Vetrarfrí !
Mánudagur, 27. október 2008
Langþráð vetrarfrí skólans er langt komið og fóru plön öðruvísi en áætlað var. Á föstudag söng ég í jarðarförinni hennar Rósu blessunarinnar á Vengi og stökk svo af stað til að klára að græja fjölskylduna fyrir norðurferðina. Það var mikill spenningur í smáfólkinu enda fyrirsjáanlegt að við hefðum þrjá heila daga hjá frændfólkinu þar. Um fimmleytið vorum við komin á Reyðarfjörð og biðum þar í um klukkutíma eftir Jósef sem tafðist í vinnunni. Það fannst mér mjög bagalegt því spáin var hvöss og ég vildi komast sem fyrst af stað.
Jæja, af stað var brunað rúmlega sex, fyllt á tankinn á Egilsstöðum og áfram lá leiðin. Jósef í símasambandi við bílstjóra úr vinnunni til að athuga með færð og rétt áður en við komum í Jökuldalinn fengum við þær fregnir að Víkurskarðið væri orðið ófært. Það var þá ekkert annað í stöðunni en að snúa við og varð mikil sorg í aftursætinu.
Á laugardag biðum við milli vonar og óttar en vetur konungur hafði ákveðið að heiðra Norðurland svo um munaði og það hófst ekki ruðningur á skarðinu fyrr en undir kvöld. Enn var haldið í vonina og á sunnudagsmorgni var kíkt á netið enn og aftur en þá var ófærðin farin að færa sig lengra yfir fjöllin og stór hluti þeirra ófær. Ferðaplön voru því blásin af.
Á laugardag lofaði ég Dýrunni að við myndum þrífa herbergið hennar ef við kæmumst ekki Norður og við hófumst handa við tæmingu um morguninn á sunnudag. Þegar litla skotið hennar var orðið tómt kom í ljós að það vantaði frekar nýja málningu heldur en þvott svo Jósef fór í leiðangur í kjallarann og fann málningu. Það var spaslað og horft á Liverpool leik meðan það þornaði, síðan rennt yfir og frökenin gat sofið í sælunni í nótt. Nú tekur við að fylla það aftur. Ótrúlegt drasl sem safnast saman og kemst fyrir í svona litlu herbergi en hún er samt viljug að losa sig við ýmislegt sem hefur lokið hlutverki sínu. Eitthvað annað en Friðrik sem varð vitlaus um daginn þegar ég nefndi að henda Gilitrutt sem hann gerði á leikskólanum, "Nei mamma, þetta eru minningar". Ó boy ó boy. Hún fer væntanlega upp í skáp með leirköllunum sem hann leiraði um árið og eru líka minningar.
Við erum sem sagt í vetrarfríi heima í dag og á morgun og í dag er planið að fara í sund á Djúpavogi, ummm hún er svo yndisleg laugin þar.
Gengur bara betur næst með norðurferð.........
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.