýskalandi í september þegar hún verður akkúrat tveggja mánaða. Fleiri fengu að máta manneskjuna og Halla og Árni fóru smá heimsóknarrúnt þegar þau komu af spítalanum. Amma Dýrunn var að springa úr monti og Álfrún Hulda var rígmontin stóra frænka sem langar samt ekki í svona lítið systkin. Finnst sennilega fínt að vera yngst á heimilinu.
Athugasemdir
Gaman að sjá þessar myndir. Já, þetta er alveg nýtt hlutverk og örugglega bara skemmtilegt.
Innilegar hamingjuóskir - enn og aftur!
Hallan (IP-tala skráð) 26.7.2011 kl. 09:46
Já ótrúlega skemmtileg tilfinning. Set að sjálfsögðu myndir inn í næsta umgang af Reka gamla sem er staddur hjá mér í þessum töluðu orðum.
Solveig Friðriksdóttir, 26.7.2011 kl. 10:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.