Hólalandsannáll 2009

Sælt veri fólkið.

Enn á ný er jólakveðja Hólalandsfólksins á rafrænum nótum svona að mestu leyti. Kortin fara út þetta árið en pistillinn sjálfur verður á þessum miðli.

 Hefst þá lesturinn:

Árið 2009 hófst með miklum sprengingum eins og vaninn er um áramót og við vörðum þeim í faðmi fjölskyldunnar á Akureyri.

Svo var nú tíðindalítið þar til upp úr miðjum janúar þegar bóndinn skellti sér í kransæðastíflu númer tvö á innan við tveimur árum.  Það gekk sem betur fer allt vel en erfitt að fara aftur í gegnum það ferli að senda bóndann í sjúkrabíl út í nóttina og óvissuna og skók lífið í Hólalandi hressilega. Karlinn var þó fljótur að hressast og hefur nokkuð vel farið eftir ráðleggingum lækna sem tóku niður silkihanskana í þetta skiptið nota bene og gerðu honum grein fyrir að svo vel  gæti hann ekki búist við að sleppa aftur.  

Fyrir utan þetta hressilega hliðarspor hefur annað lítið  breyst á okkar vígstöðvum. Jósef starfar enn hjá Eimskip, er núna kominn með aðsetur á Reyðarfirði svo aksturinn í vinnuna styttist örlítið. Ég sjálf kenni skólanum, vinn við Herbalife og kenni jóga. Hef líka haldið nokkra fyrirlestra tengda persónuuppbyggingu og stundum fengið greitt fyrir :). Ég hef aukið umsvif Herbalife á árinu enda veitti ekki af því í heimilisbókhaldið og stefnan sett á að auka enn frekar á næsta ári. 

Friðrik hefur stundað boltann af kappi. Hann æfir með Fjarðabyggð og sækir samæfingar á Reyðarfjörð 1x í viku, æfir svo ýmsar íþróttir á Stf. þess á milli.

Sumarið er nokkuð þétt skipað af mótum og þvíumlíku og það bættist við mótin því hann var nokkrum sinnum fenginn að láni í eldri flokk til að keppa með þeim. Móðurinni þótti skrýtið að senda litla strákinn sinn alla leið til Vopnafjarðar með stóru strákunum til að keppa.  Honum finnst þetta mjög skemmtilegt og stendur sig vel.  Plönin varðandi framtíðina eru í fótboltaátt og eftir að hafa mætt á Sportráðstefnu Herbalife breyttist stefnan í nokkra daga og hann setti markið á að vera fjórfaldur heimsmeistari í Fitness. Gott að hugsa stórt.

Dýrunn æfir fimleika á Egilsstöðum og þær hafa verið 3-4 sem hafa stundað héðan frá Stöðvarfirði. Mæðurnar eru skipulagðar og skipta ferðunum bróðurlega á milli sín. Ferðirnar eru notaðar til að versla í Bónus og útrétta ýmislegt enda er þetta sú Bónusverslun sem er næst okkur.

Hún hefur tekið miklum framförum og styrkst mikið líkamlega og andlega. Dagana sem hún er ekki í fimleikum mætir hún í allt sem er í bimg_0113.jpgoði í íþróttahúsinu og stundum er erfitt að koma heimanáminu inn í alla þessa dagskrá. 

Bæði stunda þau nám í Tónlistarskólanum og spila á píanó. Þau hafa að sjálfsögðu mikla hæfileika á því sviði og sprengja foreldrana af stolti á hverjum skólatónleikum. Grin

Dýrunn syngur með barnakórnum sem er smár en syngur undur fallega. 

 Ferðalög fjölskyldunnar einkenndust aðallega af fótboltaferðum út og suður. Við skelltum okkur þó í nokkra daga frí til Reykjavíkur í byrjun júní og fórum á landsleik í ...fótbolta að sjálfsögðu. 

Við vorum svo heppin að hitta líka á landsleik hjá handboltalandsliðinu sem hefur verið kallaimg_0404.jpgð 2012 liðið og þar var tengdasonurinn að spila.  Úrslit þessara leikja voru okkur ekki í hag en ótrúlega skemmtileg upplifun.  Við fórum hringinn og tókum Norðurlandið á heimleiðinni og áttum góðar stundir með fjölskyldunni þar. 

Gamli gráni (tjaldvagninn) fór í tvö ferðalög.

Okkur tókst að skvísa einni útileguhelgi inn í prógrammið og brunuðum í Skaftafell til að efna loforð við Friðrik frá því hann var 5 ára. Honum var lofað að þegar hann yrði 10 ára fengi hann að fara á bak við fossinn í Svartafossi. Nú þar sem við höfum verið minnt á loforðið á hverju ári var látið slag standa.

Beggi bróðir Jósefs og fjölskylda fylgdi með og úr var hin skemmtilegasta útilega.  Þarna sjást þeir feðgar bak við fossinn. Ég valdi að taka myndir og Dýrunn ákvað að fara bara þegar hún yrði 10 ára.

Næsta ferð Grána var á Sauðárkrók á svokallað Króksmót sem er nota bene fótboltamót.   Það var mjög skemmtilegt og við fengum ágætis veður þrátt fyrir reglulegar úrhellingar himnaföðursins.

Hvort Gráni fer í fleiri ferðalög er ekki vitað. Hann var ekki sendur í lögbundna skoðun og er svona alveg á mörkunum að meika það greyið, kominn með tvo tréfætur kallinn. En það kemur í ljós með vorinu. Ég hef svo sem áður ætlað að leggja honum.

Utanlandsferð var ekki í boði fyrir fjölskylduna en Herbalifekerlingin fór til Prag í boði Herbalife, menn láta slíkt ekki fram hjá sér fara. Það var yndisleg ferð og gaman að koma á þessar slóðir. Þar sem fjölskyldutengsl eru til img_0656.jpgPrag gisti ég ásamt vinkonu í heimahúsi og við fengum extra skammt af því hvernig lífið virkar í Prag og nágrenni.   Þarna sést skvísan bíða eftir sporvagni síðasta daginn í Prag. 

Kerlan hefur byggt líkamann upp smátt síðustu ár og á þessu ári tókst það sem lengi hefur verið stefnt að; að ganga á fjöll án þess að liggja í rúminu dagana á eftir.

Ég tók þátt í Gönguviku Fjarðarbyggðar og gekk þar sex öflugar göngur, ætlaði að taka "fjöllin fimm" á fimm dögum en skrokkurinn leyfði ekki göngu á fjórða degi svo hann var tekinn í hvíld svo þau urðu bara fjögur en markið sett á "fjöllin fimm" á næsta ári að lágmarki að sjálfsögðu. Ótrúlegt að geta látið svona draum verða að veruleika og ljóst er að fjöllunum fjölgar jafnt og þétt næstu árin. 

Í haust  skelltum við hjónin okkur í kór á ný eftir nokkurra ára pásu. Ég hef sungið við jarðarfarir þegar það hefur vantað kórfólk en nú fórum við af stað á fullu. Við syngjum með kirkjukórnum og í lok nóvember sungum við með risakór héðan af Austurlandi á miklum aðventutónleikum á Eskifirði. Það var svaka upplifun. Dýrunn söng með barnakórnum og var ekki síður upplifun fyrir hana að vera þátttakandi í svona batteríi og syngja með heilli symfóníuhljómsveit. 

Við sungum á aðventuhátíð í kirkjunum í okkar prestakalli og svo er það aðfangadagur og annar í jólum. Annasamt jú en ótrúlega skemmtilegt img_1149.jpgog gefandi. Við erum því gólandi og galandi í tíma og ótíma börnunum til mikillar armæðu. Smile

Ýmislegt fleira hefur verið brallað, limgerðið í garðinum rifið burt, fleiri ferðir út og suður, bústaðurinn aðeins heimsóttur og sitt hvað fleira. 

Þegar þetta er ritað er kerlan og börnin að fara í jólafrí í skólanum. Miklar annir hafa verið undanfarið og fríið kærkomið. Margt er enn ógert og það er bara svo, jólakortin fara stað með seinni skipunum þetta árið en meðan þau komast á leiðarenda er markmiðinu náð, að koma kveðju til vina og vandamanna.

Við þökkum samfylgdina á þessu herrans ári, óskum ykkur góðrar heilsu og velfarnaðar og hlökkum til að hitta ykkur sem allra oftast á komandi árum.

 Gleðileg jól,  Solla, Jobbi, Friðrik og Dýrunn   

P.S. Hún Sóla, kisan okkar  hefur dvalið hjá okkur allt árið og ekki lagt í neinar meiriháttar útilegur.

 

img_1267.jpg Kambanesið 14. desember 2009 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jólakvitt og kveðja frá Vinamini

Þóra Björk (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 21:21

2 identicon

Bestu kveðjur í bæinn - hafið það sem best yfir hátíðirnar!

Hallan (IP-tala skráð) 28.12.2009 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband