"Ég átti eitt sinn kött.....
Miðvikudagur, 3. desember 2008
........sem að gufaði upp, já hann hvarf bara svona einn daginn. Ég vissi aldrei aldrei hvað af honum varð því ég sé hann aldrei ganga um bæinn .... o.s.frv."
Þetta var eitt af mínum uppáhaldslögum þegar ég var ung því ég átti alltaf kisu og þeir (þetta voru alltaf fress) áttu það til að "gufa" upp með tilheyrandi sorg.
Sóla mín flakkarinn víðförli fór út að pissa á laugardag og hefur ekki sést hér síðan. Eitt er að hún fari í leiðangra á sumrin þegar hlýtt er og nóg æti en ég er hrædd um að hún hafi leitað sér skjóls einhvers staðar og það hafi fennt fyrir því það var mikill skafrenningur um helgina. Greyið skinnið ef svo er. Ég bíð því eftir hlákunni. Ég hef hugsað mér að skrifa bókina"Flökkusögur Sólu", hún kemur út um næstu jól.
Einhver hugsar eflaust, hvernig nennir þú þessu, af hverju lætur þú ekki svæfa hana? Ég viðurkenni að ég hef hugsað þá hugsun en hún er samt svo yndisleg og góð þegar hún lætur svo mikið að dvelja heima við að ég get ekki fyrir mitt litla líf sent hana yfir móðuna miklu. Þannig er nú það. Ekki svæfir maður börnin sín ef þau eru til vandræða og ég valdi það að annast þetta blessaða dýr og geri það með hennar kostum og göllum.
Að öðru en kisurauli. Hér gekk aðventan í garð á rólegum nótum um helgina. Krakkarnir vildu helst skreyta allt en ég held mig á bremsunni og tók aðventukassana upp. Reyndar eru þeir enn fullir af sínu aðventudóti en það tínist upp úr þeim smátt og smátt. Ljós bætast í glugga dag hvern og með hvítan snjóinn úti er allt mjög hátíðlegt. Kveikt var á myndarlegu jólatré á Balanum á laugardag og börn og foreldrar gengu í kring um það syngjandi í kuldanum. Sveinarnir mættu með mandarínur og piparkökur.
Ég fór á hreint út sagt frábæra aðventutónleika í Eskifjarðarkirkju á sunnudag og það var dásamlegt sálarkonfekt, hrollur aftur og aftur, bros og tár, allur skalinn. Egill Ólafs og Diddú sungu ásamt frábærum kór Fjarðabyggðar og ekki síður yndislegum barnakór frá Neskaupstað, Eskifirði og Reyðarfirði. Svo voru nokkrir hljóðfæraleikarar líka, óbó, fiðlur,selló,kontrabassi, píanó og orgel. Þetta var æði og kirkjan var troðfull.
Dýrunn sýnir listir sínar á fimleikasýningu í dag og það er mikill spenningur og öll fjölskyldan fer til að horfa á. Ferðin er notuð til útréttinga að sjálfsögðu og alltaf bætist á tossalistann.
Þakklæti er ofarlega í mínum huga um þessar mundir og það hjálpar svo sannarlega að bægja frá áhyggjum vegna ástands mála í þjóðfélaginu. Hvern dag byrjum við á því við morgunverðarborðið að þakka fyrir eitthvað í okkar lífi. Mættu margir taka það sér til fyrirmyndar því mér er það mikið áhyggjuefni hvað mörg börn koma neikvæð inn í daginn....... hvar þarf þá að taka til ?
Hafið það eins og þið viljið elskurnar .....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.